Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans en ég er engu nær. Ég er engu nær. Í bréfi sem allir alþingismenn fengu, því bréfi sem ég las upp áðan, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ég hef orð lögmanns míns fyrir því að ásakanir hæstaréttarlögmanns eigi skilyrðislaust að rannsaka. Einnig að það sé staðfesting á alvarlegri réttarfarskreppu ef ekkert er gert með slíkar ásakanir.``
    Er það virkilega svo að þeir menn sem eru ásakaðir og bera ábyrgð á þessu hafi ekki manndóm í sér til þess að reyna að hreinsa sig af slíkum áburði? Og hvað hugsar fólk í landinu um þetta? Það hafa margir talað um þetta við mig. Það vill svo til að í fyrradag hringdi Íslendingur frá Svíþjóð og fór að spyrja mig um þetta mál vegna þess að einn af sænsku fulltrúunum, sem þekktu hann, fór að spyrja hann um hvað væri með þetta mál. Hvort venjuleg mannréttindi væru ekki algeng á Íslandi. Þessi Íslendingur telur, eftir þessum manni, að bréf um þetta mál, sem hann segir að hafi farið til þingfulltrúa Norðurlandaráðs, hafi vakið feikna athygli. Er það tilfellið að dómstólarnir, að dómsmrh. og dómsmrn., vilji ekki taka upp málið og athuga það? Eru þessar ásakanir hæstaréttarlögmanns ósannar? Þora þeir ekki að hreinsa sig? Er réttarfarið orðið svo á Íslandi?
    Það hefur fjöldi manns skorað á mig að fylgja þessu máli eftir. Ég hef lengi vonast til þess að það þyrfti ekki að fara með það inn í Alþingi. En eftir þriðja bréfið til alþingismanna og enginn hefur mannrænu í sér til þess að hreyfa þessu hér á Alþingi og réttarkerfið svo vesælt að það reynir ekki að hreinsa sig, þá er nú langt gengið.