Frsm. 2. minni hl. allshn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það kom fram við 2. umr. þessa máls að 2. minni hl. getur ekki fellt sig við það frv. sem hér er verið að taka til afgreiðslu við 3. umr. af þeirri einföldu ástæðu að við erum ekki sammála því að það eigi að skjóta sér á bak við ríkisrekið happdrætti til þess að afla tekna til kaupa á svo mikilvægu tæki sem þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.
    Allir eru sammála um að það er brýn þörf á nýrri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, en við erum ekki sammála um hvaða leiðir eigi að fara til þess að kaupa þessa þyrlu. Það hefur komið fram í störfum nefndarinnar að þeir aðilar sem upphaflega fóru af stað með þetta frv., reyndar í öðru skyni en beinlínis til að kaupa björgunarþyrlu, eru komnir út úr þessu frv., þeir eru settir út í kuldann. Nú er búið að breyta frv. þannig að það er einungis ríkið sem ætlar að reka happdrætti til þess að afla tekna til kaupa á björgunarþyrlu. Þetta getum við ekki sætt okkur við, jafnvel þó að sett yrði í fjárlögin heimild til að taka lán með þessu skilyrði. Þess vegna höfum við tekið það ráð að leita samkomulags um að það verði sett ákvæði inn í lánsfjárlögin sem eru í meðferð Nd. og við vitum að eiga eftir að koma hér aftur til Ed. Þar verður sett inn ákvæði án skilyrða um lántöku þannig að hægt sé að vinda sér í að semja um kaup á slíkri þyrlu.
    Við höfum gert ráðstafanir til þess að fulltrúar okkar í fjh. - og viðskn. Nd. flytji brtt. við frv. þessa efnis, jafnframt að reynt verði að leita samstöðu um það mál innan nefndarinnar. Og nú liggur það fyrir, ég hef staðfestar heimildir fyrir því, að hæstv. fjmrh. hefur fallist á að setja inn í lánsfjárlögin heimild upp á 100 millj. kr. til kaupa á björgunarþyrlu. Ég bið hv. deildarmenn að taka nú eftir því sem ég segi. Hann hefur fallist á að þetta verði gert án nokkurra skilyrða um happdrætti til þess að afla tekna í þessu skyni. Það liggur sem sagt fyrir að það verður sett inn í lánsfjárlögin heimild án skilyrða um happdrætti til kaupa á þessari þyrlu og staðfest af hæstv. fjmrh. sjálfum að svo verði gert. Þess vegna vil ég fara fram á það, hæstv. forseti, að annaðhvort verði þetta frv. hreinlega látið liggja eða dregið til baka eða að málinu verði frestað til morguns þar til fyrir liggur að staðið verði við þetta sem ég var að segja, þ.e. að þetta muni koma fram í frv. til lánsfjárlaga.