Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal tala um þingsköp og minna á það hér að það var að ósk forustu Sjálfstfl. sem lánsfjárlagafrv. var ekki afgreitt hér fyrir jól. Ég hafði lagt fram þá tillögu að frv. til lánsfjárlaga yrði afgreitt hér fyrir jól. Þegar Sjálfstfl. í Nd. var að vega það og meta hvað hann vildi afgreiða eða ekki, þá m.a. kom hv. þm. Þorsteinn Pálsson með þá skoðun að lánsfjárlagafrv. yrði látið bíða. Þetta hefur komið fram í umræðum í þinginu áður og er þess vegna ekki nýtt. En mér fannst nauðsynlegt að minna á það vegna ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Það þýðir þess vegna ekkert fyrir þessa menn að gera sig heilaga í framan þegar það var samkvæmt ósk Sjálfstfl. að þetta frv. var látið bíða fyrir áramót.
    Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram því að sannleikurinn í þessu máli er auðvitað sagna bestur. Hins vegar hefur enginn ágreiningur í ríkisstjórninni tafið fyrir því að þetta mál yrði afgreitt, ekki nokkur slíkur ágreiningur.