Ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það er óvenjulegt að stjórnarsinnar telji það samræmast venjulegum mannasiðum hér á Alþingi að rjúka upp í ræðustól áður en stjórnarandstöðu gefst kostur á að ræða þau frv. sem einstakir ráðherrar leggja fram. Má kannski halda því fram, hæstv. forseti, að spurning sé hvort ekki sé nauðsynlegt að forsetar þingsins sjái til þess, ef þýðingarmikil frv. eru borin fram af einstökum ráðherrum, að stjórnarandstaðan fái að gera sínar athugasemdir áður en málfundir hefjast milli þeirra sem kalla sig stjórnarsinna hér á þessari samkundu.
    Við höfum nú heyrt formann þingflokks Alþb. tala og má kannski segja að hann hafi í einstökum atriðum mjög minnt á þá afstöðu sem formaður Framsfl. hefur í sambandi við kvótamálin. En Steingrímur Hermannsson forsrh. sagði í viðtali við Morgunblaðið 19. ágúst sl., með leyfi hæstv. forseta, að í sjávarútvegsráðherratíð sinni hafi hann látið vinna tillögur sem bundu kvótann við ákveðna landshluta en þessu hafi verið hafnað og seinna samþykktur kvóti bundinn við skip. Og hvort sem kvótinn sé bundinn við skip eða menn þá fylgi sú stóra hætta að fáir geti eignast þann gífurlega auð sem sé sameign þjóðarinnar. Á þessu vandamáli hafi ekki fundist lausn og það sé brýnt að takast á við það.
    Nú er það svo í þessu máli að Alþb. hefur samþykkt það að sjútvrh. leggi frv. fram til að bregðast við loðnubresti og má kannski draga þá ályktun af því að formaður Alþb. sé sammála sjútvrh. En eins og málflutningur formanns þingflokks Alþb. var hér áðan virðist hann vera miklu nær formanni Framsfl. í sjávarútvegsmálum heldur en sjútvrh. sem þó á að heita varaformaður í Framsfl.
    Ég vil vekja athygli á því að bæði hér nú úr þessum ræðustól hefur formaður þingflokks Alþb. látið sem hann beri ekki ábyrgð á lögum um stjórn fiskveiða. Landbrh. fór um Norðurlandskjördæmi eystra, hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, talaði þar mjög hart gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og hafði svo mikið við að hann gaf út sérstakt blað sem var helgað stefnu Alþb. einmitt í því hvernig ætti að haga fiskveiðum við Ísland.
    Nú munum við það frá því að þessar umræður voru teknar á dagskrá hér á sl. vori að allir þingmenn Alþb. nema hv. þm. Skúli Alexandersson snerust gegn því að efnt yrði til sérstaks sumarþings sem mundi eingöngu fjalla um sjávarútvegsmál. ( SkA: Að ég hefði snúist gegn því?) Nei, allir aðrir þingmenn Alþb. Allir aðrir þingmenn Alþb. greiddu atkvæði með frv. um stjórn fiskveiða sem varð að lögum 1. jan. sl. Og ég vil sérstaklega minna á það vegna þeirra ummæla sem formaður þingflokks Alþb. hafði hér áðan um það að sóknarmark hefði verið lagt niður, að öll skip yrðu nú að notast við aflamark, hafði sérstakt orð á því að það hefði valdið því að margar fjölskyldur hefðu orðið gjaldþrota og enginn kvóti verið til svo hægt yrði að hlaupa þar undir bagga. Þegar ég var spurður með frammíkalli hér við 2. umr. um frv. um

stjórn fiskveiða, hvaða atriði það væru í frv. sjútvrh. og ríkisstjórnar sem ég vildi sérstaklega breyta, þá var það einmitt þetta atriði sem hv. þm. minnist nú á. Það kom hins vegar skýrt fram í sjútvn. að ráðherrar Alþb. voru ekki til viðtals um neinar slíkar breytingar fremur en aðrir meðlimir ríkisstjórnarinnar. Og sá ágæti þingmaður, sem hér talaði áðan um það í hneykslunartón að sóknarmark hefði verið lagt niður en allir yrðu að sæta aflamarki, hafði engin orð um það í þeim umræðum að hugur hans stæði með okkur sjálfstæðismönnum í þeim efnum. (Gripið fram í.) Það liggur auðvitað alveg ljóst fyrir að Alþb. ber fulla ábyrgð á þeim lögum sem nú eru í gildi um stjórn fiskveiða, sömuleiðis Alþfl. ( KP: Ekki allur.) nema hv. þm. sem greip fram í, Karvel Pálmason, enda treystir hann sér nú ekki til að bjóða sig fram fyrir Alþfl. á nýjan leik en ýmsar sögusagnir eru uppi um það að hann muni kjósa að bjóða sig fram fyrir önnur samtök á Vestfjörðum. Ekki veit þessi þingmaður heldur meira skammaryrði en ef sagt er að hann sé mjög traustur stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og lúti þeim aga sem er í þingflokksherbergi Alþfl. Þannig að það þarf ekki að minna á það, hv. þm., að Karvel Pálmason er ekki mesti alþýðuflokksmaðurinn hér á þingi þeirra manna sem kjörnir voru á þing fyrir Alþfl. ( KP: En mesti jafnaðarmaðurinn.) Ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að hv. þm. vilji gjarnan reyna með einhverjum ráðum að tosa þessum Alþfl. upp í A-flokk ef A þýðir gæðaflokkur, ( KP: Ég hef alltaf verið að reyna það.) en það hefur ekki tekist.
