Þroskaþjálfaskóli Íslands
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Það má eiginlega segja að við stöndum hér yfir jarðneskum leifum þessa frv. sem upphaflega var flutt af hæstv. heilbr.- og trmrh. Þetta frv. var upp á sex greinar og nefndin leggur til að fjórar og hálf af þessum sex greinum falli brott. Eftir standi ein grein með einni setningu og loks setningin í 6. gr.: Lög þessi öðlast gildi á tilteknum degi.
    Ég stend ekki hér upp til þess að gera ágreining út af þessu heldur eingöngu til að vekja máls á því og athygli á því hvernig að framlagningu stjfrv. er staðið hér á hinu háa Alþingi og hvers konar undirbúningur býr eiginlega að baki þegar stjórnarmeirihlutinn í virðulegri heilbr.- og trn. sér ekki annan kost en tæta frv. svona sundur og afgreiða það þannig að af sex greinum stendur eftir ein og hálf.
    Ég hygg að það sé umhugsunarefni fyrir forseta og stjórnendur þingsins hvernig mál fara hér fram. Þetta þingmál, þó það sé nú ekki með stærstu málum þingsins, er á vissan hátt dæmigert fyrir það upplausnarástand sem hér hefur skapast við afgreiðslu þingmála.
    Heilbr.- og trn. eyddi verulegu af tíma sínum í að fara yfir þetta mál og niðurstaðan varð sú að það varð ein og hálf grein brúkleg af þeim sex sem fram höfðu komið og þar með talið gildistökuákvæði frv.
    Mér finnst það, herra forseti, hálfgerð vanvirða að undirbúa þingmál af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki betur en hér hefur verið gert. Og eins og ég segi, ég tel að þetta sé dæmigert fyrir það ástand sem hér hefur skapast og spái því að þetta sé fyrirboði þess sem verða mun hér í þinginu á næstu vikum. Stjfrv. annaðhvort fáist ekki afgreidd, og harma ég það nú út af fyrir sig ekki, ellegar þá að þau verði öll rifin og tætt í sundur með svipuðum hætti og þetta mál, ekki bara fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar heldur ekki síður vegna innbyrðis ágreinings stjórnarflokkanna.