Grunnskóli
Föstudaginn 01. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Sú var tíðin að ég ræddi það málefni sem hér er á dagskrá núna býsna ítarlega. Það var á þeim árum sem fóru í hönd þegar núverandi grunnskólalög voru sett 1974. Ég hef ekki hugsað mér að fara út í jafnítarlega umræðu um það frumvarp sem hér liggur fyrir eins og ég gerði þá hvað eftir annað í meðferð þess máls sem þá var til afgreiðslu á Alþingi. Ég vil hins vegar lýsa því að löggjöf um það nám sem fram fer í grunnskóla er meðal hinna mikilvægari sem lúta að menntakerfi íslensku þjóðarinnar.
    Í þessu sambandi þykir mér ástæða til að vekja á því athygli að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir hefur flutt hér sérlega vandaða ræðu og ég get lýst fullum stuðningi við þau sjónarmið sem fram komu í hennar máli í meginatriðum. Ég tel til að mynda að ekki sé hægt að sætta sig við það að hæstv. ríkisstjórn, í þessu tilliti hæstv. menntmrh., leggur fram hér frv. um jafnviðamikið efni og raun er á án þess að því fylgi kostnaðaráætlun, enda er þar um að ræða brot á íslenskum lögum, lögum sem kennd eru við þann mæta mann, fyrrv. forsrh. Ólaf heitinn Jóhannesson og hafa því gengið undir nafninu Ólafslög.
    Ég tel það líka forkastanlegt að hv. formaður menntmn. þessarar hv. deildar skuli hafa látið sér um munn fara, ef rétt er, að það sé ekki hægt að segja til um það hver kostnaðurinn verður af samþykkt þessa máls og enginn viti hver kostnaður af frv. verði. (Gripið fram í.) Sé þetta rétt eftir haft, þá er það forkastanlegt að taka svo til orða eða halda þannig á málum. A.m.k. hef ég ekki rekist á það að hv. meiri hl. menntmn. hafi gert grein fyrir þeim kostnaði sem af frv. hlýst ef samþykkt verður. ( RA: Ég gerði það í ræðu minni.) Hafi hv. þm. Ragnar Arnalds gert grein fyrir því, þá fer hér eitthvað á milli mála og er sjálfsagt að hafa það er sannara reynist. En hér var gerð grein fyrir því af hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur að samkvæmt áliti sérfróðra manna væri kostnaður af einsetningu skóla og samfelldum skóladegi, svo sem þetta frv. gerir ráð fyrir, nálægt því 7,3 milljarðar kr. Þetta er býsna há tala eða nærfellt eins og helmingur útgjalda ríkisins af öllum kostnaði við menntmrn. og undirstofnanir þess í fjárlögum þessa árs. Þessu er vissulega ætlað að koma fram í áföngum, eða allt að tíu árum, en eigi að síður er hér um gífurlegan kostnað að ræða sem er nauðsynlegt að komi fram þegar í upphafi, enda lagaskylt þegar frv. er lagt fram sem hæstv. menntmrh. hefur, eins og áður sagði, vanrækt.
    Ég lýsi stuðningi við þau markmið sem í þessu frv. felast. En það er engin ástæða til þess að það sé mögulegt fyrir stjórnvöld að leggja fram frv. sem eiga að þjóna slíkum markmiðum án þess að gera grein fyrir því hvað það kostar. Og það hlýtur að verða krafa við þau frv. sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram að gerð sé grein fyrir því hvað þau kosta og hvaða skuldbindingar þau leggja á herðar ýmist ríkisins eða sveitarfélaga.
    Í þessu frv., eins og lýst hefur verið, er aukin forræðishyggja ríkisins gagnvart sveitarfélögum. Það er dregið úr valdsviði heimamanna, þ.e. yfirleitt sveitarfélaganna, rétt í sama mund sem búið er að breyta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með öðrum lögum á þann hátt að færa kostnað, bæði við mannvirkjagerð og rekstur, í stórauknum mæli yfir á herðar sveitarfélaganna. Það getur auðvitað ekki gengið að fram komi slíkt misræmi í lagasetningu enda er það svo, eins og kom fram í máli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, að Samband ísl. sveitarfélaga treystir sér ekki til þess að mæla með samþykkt frv. Og nú hlýt ég að spyrja hv. þm. stjórnarliðsins: Treysta þeir sér til þess að samþykkja frv. um grunnskóla sem sveitarfélögin í landinu sjá sér ekki fært að mæla með? Getur það borið sig að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að knýja hér fram samþykkt á frv. sem sveitarfélögin geta ekki lýst fylgi við?