    Það frv. sem hér er til umræðu er mjög einfalt í sniðum. Það fjallar um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum og snýr eingöngu að skipunum, flotanum, þeim skipum sem hafa verið að loðnuveiðum, loðnuskipum. Ég er alveg sammála hæstv. sjútvrh. um að ekki kemur til greina að skerða botnfiskveiðiheimildir meira en gert hefur verið. Og það er rétt ábending sem kom frá hv. 4. þm. Suðurl. að þorskveiði hefur dregist mjög saman á undanförnum árum, um tæp 24% frá árinu 1987. Því til viðbótar liggur það fyrir að fjórir mjög lélegir stofnar eru nú að koma inn í veiðina í röð. Stofninn frá 1986, má ég segja, er sá allra lélegasti stofn sem mælst hefur og er búist við að þessir fjórir stofnar hafi ekki meira veiðiþol en sem nemur 200 -- 250 þús. tonnum á ári.
    Ég vil í því sambandi aðeins rifja það upp að það hefur verið svo á sl. árum að við höfum farið svona 50 -- 70 þús. tonn fram yfir það sem fiskifræðingar hafa lagt til í sambandi við sókn í þorskstofninn og við hljótum auðvitað að velta því fyrir okkur nú, þegar við sjáum hversu alvarlegt ástand fiskstofnanna og sérstaklega þorskstofnsins er, hvort sú stjórn fiskveiða, sem við nú höfum beitt, sé rétt í víðum skilningi þess orðs, bæði þegar við reynum að meta það hversu mikil sókn skuli vera í einstaka fiskstofna og eins hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki sé nauðsynlegt að Alþingi verji meiri fjármunum til að athuga lífríki sjávarins. En fjvn. og ríkisstjórn treysta sér ekki til að verða við beiðni Hafrannsóknastofnunar um þau efni nú á fjárlögum fyrir árið 1991. Það er auðvitað mjög undarlegt að ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis skuli ekki taka tillit til ýtrustu óska Hafrannsóknastofnunar þegar útlitið er jafnsvart í sambandi við okkar fiskstofna eins og nú er.
    Ég get auðvitað ekki sagt að ég skilji ekki hæstv. sjútvrh. þegar hann freistast til að veita heimildir fyrir meiri fiskveiði heldur en fiskifræðingar leggja til. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að skera aflann niður sem veldur erfiðleikum í útgerð og getur riðið mörgum fyrirtækjum á slig. Ég hef að vísu haldið því fram eftir að í ljós kom hversu svart ástandið er að við ættum að fara okkur gætilegar en við höfum gert. Það er kannski ekki kjarni málsins. Hitt skiptir meiru að við horfum nú fram á mjög dökkt útlit og því miður er engin vissa fyrir því að Grænlandsþorskurinn komi nú inn í stofninn. Ef sú verður niðurstaðan, gegn auðvitað von okkar allra, að Grænlandsþorskurinn lætur ekkert á sér kræla vaknar sú spurning hvort nauðsynlegt kunni að vera að skera botnfiskveiðarnar niður frá því sem nú er gert ráð fyrir að heimila. Við höfum þess vegna ekki neinn varasjóð upp á að hlaupa. Þegar við veltum því fyrir okkur hvort þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir að grípa til samkvæmt þessu frv., séu fullnægjandi verðum við einmitt að gera það í ljósi þess að við eigum hvergi neinn varasjóð sem við getum gripið til.
