Tilhögun þingstarfa
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Ég vil fara fram á það við forseta að hann taki á dagskrá og til umræðu síðar í dag frv. um fiskeldið. Ég tel að það sé óskynsamlegt að láta það mál lenda í útideyfu eða ljúka ekki 1. umr. um málið jafnvel þó svo vilji til að einn ráðherra hafi snúist öndverður gegn því og haft hér uppi málþóf í gærkvöldi. Ég tel að við náum ekki skynsamlegum og eðlilegum þinglokum nema með ákveðinni tillitssemi hvert við annað. Ráðherrar geta alls ekki ætlast til þess að þeirra mál hafi það mikinn forgang að ekki megi ræða um neitt annað heldur en stjfrv. á þeim tíma sem eftir er, allra síst úr því að þeir geta ekki nema með höppum og glöppum og eiginlega svona fyrir mestu náð í undantekningartilfellum látið það eftir okkur að vera hér í deildinni til að greiða atkvæði um stjfrv.