Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Karvel Pálmason :
    Virðulegur forseti. Það er greinilegt að mörgum hefur brugðið við þessar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Meira að segja hæstv. forsrh. veit ekkert um þetta, hefur ekki hugmynd um það, og trúlega enginn af öðrum hæstv. ráðherrum.
    Hæstv. forsrh. hefur svarað því hér að þetta hafi ekki verið rætt innan ríkisstjórnar. Þetta er hálfgerð kosningasveifla á Reykjanesi til þess ætluð auðvitað að draga athyglina þangað. Af þeim fjórum ákvörðunum sem hæstv. fjmrh. nefnir, og líklega er það í hlutfalli við Norðurlandaráðsþingið sem menn voru að tala um áðan, eru tvær á Reykjanesi, hans eigin kjördæmi, það er ein á Austurlandi, það er ein á Suðurlandi. Svo eitthvað í öðrum kjördæmum. Þetta er réttlætið sem þarna á að gilda, þ.e. ef af þessu á að verða en ekki lítur út fyrir að nein ákvörðun hafi verið tekin um það. En ég fagna því að sjálfsögðu ef þetta verður gert en ekki í þessu formi hér. Ef það á að auka framkvæmdir, þá eiga þær auðvitað að dreifast um landið og ekki hvað síst til þeirra svæða sem eiga undir högg að sækja atvinnulega séð eins og væri hægt að nefna dæmi um.
    Ég held, hæstv. fjmrh., að svona vinnubrögð eigi ekki að eiga sér stað. Það er kosningasvipur á þessu, slæmur kosningasvipur, og honum eiga a.m.k. ekki hæstv. ráðherrar að beita með þessum hætti.