Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mikilvæga frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga er lagt fram í skugga deilna um framtíðarskipan leikskólamála hér á landi. Ég hef enn ekki séð nokkur teikn þess að þeim deilum sé lokið. Það væri alvarlegt óhapp ef heildstæð lög um félagsþjónustu sveitarfélaga litu ekki dagsins ljós sem allra fyrst en til að það geti orðið verður að setja niður þær deilur sem ég ræði hér um. Það eru margir sem bíða eftir þessu frv. sem hér liggur fyrir, með eða án galla, með óþreyju og vil ég vísa til þeirra umsagna sem fylgja frv. Mér er kunnugt um það að aðstandendur margra félagasamtaka, fatlaðra og ýmissa annarra, bíða með óþreyju eftir því að lög af þessu tagi verði sett þar sem litið verður á félagsþjónustu sem heild og kveðið á um hvernig sveitarfélög eigi að reka hana.
    Ég ætla ekki að rekja þær deilur sem hafa verið milli hæstv. félmrh. og menntmrh. Þær eru flestum kunnar og þau sjálf færari um að gera grein fyrir ágreiningsefnum sínum en ég. Raunar kom fram í máli hæstv. félmrh. nokkuð af því sem þar ber að huga að, en ég hlýt að æskja þess að heyra einnig í hæstv. menntmrh. í umræðunni um þetta mál hér.
    Það er alvarlegt mál ef ýmis atriði í því frv. sem hér er til umræðu, þau atriði sem brýnt er að verði samþykkt, ná ekki fram að ganga vegna þeirra deilna sem ekki sér fyrir endann á. Jafnframt er það alvarlegt ef stjórnvöld bjóða ekki upp á aðra lausn í leikskólamálum barna en sundurþykkju. Það þolir hreinlega enga bið að leysa þann alvarlega vanda sem við stöndum nú frammi fyrir í þeim málum og í þessu frv. er því miður ekki að finna lausn jafnvel þótt ég efist ekki um góðan vilja til þess að finna hana. Góður vilji dugar skammt og hér er ekki boðið upp á það sem okkur vantar.
    Kvennalistinn hefur alltaf lagt ríka áherslu á að það ættu að vera mannréttindi allra barna að eiga kost á góðum leikskóla og þessi leikskóli eigi að vera hluti af menntakerfi þjóðarinnar en ekki geymslustaður fyrir börn sem eru fyrir, félagsleg lausn fyrir sérstaka vandamálahópa eða félagsleg lausn yfir höfuð. Því höfum við eindregið stutt það að leikskólarnir heyri áfram undir menntmrn. og það er að hluta til viðurkennt í þessu frv. Þetta skiptir máli, ekki til þess að ráðherrar geti bitist um völd yfir þessum mikilvæga málaflokki, heldur vegna þess að uppeldishlutverk leikskóla þarf að vera í beinni samfellu við það uppeldisstarf sem grunnskólum er ætlað að sinna og hvort tveggja á að vera heppileg viðbót við það uppeldisstarf sem unnið er innan veggja heimilanna því að auðvitað kemur ekkert í stað þess þótt þau séu vissulega misjafnlega í stakk búin að sinna því. Hins vegar búum við við þær aðstæður að heimili hafa breyst frá því sem títt var áður í íslensku þjóðfélagi þegar þau voru fjölmenn og innan þeirra veggja sú margbreytni sem er börnum nauðsynleg til þroska. Óvíða fullnægja heimilin nú félagsþörf barna og því fjölbreytta uppeldi sem hverju barni ætti að standa til boða og þeirri menntun sem hverju barni þarf að standa til

boða frá unga aldri. Því ætti sérhvert barn að eiga rétt á því að komast á leikskóla hvort sem þess gerist þörf vegna útivinnu foreldranna sem raunar vinna flestir úti í íslensku samfélagi. En væntanlega gefst betra tækifæri til þess að fjalla um hlutverk leikskóla í víðu samhengi þegar leikskólafrv. sem hæstv. menntmrh. hefur nú lagt fram verður tekið til umræðu.