    Ég var á sínum tíma andvígur þeim hugmyndum sem settar voru fram um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins og er þess vegna fyllilega sammála því að nú skuli til hans gripið til þess að mæta vanda loðnuskipanna. Síðan tel ég sjálfsagt að tíminn verði notaður til þess að velta því fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að nema úr gildi lögin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Vil ég sérstaklega minna á að ekki hefur enn verið gefin út reglugerð í samræmi við ákvæði laga um Hagræðingarsjóð og má vera að það sé vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir komi sér ekki saman um þau efni.
    Í 2. gr. er lagt til að heimilt verði að veiða 30 þús. tonn af rækju í stað 25 þús. tonna og að þessi viðbót, 5 þús. tonn, eigi að ganga til loðnuskipanna. Fiskifræðingar höfðu að vísu lagt til að veiðin yrði nokkru minni en þeir geta eftir atvikum fallist á að þannig verði farið að og sé ég ekki ástæðu til annars en að lýsa yfir stuðningi við það.
    Ég vil aðeins vekja athygli á því að í þeirri loðnuleit, sem verið hefur nú frá áramótum og níu skip hafa stundað, hafa fallið í þeirra hlut 21.980 lestir sem er um 11% af því heildarloðnumagni sem búist er við að veitt verði á þessu ári. Fyrir því eru engar sérstakar heimildir í lögum að einstökum skipum sé þannig heimilað að taka þátt í loðnuleit. Hér erum við að tala um mjög verulegan afla. Þessi sérstaka úthlutun fram hjá kvóta hjá einu þessara skipa, Hólmaborg, er t.d. 3240 lestir en sum skipanna verða að sætta sig við heildarloðnukvóta sem er litlu meiri en þessi aukaúthlutun og sum skip eiga þess ekki kost að veiða neitt á þessum mánuðum þar sem þeirra veiði fyrir áramót hafi gengið svo vel.

    Ég vil vænta þess að sú góða reynsla, sem samt sem áður fékkst af þessari tilhögun, muni valda því að leitað verði til loðnuskipa um að þau taki þátt í loðnuleit nú á næsta hausti og vil þó mega búast við því að önnur skip en þessi níu, sem nú var leitað til, komi inn í leitina þá.
    Þá góðu reynslu sem orðið hefur á milli Hafrannsóknastofnunar og sjómanna nú verður að reyna að nýta og ber að skilja orð mín fremur sem ábendingu um að rétt sé að íhuga hvort rétt kunni að vera að endurskoða ákvæði laganna um þessi efni fremur en orð mín séu gagnrýni á hæstv. sjútvh.
    Ég hlýt að lýsa yfir áhyggjum mínum vegna þess hversu ríkissjóði er nú þröngur stakkur skorinn til þess að hlaupa undir bagga með einstökum sveitarfélögum varðandi atvinnumálin. Ég skal ekki fara mörgum orðum um það nú. Við í sjútvn. höfum gert ráðstafanir til þess að einstökum sveitarfélögum gefist kostur á að kynna sín sjónarmið og við munum fá í hendur þá skýrslu sem Byggðastofnun hefur gert um þessi efni. En á hinn bóginn vil ég nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði varðandi vanda loðnuverksmiðja og einstakra skipa.
    Nú er það svo að Fiskveiðasjóður hefur vilja til að veita þeim loðnuskipum sem hafa lán í sjóðnum greiðslufrest vegna þeirrar erfiðu stöðu sem útgerð þeirra er nú komin í. Mörg skipanna eru ný og skulda verulegar fjárhæðir í Fiskveiðasjóði þannig að sú aðstoð kemur auðvitað að góðum notum. Eins er það svo um mörg önnur skip að þá hefur verið skipt um eigendur en slíkir útgerðarmenn skulda á hinn bóginn kannski lítið í Fiskveiðasjóði. Ég vil af þeim sökum spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki megi treysta því að Fiskveiðasjóður hlaupi þar undir bagga og láni fyrir slíkum afborgunum þó ekki sé í opinberum sjóðum um leið og ég hlýt að spyrja hæstv. sjútvrh. hvað líði þeirri almennu skuldbreytingu á lánum fiskibáta sem mjög voru á dagskrá á síðasta þingi, varðaði til að mynda mjög útgerð á Húsavík og ýmsum stöðum fyrir norðan. Mér er ekki kunnugt um að ríkisstjórnin hafi brugðist við þeim óskum sveitarfélaga og útgerðarmanna norður þar að sérstaklega yrði lánað til að skuldbreyta fyrir þau fiskiskip. Þá höfðu eigendaskipti farið fram og verulegar kvaðir hvílt á skipunum. Það er komið svo nú að sum þessara skipa hafa verið seld hálfgerðri nauðungarsölu frá sínum útgerðarplássum með þeim afleiðingum sem það hefur fyrir byggðarlögin.
