Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Góðan daginn, hæstv. forseti. Þetta hefur verið skemmtileg málfundaæfing hér í kvöld og nauðsynlegt að taka af og til stund í það. Það hefur væntanlega vakið mikla athygli þeirra sem fylgst hafa hér með hversu Sjálfstfl. hefur verið órólegur, óvenju órólegur í allt kvöld þannig að ég man bara ekki eftir öðru eins. Jafnvel hinir prúðustu í þeim hópi hafa gengið af gafli, eins og segir í vísunni um ákveðinn þingmann Vestfjarða, og talað af öllu afli með höfðinu öllu saman og gripið hér mikið fram í. Hvað ætli það sé nú sem gerir þá hv. þm. Sjálfstfl. svona órólega, fyrrv. formann og fyrrv. og núv. varaformann og fleiri mektarmenn í þeim hópi? Ég held að það sé sú staðreynd sem þeir komast ekki fram hjá að allt ástand efnahagsmála, þar með talið vaxtastig, er mun betra í dag en það var í þeirra stjórnartíð. Sú ríkisstjórn sem nú hefur setið hefur náð miklum árangri og þeir reyna með frammíköllum og hávaða af því tagi sem hér hefur gengið á með að breiða yfir þá staðreynd að ástand efnahagsmála er allt annað og miklu betra en var í þeirra tíð. Þeir komast t.d. ekki fram hjá þeirri staðreynd að verðbólgan er núna sú lægsta sem verið hefur í áratugi og út af fyrir sig hefur náðst ákveðinn árangur í vaxtamálum, þótt hann sé ekki nógu mikill. Það sem hér er til umræðu er fyrst og fremst mat manna á því hvort þetta sé ásættanlegur árangur eða ekki.
    Því er ekki að leyna að innan ríkisstjórnarinnar hafa verið þau sjónarmið mjög sterk að þetta væri eitt það svið þar sem þyrfti að nást enn meiri árangur og út frá því erum við að tala. Mér finnst það dálítið merkilegt að í allri þessari umræðu í kvöld hafa menn rætt vextina eins og eitthvert afstætt hugtak sem gaman sé að mæla í einhverjum prósentustigum. En hvers vegna erum við að tala um það að vaxtastig skipti máli og hvað ætli sé aðalatriðið a.m.k. í mínum huga þegar ég ræði gildi þess að ná niður vöxtum og hafa hér hóflegt vaxtastig? Jú, ég held að það sé óhjákvæmilegt og eigi að vera óaðskiljanlegur hluti af árangri til lengri tíma litið og stöðugleika hér í efnahagsmálum að ná niður vaxtastiginu, fyrst og fremst vegna þess að undirstöðuatvinnugreinar íslensks efnahagslífs eru það skuldsettar að þær þola ekki hávexti. Við vitum hvert þetta var að fara eftir vaxtaokurstímann 1985 -- 1988. Við vitum að sjávarútvegurinn var nánast eignalaus grein og gjaldþrota orðin í lok þess glæsilega ferils, eða hitt þó heldur, sem þessa hávaxtastefnu einkennir. Og það er ekki síst nauðsyn þess að hafa þetta vaxtastig hóflegt frá sjónarhóli atvinnulífsins sem mér finnst að hér eigi að ræða út frá. En menn hafa talað um vextina eins og þeir séu eitthvert hugtak sem sé hægt að æfa sig með út og suður eins og það komi aðallega við í málfundaæfingum hvort þeir séu háir eða lágir.
