Samningar um álver
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir viðleitni hans að fá hæstv. ráðherra hér til fundar og ég treysti því að við því sé brugðist af þeirra hálfu. Ég vænti þess einnig að það sé fullur skilningur á því meðal hv. þm. almennt að það sé eðlilegt að ráðherrar í ríkisstjórninni séu viðstaddir hér á síðustu starfsdögum þings til þess að taka þátt í umræðum og afgreiðslu mála. Annað væri mjög óeðlilegt, virðulegur forseti, þegar til þess er ætlast af okkur þingmönnum að fjalla um mál hér við nokkuð örðugar aðstæður oft á tíðum.
    Ég ætla hér að fjalla um dagskrármálin bæði sem fyrir liggja, till. til þál. um samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi og þá skýrslu sem hæstv. iðnrh. hefur lagt fyrir þingið í tengslum við þennan tillöguflutning.
    Ég vil þó áður en ég kem að málinu sjálfu aðeins vekja athygli á því sem gerðist hér áðan á þingfundi sem er nokkuð sérstætt. Það var staðhæft að það væri samkomulag um það hér að halda áfram umræðu um þetta mál. Svo reyndist ekki vera. Það hafði verið gert samkomulag við annan stjórnarandstöðuflokkinn að taka mál þetta til umræðu. Hér kom upp formaður þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Ólafur G. Einarsson, og greindi frá því að hann hefði orðið við tilmælum og gert samkomulag um það að umræða um þetta mál mætti fara fram hér í kvöld. ( ÓE: Fyrir mig.) Fyrir sig og hann treysti því að það mundu aðrir hv. þm. Sjálfstfl. fylgja og styðja það samkomulag sem hann hefði gert fyrir hönd þingflokksins.
    Af hverju er ég að vekja athygli á þessu? Vegna þess, virðulegur forseti, að þessi atburður sýnir okkur inn í ákveðið baksvið þess máls sem hér er til umræðu. Sjálfstfl., forusta Sjálfstfl. í þinginu, gerir samkomulag um að þessi umræða megi hér fram fara, sem er mjög óvenjulegt eins og háttar starfsemi í þinginu og fundahaldi að undanförnu, en svo ríkan skilning hefur forusta Sjálfstfl. á því að þetta mál hæstv. iðnrh. fái hér framgang að þeir eru reiðubúnir að víkja frá því sem venjulegt er hér á þinginu og hefð er fyrir, þ.e. að halda hér einn kvöld- og næturfundinn enn.
    Ég tel að þetta sé vísbending um það sem er í gerjun í baksviði stjórnmálanna á Íslandi. Það eru þær þreifingar sem eru í gangi á milli eins stjórnarflokksins, Alþfl., annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar um möguleika á myndun landsstjórnar á Íslandi eftir komandi kosningar.
    Hér erum við að fjalla um stórmál í aðdraganda kosninga en það eru fleiri stórmál en þetta sem við ræðum hér. Annað mál sem var raunar á dagskrá sameinaðs þings í dag, skýrsla hæstv. utanrrh. um viðræður um Evrópskt efnahagssvæði. Þar fer Alþfl. einnig með forustu af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Þar er um að ræða enn þá stærra mál heldur en það sem við ræðum hér þó að skyldleiki sé með báðum þessum málum. Og þar hefur það komið fram, og vefst ekki fyrir þeim sem hafa fylgst með þessum

málum báðum, að tengslin á milli stefnu Alþfl. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar í báðum þessum málum eru svo rík að líkurnar á því að þessir flokkar leiti samstarfs eftir komandi alþingiskosningar eru dagvaxandi. Það er ekki aðeins í sambandi við þessi tvö stóru mál, heldur kemur þetta einnig fram í skyldum málum sem varða efnahagsstarfsemi í landinu og minni ég á þá umræðu sem fór hér fram í gærkvöldi um vaxtamál og þróun vaxta í þjóðfélaginu. Þar heyrðu menn tilhugalífið, þar urðu menn varir við það hvernig hæstv. viðskrh. voru slegnir gullhamrarnir af hálfu Sjálfstfl. Vissulega þarf þetta ekki að koma okkur mjög á óvart sem höfum fylgst með stefnu Alþfl. innan núverandi ríkisstjórnar í mikilsverðum málum og stefnu Sjálfstfl. og máttleysi Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu þegar um er að ræða afstöðu til málefna sem Alþfl. öðrum fremur ber fyrir brjósti.
    Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á þessu baksviði þessa stóra máls sem við ræðum hér og ég undrast það mjög, virðulegur forseti, að aðrir flokkar í ríkisstjórn landsins skuli ekki ganga með opin augun hvað þetta varðar, horfast í augu við þetta tilhugalíf sem þarna er í uppsiglingu af fullum krafti og bregðast við því með þeim hætti sem nauðsynlegt er, eigi það ekki að gerast að þessi öfl í þjóðfélaginu, í Alþfl. og Sjálfstfl. sem þar fara með forustu, nái saman í kjölfar komandi alþingiskosninga.
    Hvers vegna beitir ekki Framsfl. sínu afli til að opna augu þjóðarinnar fyrir þessari hættu sem blasir hér við og hvers vegna gerir Alþb. ekki meira af því að vara við þeirri hættu sem þarna er í uppsiglingu og leyfa hæstv. iðnrh. að leggja hér fram skýrslur og tillögur af því tagi sem um er að ræða í álmálinu og reyna þar með að draga aðra flokka, þessa samstarfsflokka í ríkisstjórninni með sér út á svellið og gera þá samseka í þessum stóru málum? Íslensk þjóð þarf á öðru að halda en lognmollu og óljósum skilum í pólitík, jafnstór og afdrifarík mál og nú eru uppi í þjóðmálum, þar sem eru tengslin við Evrópu og þeir samningar sem hæstv. utanrrh. er að undirbúa og þeir samningar sem hæstv. iðnrh. fer með umboð fyrir fyrir hönd ríkisstjórnar í sambandi við byggingu risaálbræðslu sem hann fyrirhugar að verði staðsett á Keilisnesi.
    Þessi mál til samans mynda uppistöðuna í landsmálapólitíkinni og horfunum varðandi pólitíkina á Íslandi, ekki aðeins á næstu mánuðum, fram yfir kosningar, heldur á næstu árum. Og svo er víst sem tvisvar sinnum tveir eru fjórir að ef þessir flokkar, ef Alþfl. nær fram þessum hugðarefnum sínum, ef hann nær þeim fram, þá ætlar hann sér, hvernig svo sem þessar samningaviðræður þróast, að bindast samtökum við hvern þann sem getur tryggt framgang þeirra hér á Alþingi og í komandi ríkisstjórn. Því það er enginn flokkur í landinu sem er jafnblindur í sambandi við þá stóru hagsmuni sem hér er um að ræða, sem gengur svo fortakslaust fram án þess að horfa til hægri eða vinstri í þessum efnum, eins og Alþfl., vegna þess að þó að Sjálfstfl. hafi nú fengið nýja forustu þá er mér fullkunnugt um það að í þeim stóra

flokki eru býsna margir sem væru hikandi við að skrifa upp á þá stefnu sem þarna er á ferðinni, alveg sérstaklega varðandi hið Evrópska efnahagssvæði, að ekki sé nú talað um áhugamál forustu Sjálfstfl. í sambandi við Evrópubandalagið, að tengjast þar enn fastar heldur en í gegnum Evrópskt efnahagssvæði sem litið er á aðeins sem fyrsta skref inn í þessa stóru ríkjasamsteypu og stór-ríkið sem þarna er í undirbúningi.
    Hvers vegna taka ekki flokkar í landinu, sem hafa staðið fyrir annað, fastar á í þessum efnum, Framsfl. og Alþb.? Og hvernig stendur á því að Kvennalistinn, sem tekur hér með heiðarlegum og einörðum hætti þátt í að afhjúpa þann gjörning sem hæstv. iðnrh. stendur hér fyrir í sambandi við álmálið, er að tæpa á því að Sjálfstfl. geti verið vænlegur til fylgilags að kosningum loknum? Allt eins, eins og við höfum alveg nýlega heyrt frá fyrsta frambjóðanda Kvennalistans í væntanlegum alþingiskosningum hér í Reykjavík.
    Ég er að nefna þetta hér, virðulegur forseti, vegna þess að við verðum að skoða þessi mál í samhengi sem við erum að ræða hér. Þetta stóra mál sem hér er til umræðu, ég get tekið undir að það er stórt, ég vil kannski ekki nota orðið ,,mikill`` eins og gjarnan er gert af Alþýðublaðinu og hæstv. iðnrh. þegar rætt er um álmálið, hina miklu forustu iðnrh. og vitnað var til hér þegar lesin var forustugrein í Alþýðublaðinu við umræðuna í gær, forustugrein sem hefði vel getað verið ættuð úr flokksmálgagni Kim Il Sungs í Norður-Kóreu, svo fortakslaus voru loforðin sem þar flutu fram í þeim skrifum.
