Vökulög
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Sú fsp. sem ég hef leyft mér að leggja hér fram á sér nokkurn aðdraganda. Þegar í árslok 1987 höfðu forustumenn Sjómannafélags Reykjavíkur verulegar áhyggjur af vinnutíma um borð í frystitogurum. Þá ritaði formaður félagsins, Guðmundur Hallvarðsson, sjútvrn. bréf þar sem óskað var eftir því að fram færi vinnutímarannsókn um borð í frystitogurum svo hið sanna mætti koma í ljós um vinnutímalengd sjómanna. Í upphafi bréfs félagsins segir orðrétt:
    ,,Með fjölgun frystitogara í íslenska fiskiskipaflotanum hefur umræðan um vinnutímalengd og aðbúnað aukist. Hefur jafnframt verið svo sterkt að orði komist að frystitogararnir hafa verið nefndir þrælaskip.``
    Fyrirspyrjanda er ekki kunnugt um að þessi rannsókn hafi farið fram. Á síðustu mánuðum hafa fréttir borist um óhóflegt vinnuálag um borð í frystitogurum, m.a. að frívaktir hafi verið skornar niður um helming, úr sex klst. í þrjár. Einnig að sjómönnum hafi verið hótað brottrekstri ef þeir hafa gert athugasemdir um óhóflegan vinnutíma. Enginn vill tapa plássi á frystitogara vegna hárra tekna. Þessar kvartanir hafa borist Sjómannasambandi Íslands og hefur forseti þess staðfest þær. Ég tel engum vafa undirorpið að vökulögin frá 1921 séu brotin um borð í þessum skipum. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp.:
    ,,Hvernig er háttað eftirliti með framkvæmd vökulaga, laga nr. 53/1921, um borð í frystitogurum?``