Stjórn þingstarfa
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Þau sérstöku mál sem ég hafði hugsað mér að ræða við hæstv. fjmrh. komu einmitt til umræðu hér í þessari deild við afgreiðslu lánsfjárlaga og varða það sérstaka álitaefni hvernig hægt sé að láta einn og hálfan milljarð gufa upp, útgjöld ríkisins sem efnt var til á síðasta ári upp á einn og hálfan milljarð gufa upp, þannig að unnt sé að skrifa skýrslu um ríkisfjármál fyrir árið 1990 án þess að þess sé getið að með frv. sem var samþykkt hér í þessari deild var ákveðið að ríkissjóður skyldi yfirtaka skuld í Verðjöfnunarsjóði. Þá hefur hann auðvitað um leið ætlast til þess að það yrði bókfært sem útgjöld ríkissjóðs á sl. ári en að hæstv. fjmrh. beitti ekki valdi og léti embættismenn sína falsa ríkisreikninginn til þess að reyna að draga upp fallegri mynd af afkomu ársins en raun ber vitni. ( Forseti: Umræða um lánsfjárlög mun væntanlega fara fram hér innan fárra daga.)
    Ég vil í annan stað taka það fram að ég bjóst við því vegna sérstakra athugasemda sem ég hafði að gera við frv. um sjóðshappdrætti, þá ætlaði ég að koma hér fram nokkrum athugasemdum sem ég get auðvitað gert við flokkssystkin mín í allshn. Ég er hins vegar mjög ánægður yfir þeim ummælum og geri ekki athugasemd við það sem hæstv. forseti segir að hér verði rætt um þau mál sem ekki er ágreiningur um og þakklátur fyrir að hæstv. forseti muni gefa mér tóm til þess að kynna mér í hvaða formi grunnskólafrv. liggur nú og þær athugasemdir sem fram hafa komið og umsagnir í menntmn. Nd.