    En þá ætla ég, virðulegur forseti, að snúa mér að þeirri till. til þál. sem hér liggur fyrir og taka þar á einstökum efnisþáttum og víkja jafnframt að skýrslunni sem hæstv. iðnrh. ber fram.
    Fyrst af öllu vil ég ræða það hvers vegna hæstv. iðnrh. er að flytja þessi mál hér inn á Alþingi. Mál sem margir segja, þar á meðal samstarfsaðilar hæstv. ráðherra í ríkisstjórn, að sé þarflaust að taka afstöðu til á þessum tíma. Hvers vegna vill hæstv. iðnrh. að Alþingi álykti að halda skuli áfram samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers? Hví leggur hann kapp á það? Og hvers vegna ætlar hann að afla sér fjárhagslegra heimilda í gegnum lánsfjárlagafrv. og lánsfjárlög, til þess að geta haldið áfram fjáraustri í þetta mál? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir það, að átta okkur á því hvers vegna ráðherrann leggur þetta ofurkapp á að þröngva hér í gegnum þingið þessum málum báðum og fá uppáskrift þingsins í þessum efnum.
    Ástæðan er sú, að mínu mati, að hæstv. iðnrh. óttast það, sem vonlegt er, að mikill hluti íslensku þjóðarinnar átti sig á því að það mál sem hann hefur verið að undirbúa --- mig langar til að segja rembast við --- allt kjörtímabilið, undirbúning að byggingu álvers útlendinga hérlendis, horfurnar í sambandi við það mál eru ekki mjög glæsilegar, séð með gleraugum hæstv. ráðherra. Líkurnar á því að þetta mál sé annað heldur en nýju fötin keisarans eru ekki mjög miklar. Þess vegna leggur hæstv. ráðherra þetta ofurkapp á að

byggja upp þau pótemkintjöld í sambandi við málið og afla hér uppáskrifta á Alþingi Íslendinga til þess að geta veifað þessu máli með öðrum forustumönnum Alþfl., a.m.k. hér á suðvesturhorninu, ég er ekki viss um, hæstv. utanrrh., að þetta verði nefnt jafnoft fyrir austan í kosningabaráttunni af geistlegum öflum sem þar fara fram fyrir Alþfl. En það eru þessi pótemkintjöld sem á að draga upp og gera trúverðug í væntanlegri kosningabaráttu og náttúrlega alveg sérstaklega í því kjördæmi þar sem Alþfl. er búinn að kaupa --- svo notað sé enskulegt orðalag --- er búinn að taka við hæstv. iðnrh. sem fyrsta frambjóðanda Alþfl.
    Hæstv. iðnrh. var, eins og menn vita, fram eftir öllu síðasta ári ekki við eina fjöl felldur í sambandi við framboðshugleiðingar. Þau voru færri kjördæmin þar sem ekki kom til álita að hæstv. ráðherra færi fram heldur en hin sem hann var bendlaður við. Þessi gífurlega vinsæli ráðherra, hæstv. iðnrh., var svo eftirsóttur víða um land að það voru bornar í hann víurnar og það varð til þess að aðrir þingmenn Alþfl. urðu jafnvel að standa upp til þess að verða ekki niðurlægðir ef hæstv. iðnrh. þóknaðist að bera niður í þeirra kjördæmi, og er ég þá m.a. að hugsa um hæstv. forseta Nd., þingmann Norðurl. e., sem tók pokann sinn vegna þess að það var búið að gera honum ljóst að hann yrði að gjöra svo vel að hypja sig úr kjördæmi sínu ef hæstv. iðnrh. hentaði að nema þar land með álbræðsluhugmynd sína.
