Lífeyristryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur beint til mín fsp. á þskj. 607 sem hann hefur nú gert grein fyrir og er í tveimur undirliðum. Við afgreiðslu fjárlaga var framlag til lífeyristrygginga Tryggingastofnunar ríkisins ákveðið 13 milljarðar 895 millj. kr. eða 1 milljarður 158 millj. á hvern mánuð ársins ef því er skipt niður á mánuðina 12.
    Við gerð fjárlagafrv. var gert ráð fyrir nokkrum sparnaði, um 150 -- 200 millj. kr., í útgjöldum lífeyristrygginganna, m.a. vegna tekjutengingar grunnlífeyris almannatrygginga. Var það í samræmi við það frv. til laga um almannatryggingar sem kynnt var í þingflokkum stjórnarflokkanna á sl. hausti. Þar var gert ráð fyrir verulegri uppstokkun, reyndar nýrri almannatryggingalöggjöf með ýmsum breytingum og þeim áherslum helstum að tekjutengja svokallaðan grunnlífeyri svo að ná mætti að bæta ýmsa aðra bótaflokka og hækka útgjöld þar en heildarniðurstaðan gerði ráð fyrir allnokkrum sparnaði eða á bilinu 150 -- 200 millj.
    Nú er ljóst að þetta frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar verður ekki lögfest á þessu þingi og er því hugsanlegt að áætluð upphæð til lífeyristrygginga á fjárlögum sé eitthvað of lág miðað við áætlun Tryggingastofnunar ríkisins og Ríkisendurskoðunar sem endurskoðað hefur áætlanir stofnunarinnar og metið fjárþörfina. Hvaðan tilgreind upphæð, 500 millj. kr., í fyrirspurn hv. þm. er hins vegar komin eða hvernig hún er fengin er mér ekki fyllilega ljóst.
    Vegna þessarar fyrirspurnar hef ég fengið upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins um útgjöld lífeyristrygginganna í janúar og febrúar á þessu ári. Eru útgjöld þeirra í bráðabirgðayfirliti 2 milljarðar 280 millj. kr. eða 1 milljarður 140 millj. hvorn mánuð. Sé fjárlagatölu ársins 1991 hins vegar deilt yfir 12 mánaða tímabil má gera ráð fyrir að útgjöld hvers mánaðar séu um það bil 1 milljarður 260 millj., eins og áður sagði. Það er því útlit fyrir að áætlun fjárlaganna sé aðeins rýmri en útgjöld Tryggingastofnunarinnar hafa reynst fyrstu tvo mánuði ársins og stofnunin sjálf gerði ráð fyrir í sínum áætlunum. Inni í áætlunartölu fjárlaga er ekki gert ráð fyrir þeim hækkunum sem kunna að verða á bótum umfram það sem almennar verðlagsforsendur fjárlaganna gera ráð fyrir. Áætlunartala fjárlaga mundi þá hækka vegna hugsanlegra eða væntanlegra bótahækkana á þessu ári.
    Í athugasemdum við fjárlagafrv. er einnig gerð grein fyrir því að heildarhækkun til lífeyristrygginganna sé 13% en eins og menn vita er hækkun skv. verðlagsforsendum um 7% þannig að þar er gert ráð fyrir allnokkurri aukningu umfram verðlagsforsendurnar, m.a. til þess að mæta þeirri hlutfallslegu fjölgun sem er á fjölda lífeyrisþega, svo sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda.
    Mér sýnist því á þessari stundu full ástæða til þess að álíta að áætlun fjárlaga um útgjöld lífeyristrygginganna standist að mestu leyti. Þegar kemur lengra

fram á árið verður staða lífeyristrygginga að sjálfsögðu skoðuð svo sem venja er. Vanti þá eitthvert fé vegna lífeyristrygginga verða bætur að sjálfsögðu ekki skornar niður, eins og fyrirspyrjandi spyr um í öðrum lið fyrirspurnar sinnar, og þaðan af síður felldur niður heill mánuður í bótagreiðslum til lífeyrisþega. Enda þó svo ólíklega færi að 500 millj. kr. vantaði upp á útgjöld til lífeyristrygginga, sem ekkert bendir þó til í dag, þá eru það aðeins bótagreiðslur fyrir 12 -- 13 daga en ekki heilan mánuð. Hins vegar má telja víst að gerðar verði ráðstafanir til að staða lífeyristrygginganna verði bætt með fjáraukalögum í haust, svo sem oft áður hefur reynst nauðsynlegt að gera með aukafjárveitingum, ef reynslan sýnir að eitthvað kunni að vanta upp á áætlunina