Heilbrigðiseftirlitsgjald
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur nú gert grein fyrir þessum spurningum sem lagðar eru fram á þskj. 561. Sem svar við fyrri fsp., þar sem spurt er um hvað valdi því að iðnfyrirtækjum á landsbyggðinni sé gert að greiða heilbrigðiseftirlitsgjald en iðnfyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu ekki, er því til að svara að heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit er í höndum og á ábyrgð sveitarfélaganna samkvæmt lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og annast heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar sveitarfélaganna framkvæmdina. Skv. 5. gr. laganna er sveitarstjórnum heimilt að höfðu samráði við svæðisnefndir um heilbrigðiseftirlit, en eftirlitssvæðin eru samtals þrettán, að innheimta gjald af eftirlitsskyldri starfsemi bæði með hliðsjón af ákvæðum heilbrigðisreglugerðar og mengunarvarnareglugerðar en í seinna tilvikinu að svo miklu leyti sem Hollustuvernd ríkisins er ekki falið eftirlit með mengandi starfsemi, þ.e. Hollustuverndinni sjálfri, sem er í einstaka tilvikum. Skal gjald þetta innheimt samkvæmt gjaldskrá sem heilbrrh. staðfestir og birt skal í B - deild Stjórnartíðinda.
    Það er með mjög misjöfnum hætti hvernig sveitarstjórnir nýta sér þessa lagaheimild. Og það er kannski einmitt tilefni fyrirspurnarinnar.
    Í sumum tilvikum, eins og í Reykjavík, hefur hún ekki verið nýtt. Í öðrum tilvikum er hún nýtt að fullu, þ.e. bæði er kveðið á um leyfisgjald og árlegt eftirlitsgjald og bæði gjöldin innheimt. Ein útgáfan er þó sú að gjaldskrár hafa verið samþykktar bæði með hliðsjón af leyfisgjöldum og eftirlitsgjöldum en hlutaðeigandi sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hvort þau innheimta gjöldin. Í nokkrum tilvikum eru einungis innheimt leyfisgjöld en ekki árlegt eftirlitsgjald.
    Samkvæmt ofangreindu er það algjörlega á valdi viðkomandi sveitarstjórna að setja gjaldskrá vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlitsins og hlutverk ráðuneytisins eingöngu fólgið í því að staðfesta þessa gjaldskrá þannig að þær verði birtar í samræmi við lög um birtingu laga og stjórnvaldserinda.
    Ráðuneytið tekur því ekki ákvörðun um upphæð gjaldsins en hefur þó beitt sér fyrir því að gjöld þessi séu ekki hækkuð umfram almenna verðlagsþróun nema sérstök rök séu færð fyrir því. Og eins og nú háttar hefur verið reynt að halda þessum hækkunum mjög í skefjum. Enn fremur hefur ráðuneytið lagt á það áherslu að ekki megi líta á þessi gjöld sem skattheimtu heldur eingöngu til þess að standa undir lögboðnu eftirliti og kostnaðinum af því.
    Seinni liður fsp. er: ,,Hver er greiðsla samkvæmt gjaldskrá fyrir árlegt eftirlit í iðnfyrirtækjum?`` Og þá er því til að svara að um er að ræða tvenns konar gjaldskrár. Annars vegar á vegum sveitarfélaganna vegna þess eftirlits sem þau annast og hefur nú hér verið reynt að skýra frá og hins vegar vegna mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins sem fer með sérhæft eftirlit, þ.e. með meiri háttar starfsemi eins og

t.d. Ísal, Járnblendinu og Sementsverksmiðjunni svo dæmi séu tekin, þar sem Hollustuverndinni sjálfri er falið eftirlit en ekki heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Gjaldskrár sveitarfélaganna eru hins vegar með ýmsu móti eins og áður sagði. Gjaldskrár mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins og mengunarvarnaeftirlitis sveitarfélaganna voru fram til síðasta sumars staðfestar af heilbr.- og trmrn. Með tilkomu sérstaks umhvrn., sbr. breytingar á áðurnefndum lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með 8. gr. laga nr. 47/1991 er það hlutverk umhvrn. að staðfesta slíkar gjaldskrár. Byggist það á því að umhvrn. hefur tekið við yfirstjórn mengunarvarnadeildar Hollustuverndarinnar og þeirra mála er lúta að mengun, samkvæmt lögum um hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit.
    Það er því ekki lengur hlutverk heilbr.- og trmrn. að staðfesta áðurnefndar gjaldskrár heldur umhvrn. Mér er hins vegar kunnugt um að sl. sumar var staðfest ný gjaldskrá í umhvrn. þar sem gert er ráð fyrir fjórum flokkum eftirlitsgjalda með hliðsjón af rekstri og umfangi viðkomandi starfsemi.
    Rétt er að umhvrh. geri grein fyrir þeim upphæðum sem þar er um að ræða. Ef hv. fyrirspyrjandi vill fá upplýsingar úr öllum þessum gjaldskrám svo og gjaldskrám sveitarfélaganna teldi ég nauðsynlegt að bera fram fsp. þar sem óskað væri skriflegs svars vegna þess að annars yrði hér um mikinn lestur á talnarunum að ræða.