    Það er hins vegar staða málsins, eins og hún hefur þróast og hefur orðið æ ljósari eftir því sem nær dregur kosningum, að hæstv. iðnrh. hefur ekki þetta mál á hendi. Þetta er sýnd veiði en ekki gefin, hæstv. ráðherra. Þess vegna eru menn að reiða hér fram þá pappíra á Alþingi með því orðalagi þar sem talað er í framsöguhætti um álbræðslu á Keilisnesi. Þar sem fullyrt er að það sé aðeins um nokkurra mánaða töf á því að ræða að samningar gangi upp og hægt verði að leggja hér fram frv. á Alþingi, undirbyggt af samningum, þótt það hafi raunar verið ætlun ráðherrans að smeygja frv. inn án samninga og áður en samningar lægju fyrir bókaðir og undirritaðir af gagnaðilanum, Atlantal-hópnum. Þess vegna tekur hæstv. iðnrh. þannig til orða, eins og við lesum í lok þessarar þáltill. hans og menn geta lesið sér til um víða í skýrslunni hans, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Brýnt er að tillaga þessi til þingsályktunar og ofangreindar lánsfjárheimildir verði samþykktar á þessu þingi. Með því hefur af Íslands hálfu verið gert það sem gera þarf`` --- takið eftir orðalaginu --- ,,Með því hefur af Íslands hálfu verið gert það sem gera þarf til að gangsetning álversins frestist aðeins um fimm mánuði, þ.e. frá 1. ágúst 1994 til áramótanna 1994 -- 1995, þótt samningsgerðin sjálf og viðræður um fjármögnun álversins taki meiri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir.``
    Svona nákvæmt er þetta. Þetta er nánast upp á dag sem um er að ræða frestunin í þessu máli sem hefur verið að frestast mánuð eftir mánuð og missiri eftir missiri allt kjörtímabilið í höndum hæstv. iðnrh. Það

er með þessum tillöguflutningi verið að reyna að láta líta svo út að hæstv. ráðherra hafi þetta svona nokkurn veginn fast í hendi, ef það séu ekki einhverjir óþurftargemlingar hér á Alþingi Íslendinga, hikandi öfl og dragbítar í ríkisstjórn landsins, sem koma í veg fyrir það að hæstv. ráðherra komi siglandi með álverið sem stafnbúi í fleyi Atlantsáls til að renna í hina nýju höfn við Flekkuvík hjá Keilisnesi.
    Það er með fádæmum, virðulegur forseti, að heil ríkisstjórn skipuð tug ráðherra, kannski einum betur, ég man nú ekki alltaf töluna, skuli gerast þátttakandi í þessum skrípaleik sem hér er viðhafður af hæstv. iðnrh. í þessum kosningabæklingi Alþfl. sem hér er reiddur fram á Alþingi og er með gagnsærri plöggum sem sést hafa. Ég tala nú ekki um ef menn fara nú að líta á krónurnar sem búa þar á bak við sem verið er að halda fram að komi hér inn í íslenskt efnahagslíf á næstu mánuðum og árum.
    Nú ætla ég að sjálfsögðu ekki að taka af um það að það geti gerst að hinir erlendu aðilar taki í hönd hæstv. iðnrh. eða þess sem á eftir kemur, ekki síst ef það verður sú ríkisstjórn sem ég var að leiða líkur að að væri á teikniborðinu hjá hinni nýju forustu í Sjálfstfl., að það gæti komið til þess, en það er algerlega háð því að mat hinna erlendu gagnaðila, samningsaðila iðnrh., Atlantsál-forustunnar, að mat þeirra sé það að rétti tíminn sé kominn, að forsendurnar séu fyrir hendi, að málið sé þroskað, að þeir hafi náð þeim hámarksárangri sem vænta má gagnvart stjórnmálaöflum á Íslandi í sambandi við samninga og samningamöguleika af sinni hálfu. Því þetta eru engir veifiskatar sem eru þarna á ferðinni. Þetta eru menn sem kunna til verka. Þetta eru menn sem eru reyndir í sínum ,,bisniss``. Þetta eru menn sem eru vanir að kljást við veikgeðja ríkisstjórnir víða um heim. Menn sem eru þrautþjálfaðir í að fást við lönd þriðja heimsins, koma sér þar fyrir til þess að tryggja hámarksávöxtun síns fjármagns. Og það vill nú svo til, hæstv. forsrh., það vill nú svo til að ef við lítum til málsmeðferðarinnar hjá ríkisstjórn þinni í sambandi við þetta mál og af hálfu hæstv. iðnrh., þá stöndum við algjörlega í sporum þriðjaheimsríkis miðað við það hvernig á málunum er haldið, hvernig menn láta vefja sér um fingur af viðmælendum sínum, þrátt fyrir það að Íslendingar ættu að vera orðnir sæmilega læsir í þessum viðskiptum vegna þess að þetta er ekki fyrsta álverið sem er reist á Íslandi, þetta er ekki fyrsta álverið, þetta er ekki í fyrsta sinn sem við tökumst á við svona verkefni. En því miður er svo að sjá sem við höfum lítið lært frá því að samningar voru gerðir um álbræðslu í Straumsvík á sjöunda áratugnum.
    Þetta er kannski kjarnaatriði í þessu máli, en ég spyr hv. alþm. og hæstv. ráðherra, samstarfsmenn iðnrh. í ríkisstjórn: Ætla þeir virkilega að láta Alþfl. draga sig út á þetta svell?
Ætla þeir að gerast ábekingar á þessum kosningabæklingi Alþfl.?
