Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem málið hefur fengið. Ég heyri það að þeir hv. þm. sem hér hafa talað eru sammála frv. og hafa ítrekað stuðning sinn við það. Hér hafa talað þingmenn úr þremur þingflokkum auk mín þannig að ég tel góða ástæðu til að ætla að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi. Hér er í raun og veru um að ræða skýr ákvæði sem er auðvelt fyrir þingið að taka á. Hitt hefði auðvitað verið betra að málið hefði komið fram fyrr eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði. Ég geri ráð fyrir að hann viti af hverju það kom ekki fram fyrr. Það var annars vegar vegna togstreitu um ákvæði þau sem eru í þessu máli í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga og það var auðvitað líka vegna fjármagnsþáttarins sem ég lagði mikla áherslu á að yrði þarna inni en menn voru ekki tilbúnir að fallast á, því miður.
    Það er því mjög góð samstaða um þetta mál og það er mjög mikilvægt skref. Það væri að sjálfsögðu ævinlega best þegar maður er að taka á málum, hvort sem það er leikskóli, grunnskóli eða hvað það nú er, að leysa málið í eitt skipti fyrir öll og ganga bara frá því, bæði starfsramma og fjármunum, endanlega og því um líkt. En það er nú bara ekki svoleiðis heldur verðum við sem tökum þátt í pólitísku starfi iðulega að sætta okkur við það að þoka málunum áfram skref fyrir skref. Ég vil ekki setja mig í þær stellingar að hafna hinum smærri skrefum af því að menn geti ekki leyst málin, hvert fyrir sig, í eitt skipti fyrir öll. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að hér er um að ræða mjög mikilvægan áfanga, ef þetta frv. verður staðfest, þó það sé ekki nema vegna þess sem nýlega hefur komið upp í málinu, þ.e. þær skiptu skoðanir sem uppi eru um það hvar málaflokkurinn eigi að vera í lögum. Og ég bið hv. þm. um að hugleiða það hver staða leikskólans væri stjórnkerfislega ef menn hefðu látið þar við sitja að sjá hér frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem leikskólinn er nefndur án þess að um leið væri um að ræða heildarfrv. til laga um leikskólann sem slíkan og starfsramma hans.
    Það er auðvitað algerlega rangt sem hér hefur verið haldið fram að það séu engir peningar í þessu. Það er algerlega rangt vegna þess að samkvæmt gildandi lögum eru þessir peningar hjá sveitarfélögunum og sveitarfélögin eiga að leggja í þetta fé. Ég hef hins vegar sagt: Það þarf meira, aðallega í hinum litlu sveitarfélögum. Þess vegna eru menn að sverta málið að mínu mati með því að segja: Hér er bara um að ræða einhvern pappír, skiptir engu máli, smámál vegna þess að það eru engir peningar til. Það er ekki svoleiðis.
    Dæmi: Drög að fjárhagsáætlun Akureyrar voru lögð fram núna á dögunum. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag er gert ráð fyrir því að verja til dagvistaruppbyggingar á Akureyri á þessu ári 70 millj. kr. Ég hef ekki upplýsingar um fjármuni til dagvistarstofnana í öðrum sveitarfélögum en það er auðvitað alveg ljóst að mjög víða eru sveitarfélögin að vinna að þessum málum. Það má geta þess að á árunum 1978 -- 1988 jukust útgjöld sveitarfélaganna í landinu öllu til dagvistarmála að raungildi um 112%, þ.e. meira en tvöfölduðust. Sveitarfélögin hafa auðvitað verið að gera ýmislegt og eru að gera ýmislegt.
    En það sem ég hef hins vegar sagt í þessu máli er að þetta er ekki nægjanlegt af því að sveitarfélögin standa svo misjafnlega að vígi. Þess vegna þarf Jöfnunarsjóður að koma til, eða ríkissjóður eða einhver annar sjóður sem hjálpar sveitarfélögum sem á því þurfa að halda að taka á sig þessi uppbyggingarverkefni leikskóla.
    Það er því auðvitað tilraun til þess að drepa málinu á dreif að segja: Ja, ekki byggja sveitarfélögin fyrir fylgiskjöl, ekki fá fóstrurnar borgað kaup í fylgiskjölum. Af hverju eru menn að setja hlutina svona upp? Af því auðvitað að það er verið að reyna að setja málin í annað samhengi en þau í raun og veru eru. Ég fagna því að sjálfsögðu að hv. þm. Kvennalistans og Samtaka um jafnrétti og félagshyggju eru tilbúnir til þess að samþykkja fjármögnunarfrv., það skulum við gera þegar við myndum saman ríkisstjórn eftir kosningarnar. Við skulum skella okkur í að leysa þetta mál ef Kvennalistinn verður einu sinni tilbúinn til þess að gerast aðili að umræðu um myndun ríkisstjórnar, þó ekki væri nú annað.
    Varðandi það sem hér kom fram að öðru leyti hjá hv. 10. þm. Reykn. er kannski aðeins rétt að nefna það að auðvitað má segja að margt af þeim tillögum og stefnuyfirlýsingum sem eru að koma fram frá ýmsum aðilum geri litla stoð í raun fyrr en þær eru komnar í framkvæmd. Það má t.d. halda því fram um þingmenn og þingflokka stjórnarandstöðu að þeir eigi oft mjög erfitt með að þoka sínum málum fram. Það segir ekki það að t.d. þingmál Kvennalistans séu ómerkileg þótt þau komist ekki til framkvæmda í núinu. Þau eru merkileg stefnuyfirlýsing fyrir þeirra flokk. Og á ýmsum sviðum eru þau mikilvæg eins og t.d. í sambandi við það mál sem hér er uppi. Aðalatriðið er þó það að hér er verið að stíga skref til að setja lög um að leikskólinn og leikskólastigið verði hluti af menntakerfinu í landinu. Það hefðu einhvers staðar þótt tíðindi, t.d. í Svíþjóð um þessar mundir þar sem fram fara mjög harðar deilur um þessi mál á milli félagsmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins þar enda þótt þeir sem standa fyrir málum séu úr sama stjórnmálaflokknum. Ég er sannfærður um að sá árangur sem þrátt fyrir allt hefur náðst hér væri talinn til verulegra tíðinda þar á bæ.
    Varðandi það hvort ég er hér fyrst og fremst að leggja þetta mál fram af því að ég sé að hugsa um rétt barna eða rétt foreldra, eins og ég skildi það. Það má náttúrlega halda um það mjög langar tölur og dálítið snúið að greina þar á milli. En mín hugmyndafræði er hins vegar sú að það er réttur barna sem við erum að tala um. Við erum að tala um að festa í lög grundvallarmannréttindi handa börnum af því að börn eru menn. Og það eru tíðindi ef Alþingi Íslendinga hefur rænu á því loksins núna að sameinast um að

setja í lög ákvæði um það að börn séu menn og eigi að njóta mannréttinda.