    En er þá enginn kostur við það að fjalla um leikskóla í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga? Bent hefur verið á að þar sem öll uppbygging og rekstur leikskóla er nú í verkahring sveitarfélaga með breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þá muni þurfa að búa svo um hnútana að sveitarfélögum sé skylt að byggja markvisst upp leikskóla hvert á sínum stað og með þeim hætti samvinnu eða átaks hvers fyrir sig sem þörf krefur. Þessi rök má vissulega líta á og teygja sig jafnvel nokkuð langt til að koma til móts við þau ef þau skila meiru heldur en það kerfi sem við nú búum við. En ég fæ því miður ekki séð hvernig þetta frv.
tryggir á nokkurn hátt bætta stöðu og ræða hæstv. félmrh. breytti þeirri skoðun minni raunar ekki. Til þess eru öll ákvæði um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum allt of loðin og í rauninni sé ég ekki hverju þetta frv. bætir við þá skipun mála sem ákveðin var í verkaskiptalögunum. Ég vil leyfa mér að vísa aðeins í það frv. sem við fjöllum nú um og vitna í 37. gr. í upphafi X. kafla, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarfélög skulu eftir föngum`` --- ég endurtek, ,,eftir föngum bjóða upp á leikskóla barna þar sem þeirra er þörf.`` Var nú ekki nóg að draga úr einu sinni, þurfti að draga úr tvisvar? Síðar í greininni segir: ,,Til þess að sú þjónusta verði í sem bestu samræmi við þarfir barna í sveitarfélagi skal láta fara fram mat á þörfinni eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti.`` Þetta ákvæði er í sjálfu sér góðra gjalda vert og ég sé ekki að það sé nokkuð sem hindrar að slíkt yrði gert og væri inni í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga jafnvel þótt allur sá kafli, þessi umdeildi X. kafli, félli út.
    Ég vísa til þess að fleiri greinar, svo sem 32. gr. frv. eins og það liggur nú fyrir, varða dagvistarmál barna, ekki leikskólana heldur þær lausnir sem sumar hverjar eru neyðarlausnir þar sem ekki annað býðst og að sumu leyti sjálfstæður hluti af þeirri dagvist sem börnum er boðið upp á, þ.e. dagmömmurnar og gæsluvellirnir. Þetta er inni í 32. gr. núna, rofið raunar úr tengslum við leikskólana. Mun ég síðar væntanlega víkja að því hversu heppilegt það er.
    Það eina sem þetta frv. býður upp á er að yfirstjórn leikskóla sé innan félmrn. nema hvað varðar faglega yfirstjórn og uppeldisáætlanir. Er nauðsynlegt að færa þá yfirstjórn eða skapa henni sess ef hún er þegar komin óbeint a.m.k. undir félmrn. sem fer með málefni sveitarfélaga sem fara með málefni leikskóla svo að maður noti nú einbjarnar og tvíbjarnarstílinn í þessu efni? Ég spyr: Er þetta nauðsynlegt? Ég sé ekki hverju það mundi breyta í reynd að fella út allt sem varðar leikskóla úr þessu frv. Það mundi e.t.v. breyta því að þá yrði minni valdabarátta um málaflokkinn.

Ég efast ekki um að það er ekki af valdafíkn sem hæstv. félmrh. vill hafa þau ákvæði sem eru í þessu frv. En ég hlýt að benda á að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Efnislega sé ég ekki að neitt annað en völd sitji eftir í þessu frv. jafnvel þótt það hafi áreiðanlega ekki verið hugsunin upphaflega þegar ætlast var til að öll málefni leikskóla féllu undir félmrn. og þar með félmrh. Ekki verður séð að ábyrgð sveitarstjórna á uppbyggingu grunnskóla sé minni nú þótt ekki sé hennar getið í þessu frv.
     Það er ekki ætlan mín að fara að fjalla um leikskólafrv. það sem fram kom og kom á borð þingmanna á síðustu vinnustundum nú fyrir helgi. En sé það rétt sem mér sýnist, og þykist raunar hafa lesið nokkuð vel, að þar sé ekki tekið á aðalmálinu í uppbyggingu leikskóla, þ.e. aðalvandamálinu sem við stöndum nú frammi fyrir, hvernig tryggt verði fjárhagslega að leikskóli verði byggður handa öllum börnum sem þangað vildu komast eða eiga foreldra sem vildu bjóða þeim upp á þann kost, þá hlýtur manni að verða spurn: Til hvers eru öll þessi læti? Frv. út af fyrir sig er góðra gjalda vert, en það vantar mikið ef í því frv. eru engar nothæfar tillögur um uppbyggingu leikskóla. Ég vil benda á það að slíkar tillögur eru fyrir hendi. Þær hafa verið lagðar fram á ýmsum árum undir ýmsum heitum. M.a. þegar það frv. var að stofni til samið, sem hér liggur fyrir og verður væntanlega fjallað um fljótlega, um leikskóla, á vegum menntmrh. Þar var tekið á fjármögnunarþættinum. En við sjáum ekkert slíkt. Það má því segja að þau fögru orð sem eru í því frv. séu aðeins orð á blaði meðan ekki er hægt að sjá fyrir því að efndir verði.
