Listamannalaun
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það var í tíð ríkisstjórnarinnar sem sat á árunum 1979 -- 1983 sem ég hóf umræðu í tíð þáv. hæstv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar um að nauðsyn bæri til að endurskoða lög um listamannalaun. Ég minnist þess að ráðherra tók mjög vel í það. Það er því fagnaðarefni að nú skuli liggja hér fyrir frv. til laga um listamannalaun. Það hefur verið vitað um langan aldur að sú tilhögun sem verið hefur á úthlutun listamannalauna hefur verið vandræðaleg í meira lagi og fæstum listamönnum komið að nokkru verulegu gagni. Hér held ég að sé mjög bætt um og ber að fagna því.
    En því kvaddi ég mér hljóðs að hér liggja fyrir á þskj. 740 brtt. frá hv. 2. og 17. þm. Reykv. Vil ég víkja að þeim aðeins nokkrum orðum. Það kemur mér satt að segja dálítið á óvart að jafnvel hv. 4. þm. Norðurl. v. skuli ljá máls á því sem gert er ráð fyrir í 1. lið brtt., að fallið skuli frá þeirri sjálfsögðu kröfu að þeim sem listamannalauna njóta, eða starfslauna sem nú heita, skuli leyfast að vera í annarri launaðri vinnu. Hv. 4. þm. Norðurl. v. taldi að fyrir gæti komið að fólk á mjög lágum launum ætti rétt á að njóta þessara starfslauna en ég sé ekki hvernig ætti að koma í veg fyrir að það gætu alveg eins orðið mjög há laun. Ég held að það sé sjálfsögð og eðlileg tilhögun að fólk sem nýtur launa annars staðar frá láti þeim listamönnum eftir starfslaun sem engin laun hafa. Ég legg á það mikla áherslu að því fyrirkomulagi verði haldið hér eftir sem hingað til. Það er alveg ljóst að það eru fyrst og fremst þeir listamenn sem eru að reyna að helga sig list sinni eingöngu sem eiga að njóta þessara starfslauna en ekki listamenn, sem vissulega geta verið jafngóðir listamenn, sem einfaldlega stunda aðra launavinnu og hafa þess vegna eðlilega framfærslu. Ég er því algerlega mótfallin að við þessu verði hróflað.
    Ég get einnig getið þess að ég mun greiða atkvæði gegn öllum brtt. þeirra hv. tveggja þingmanna og skal ekki orðlengja athugasemdir mínar við 2. og 3. gr. Mér finnst að þær geti staðið eins og þær liggja fyrir í frv. En ég vil benda hv. 2. þm. Reykv. á að það er engin tilviljun að það er talað um að reglur um framkvæmd laganna verði gerðar í samráði við Rithöfundasamband Íslands, Samband ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélag Íslands. Það liggur svo einfaldlega fyrir að það eru heildarsamtök listamanna. Þetta eru ekki ein af félögum eða samtökum listamanna. Rithöfundasamband Íslands er samband rithöfundafélaga allra rithöfunda, Samband ísl. myndlistarmanna eru einnig heildarsamtök og Tónskáldafélag Íslands er samband tónskálda.
Hvort einstöku menn kjósa að standa utan við þau sambönd er auðvitað þeirra einkamál. Sú er viðtekin venja hér í þinginu þegar hagsmunaaðilar eru teknir inn í gerð slíkrar reglugerðar að leitað sé til heildarsamtaka en ekki einstakra samtaka eða félaga. Ég held að þetta sé alveg fullkomlega eðlilegt eins og þetta er í frv. og ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við það.

Ég er andvíg brtt. hv. 4. þm. Norðurl. v. um að taka Bandalag íslenskra listamanna sem fjórða aðila, það mætti þá allt eins hafa Bandalag íslenskra listamanna eingöngu, því að Bandalag íslenskra listamanna er aftur heildarsamtök allra listamanna. Ég held hins vegar að þar sem það eru þrír sérstakir sjóðir rithöfunda, myndlistarmanna og tónskálda, þá sé fullkomlega eðlilegt að þeirra heildarsamtök séu tekin þarna með. Bandalag íslenskra listamanna er hins vegar heildarsamtök allra listamanna og ég held að það sé dálítið hjákátlegt að fara að nefna það sem fjórða aðila. Ég held að þessar fjórar brtt. á þskj. 740 séu heldur alls ekki til bóta og mun þess vegna greiða atkvæði gegn þeim. Ég mun hins vegar styðja það að sú sjálfsagða leiðrétting sé gerð að lögin taki gildi nú þegar þar sem nú eru liðnir tveir mánuðir frá 1. jan. 1991.