Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem voru í þessari nefnd og mun ég ekki tala hér langt mál, en kemst ekki hjá því að segja nokkur orð í sambandi við umræðuna sem hér hefur farið fram.
    Á máli manna er auðheyrt að það er kominn taugatitringur í suma þingmenn sem þarf ekki að útskýra hvers vegna er. En það er dálítið furðulegt með málflutning sumra hv. þm. sem neita því að auka skatta á þjóðina en vilja þó á sama tíma gera allt. Og jafnvel þeir sem voru í nefndinni átta sig ekki á því að í sumum tilvikum, í þjóðbrautunun, er þessi áætlun til 38 ára.
    Kortið sem er hér merkt með rauðu á bls. 14 sýnir það sem er stefnt að að setja bundið slitlag á á næstu 20 -- 26 árum. Hv. þm. Halldór Blöndal minntist á Öxarfjarðarheiðina. Það segir ekkert í þessari áætlun um það hvort vegurinn yfir Öxarfjarðarheiði verði lagaður á þessu tímabili. En það er ekki stefnt að því að setja bundið slitlag á þessu tímabili. Það sem sagt rúmast ekki nálægt því það sem við viljum öll gera. Og ef menn vilja vinna þetta hraðar er ekkert annað en reyna að finna fjármagn til þess að gera hlutina. Svo einfalt er það.
    Ég hef t.d. mjög miklar áhyggjur, og það kom fram hjá mér í nefndinni, vegna vegarins sem tengir Norðurland við Austurland. Þó að hér sé merkt að á næstu 20 -- 25 árum eigi að leggja bundið slitlag á þann veg verða menn að hafa það í huga að Austfirðingar eiga mikið eftir ógert. Þeir ætla í dýrar framkvæmdir í sambandi við jarðgangagerð og þurfa að taka af sínu fé um 20% af öllum þeim kostnaði. Ég hef bara ekki trú á því að á næstu 20 árum hafi þeir möguleika á því að leggja það fé sem þarf af þeirra hluta í þennan veg sem tengir Norðurland við Austurland nema þessi vegur, a.m.k. þeirra hluti, sé tekinn í stórframkvæmdir. Ég lagði áherslu á að það yrði gert í þessari nefnd sem fjallaði um málið. En það kom fram hjá Vegagerðinni og raunar fleirum að það væri hætt við því að þá mundu aðrir vilja taka inn einhverja vegi sem þarf að byggja upp einnig í stórframkvæmdir. Ég vil halda því fram að þessi vegur hafi sérstöðu, það er verið að tengja saman landshluta og þar af leiðir að hann hefur sérstöðu. Ég tel aftur að hálendisvegurinn hafi ekki þessa sérstöðu.
    Ég mundi verða manna fegnastur ef um það yrði samstaða á Alþingi að reyna að finna meira fjármagn í vegagerð. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það er eitt mesta byggðamálið. En það er dálítið athyglisvert að hér hafa t.d. tveir hv. þm. Sjálfstfl. talað. Annar talaði um að Sjálfstfl. vildi ekki leggja á meiri skatta, en samt sem áður vill hann meiri framkvæmdir í vegagerð og setja fleiri vegi inn. Hinn var að ræða um að hraða þessum stórframkvæmdum en það er auðvitað ekki hægt með öðrum hætti en að fá meira fjármagn. Ég hefði viljað ráðleggja hv. sjálfstæðismönnum að þeir reyni að koma sér saman um aðra hvora leiðina og standa á því. Annaðhvort reyna að útvega meira fjármagn eða hætta þá að ræða um

það, ef þeir eru á móti því, að gera meira, því að málið bara gengur ekki upp, svo einfalt er það.
    Ég vil þakka vegagerðarmönnum, vegamálastjóra og hans mönnum, fyrir samstarfið við þessa langtímaáætlun. Það var ánægjulegt að vinna með þeim og þeir unnu þetta verk að mestu leyti þó að það væri auðvitað nefndin öll sem tók ákvarðanir, en stefnumörkunin var þeirra að mestu leyti. Og þetta vil ég þakka fyrir.
    Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta meira, en vil endurtaka það, og sérstaklega beina máli mínu til hæstv. samgrh., að ég hef ekki trú á því og ég sé ekki möguleika á því að tengja Norðurland við Austurland á annan hátt en þann að það verði ákveðið að þessi vegur, a.m.k. að þessum hluta, verði stórframkvæmdaverkefni. Þetta mál er ákaflega aðkallandi, bæði fyrir Austurland og Norðurland, en einnig Norðvesturland og Vesturland. Það gerir t.d. vaxandi hópur ferðamanna sem hingað sækir.
    Ég vil, af því að vegamálastjóri er hér, beina máli mínu líka til hans í sambandi við þetta, boða það vel og fá að leggja því lið þegar og ef ráðherra treystir sér til að athuga þetta mál frekar. En það þyrfti að ræða það vegna þess að eftir tvö ár t.d. þyrfti að liggja fyrir hvar vegurinn á að liggja, þá þurfa að vera komnar fram áætlanir og tillögur í þessu efni.