Kvöldfundir
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Þetta er hárrétt ábending hjá hv. þm. Forseti hefði auðvitað átt að byrja á því að lýsa fyrirhuguðu fundahaldi. Á þessum fundi, sem mun ekki standa miklu lengur en til kl. 7, er fyrirhugað að afgreiða mál út úr Sþ., þ.e. 5., 6. og 7. mál, og að mælt verði fyrir 8. dagskrármáli. Á kvöldfundi í kvöld hefur svo um samist að áfram haldi umræða um þáltill. hæstv. iðnrh. um samninga um álver. Vissulega gerir forseti sér ljóst að nokkuð mikið er lagt á hv. þm. um fundahöld nú á kvöldin, en eins og hv. þm. vita, er ætlunin að ljúka þingi á föstudagskvöld og forsetar þingsins eiga enga aðra kosti en að reyna að koma frá þeim málum sem nauðsyn krefur.
    Ég vil enn ítreka að hv. þm. hafa ekki þurft að sækja mikið af kvöldfundum á þessu þingi og fyrsti næturfundurinn sem við höfum haldið var sl. nótt. Á morgun eru að vísu nefndastörf hjá einhverjum hv. þingnefndum, en þingfundir verða engir þannig að það er nú von forseta að þingmenn geti notið einhverrar hvíldar á morgun, a.m.k. þeir sem ekki eiga að taka þátt í eldhúsdegi, þannig að forseti mun halda sig við það að hér verði kvöldfundur, að loknu kvöldmatarhléi að sjálfsögðu, þannig að á þessum fundi verða aðeins afgreidd þessi fjögur mál. 8. dagskrármálið hefði forseti ekki haldið að væri mikið umræðumál vegna þess að þar er um samkomulagsmál að ræða sem fulltrúar allra þingflokka hafa komið að og með tilliti til þess hversu við erum orðin naum í tíma hefði nú forseti haldið að það mál þarfnaðist ekki mikillar umræðu heldur fyrst og fremst afgreiðslu.