    Ég vil mjög taka undir þau sjónarmið hæstv. ráðherra að það fólk, sem um langan aldur, jafnvel áratugi, jafnvel alla sína starfsævi, hefur unnið hjá einstökum loðnuverksmiðjum og verið fastur kjarni í þeirra úthaldi, geti haldið vinnu sinni þó til þessara tímabundnu erfiðleika hafi komið hjá loðnuverksmiðjunum. Á hinn bóginn er það kunnugt af fréttum að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur sagt upp öllu sínu starfsfólki, hverjum einasta manni, og mér er ekki kunnugt um að um endurráðningu hafi enn verið að ræða. Ég þykist vita að slík ákvörðun sé ekki tekin nema í samráði við hæstv. sjútvrh. Ég get auðvitað líka tekið undir það að auðvelt sé að segja að loðnuverksmiðjur þurfi á skilningi að halda hjá lánastofnunum. Það er á hinn bóginn svo um lögin um Síldarverksmiðjur ríkisins að ríkið ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Síldarverksmiðjanna og þess vegna er ekki óeðlilegt þótt viðskiptabanki Síldarverksmiðjanna ætlist til þess af eiganda þeirra, ríkinu, að það taki afstöðu til þess hvernig það hugsi sér að staðið verði að rekstri Síldarverksmiðjanna nú á þessu ári, a.m.k. fram að næstu loðnuvertíð.
    Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. af þessu gefna tilefni hvort því megi treysta að sá kjarni sem unnið hefur í Síldarverksmiðjunum haldi sinni atvinnu úti á stöðunum og þurfi ekki að óttast uppsagnir. Hér er um þjálfað fólk að ræða og augljóst að á mörgum þessara staða hlýtur það að endurskoða mjög búsetu sína á viðkomandi stað ef það getur ekki treyst því að halda atvinnu sinni hjá þessu hálfopinbera fyrirtæki. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að rétt sé að Síldarverksmiðjunum verði breytt í hlutafélag og get þá vel hugsað mér að sjálfstætt hlutafélag verði stofnað um þær á hverjum stað. Ég er sammála því að slíkt kunni að leiða til þess að rekstur þeirra verði markvissari á stöðunum. Ég get þannig sem dæmi tekið að mjög hæpið er að einstaklingar hefðu ráðist í þá miklu endurnýjun á Síldarverksmiðjum ríkisins á Seyðisfirði sem nú er unnið að eins og útlitið er án þess þó að ég sé sérfræðingur í þeim málum og án þess að það megi skilja orð mín svo nú að í þeim felist sérstök gagnrýni. Síldarverksmiðjurnar á Seyðisfirði liggja auðvitað vel við loðnumiðum eins og þau hafa verið.
    Um aðrar loðnuverksmiðjur vil ég segja hið sama. Ég hygg að nauðsynlegt sé að ríkið komi inn í til þess að hjálpa þeim yfir þá erfiðleika sem þessar verksmiðjur standa nú frammi fyrir um leið og ég styð heils hugar hugmyndir sem uppi eru um það að auðvelda mönnum að leggja slíkan atvinnurekstur niður þar sem hann er óhagkvæmur og bitnar þunglega á öðrum sambærilegum fyrirtækjum.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Það vekur furðu mína að stjórnarflokkarnir skuli nota það tækifæri sem þetta frv. gefur til þess að taka upp almenna stjórnmálaumræðu um stjórn fiskveiða. Þetta frv. er um neyðarráðstafanir vegna loðnubrests. Ég tel að þingið hafi skyldu til að afgreiða frv. hratt og fljótt og vil á þessu stigi málsins lýsa því yfir fyrir mína hönd að ég er sammála þessu frv. eins og það liggur fyrir ( Gripið fram í: En flokkurinn?) en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að taka afstöðu til breytinga sem fram kunna að koma. Ég er ekki að segja að ég geti ekki hugsað mér einhverjar breytingar á frv. en ég er efnislega sammála þeim atriðum sem hér koma fram. Á hinn bóginn hefur ekki unnist tími til að ræða málið í þingflokki Sjálfstfl.