Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Eitt aðalatriðið í því máli sem hér er til umræðu er það að hér er höfð í frammi árás á ríkisstofnun og starfsmenn hennar sem ekki eiga þess kost á þessum vettvangi að skýra mál sitt og verja sig. Ríkisendurskoðun er sjálfstæð og óháð stofnun og verk hennar eiga að vera hafin yfir gagnrýni. Ég tel að stofnunin ræki hlutverk sitt svo sem best má vera og ég tel sömuleiðis að orðaflaumur hæstv. ráðherra hér í gær beri þess vitni að málstaður hans er ekki sem bestur.
    Hæstv. fjmrh. hefur í löngu máli vefengt bæði vinnubrögð og niðurstöður Ríkisendurskoðunar í sambandi við skýrslugerð um sölu fyrirtækisins Þormóðs ramma. En vinnubrögðin eru eftir því sem lög standa til um Ríkisendurskoðun. Vinnubrögðin eru þau að skýrslur af þessum toga eru gerðar samkvæmt ákvæði laga um Ríkisendurskoðun, en þar stendur m.a.:
    ,,Ríkisendurskoðun nýtur sjálfstæðis í starfi sínu og er ekki bundin af fyrirmælum um einstaka þætti þess. Forsetar Alþingis geta þó, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna, krafið hana skýrslna um einstök mál.
    Ríkisendurskoðandi stjórnar Ríkisendurskoðun. Hann ræður starfsmenn og skal leitast við að þeir hafi staðgóða menntun og þekkingu og séu í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá.``
    Ég hygg að menn séu almennt sammála um að Ríkisendurskoðun hafi hæfum mönnum á að skipa þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi í máli sínu í gær dregið það mjög í efa. Stofnunin aflar upplýsinga um viðfangsefni m.a. með því að afla gagna sem tengjast verkefninu beint og öðrum upplýsingum sem koma að gagni við úrlausn verkefnisins.
    Að því er varðar skýrslu um sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma, þá var óskað eftir því við fjmrn. að það léti í té öll þau gögn sem tengdust sölunni og aðrar þær upplýsingar sem ráðuneytið teldi mikilvægt að koma á framfæri við stofnunina. Starfsmenn stofnunarinnar fóru til Siglufjarðar og ræddu þar við ýmsa aðila sem málið snerti, m.a. báða tilboðsgjafa, fulltrúa bæjaryfirvalda og verkalýðsfélagsins Vöku. Þá voru eignir Þormóðs ramma hf., Drafnars hf. og Egilssíldar hf. skoðaðar og loks áttu starfsmenn stofnunarinnar fundi með fjmrh., þeim fulltrúum fjmrn. sem unnu að sölu hlutabréfanna og þeim löggiltu endurskoðendum sem veittu fjmrh. ráðgjöf um sölu hlutabréfanna.
    Við skýrslugerðina var leitað eftir upplýsingum hjá fjölmörgum aðilum sem tengjast útgerð og fiskvinnslu. Sigurður Stefánsson, löggiltur endurskoðandi, sem hefur með áratuga starfi sínu aflað sér víðtækrar þekkingar á fyrirtækjum í útgerð og fiskvinnslu, veitti Ríkisendurskoðun m.a. ráðgjöf við gerð skýrslunnar. Þá var á ýmsum stigum vinnunnar leitað álits og upplýsinga frá framkvæmdastjórn Þormóðs ramma hf. Áður en endanlega var gengið frá skýrslunni voru drög send til nokkurra aðila sem tengdust málinu og

stofnunin hafði leitað aðstoðar hjá og óskað eftir athugasemdum.
    Hæstv. fjmrh. hefur haldið sig við þá skoðun að Ríkisendurskoðun hafi gert tvær skýrslur um málið. Staðreyndin er sú, eins og greinargerð frá Ríkisendurskoðun segir, sú greinargerð sem þingmenn hafa í höndum, að aldrei hefur verið gerð nema ein skýrsla um sölu hlutabréfanna í Þormóði ramma og hún er samhljóða greiðsluáætluninni sem Ríkisendurskoðun vann fyrir Atvinnutryggingarsjóð.
    Aðalaðfinnsluatriði í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru fyrst og fremst þau hvernig staðið var að sölu hlutabréfa ríkisins. En þau eru eins og fram koma í helstu niðurstöðu skýrslunnar að þó svo að í lögum sé ekki að finna bein fyrirmæli eða reglur um það hvernig standa skuli að sölu hlutabréfa í eigu ríkissjóðs þá sýnist sem almennra jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt í nægilega ríkum mæli við sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma. Þar kemur einkum til að hvorki sala hlutabréfanna né þeir skilmálar og skilyrði sem sett voru fyrir sölunni voru auglýst opinberlega. Það virðist því full þörf vera á að setja með formlegum hætti samræmdar reglur um hvernig standa skuli að sölu á eignum ríkisins með sama hætti og settar hafa verið reglur um hvernig standa skuli að opinberum innkaupum.