    Ég sé það að forustu Sjálfstfl. flökrar ekkert við. Hún ætlar ekkert að spyrna á móti því hér á Alþingi að þessi kosningabæklingur komist í hendur iðnrh.

með stimpli Alþingis Íslendinga miðað við þær undirtektir sem fram komu hjá formanni þingflokks Sjálfstfl. hér fyrr á þessum degi. ( EgJ: En Alþb., hvað ætlar það að gera?) Já, hv. þm. Egill Jónsson, hvað ætlar Alþb. að gera? Þetta er einmitt ágæt spurning og ég bið hv. þm. um að koma hér upp í ræðustól og bera þessar spurningar fram við Alþb. og þingmenn þess því það er full ástæða til að spyrja líka Alþb. að því, hvað ætlar það að gera í sambandi við þetta? (Gripið fram í.) Á ég að segja hv. þm. eitt í þessu sambandi? Ég hef von um það að sá flokkur, sem ég hef starfað í lengi og tel mig þekkja þokkalega til þar innanvert, muni þegar á herðir halda áttum í þessu máli. En þá þarf hann líka að taka sig á. Og m.a. í þeim tilgangi erum við að ræða þetta mál hér á Alþingi, m.a. af þeim sökum stend ég hér í þessum ræðustól og ætla mér að fara yfir þetta mál lið fyrir lið, eins og skylt er að gera af okkur þingmönnum, hvar í flokki sem við stöndum. Ég óttast hins vegar, virðulegur þingmaður Egill Jónsson, að það kunni að vera að sumir af hv. þm. hafi ekki haft aðstæður til þess núna undanfarna daga vegna anna í þinginu að fara yfir þessa skýrslu, þessa skýrslu iðnrh. um álver á Keilisnesi, og átta sig á innihaldinu sem er að sjálfsögðu forsenda fyrir því að menn reyni að meta þetta mál öðruvísi en með því að horfa á flokkslit eða flokksskírteini eða fylgja einhverjum forustusauðum sem eru að spekúlera í því hvernig kaupin geti gengið á eyrinni að kosningum loknum.
    Ég spyr hv. þm. að austan, Egil Jónsson: Hvernig líst honum á innihaldið í þessari skýrslu? Er hann búinn að fara yfir það, ætlar hann að vera þátttakandi í því að skrifa upp á kosningabækling Alþfl. varðandi álver á Keilisnesi? Ég beini þeirri spurningu einnig til annarra sjálfstæðismanna sem hér eru, þar á meðal til hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar sem situr hér í þingsal --- og fer nú kannski að styttast í veru hv. þm. um sinn. Ég segi að mörgu leyti því miður vegna þess að ég held að hann sé einmitt einn af þeim þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa svolítið jarðsamband við það Ísland, sem ég vil sjá þróast og dafna áfram, Ísland sem heldur utan um sínar auðlindir, sem veit á hverju við lifum og hefur áhuga á því að standa vörð um þá undirstöðuhagsmuni. Þeim þingmönnum fer því miður fækkandi og auðvitað munar þar mest um þegar þeim fækkar hlutfallslega í Sjálfstfl. vegna þess hversu margir fulltrúar sitja fyrir Sjálfstfl. á þingi.
    Það eru váleg tíðindi sem hafa verið að gerast í þessum stóra flokki, Sjálfstfl., að undanförnu og sem innsigluð voru með nýjum formanni um síðustu helgi. Það er ekkert gamanmál. Ég tek ekki undir það að það sé sami rassinn undir fyrrverandi formanni Sjálfstfl. að öllu leyti og þeim sem við tekur. Ég tel mig geta lesið það vel í mál manna og samskipti við menn að ég hefði kosið að sjá þar aðra niðurstöðu Íslands vegna heldur en raun varð á og ætla ég þó ekki að fara að hlutast til um innri málefni Sjálfstfl., ég hef alveg nóg að gera að því er varðar minn flokk, að því er það snertir. En ég leyfi mér, virðulegir þingmenn, að lesa einnig í spil annarra flokka vegna þess

að í okkar þingræði og lýðræði hér á landi skiptir að sjálfsögðu máli hvernig þar er skipað í hverju sæti, hvaða stefna verður þar ofan á, hvaða stefnu er þar fylgt. Undir því eru örlög Íslands komin og þróun mála hér á næstu árum.