    Mér finnst þess vegna að eitt af mörgu sem ástæða er til að staldra við sé sá samanburður sem birtist í töflu 6 í fskj. V í þessu plaggi sem við erum að ræða

og sýnir vaxtakjör á skammtímafjárfyrirgreiðslu til fyrirtækja í hinum ýmsu löndum. Og af því að menn voru að tala hér um að vextir á ríkisskuldabréfum væru í hærri kantinum hér á Íslandi, þá held ég að það sé fróðlegt fyrir menn að líta á þessa töflu og skoða það sem hún þó segir um aðstöðu íslenskra fyrirtækja og vaxtakjörin á fyrirgreiðslu til þeirra, skammtímalánum, víxillánum og skuldabréfum, kannski til 60 daga og því um líkt sem er gjarnan sú fyrirgreiðsla sem fyrirtæki verða að grípa til til að brúa ákveðin bil og ákveðnar sveiflur í tekjum og gjöldum. Þar eru tölur eins og 3, 4, 5% algengar og meðaltal sjöveldanna, stöndugustu efnahagsríkjanna, er 5,4% á sama tíma og 60 daga víxillán eru 9% á Íslandi. Það er þetta sem ég held að menn ættu að staldra svolítið við. Það eru þau áhrif beint á afkomuna í atvinnulífinu sem vaxtastigið hefur og auðvitað líka á skulduga einstaklinga, fjölskyldur og stofnanir og hverja þá aðila aðra sem nýta þurfa sér fjármagnsfyrirgreiðslu af þessu tagi.
    Ég er alveg sannfærður um það og þess vegna held ég að það sé hárrétt stefna sem hér hefur verið talað fyrir, m.a. af forsrh. og fjmrh., að það verði að takast að ná áframhaldandi lækkun vaxta hér sem hluta af stöðugleika og heilbrigðara efnahagsástandi til lengri tíma litið, kannski einkum og sér í lagi til að treysta undirstöður atvinnulífsins. Við vitum að þó svo að víðtækar aðgerðir hafi stórbætt rekstrarstöðu útflutningsgreinanna og m.a. mikil endurfjármögnun átt sér stað í gegnum þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til haustið 1988 og fram eftir ári 1989, sem vel að merkja Sjálfstfl. er nú að mestu leyti hættur að tala um, þeir gerðu tilraun til þess fyrst að tala um sjóðasukkið og millifærslukerfið og allt þetta ojbjakk sem þeim líkaði svo illa þarna í Sjálfstfl., þeir eru eiginlega alveg hættir að tala um þetta núna. Og ætli það geti ekki verið vegna þess að þetta hefur skilað góðum árangri? Þeir verða að viðurkenna það, sjálfstæðismenn, og þá kjósa þeir eðlilega að þegja um það. En auðvitað vitum við að þessar skuldir hafa ekki gufað upp. Íslenski sjávarútvegurinn t.d. er geysilega skuldsett atvinnugrein, því miður, og það þarf að stefna að því að styrkja undirstöður hans og auka eigið fé í greininni á nýjan leik sem brann því miður upp í þessari vitlausu stefnu vaxtafrelsisins og okursins á sínum tíma. ( ÞP: Er ekki vaxtafrelsi enn þá?) Jú, það er kannski einum of mikið vaxtafrelsi, hv. þm. Þorsteinn Pálsson. Það er einmitt vandinn. ( ÞP: Af hverju breytið þið því ekki?) Tímamótaákvörðunin, hv. 1. þm. Suðurl., er að mínu mati, svo að maður ræði það nú aðeins, einhver vitlausasta aðgerð sem lengi hefur verið framkvæmd. ( ÞP: Já, en af hverju breytir meiri hl. því ekki?) Fyrst og fremst vegna þess að það að gerbreyta svona um aðferðir og fyrirkomulag í vaxtaákvörðunarmálum og taka svona kollhnísa á efnahagsmarkaðnum eins og þá var gert er ákaflega óskynsamlegt, hv. þm. ( ÞP: En nú er ráðherrann í meiri hluta.) Bíddu nú við, hv. þm. Nú er það þannig að ég var alveg sammála því og hef lengi verið að að því bar að stefna að losa um stýringuna á þessum hlutum, því var ég sammála. En að mínu mati var það

mikill barnaskapur, ákaflega heimskulegt að ímynda sér að hinn tiltölulega veiki og vanþróaði íslenski efnahagsmarkaður og hið tiltölulga auma bankakerfi mundi ráða við slíkan kollhnís eins og þarna átti að fara. Og hvernig fór? ( Gripið fram í: Steingrímur Hermannsson ákvað það.) Ja, hann er líka farinn að sjá eftir því. Hvernig fór, hv. þm.? Hver var árangurinn? Jú, hann var svo glæsilegur m.a. að íslenski sjávarútvegurinn átti nokkra mánuði eftir í það að verða gjaldþrota sem atvinnugrein í heild sinni. ( ÞP: Hvers vegna eru vextirnir svo háir núna?) Við höfum nú náð vöxtunum talsvert niður, hv. þm., en það er m.a. það sem við erum að ræða, við viljum ná meiri árangri. Og smátt og smátt er náttúrlega að komast lag á þetta, en við erum ekki ánægðir enn. ( ÞP: Þeir hafa hækkað.) Þó að við séum með vextina 3% lægri en þeir voru í tíð hv. 1. þm. Suðurl. sem forsrh. þá erum við samt ekki ánægðir. Svo miklu betri viljum við vera en Sjálfstfl. að þetta er okkur ekki nóg.
