Grunnskóli
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Ragnar Arnalds (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það mál sem ætlunin er að taka hér til umræðu nú á eftir hefur hlotið venjulega meðferð í hv. menntmn. Tillögur meiri hl. menntmn. liggja hér fyrir og gefin hafa verið út þrjú nál. Vissulega hefði verið æskilegt að hæstv. menntmrh. hefði getað verið hér viðstaddur í dag, en hann er með lögleg forföll þar sem hann situr fund Norðurlandaráðs. Það er hins vegar mjög stutt eftir af störfum Alþingis eins og allir þekkja og það var mat mitt og hæstv. menntmrh. að ef þau geysiþýðingarmiklu efnisatriði, sem í frv. felast, ættu að komast til framkvæmda á þessu ári þannig að hægt væri að fara að vinna eftir frv. og málið ætti ekki að tefjast í heilt ár, þá yrði að koma þessari umræðu áleiðis í þessari viku því að málið á eftir að fara til 3. umr. og síðan til hv. Ed. Ég tel að líf eða dauði frv. velti á því að við látum málið ekki liggja hér fram í næstu viku. Þess vegna var það mat mitt og mat hæstv. menntmrh. að við skyldum láta þessa umræðu fara fram í dag og það er gert í fullu samráði við hann. Ef þess verður sérstaklega óskað að umræðunni ljúki ekki fyrr en eftir að hann er kominn hér aftur, þá tel ég sjálfsagt að orðið sé við því þannig að hv. þm. eigi þess kost að leggja spurningar fyrir menntmrh. Hins vegar er ekkert í tillögum meiri hl. sem kemur honum á óvart og haft hefur verið fullt samráð við hann um efni brtt. Ég vil því eindregið mælast til þess að málið verði tekið á dagskrá og ég eigi þess kost að mæla fyrir nál., svo og aðrir sem eru fulltrúar fyrir einstaka hluta menntmn. Ég tel hins vegar rétt að gengið sé til móts við þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, sjónarmið sem út af fyrir sig voru alls ekkert óeðlileg. Ég skil vel hvað hún var þar að fara en tel að eðlilegast sé að ganga til móts við þau á þann hátt að umræðunni ljúki ekki fyrr en eftir að hæstv. menntmrh. er kominn heim.