Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Þessi dagskrárumræða sýnir glöggt að hér er á dagskrá mál sem þingmenn láta sig nokkru varða. Ég stíg hér í ræðustólinn til þess að taka undir orð hv. 1. þm. Norðurl. v. um dagskrána og um þann sið sem myndast hefur hér í þinginu að þingmenn geri kröfur um að kveðja á vettvang ráðherra annarra málaflokka en þeirra sem til umræðu eru hverju sinni.
    Ég vildi vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e. taka það mjög skýrt fram að það sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér var almenns eðlis, varðaði framkvæmd funda, dagskrá og þingsköp og átti fullan rétt á sér, alveg óháð því máli sem við ræðum hér í kvöld. Þetta er kjarni málsins og ég vona að hæstv. forseti taki það til greina.
    Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að auk till. til þál. --- sem ég tel afar mikilvæga einmitt vegna umræðna eins og hér hafa farið fram í kvöld, því hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, mál sem varðar miklu um atvinnu fólks, ekki bara í því byggðarlagi sem ráðgert er að álverið rísi heldur um land allt --- fylgja málinu til greinargerðar af minni hálfu lýsingar á tveimur tillögum um breytingar á lánsfjárlagafrv. sem liggur fyrir hv. Nd. Þær tillögur eru þingheimi kunnar og þess vegna ekki rétt að bera því við að þær séu eitthvað sem komi mönnum á óvart.
    Hitt er líka rétt að við getum vel lokið umræðunni um þáltill. og beðið með umræður um lánsfjárlagabreytingarnar sem hér eru ráðgerðar og lýst hefur verið til greinargerðar. Það er hin raunar rétta þinglega meðferð.