    Það mætti auðvitað lengi ræða um þetta, hæstv. forseti, og ég veit að forseti er svo áhugasamur um þessi mál að hann mundi ekki telja eftir sér að hlusta á það nokkra stund enn með gleðibros á vör veit ég því þetta er auðvitað undirstöðuatriði sem við erum hér að ræða. En kannski eru aðstæður og tími til stefnu hér á Alþingi ekki með þeim hætti að það sé nú rétt að hætta sér allt of langt út í djúpar umræður um undirstöðuatriði málsins. En ég kemst þó ekki hjá því að nefna hérna og ræða pínulítið um íslenska bankakerfið af því að þetta hlýtur að tengjast ýmsum grundvallarspurningum þar. ( Forseti: Forseti vill aðeins minna hæstv. ráðherra á að tíminn líður og samkvæmt því samkomulagi sem allir hafa haldið hingað til vill nú forseti fara þess á leit við hæstv. ráðherra að ræðan verði ekki mjög löng.) Ræðumanni er vel ljóst að tíminn líður, hann hefur gert það lengi, a.m.k. í 4600 milljónir ára samkvæmt upplýsingum jarðvísindamanna, og einnig stóð það ekki til að þessi ræða yrði mjög löng, alla vega ekki miðað við sumar aðrar ræður sem hér hafa verið haldnar. En ég ætlaði að segja fáein orð um íslenska bankakerfið og enda svo á Seðlabankanum eðli málsins samkvæmt.
    Ég held að íslenska bankakerfinu sé ekki að öllu leyti sjálfrátt. Það er að mörgu leyti í klemmu sem það fær ekki sjálft ráðið við, þetta blessað bankakerfi. Staðreyndin er sú að í íslenska bankakerfinu er of mikill vaxtamunur. Það er of óhagkvæmt í rekstri, of dýrt og þarf á meiri vaxtamun að halda til þess að geta rekið sig en við þekkjum í nágrannalöndunum, þróuðum löndum. Ein aðferðin til þess að fela að hluta til þennan vaxtamun, eins og umhvrh. benti réttilega á, hefur verið sú að spila inn á sveiflur í verðlagi. Þetta er augljóst mál ef skoðuð eru vaxtaferlin fyrir síðustu 2 -- 3 missiri, þá er það alveg augljóst mál hvað menn hafa verið að reyna að gera í bankakerfinu. Þeir draga það í tvo, þrjá, fjóra mánuði að lækka vextina þegar verðbólgan er á niðurleið, en hækka þá, ekki bara um leið og hún sveiflast eitthvað upp á við, heldur fyrir fram á grundvelli spáa um það að í janúar eða febrúar eigi verðbólgan að hækka, þá hækka bankarnir vexti í nóvember eða desember fyrir fram. Á síðasta sumri, þegar verðbólgan var að fara niður úr 5%, drógu þeir það mánuðum saman að lækka nafnvextina í kjölfarið. Þannig eru þeir í raun að reyna að taka sér inn viðbótartekjur og fela að hluta til þann mikla vaxtamun sem þarf á að halda að því er virðist til að reka þetta óhagkvæma og því miður veika bankakerfi okkar. Ég held og hef lengi verið þeirrar skoðunar að ein af grundvallarmeinsemdum og vandamálum sem við höfum verið að glíma við í íslenskum efnahagsmálum sé of veikt og vanþróað bankakerfi og að hluta til ófaglegt af því að mér hefur löngum þótt reglur í sambandi við útlán og mat á fyrirgreiðslu einkennast meira af ást á steinsteypu en af raunsæju mati á því í hvað ætti að lána og hvað ekki. Ég sé ekki annað t.d. þegar ég skoða það hvers vegna ónefndar greinar og tilraunir í íslensku atvinnulífi hafa fengið jafnríka fyrirgreiðslu á köflum og raun ber vitni, að því er virðist út á glórulaus fjárfestingarævintýri, en að þar hafi ráðið meiru íbúðarhúsaeignir hluthafanna eða stofnendanna en raunsætt mat á væntanlegri arðsemi atvinnurekstrarins, því miður. Steinsteypuást íslenska bankakerfisins er þannig ein af meinsemdunum sem við erum að glíma við.
