Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Frsm. menntmn. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Menntmn. Ed. hefur á ný fjallað um frv. til laga um mannanöfn eftir þá breytingu sem hv. Nd. gerði á því. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Skúla Guðmundsson, skrifstofustjóra Þjóðskrár og Guðrúnu Kvaran, ritstjóra Orðabókar Háskólans.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem hún flytur tillögu um á sérstöku þingskjali. Aðalbreyting nefndarinnar felst í því að fellt er brott ákvæði um millinafn, en millinafn er í eðli sínu ígildi ættarnafns og með slíku ákvæði væri því verið að opna fyrir upptöku nýrra ættarnafna.
    Þetta er meginatriðið í breytingu hv. Nd. og menntmn. Ed. er algerlega andvíg henni. Með þessari breytingu er líka ljóst að ósamræmi er í lögunum og hlutverk mannanafnanefndar yrði næsta erfitt. Hún á að fylgjast með því að nöfn falli vel að íslensku nafn - og málkerfi. Komi til ágreinings milli nefndar og þess sem gefa vill barni nafn getur sá síðarnefndi kosið að það nafn sem nefndin telur óæskilegt verði notað sem millinafn og er það þá utan verksviðs nefndarinnar. Með þessari breytingu væri hægt að gera nefndina óstarfhæfa.
    Umrædd millinöfn fengju jafnt drengir sem stúlkur og yrðu þau þá mjög oft brot á 2. mgr. 2. gr. þar sem segir að hvorki megi gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn. Allstór hluti nafna þeirra sem óskað er eftir eru karlmannsnöfn með brottfelldri nefnifallsendingu. Þau eru í flestum tilvikum óbeygð og gætu orðið fyrsti vísir að riðlun beygingarkerfisins eins og fram hefur komið í öðrum löndum. Þau gætu því í tímanna rás orðið íslenskri tungu verulega hættuleg.
    Fram til þessa hefur ásókn í millinöfn verið mest hjá þeim sem ekki gátu látið börn sín bera ættarnöfn fjölskyldu sinnar þar sem ættarnöfn erfðust eingöngu í karllegg. Skv. 9. gr. frv. ganga ættarnöfn nú jafnt í karllegg sem kvenlegg og er því þessi vandi leystur.
    Í vaxandi mæli hefur borið á því að menn gefi börnum sínum sama millinafnið í þeim tilgangi að nota það sem ættarnafn með því síðar að fella kenninafn niður. Þar með fara menn aftan að lögunum og eru áður en varir búnir að koma sér upp nýju ættarnafni. Þess vegna flytur nefndin brtt. við 2. gr. frv. eins og það kom frá Nd. um að 4. og 5. mgr. þeirrar greinar falli brott.
    Við 10. gr. flytur nefndin einnig brtt. um að færa hana í svipað horf og var áður, þ.e. að setja inn 2. mgr. upphaflegu greinarinnar í frv. Hún var sett inn í frv. til þess að Íslendingum yrði ekki mismunað. Alkunnugt er að konur og börn nota oft erlendis kenninafn maka síns af hagkvæmnisástæðum. Verði þeim eftir heimkomu leyft að nota áfram kenninafn maka og föður hefur nýtt ættarnafn verið heimilað. Þeir sem ekki eiga heimangengt sitja þá við annað borð en þeir sem eiga þess kost að dveljast erlendis um tíma við nám og störf. Þess vegna leggjum við til að upphaflega 2. mgr. 10. gr. komi hér inn á ný.

    Fjarverandi fund nefndarinnar var Eiður Guðnason en aðrir nefndarmenn skrifa undir þetta nál. um að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér nú rakið.