Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Fjmrh. er greinilega kominn á flótta og loksins farinn að skammast sín og nú á hann eftir að flýja lengra. Hann er kominn í sitt gamla far og málflutningurinn allur farinn að byggjast á útúrsnúningum, t.d. eins og þeim að hann hafi verið að tryggja kvótann í Siglufirði. Hluti af kvóta Þormóðs ramma hefur alloft, líklega flest ár, verið seldur á frjálsum markaði þannig að Þormóði ramma hafa alltaf orðið peningar úr hluta af sínum kvóta með beinni sölu á frjálsum markaði. Ég tel það ólíklegt að óréttlátari maður eigi eftir að koma í stól fjármálaráðherra þó að hann sé að búa okkur undir það að svo geti farið að það komi annar enn þá verri en hann. Mér þykir það mjög ólíklegt.
    Ég vil leiðrétta það að ég hafi beðið Jón Sæmund Sigurjónsson um að skrifa upp á skýrslubeiðnina með okkur hv. þm. Pálma Jónssyni og hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. Ég bauð honum að sjálfsögðu sem þingmanni úr Norðurlandskjördæmi vestra að biðja um þessa skýrslu með okkur, enda vissi ég að hann var búinn að átta sig á því að þarna var verið að gera óverjandi hluti. Hann þáði það. Ég bauð hv. þm. Ragnari Arnalds það líka, 4. þm. Norðurl. v. Hann þáði það hins vegar ekki.
    Þetta með sjálfstæðar og heiðarlegar ákvarðanir. Ég tel að sinnaskipti hv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar markist tvímælalaust af því að Kristján Möller hefur tekið sjálfstæða og heiðarlega ákvörðun um það að vilja vera áfram forseti bæjarstjórnar á Siglufirði.
    Ég ber enga ábyrgð á öllu því sem Sigurður Þórðarson hefur sagt um dagana. Okkur hefur iðulega orðið sundurorða þegar við höfum rekist á í hans fyrri störfum og ég hef iðulega verið honum ósammála. Ég tel hins vegar að hér hafi hann eða Ríkisendurskoðun, því að miklu fleiri heldur en Sigurður Þórðarson hafa komið að þessari skýrslugerð, gert trúverðuga skýrslu um söluna á Þormóði ramma. Hún er áfellisdómur um fjmrh.
    Ég dró þá ályktun af þeirri skýrslu sem þeir gerðu hjá Ríkisendurskoðun að það sem ég hef um málið sagt var staðfest í skýrslunni. Ráðherra réðist á Ríkisendurskoðun með fólsku og fruntaskap. Ríkisendurskoðun svaraði gagnrýni fjmrh. með ítarlegri skýrslu og hrakti alla gagnrýni fjmrh. Ríkisendurskoðun þurfti hvergi að hopa, hún gat sannað allan sinn málflutning. Ríkisendurskoðun stendur teinrétt eftir og á hana hefur hvorki fallið blettur eða hrukka. Ásakanir um að Ríkisendurskoðun hagi niðurstöðum skýrslna sinna eftir pöntun er ósönn og hefur verið hrakin. Ásakanir um vankunnáttu hafa líka verið hraktar. Ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð Ríkisendurskoðunar fá ekki staðist. Fjmrh. hefur reynt að verja sig með því að klína óhreinindum á Ríkisendurskoðun en hún stendur tandurhrein eftir þótt ráðherra hafi hagað sér eins og óknyttastrákur. Ráðherrann á eftir að flýja lengra. (Forseti hringir.)
    Frú forseti. Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að vitna til rannsókna minna á lögunum um ráðherraábyrgð. 10. gr. þeirra hljóðar svo:
    ,,Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:
    a. ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.``
    Og í 13. gr. segir:
    ,,Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er eftir lögum þessum, skal og þegar þess er krafist, jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur, en um skaðabótaskyldu hans fer eftir almennum reglum.``
    Þetta ætla ég að biðja frú forseta og þingheim allan að hugleiða og rannsaka með mér.
    Hæstv. sjútvrh. er staddur hér í salnum. Hann stóð að svona sölu á ríkiseign fyrir skömmu síðan. Hvernig stóð hann að sölunni á Hafþóri? Mér væri ánægja að því að hann upplýsti þingheim um það.
    Ríkisendurskoðun er ekki aðalatriði þessa máls þó mikið sé. Ráðherrann misbeitti valdi sínu og afhenti svilunum fyrirtækið Þormóð ramma fyrir 7,5 millj. og bakaði almenningi fjártjón.