    Hæstv. iðnrh. --- hvert hefur hæstv. ráðherra brugðið sér? Ég ætlaði aðeins að ræða við hæstv. ráðherra frekar um ástæðurnar fyrir því ofurkappi sem hann leggur á að þröngva þessum málum sem hér eru kynnt í gegnum þingið. Það væri hægt að grípa mjög víða niður í þeim efnum. Ég ætla að grípa niður hér í ræðu sem hæstv. ráðherra hélt fyrir ári síðan á vettvangi Félags ísl. iðnrekenda, en svo vill til að hæstv. ráðherra er að fara inn á sama vettvang á morgun, á aðalfund Félags ísl. iðnrekenda, og halda þar nýja álræðu og nýja Evrópuræðu. Hvað sagði hæstv. ráðherra í fyrra við Félag ísl. iðnrekenda? Það eru bara fáeinar línur sem ég vitna hér til af mörgum sem ástæða gæti verið til að lesa. Undir fyrirsögninni ,,Álsamningar, undirritun viljayfirlýsingar``, en sú yfirlýsing var einmitt undirrituð fyrir réttu ári síðan, þann 13. mars 1990. Þá sagði ráðherrann:
    ,,Það eru auðvitað engar fréttir í þennan hóp að í fyrradag undirritaði ég fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar og forstjórar þriggja álfyrirtækja viljayfirlýsingu um að ljúka samningum um nýtt álver hér á landi fyrir 20. sept. nk. Með undirritun þessarar yfirlýsingar er náð mjög mikilvægum áfanga í þessu máli sem nú hefur verið unnið að um þriggja ára skeið.
    Ég er sannfærður um`` --- sagði iðnrh. á Hótel Loftleiðum fyrir réttu ári --- ,,að djúp alvara búi að baki undirskrift forstjóranna þriggja og að nú séu vaxandi líkur á því að þessir samningar takist innan settra tímamarka.``
    Hvað ætli hæstv. ráðherra sé búinn að halda síðan oft viðlíka ræður og hafa uppi álíka fullyrðingar? Auðvitað verða alþingismenn að skilja vandræði hæstv. iðnrh. Þau eru ekki lítil þau pólitísku vandræði sem hæstv. ráðherra er í, en þeim muni minni ástæða er það fyrir okkur alþingismenn að fara að hlaupa til að undirrita skuldbindandi yfirlýsingar og samþykktir og veita fjármagn með samþykktum hér á Alþingi Íslendinga inn í þetta ævintýri hæstv. ráðherra, inn í þennan vandræðagang. Hvaða ástæðu höfum við til þess, þingmenn úr öðrum flokkum, að fara að skrifa upp á þennan býsna dýra kosningabækling Alþfl. og hæstv. ráðherra? Ég hef ekki komið auga á rökin fyrir því, en ég ætla hér að víkja að nokkrum þáttum --- virðulegi forseti, hæstv. ráðherra er genginn á dyr. Ég ætlaði að fara að eiga frekari orðastað við hæstv. iðnrh. en hann er genginn á dyr. Eigum við að búa við það að tala við menn hér í gegnum veggina, við hæstv. ráðherra? --- Hæstv. ráðherra birtist ekki enn, en vegna þess að hann kann nú kannski innihaldið í ræðunni sem hann flutti í fyrrakvöld, þá get ég nefnt hér fáein atriði á meðan hann er að skila sér í þingsal.
    ,,Það er brýnt,`` sagði ráðherrann hér í fyrrakvöld, ,,að Alþingi samþykki þessar þrjár tillögur`` --- það er brýnt --- ,,og leggi með því af Íslands hálfu grunn að

því að álver á Keilisnesi geti tekið til starfa frá áramótunum 1994 -- 1995. Með samþykkt tillagnanna má tryggja`` --- takið eftir orðalaginu --- ,,Með samþykkt tillagnanna má tryggja að gangsetning álversins frestist aðeins um fimm mánuði frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og ráðgert var við undirritun yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda og Atlantsálsaðilanna 13. mars 1990.`` --- ,,Með samþykkt tillagnanna má tryggja``. Hafa menn heyrt önnur eins býsn frá ráðherra í ríkisstjórn landsins? Að mæla hér fyrir þingmáli sem hann hefur dregið ríkisstjórnina með sér til að fá að flytja hér inn á Alþingi Íslendinga og bera það hér fram við Alþingi að með því að samþykkja þennan pappír hér sé verið að tryggja samninga um álver á Keilisnesi. --- Hvar er hæstv. forsrh.? Virðulegur forseti. Ég hélt að ríkisstjórnin ætlaði að vera hér nærri og höfuð hennar var hér fyrir skemmstu því við lesum hér í mál hæstv. iðnrh. frá því í fyrrakvöld ekkert minna en að með því að samþykkja þessa tillögu í fjórum línum séum við að tryggja framgang samninga um álbræðslu á Keilisnesi. Það er nú ekkert minna.
