Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er hart að hörmungaratburði eins og þá sem urðu um síðustu helgi þurfi til að beina sjónum manna að þeim alvarlegu aðstæðum sem margir geðsjúkir búa við, ekki einungis geðsjúkir afbrotamenn. Ýmsir aðilar, svo sem Geðhjálp, hafa um nokkurt skeið reynt að vekja athygli á þeim 20 -- 30 manna hópi geðsjúkra sem lifa meira og minna á vergangi. Sumir þeirra eru taldir hættulegir umhverfi sínu. Fleiri eru einfaldlega í sinni eigin neyð. Hvorki heilbrigðiskerfið né yfirvöld félagsmála virðast hafa komið fram með lausnir á vanda þessa fólks nema þær sem við höfum hér heyrt og viðraðar hafa verið að undanförnu. Enn er stór hópur sem ekki virðist hilla undir að fái neina lausn á málum sínum.
    Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í orð Sigrúnar Friðfinnsdóttur, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, er hún segir í DV í gær:
    ,,Sigrún sagði Geðhjálp vinna stöðugt að málum þessa stóra hóps sem ekki virðist eiga heima í kerfinu. Að öllu jöfnu væri þessum málum almennt lítill gaumur gefinn nema ef eitthvað gerðist í líkingu við atburði helgarinnar. Sigrún sagðist eiga von á því að starf það, sem nú væri unnið í málum geðsjúkra, bæri árangur ef ekki kæmi bakslag í það vegna atburða eins og um helgina og umfjöllunar í kjölfar þeirra.
    Þegar málum sem þessum er slegið upp í fjölmiðlum vill almenningsálitið oft snúast á þann veg að loka eigi þetta geðsjúka fólk inni. Punktur og basta. Það er ekki talað svona um fólk sem ekki er geðveikt en banar engu að síður mönnum. Það eru hlutfallslega færri geðsjúkir sem lenda í svona málum en svokallað venjulegt fólk.``
    Ég tel að þær lausnir, sem nú eru vonandi fyrirsjáanlegar til að leysa vanda geðsjúkra afbrotamanna, séu brýnar en vek athygli á að ekki má gleyma þeim hópi sem ekki er talinn hættulegur umhverfi sínu miðað við núverandi aðstæður en býr við óviðunandi félagslegar aðstæður, jafnvel heimilisleysi. Þeir þurfa einnig einhverra úrræða við. Ég tel að bæði þurfi að koma á laggirnar stuðningi við þetta fólk og um leið að leysa húsnæðisvanda þess og hvet til þess að þessu máli verði sinnt í nánu samstarfi við samtök á borð við Geðhjálp. Þar er fólk með mikla þekkingu á vandanum og jafnframt þarf að velta fyrir sér öflugum félagslegum stuðningi við það merka starf sem slík samtök vinna.