    Að lokum svo um Seðlabankann sem ýmis orð hafa fallið hér um. Það mætti nú margt um það segja. Mér þótti það ákaflega lærdómsríkt sem ungum manni hér fyrr á öldinni, um áramótin 1988 -- 1989, það er svo langt orðið síðan, þegar ríkisstjórnin átti fundi með bankastjórn Seðlabankans. Það var verið að reyna að fá bankastjórn Seðlabankans sem þá var til þess að taka þátt í því ferli sem ríkisstjórnin setti upp til þess að lækka verðbólgu og vexti frá áramótum 1988 -- 1989 og út það ár. Þá stóðu yfir fundir og viðræður við bankastjórn Seðlabankans um þetta verkefni, að ná niður verðbólgunni og vöxtunum. Þeir höfðu ekki mikla trú á þessu og þeir voru harla tregir til yfirleitt að fallast á þessa vitleysu sem ríkisstjórnin var að setja þarna upp. Í staðinn fyrir að fella gengið á einu bretti um 20 -- 30% með tilheyrandi æfingum eins og menn hafa reynt hér á Íslandi eða höfðu reynt í 20 ár samfellt, þá vildum við reyna að taka þetta hægt í ákveðnum þrepum út allt árið, 2% í senn eða svo og reyna að forðast þannig að þetta færi venjulegan kollhnís. Seðlabankinn hafði enga trú á þessu og það þurfti að draga hann nauðugan til þess að vera með í þessu prógrammi. En hvaða árangri hefur það skilað? Jú, það hefur skilað þeirri stöðu sem við stöndum í í dag. Mér eru þessi fundahöld minnisstæð og ákveðnar ræður sem þarna voru fluttar og ég segi það hreinskilnislega hér úr þessum ræðustóli, eftir þá lífsreynslu hef ég leyft mér síðan að draga í efa traust mitt á Seðlabankanum. Ég ber takmarkað traust, ósköp einfaldlega til faglegs hæfis Seðlabankans og ég held að ábyrgð Seðlabankans á óstöðugleika í íslenskum efnahagsmálum á undanförnum árum, sem er sú stofnun sem á að gegna lykilhlutverki lögum samkvæmt, þessi ábyrgð verði ekki umflúin. Og ég leyfi mér líka, því miður verð ég að segja, að efast upp að vissu

marki um hlutlægni Seðlabankans þegar hann er að meta þessa hluti. Það er óhjákvæmilegt því miður. Ég get ekki flokkað mistök Seðlabankans í nóvember og desember og fram í janúarmánuð sl., öðruvísi en sem meiri háttar vanhæfni, þau mistök sem leiddu til þess að bankarnir tóku vitlausar vaxtaákvarðanir og reynslan hefur sýnt að voru ástæðulausar. Reynt var að fá þá til að fallast á að það væru ekki tilefni til þess að grípa til þessara ótímabæru vaxtahækkana. Ég held að það eigi ekki að ráðast á menn fyrir að ræða hér um hlutverk Seðlabankans. Auðvitað verður Seðlabankinn, eins og aðrar stofnanir af þessu tagi í þjóðfélaginu, að þola gagnrýni og hann á að fá hana þegar tilefni eru til þess. Það á ekkert að þegja um það ef Seðlabankinn gerir mistök frekar en aðrir. Seðlabankinn hefur gert mistök. Hann hefur sent frá sér vitlausar spár sem eru að koma okkur í koll núna í gegnum ótímabærar og óþarfar vaxtahækkanir og þá á að segja það og ekkert að hlífa Seðlabankanum við því frekar en öðrum stofnunum nema síður væri.