    Ég hlýt að spyrja forsrh. hvernig á því standi að hann sem höfuð ríkisstjórnarinnar skuli gangast inn á það að slík tillaga sé flutt á Alþingi Íslendinga undir þessum formerkjum sem bæði stendur í grg. og hnykkt er á í málflutningi hæstv. iðnrh. (Gripið fram í.) Ég kem kannski að fleiri þáttum málsins seinna.
    Nú er sem sagt reiknað með, segir hæstv. ráðherra hér í fyrrkvöld, að áramótin 1994 -- 1995 verði upphaf framleiðslunnar. ,,Þetta á að vera unnt þótt samningagerðin um álverið og viðræður um fjármögnun þess taki nokkuð lengri tíma en áður var gert ráð fyrir.`` --- Hér er kominn hæstv. sjútvrh. sem stundum er staðgengill forsrh. landsins. ( Sjútvrh.: Ætlar þú ekki að bjóða mig velkominn?) Ég gleðst sérstaklega yfir því. Það var einmitt það sem ég ætlaði að segja, svo og hitt að vekja athygli hæstv. sjútvrh. á því að ríkisstjórn landsins, sem hann situr í, telur sig samkvæmt þessari þáltill. og orðum hæstv. iðnrh. vera að tryggja framgang samninga um álbræðslu á Keilisnesi, að vera að tryggja að slíkir samningar séu í höfn og framleiðsla hefjist um áramótin 1994 -- 1995.
    Af því að sjútvrh. er hér viðstaddur þá væri ástæða til þess fyrir hæstv. sjútvrh. að fara sérstaklega yfir þann þátt sem sneri að sjávarútvegsmálum í ræðu hæstv. iðnrh. hér í fyrrakvöld, hvernig hann las í þau mál og hvernig hann tengdi þessar hugsjónir sínar um álbræðslu á Keilisnesi við aðstæður í sjávarútvegi á Íslandi. Ég vil ekki fullyrða að hann hafi verið að kenna hæstv. sjútvrh. þar um stöðu mála í öllum greinum, það vil ég ekki segja, en hins vegar hefur hæstv. iðnrh. með málflutningi sínum verið með óbeinum hætti að gagnrýna meðferð sjávarútvegsmála hér undanfarin ár og að draga kjarkinn úr íslenskri þjóð sem fiskveiðiþjóð með því að sverta stöðu mála langt umfram það sem ástæða er til að gera.
    Hvaða málflutning hafði hæstv. iðnrh. ekki uppi hér þangað til í fyrravor til að sanna ágæti og þýðingu þessarar álbræðslu á Keilisnesi? Ég veit að

hæstv. forsrh. kannast vel við þann samanburð sem hæstv. iðnrh. hafði uppi varðandi þýðingu þessa máls þegar hann sagði: Hvert tonn af áli jafngildir einu tonni af þorski upp úr sjó hvað þýðingu snertir fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Þetta endurtók hæstv. iðnrh. seint og snemma frá því sumarið 1989 og þangað til í fyrravor að fyrir lá umsögn frá þeirri stofnun sem hann veitir forstöðu, fyrir utan að vera iðnrh. og viðskrh. í ríkisstjórninni, þ.e. Þjóðhagsstofnun, stofnuninni þar sem hann situr enn sem forstjóri, ( Forsrh.: Nei, hann er hættur.) þar sem hæstv. iðnrh. hefur setið sem forstjóri fram undir þetta en nú segir hæstv. forsrh. okkur tíðindi --- að hæstv. iðnrh. sé hættur sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Þetta eru nú aldeilis fréttir. En hann var ekki hættur sl. vor þegar Þjóðhagsstofnun mannaði sig þó upp í að taka forstjórann á teppið í sambandi við staðhæfingar hans um efnahagslegt gildi álbræðslu á Íslandi og álframleiðslu útlendinga á Íslandi. --- ,,Eitt tonn af áli jafngildir einu tonni af þorski upp úr sjó,`` endurtók ráðherrann mánuð eftir mánuð í allan fyrravetur þangað til að sannað var, dregið var fram af Þjóðhagsstofnun, stofnun hæstv. þáv. forstjóra og hæstv. iðnrh., að hann færi svona frítt reiknað með þreföld ósannindi að þessu leyti og reyndar gott betur ef tekið væri tillit til þess að álbræðslan yrði fjármögnuð með erlendu lánsfé og það þyrfti að greiða afborganir af því fjármagni og vexti því að þá reyndist þetta vera fimmföld til sexföld vitleysa.