    Vilji foreldra í þessum efnum er ljós. Til er skýrsla ein ágæt sem heitir ,,Dagvistun barna á forskólaaldri og lífskjör foreldra`` sem Félagsvísindastofnun sendi frá sér í október 1989. Með leyfi forseta vitna ég þar í hug foreldra forskólabarna. Í IX. kafla, sem heitir ,,Foreldrar forskólabarna og stjórnvöld``, segir:
    ,,E.t.v. er gagnlegt fyrir stjórnvöld að heyra um væntingar foreldra til stjórnvalda í þessum efnum. Foreldrar 4 -- 5 ára barna voru nýlega spurðir eftirfarandi spurningar: Teljið þið þegar á heildina er litið að stjórnvöld styðji vel eða illa við bakið á foreldrum með börn á forskólaaldri?``
    Eins og fram kemur í næstu töflu voru svörin afdráttarlaus. Aðeins 6,6% foreldra barna á þessum aldri töldu að stjórnvöld gæfu foreldrum með börn á forskólaaldri góðan stuðning, 6,6% mjög vel eða frekar vel. 66,5% foreldra barna á þessum aldri töldu stjórnvöld standa sig frekar illa eða mjög illa. Þetta er alvarlegt, ekki síst í ljósi þess að um 90% foreldra barna á þessum aldri kjósa að börn þeirra eigi kost á leikskólaplássi.
    Ég vil minna á hvaða tillögur Kvennalistinn hefur haft um uppbyggingu leikskóla, bæði með sérstöku leikskólafrv., sem Sigríður Lillý Baldursdóttir mælti fyrir fyrir örfáum árum og einnig þegar verkaskipting ríkis og sveitarfélaga var til umræðu. Ef farið hefði verið að okkar hugmyndum, þá stæðum við e.t.v. ekki frammi fyrir þeim vanda sem við nú gerum. Í umræðu um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þann 19. des. 1987 segir Kristín Einarsdóttir m.a. í ræðu sinni:
    ,,Ég tel að ríkið eigi að greiða hluta í þessari menntun, þ.e. leikskólamenntun, rétt eins og menntun sem veitt er í grunnskóla. Ég tel þessa menntun fyrir forskólabörn ekki síður mikilvæga en grunnskólamenntunina. Það er því spurning hvort þessi breyting á verkaskiptingunni hefði ekki verið betri á þann veg að ríkið greiddi laun þeirra starfsmanna sem fræða börnin og að sveitarfélögin byggðu yfir starfsemina eins og nefndir leggja til varðandi grunnskólana. Raunverulega þarf að velta fyrir sér hvert markmiðið yfirleitt sé með dagvistun. Lítur ríkisvaldið á þetta sem einhverja geymslustaði? Ég vona að sveitarfélögin geri það ekki af því að þau eiga að taka þetta yfir nú. Eru þetta bara einhverjir geymslustaðir eða hafa dagvistarheimili uppeldislegu hlutverki að gegna? Ég tel að svo sé og ég tel að það uppeldisstarf sem þar fer fram sé mjög mikilvægt og vil alls ekki draga úr mikilvægi dagvistarheimila. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki sé rétt að þetta verði meðhöndlað á sama hátt og önnur menntun í landinu.``
    Það er hart að enn skuli hvorki hafa gengið né rekið í þessum efnum. Það er meira og minna verið að lýsa sama vandamálinu í þessum ræðustúf og við stöndum nú frammi fyrir rúmum þrem árum síðar, nema hvað nú er búið að festa verkaskiptingu í sessi og verður að sjálfsögðu að leysa fjármögnun í uppbyggingu leikskóla miðað við þær staðreyndir.
    Ég ítreka það að kvennalistakonur hafa oftar en einu sinni komið með raunhæfar tillögur til úrbóta, bæði í því frv. um dagvistarmál, sem ég gat um áður og miðaðist við eldri skipan mála, og einnig innan þeirrar nefndar sem síðar samdi frv. um leikskóla og Sigríður Lillý Baldursdóttir sat í. Því miður er enn allt óljóst í þessum málum og er það slæmt.
    Það er óviðunandi ef nú er verið að leggja fram frv. á þingi sem fyrirsjáanlegt er að ekki verður afgreitt frá þessu þingi, a.m.k. má búast við því að hér verði svo miklar deilur í veigamiklum málum að sú hætta sé fyrir hendi. Ég hefði kosið að við stæðum hér frammi fyrir því að ráðherrar innan stjórnarinnar hefðu treyst sér til að ná sáttum, ekki vegna þess að þingið sé ekki fullfært um að taka ákvarðanir heldur vegna þess að ég kvíði því að mál muni tefjast og þeir góðu þættir þessa frv. sem þyrftu að komast til framkvæmda líði fyrir þennan gang mála. Víða er beðið með óþreyju eftir því að þau ákvæði frv. sem varða málefni fatlaðra t.d. verði samþykkt. Vissulega eru það börnin sem gjalda þess ef ekki verður mörkuð skýr og ábyrg stefna í uppbyggingu leikskóla, ekki aðeins orðin tóm heldur einnig framkvæmdir.
