Listamannalaun
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Það er ljóst að sá sjóður sem þessi grein fjallar um, þ.e. listasjóður, hefur langvíðtækast hlutverk af öllum þeim sjóðum sem þetta frv. fjallar um. Það er jafnljóst að fyrir þörfum hans er ekki nægilega séð í þessu frv. Það er ljóst þegar af því að skv. þeirri brtt. sem hér liggur fyrir og frumvarpsgreininni líka er svo stór hluti af fjármagni þessa sjóðs þegar bundinn til vissra hópa listamanna. Það liggur því í augum uppi að mjög lítið verður til ráðstöfunar til þeirra sem ekki eru sérstaklega nefndir í frv. Þar er mjög áberandi að ekki er sérstaklega fjallað um þann hóp listamanna sem hefur gert garðinn frægan svo að eftir er tekið, ekki einungis hér heima heldur einnig víða um lönd, á sviði listar sem hefur verið í mikilli grósku á okkar landi öllum til mikillar gleði og menningarauka, en það eru túlkandi tónlistarmenn. Ég hygg að fyrir þeim hópi sé í raun og veru alls ekki séð nema að mjög litlu leyti í þessu frv. Í þessum hópi listamanna eru einmitt þeir sem hvað sjaldnast hafa fasta vinnu við störf sín ef frá er talin Sinfóníuhljómsveitin og þeir sem eru í fastri vinnu við leikhús eða leiksvið. Þess vegna er það sem við óskum eftir því, ef meiri hl. nefndarinnar sér sér fært, að taka þetta mál til athugunar á nýjan leik á milli umræðna. Þess vegna m.a. drögum við til baka brtt. okkar um þetta atriði og nokkrar aðrar brtt. við frv. líka. Ég vek athygli á því að í brtt. okkar er hugmynd um að auka fjármagnið hraðar í þennan sjóð en í hina.
    Að þessu sögðu, herra forseti, liggur það allljóst fyrir að ég greiði ekki atkvæði um þessa brtt.