Tilhögun þingstarfa
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Mér er alveg ljóst að það er mikill vandi sem hvílir á herðum forseta þessarar deildar að skipuleggja þingstörfin þegar hann verður að búa við það að þingmenn mæti jafnilla og raun ber vitni og sérstaklega stjórnarliðar, eins og best sást í gærkvöldi, að ég hygg að það sé einsdæmi að ráðherra hafi beitt málþófi þegar vika er eftir af þingi við frv. þingmanna sem er flutt af níu þingmönnum eins og fjmrh. gerði hér í gærkvöldi. Í raun og veru hélt hann þrisvar sinnum sömu ræðuna. Og það var þreytandi fyrir þá fáu þingmenn sem hér sátu inni að hlusta á þessa ræðu því þetta var svartnættisræða úr grárri forneskju sem ráðherra var að flytja.
    Ég vænti þess að hæstv. forseti þessarar deildar reyni að koma þessu máli áfram. Ég vil aðeins til viðbótar þessu benda á að þetta frv. hefði verið flutt mörgum mánuðum fyrr en raun ber vitni því maður fékk alltaf svör um það frá ríkisstjórninni og frá forsrh. að þetta mál væri að fá afgreiðslu í ríkisstjórninni. Ég er búinn að fá skýringu á því núna af hverju það var ekki flutt eftir að hafa hlustað á þessa dómadagsræðu fjmrh. í gærkvöldi.