Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 791 frá allshn. Ed. um frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangelsisvist, nr. 48 19. maí 1988.
    Þetta mál kemur frá Nd. og fjallar fyrst og fremst um það að sú refsing sem maður er dæmdur til haldist, þó maður lendi í einhvers konar refsingu innan fangelsisins, t.d. einangrun, að sá tími bætist ekki við þá refsingu sem tildæmd er.
    Hins vegar er um að ræða kæruleiðir á milli forstöðumanns Fangelsismálastofnunar og dómsmrn. Hér er tekin sú afstaða að þegar upp kemur mál í fangelsi um agaviðurlög skuli vera heimilt að kæra þann úrskurð forstöðumanns fangelsis til dómsmrn. En upp komu í nefndinni, og raunar í Nd. einnig, vangaveltur um hvort tengja ætti Fangelsismálastofnun inn í þessa kæruleið. Það var álit meiri hl. nefndarinnar að svo skyldi ekki vera.
    Undir þetta nál. ritar öll nefndin en þrír nefndarmenn gera fyrirvara og ég geri ráð fyrir að hann sé um þetta atriði, að Fangelsismálastofnun skuli höfð með í ráðum þegar agaviðurlögum er beitt.
    Nál. er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Harald Johannessen fangelsismálastjóra og Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmrn.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru í meðförum Nd.``
    Undir þetta rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir og Skúli Alexandersson, svo og Salome Þorkelsdóttir með fyrirvara, Eyjólfur Konráð Jónsson með fyrirvara og Danfríður Skarphéðinsdóttir með fyrirvara. Gera þau eflaust grein fyrir því hér á eftir að hverju þessi fyrirvari beinist.