Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur fyrirspurn hv. þm. um hlutverk þessarar nefndar þegar verið svarað hér á Alþingi. Hlutverkið er fyrst og fremst samræming á neyðaráætlunum hvort heldur er á hættutímum eða stríðstímum. Það er að sjálfsögðu kjarni málsins. Áður höfum við, utanrrh. og dómsmrh. sem að þessu samkomulagi stöndum, svarað því til að við teljum það ekki aðeins eðlilegt heldur nauðsynlegt.
    Hv. þm. vill gera sér mat úr því að það hafi verið ranglega til orða tekið þegar ég sagði að frumkvæði hefði komið frá dómsmrn. Vel má vera að það orki tvímælis vegna þess að málið á sér aðdraganda. Aðdragandinn, sem ég er að vísa til, eru fyrst og fremst þær viðræður sem fram fóru milli ráðuneytanna um þann þátt í samræmingu neyðaráætlana sem lýtur að skipulagi björgunarstarfa og varðar samstarf Landhelgisgæslu og þyrlu flugbjörgunarsveitar varnarliðsins. Um þetta höfðu farið fram viðræður milli ráðuneytanna og þetta er auðvitað snar þáttur þeirrar áætlunargerðar sem hér er verið að samræma. Um það efni vil ég vísa til þess að að undanförnu hafa verið endurnýjaðir samkomulagssamningar um samstarf þessara aðila, samkomulag milli varnarliðs og Landhelgisgæslu, dags. 7. nóv. 1989, sameiginlegar leiðbeiningar varnarliðs og varnarmálaskrifstofu varðandi björgunaræfingar þyrlu björgunarsveitar varnarliðsins frá 25. jan. 1990, sameiginlegar leiðbeiningar varnarliðs og Flugmálastjórnar varðandi flugumferðarstjórn við þyrlubjörgun, dags. 26. jan. 1990.
    Við höfum verið að ræða spurningar um endurnýjun á þyrlukosti annars vegar Landhelgisgæslunnar. Þar hamlar okkur fjárskortur. Hins vegar var vitað af áætlunum um endurnýjun á þyrlukosti flugbjörgunarsveitar varnarliðsins. Að sjálfsögðu ræðum við, dómsmrh. og utanrrh., þessa starfsemi vegna þess einfaldlega að hún hefur verið mjög þýðingarmikil við björgun mannslífa við strendur Íslands á undanförnum árum. Frá 1971 hefur hér verið um að ræða björgun á 238 mannslífum og þar af lífi 130 Íslendinga.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum geta þess að dómsmrn. setti nýlega reglur um skipulag og yfirstjórn leitunar og björgunar á hafinu við strendur Íslands, hinn 16. maí sl. Yfirstjórnin hefur aðsetur hjá Landhelgisgæslunni og er skipuð fulltrúum hennar, Póst - og símamálastofnunar og Slysavarnafélags Íslands. Þegar ég vísa til þess að upphaf þessa máls hafi verið rakið til þessa, þá er ég að vísa til þeirra viðræðna sem fram fóru milli ráðuneytanna um það.