    Hver verða þá örlög þessa frv. sem hér er í þinginu? Það er seint fram komið. Það er í skugga ágreinings og maður hlýtur að vera uggandi. Margt af því sem í þessu frv. felst er á þann veg að ég held að það séu ekki aðeins efnisatriðin heldur einnig form frv. sem er af hinu góða.

    Ég vil benda á hve gríðarlega merkilegt hlutverk sveitarfélaga hefur verið í ýmsum velferðarmálum frá upphafi Íslandsbyggðar. Ég teldi að það væri sæmandi að við mundum heldur halda áfram á þeim vegi en að hopa. Ég hef raunar heyrt því fleygt hjá efasemdafólki að það sé alger óþarfi að vera með einhvern lagabálk yfir hlutverk sveitarfélaga í velferðarmálum. Ég vil benda á það að forfeður okkar státuðu af mjög fullkomnum lögum um hlutverk sveitarfélaga á þeirra tíma og þeirra alda mælikvarða og á þeim byggðist m.a. það öfluga samfélag sem reis á Íslandi á þjóðveldisöld og ýmislegt sem við höfum verið stolt af, svo sem lýðræði og að land okkar hafi verið með lögum byggt. Eitt af því sem tengist því er einmitt tiltölulega góð og skýr löggjöf um sveitarfélögin, hreppana, þegar á þjóðveldisöld. Því er kominn tími til að standa áfram undir nafni í þessum efnum og fá heildstæða löggjöf um þau verkefni sveitarfélaga sem varða félagsþjónustu sérstaklega.
    Mig langar til að vitna til eins veigamikils málaflokks sem löngum hefur verið á herðum sveitarfélaga og stöðu hans innan þessa frv. og áður fyrr. Þetta er málaflokkur sem er að mörgu leyti feimnismál og það hefur raunar komið fram hér í þessari umræðu. Það er framfærsla þeirra sem af einhverjum ástæðum geta ekki tímabundið eða um lengri tíma framfleytt sér. Í sögu sveitarstjórna á Íslandi eftir Lýð Björnsson segir svo um eldri tíma ef ég má í örstuttu máli vitna í hans mál:
    ,,Framfærsla hefur verið aðalverkefni hreppanna er lög voru rituð. Greina má tvö aldurslög í ákvæðum fornlaga um framfærslu. Á hið yngra, þ.e. styrkur til þurfamanna, rætur að rekja til kirkjulegrar löggjafar frá árunum 1096 -- 1097. Eldri ákvæðin kveða á um framfærsluskyldu hreppa á þeim ómögum sem ekki gátu notið framfærslu hjá öðrum aðilum. Framfærsluákvæði af þessu tagi virðast ekki eiga hliðstæðu á Norðurlöndum í þann tíð.``
    Hjá Lýð segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Menn sem fóru um sveitir, þágu ölmusu eða tóku gistingu alls staðar töldust göngumenn eða flakkarar. Virðist löggjafinn gera ráð fyrir tveim flokkum slíkra manna og er réttur þeirra mjög mismikill. Verða þá í öðrum flokknum þeir sem um gengu sökum elli og lasleika en í hinum þeir sem flökkuðu um vegna eigin ómennsku. Ómennska taldist að ganga um vegna leti eða sökum þess að þeir fengu ekki vist vegna einhverra ókosta. Göngumenn af fyrri flokknum nutu svipaðra réttinda og heimilisfast fólk.`` Ég þarf væntanlega ekki að taka það fram að hinir sem tilheyrðu ómennskunni gerðu það ekki. ( Forseti: Nú stendur svo á að hér á að hefjast innan hálfrar mínútu fundur í Sþ. Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann óski þess að fresta ræðu sinni og halda henni áfram næst þegar málið verður tekið upp.) Ég á innan við fimm mínútna stúf eftir. ( Forseti: Það er of langur stúfur því að það er frágengið að hér hefjist fundur í sameinuðu þingi á slaginu fimm.) Ég held að ég geti lokið máli mínu á um það bil tveimur mínútum. Mun það ganga? ( Forseti: Það setur úr skorðum dagskrá

fundar Sþ. en forseti gefur hv. þm. kost á því að halda áfram ræðu sinni og getur hann þá hafið umræðuna þegar málið kemur næst á dagskrá.)