    Rétt er að vekja athygli á í þessu sambandi að sá starfshópur sem hefur samið þetta frv. á vegum hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. menntmrn. er myndaður af starfsmönnum menntmrn. Sveitarfélögin, sem eiga mikið í húfi hvernig á þessum málum er tekið og bera bróðurpartinn af þeim kostnaði sem rekstur grunnskóla og bygging á mannvirkjum felur í sér, eiga engan fulltrúa í þeim starfshópi. Það er að vísu greint frá því að rætt hafi verið við fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og ýmsum öðrum aðilum, en það er auðvitað afar sérkennilegt að setja saman starfshóp til þess að semja frv. um slíkt efni með þeim hætti að gersamlega sé gengið fram hjá sveitarfélögunum sem síðan eiga að bera uppi meginhluta kostnaðarins. Og ég hlýt að endurtaka þá spurningu mína: Treysta hv. þm. stjórnarliðsins sér til þess að samþykkja slíkt mál án þess að fulltrúar sveitarfélaganna í landinu treysti sér til þess að mæla með því að það verði samþykkt? Ég held að þá sé farið að fara mjög aftan að siðum ef á þann veg á að ganga fram með lagasetningu hér á hinu háa Alþingi.
    Ég ætla ekki, eins og ég sagði í upphafi, að ræða mikið einstök efnisatriði þessa máls. Ég hef auðvitað ekkert skipt um skoðun varðandi til að mynda skólaskyldu. Í þessu frv., sem raunar er áður fram komið, er skólaskylda aukin upp í tíu ár eða frá 6 ára til 16 ára aldurs. Ég tel að það hafi verið ástæða til og fullkomlega eðlilegt að færa skólaskyldu niður í 6 ára aldur en ég tel að það hefði verið eðlilegra að stytta skólaskylduna í hinn endann. Ég skal ekki flytja mörg rök fyrir þeirri skoðun minni. Ég hef gert það áður, en með þessum hætti eru ungmenni í skóla í 10 -- 11 ár að lagaboði ríkisins, en ekki að eigin frumkvæði. Það hefur áhrif á svo löngum tíma á mótunarskeiði ungmenna að þau séu ekki í skóla að eigin frumkvæði, sínu eigin eða foreldra sinna, heldur að lagaboði. Það hefði áhrif á það hvernig þau bregðast við í skólastarfinu, í námi og í ýmsum þáttum sinnar hegðunar eins og glögglega hefur komið fram í umsögnum fjölmargra skólamanna um þetta efni og ég held að þau áhrif séu ekki til góðs. Ég held að það sé hverju ungmenni til góðs þegar það vex að viti og þroska að geta tekið ákvörðun um það sjálft að fara í skóla og

sækja nám að eigin frumkvæði um leið og hinu opinbera er skylt að halda uppi skólastarfi fyrir þessi ungmenni. Það er þess vegna mín skoðun að það hefði verið til bóta að stytta skólaskylduna ofan frá en halda þar fræðsluskyldu. Ég ætla ekkert að gera ágreining um það efni, enda styð ég það meginsjónarmið sem fram kemur í nál. frá fulltrúum Sjálfstfl. í hv. menntmn. og hér hefur verið lýst, að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess að undirbúningur þess er greinilega með þeim hætti að það er ekki frambærilegt að það sé afgreitt, enda þótt það feli í sér að stefnt er að því að ná góðum markmiðum á býsna löngum tíma. En það getur ekki verið frambærilegt að knýja í gegn lagasetningu sem svo mjög varðar hagsmuni sveitarfélaganna undir þeim kringumstæðum að sveitarfélögin treysta sér ekki til að mæla með málinu.