Samningar um álver
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Hér er verið að efna til kvöldfundar í sameinuðu þingi til þess að ræða mál sem ríkisstjórnin virðist leggja mikla áherslu á að fái umfjöllun í þinginu. Það er þess vegna sem ég tel forsendu fyrir því að þetta mál verði rætt hér á kvöldfundi, einum kvöldfundinum enn, að hæstv. ráðherrar verði hér allir og gegni þingskyldum sínum eins og ætlast er til um okkur þingmenn. Ég met það að hér eru komnir ráðherrar til fundar en það vantar í hópinn og ég óska eftir því að það verði beðið um það að þeir hæstv. ráðherrar, sem ekki eru mættir hér í þingsal, komi hér vegna þess að ég þarf að eiga orðastað við þá alla í sambandi við þetta mál.
    Ég vænti þess að það sé skilningur á þessari ósk af minni hálfu og hæstv. forseti hlutist til um það. Jafnframt vænti ég þess að ráðherrarnir hæstv. sem hér eru staddir sjái sér fært að vera viðstaddir umræðuna hér í kvöld.