Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Sigrún Helgadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu eða lengja hana, fannst satt að segja að sjónarmið Kvennalistans hefðu komið ágætlega fram í máli Önnu Ólafsdóttur Björnsson, bæði nú og í síðustu viku þegar við ræddum hér félagsþjónustu sveitarfélaga. En ég kom hér fyrst og fremst vegna tilvitnunar hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur þegar hún bendir á bréf frá stjórn Foreldrasamtakanna og tekur undir að ekkert þurfi að hugsa um þessi mál fyrir börn yngri en tveggja ára.
    Ég hygg að ég hafi þá sérstöðu meðal þess fólks sem jafnan sækir vinnu í þennan sal að hafa verið og vera í rauninni enn heimavinnandi húsmóðir með ung börn og ég þekki ákaflega vel hvað það er. Ég vil leggja áherslu á að öll börn hafi rétt til leikskóla, ekki foreldranna vegna. Ég hef verið svo heppin að ég hef getað verið heima af því að ég hef getað unnið heima þannig að ég get haft börnin heima mín vegna. En þau þurfa að fara í leikskóla sín vegna og þau þurftu það löngu fyrir tveggja ára aldurinn.
    Hv. þm. Geir Haarde gaf mér annað tilefni til að koma hér upp þegar hann talaði um að að þessum málum væri vel staðið í Reykjavík. Mínar dætur töldu dagana þangað til þær urðu tveggja ára svo að þær gætu komist allra náðarsamlegast inn á gæsluvöll Reykjavíkurborgar. Síðan varð að telja dagana þangað til þær urðu þriggja og hálfs árs til þess að komast inn á leikskóla en þá var ekki hægt að opna leikskólann vegna þess að það vantaði starfsfólk. En hvers vegna vantaði starfsfólk? Fólki inni á leikskólunum er boðið innan við 50 þús. kr. í laun á mánuði. Og hver getur unnið fyrir það og lifað á þeim launum? Jafnvel einstæðar mæður með börn.
    Fyrst ég er komin hér á annað borð vil ég árétta frekar með rétt barna til leikskóla því að stundum heyrir maður það líka að börnin eigi bara að vera heima og eigi að vera hjá foreldrum sínum og foreldrarnir séu þeir sem best geta sinnt þeim málum. Sjálf hef ég menntun í uppeldisfræði, er kennari að mennt þannig að mér óar ekkert við því að vera með börnum. En mér finnst ekki rétt að leggja það á börnin sjálf. Það var hægt þegar við vorum að alast upp því þá voru börn í hverri íbúð. Þannig er það ekki nú og það er fátt eins ömurlegt og að vera heima í íbúðahverfum þessarar borgar sem eru nánast dauð allan daginn. Það er ein og ein kona heima, kannski hluta úr degi með nokkur börn en það eru langfæstar. Og það er ekkert skemmtilegt að standa við gluggann með börn hangandi í buxnaskálmum eða pilsfaldi af því að þeim hundleiðist. Heimilin eru allt öðruvísi nú en fyrir 20 -- 30 árum síðan. Þá var nóg að gera heima. Það var þvegið í höndum jafnvel og bakað brauð og börn gátu tekið þátt í heimilisstörfum. En núna fara þessi heimilisstörf fram að miklu leyti utan heimilis og það sem gert er innan heimilis er gert í vélum. Börn eru ekki lengur þátttakendur og það sem er verst fyrir börn er að skorta verkefni. Stundum hef ég á tilfinningunni að þau séu hreinlega í stofufangelsi því að þau eru oft og tíðum lokuð inni og þau eru ein, fjölskyldurnar eru miklu minni en þær voru hér áður fyrr, bæði systkinahópurinn og líka hvað það eru fá börn allt í kring. Þau eru einmana, þau eru ein og þau skortir leikfélaga og þau skortir að kunna að leika sér og vera með hópi, læra að taka tillit til annarra en bara sjálfs sín og móður sinnar. Þess vegna verður að vera til og virtur réttur barns að fá að fara á leikskóla og fá það miklu fyrr en þau eru tveggja ára. Þau hafa þörf fyrir að vera með öðrum börnum og læra á okkar samfélag miklu fyrr en þau verða tveggja ára. Og það eru fyrst og fremst þau orð sem ég vildi árétta hér og taka undir eins og þau eru í frv. að leikskólinn taki við þegar fæðingarorlofi lýkur. Auðvitað er fæðingarorlof allt of stutt en leikskólinn þarf að taka við eftir það. Og auðvitað þarf að vera samfella í því, en barnanna vegna þarf leikskóli að koma fyrr en börnin eru tveggja ára og barnanna vegna hefði ég líka viljað sjá að sú grein hefði gilt sem mun hafa verið í upphaflegum drögum að sveitarfélögum væri skylt að hafa leikskóla fyrir öll börn.