    Þá telur Ríkisendurskoðun að of lágt verð hafi fengist fyrir hlutabréfin. Mat stofnunarinnar er að virði allra hlutabréfa í Þormóði ramma hf. sé á bilinu 250 -- 300 millj. kr. miðað við forsendur Ríkisendurskoðunar, en ekki 150 millj. sem fjmrh. mat fyrirtækið á. Og þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Um þessa hluti eru menn ekki sammála. Hins vegar er ljóst að aldrei fæst skorið úr því hvert raunverulegt verð sé vegna þess að ekki var leitað eftir tilboðum í hlutabréfin á frjálsum markaði, en það taldi hæstv. fjmrh. í gær að væri það endanlega raunhæfa mat. En það kom aldrei til greina vegna þess að bréfin voru ekki sett á frjálsan markað. Fjmrh. hélt því fram að enginn marktækur rökstuðningur væri af hálfu Ríkisendurskoðunar fyrir mati hennar á verðmæti fyrirtækisins. Ég tel þá staðhæfingu ranga. Mat Ríkisendurskoðunar á framlegð Þormóðs ramma hf. styðst við afkomu fyrirtækisins á liðnum árum og áætlaðar rekstrarniðurstöður á árinu 1990 og jafnframt er höfð hliðsjón af almennum rekstrarskilyrðum í sjávarútvegi og fiskvinnslu í dag og áætluðum framtíðarrekstrarskilyrðum. Arðsemiskrafa sú, sem Ríkisendurskoðun gengur út frá í mati sínu á verðmæti hlutafjár í Þormóði ramma, getur ekki talist of lág þegar tekið er tillit til rekstrarskilyrða þeirra sem fyrirtækið býr við í dag og rýmilegra aflaheimilda. Ekkert í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlutabréfum ríkisins í Þormóði ramma gefur tilefni til þess að álykta megi sem svo að stofnunin telji að aðgangur að fiskimiðunum verði um alla framtíð gjaldfrjáls. Og því er hvergi haldið fram í skýrslunni að líta skuli á kvótaúthlutun til Þormóðs ramma sem eign fyrirtækisins. Hins vegar treystir stofnunin sér ekki til þess að líta fram hjá þeirri staðreynd að aflakvóti er framseljanlegur samkvæmt

gildandi lögum um stjórn fiskveiða og hefur hann sem slíkur óumdeilanlega tiltekið markaðsverð. Skattyfirvöld hafa jafnframt litið svo á að eignfæra beri og afskrifa keyptan aflakvóta. Þarna er komið að býsna merkilegum hlut því sameign allrar þjóðarinnar geta fyrirtæki eignfært og afskrifað og yfirmaður skattamála leggur blessun sína yfir það.
    Eins og áður er sagt gerði stofnunin aðeins eina skýrslu um Þormóð ramma hf. Fjmrh. notaði drög að skýrslu um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina við árás á Ríkisendurskoðun en vitnaði ekki til endanlegrar skýrslu um sjóðinn. Mat Ríkisendurskoðunar á Þormóði ramma var svo til það sama þegar fyrirtækið var metið hjá Atvinnutryggingarsjóði, hvað varðar framlag, eins og í skýrslunni um söluna.
    Ég vil vitna hér enn í greinargerð Ríkisendurskoðunar. Þegar Ríkisendurskoðun vann að skýrslu sinni um Atvinnutryggingarsjóð var það skilningur hennar að öll þau gögn sem sjóðnum hefðu borist frá umsækjendum væru trúnaðarmál. Og í greinargerðinni er harmað að fyrrum stjórnarmaður Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina skuli hafa brotið þann trúnað sem telja verður sjálfsagt að stjórnendur opinberra sjóða sýni.
    Ríkisendurskoðun vísar á bug öllum fullyrðingum um að stofnunin hafi á einu ári sent frá sér tvær skýrslur um fyrirtækið Þormóð ramma. Skýrslan er aðeins ein. Og mat Ríkisendurskoðunar á framsetningu fjmrh. á þessum hlutum er að sú framsetning sé mjög villandi.
    En Ríkisendurskoðun vekur líka athygli á eftirtektarverðum ummælum í bréfi ráðherra til forseta Alþingis á þá lund að sú aðferð að breyta tæplega 400 millj. kr. skuld í hlutafé breyti engu um framtíðarafkomu fyrirtækisins í heild þar sem hún hafi aðeins áhrif á skiptingu hagnaðar á milli lánardrottna og eigenda. Þetta trúi ég að ýmsum þyki athyglisverð skoðun hjá manni sem fer með æðstu yfirstjórn ríkisfjármála.
    Það er í rauninni eftirtektarvert að á meðan Ríkisendurskoðun var undir framkvæmdarvaldinu var hljótt um starfsemi hennar. Þegar stofnunin er komin á vegu löggjafarvaldsins og fer að rannsaka að beiðni þingmanna gerðir framkvæmdarvaldsins þá vilja aðilar framkvæmdarvaldsins ekki una þeirri gagnrýni.
    Greinargerð Ríkisendurskoðunar sýnir svo ekki verður um villst að Ríkisendurskoðun hefur rækt hlutverk sitt í þessu máli. Hins vegar er það alvarlegt mál ef menn í æðstu stöðum draga í efa hæfni þeirra manna sem hjá Ríkisendurskoðun vinna og leitast við að gera stofnunina tortryggilega. Þeir menn sem slíkt gera eru á hættulegri braut.