Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að margar af þeim athugasemdum sem fram komu hjá hv. 14. þm. Reykv. eigi að vera til skoðunar. Eins og þingmenn sjá af gögnum málsins er þetta frv. unnið af nefnd. Það hefur verið mjög lengi í vinnslu, var lagt fram fyrir hv. Ed. í vetur, óbreytt frá því sem það kom frá nefndinni með athugasemdum frá dómsmrn. sem birtar voru sem fylgiskjal. Sumar af þeim athugasemdum sem hv. 14. þm. Reykv. hafði uppi komu fram við 1. umr. málsins í Ed. frá mönnum sem áttu sæti í menntmn. Greinilegt er að þeir hafa af einhverjum ástæðum látið sannfærast og ekki haldið til streitu athugasemdum sínum, m.a. varðandi þrjú nöfn, varðandi millinafn, svo að ég nefni dæmi sem ég tel og er algerlega sammála hv. þm. um að er hvort tveggja álitamál og er reyndar smekksatriði. Er í sjálfu sér mjög erfitt að kveða á um eða færa fullnægjandi rök með eða á móti.
    Í máli af
þessu tagi verður að reyna að beita sanngirni og almennum sjónarmiðum. Auðvitað íslensks máls númer eitt. Vegna þess að mannanafnakerfið er mjög mikilvæg undirstaða íslenskrar málhefðar og íslenskrar tungu og þess vegna er það nú sem við erum með lög um mannanöfn, að við viljum halda þessu kerfi í meginatriðum og erum sammála um það. Hins vegar viljum við auðvitað ekki vera að setja reglur eða lög sem ekki standast það sem fólk telur almennt sanngjarnt að viðhafa í málefnum af þessu tagi.
    Ég er í rauninni þeirrar skoðunar að flest af því sem hv. þm. nefndi séu álitamál. Ég segi fyrir mig að ég treysti mér engan veginn til þess að hafa endanlega skoðun á því hvað sé rétt eða rangt í sumum þeim efnum sem hann nefndi. Það fyrra er með dagsektirnar. Þær mega gjarnan fara. Hér er um að ræða tillögu sem kemur m.a. frá manni sem er viðriðinn svokallaða hegningarlaganefnd, trúi ég, og ég geri ráð fyrir því að þessar hugmyndir um dagsektir eigi að einhverju leyti rætur að rekja til sjónarmiða sem fram hafa komið þar. En ég hef enga trú á þessu kerfi og held satt að segja að svona lagað leysi menn aldrei nema með fortölum. Það er skynsamlegast að búa til eitthvert fortölukerfi eða fortölufarveg því auðvitað verður að ráða því til lykta að barn heiti eitthvað. Ég held að við séum öll sammála um það að við mundum ekki sætta okkur við það að heita t.d. 260644-4169, svo ég taki kennitölu undirritaðs sem dæmi. Það dygði mér a.m.k. ekki. Auðvitað verður að finna þarna eitthvert ferli sem er ásættanlegt fyrir þjóðina á hverjum tíma eins og við erum örugglega öll sammála um.
    Ég er hins vegar ósammála hv. þm. um það að viðhalda möguleikanum á því að taka upp ný ættarnöfn. Ég held að ef búið yrði til eitthvert undanþáguferli í þeim efnum þá sé mjög mikil hætta á því að það yrði hugsanlega misnotað. Ég held að það sé hætt við því að þar mundu menn ganga býsna langt. Nú er það hins vegar svo, vill svo vel til, að sá maður sem er formaður menntmn. Nd. var jafnframt formaður

menntmn. Ed. 1971 þegar frv. á þeim tíma var til meðferðar og því var vísað til ríkisstjórnarinnar. Frv. 1971 strandaði í raun og veru fyrst og fremst á þessu atriði. Nú vill svo vel til að maðurinn heitir Arnalds, hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég er þess vegna alveg sannfærður um að hann hefur bæði af þeim ástæðum og öðrum víðsýni til þess að taka á þessum málum af fullri sanngirni.
    Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvað það er sem er sérstakt fyrir eina þjóðtungu. Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvaða stöðu íslenskt mál hefur almennt í samfélagi tungumálanna í heiminum. Í Cambridge Encyclopedia of Language sem kom út árið 1987 eða 1988 kemur fram að tungumál í heiminum eru talin vera 4.500 í dag. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, eru þau ekki á milli 150 og 160? Það er talið að það séu 258 hópar, þjóðir, svæði, þar sem 100 þús. manns eða fleiri tala viðkomandi tungumál. Í mörgum tilvikum er um að ræða tungumál sem aðeins nokkur þúsund manna tala. 138 þjóðir eða málsvæði telja meira en eina milljón manna. Því er spáð í málvísindaritum að á næstu tveimur, þremur áratugum þá muni yfirleitt deyja eins og eitt tungumál á dag. Það er t.d. bent á það í þessu riti, sem er fróðlegt til umhugsunar, að í héraði einu í Venesúela bjó hópur sem talaði sérstakt tungumál, Trumai. Inflúensufaraldur sem geisaði þar um skeið árið 1962 hafði það í för með sér að þeim sem tala þetta mál fækkaði niður fyrir tíu. Mörg önnur hrikaleg dæmi er hægt að nefna úr þessari merku bók sem fjallar um öll tungumál heimsins sem eru í henni talin vera 4.500.
    Ég fletti þessari bók og las með mikilli athygli fyrir nokkru. Eitt af því sem vakti athygli mína var það að það er eitt sem er algjörlega sérstakt við íslensku, eitt sem er algjörlega sérstakt, eitt sem er eingöngu til í íslensku af öllum þessum tungumálum, þúsundum tungumála, það er eitt. Og hvað er það? Það er mannanafnahefðin. Þegar tungumálin eru flokkuð saman eftir uppruna, germönsk mál, indóevrópsk mál o.s.frv., þá er svo fjölda margt og ótrúlega margt líkt með þessum tungumálum, bæði í orðum, orðmyndun, beygingarfræði, hljóðfræði o.s.frv. En það er algjörlega sérstakt í rauninni allri tungumálaflóru heimsins þessi aðferð við að gefa fólki nöfn á Íslandi: -son, -dóttir o.s.frv.
    Ég verð þess vegna að segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að ég vil gjarnan halda í þetta í lengstu lög. Mér er alveg ljóst að það er ekki hægt að setja lagaákvæði sem eru þannig að þau stangast á við almenna, mér liggur við að segja réttarvitund almennings, sanngirnisvitund almennings, en ég tel að við ættum að reyna að halda í þetta sérkenni íslenskrar tungu í lengstu lög. Ég er viss um að við erum í raun og veru öll sammála um það og legg að lokum áherslu á það, sem kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. og öðrum sem hér hafa talað, að mannanafnalögin gömlu eru úrelt. Það hefur ekki verið hægt að framkvæma þau. Það þarf að setja ný mannanafnalög. Ég tek undir það með öllum hv. þm. sem hér hafa talað að það á að vera hægt að ná samkomulagi um málið og það er mjög mikilvægt að ná samkomulagi um þetta mál, svo mikilvæg sem mannanafnahefðin er í íslenskri tungu.
    Ég legg á það áherslu að hv. menntmn. taki til athugunar allar þær ábendingar sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur, Sigrúnu Helgadóttur og Geir Haarde og öðrum þeim sem kunna að taka til máls í þessum umræðum, málin verði skoðuð vandlega og við reynum að lenda þessu máli í samkomulagi. Vegna þess að í rauninni þarf að vera þjóðarsátt um atriði eins og þetta ef nokkur kostur er að finna flöt á því.