    Ég segi það satt, hv. alþm., er ekki ástæða til þess fyrir okkur að slá varnagla við staðhæfingum, framsetningu og skýrslum sem fram eru reiddar hér á Alþingi Íslendinga af ráðherra og þingmanni sem er ekki vandari að virðingu sinni heldur en reynst hefur, heldur en hæstv. iðnrh. hefur reynst í þessu máli? Og þarna er um að ræða eitt dæmi sem er mjög lýsandi dæmi. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, það virðist svo sem hæstv. iðnrh. sé eitthvað að ókyrrast undir máli mínu, en ég held að það væri ástæða til þess fyrir forseta að vekja athygli hæstv. ráðherra á því að honum stendur áreiðanlega þessi ræðustóll opinn eftir að ég hef lokið máli mínu, enda á ég eftir að beina ýmsu til ráðherrans sem ég vænti að hann sjái ástæðu til að svara. Það er auðvitað mjög kærkomið að hæstv. ráðherra fari yfir og hreki þau skjöl sem liggja fyrir í þingtíðindum, reidd fram af Þjóðhagsstofnun, í sambandi við meðferð frv. til laga um raforkuver sem lögfest var hér sl. vor
að beiðni ráðherrans og eftir að hann hafði þröngvað því máli fram hér á Alþingi svipað og hann er að reyna hér með þetta mál þó að það sé öðruvísi vaxið.
    Ég held að það sé mikil ástæða til þess fyrir okkur hér á Alþingi að átta okkur á því að lærdómstitlar nægja ekki ef heiðarleikann vantar. Það er hægt að búa alla hluti í búning, einnig sérfræðilega, og búa til alls konar niðurstöður og halda slíkum firrum fram, eins og hæstv. iðnrh. gerði hér trekk í trekk sl. vetur, og hefur ekki séð ástæðu til að biðja velvirðingar á henni í dag þótt fyrir liggi í þinggögnum, gögnum frá opinberri stofnun sem ekki verður nú vænd um að vera neitt sérstaklega óvinveitt hæstv. iðnrh., til skamms tíma forstjóra Þjóðhagsstofnunar --- en það verður væntanlega upplýst hér af hæstv. ráðherra hvenær hann lét af því starfi fyrst það hefur gerst. Það kann að hafa tengst þeim undirbúningi sem fram fór í sambandi við mannaskiptin í Seðlabankanum að hæstv. ráðherra hafi séð ástæðu til þess að losa sig undan því oki að vera forstjóri Þjóðhagsstofnunar jafnframt því að vera viðskrh. og iðnrh. í ríkisstjórn Íslands, að hann hafi eygt möguleika á því að koma sér einhvers staðar annars staðar fyrir svona þegar fram líða stundir, en þetta verður kannski skýrt hér í umræðum á eftir. Það gæti verið full ástæða til þess.
    En nú skulum við aðeins lesa betur í fræðin hjá hæstv. iðnrh. varðandi efnahagsleg áhrif þeirrar álbræðslu sem hann vill að rísi hér á Reykjanesi. Í ræðu sinni vék hæstv. ráðherra að þessu svofelldum orðum:
    ,,Þjóðhagsstofnun hefur kannað þjóðhagsleg áhrif Atlantsálsfyrirtækisins.`` --- Virðulegur forseti, mér finnst vera farinn að þynnast hérna ráðherrabekkurinn. Ég sé að vísu hæstv. forsrh. hér í hliðarherbergi en ég sakna þess að ekki skuli vera neinn ráðherra Alþb. hér í sjónmáli því að ég ætlaði að fara hér yfir efnahagsleg áhrif eins og hæstv. iðnrh. sér þau og reiðir hér fram í gögnum og ræðum. Hann segir:
    ,,Þjóðhagsstofnun hefur kannað þjóðhagsleg áhrif Atlantsálsfyrirtækisins. Hún hefur gert það með því að bera saman tvö dæmi um líklega hagþróun næstu árin. Annars vegar svokallað grunndæmi þar sem ekki er gert ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum og hins vegar dæmi sem hún nefnir áldæmi. Í grunndæminu er gert ráð fyrir óbreyttum fiskafla en lítils háttar aukningu verðmætis og hækkunar verðs á sjávarafurðum.`` --- Ekki er nú spáð miklu í sambandi við íslenskt sjávarfang í þessum samanburði, en látum það liggja milli hluta.
    ,,Í áldæminu er gert ráð fyrir framkvæmdum vegna álvers, virkjana og annarra framkvæmda sem nauðsynlegar eru til þess að sjá þessu mikla iðjuveri`` --- þið takið eftir að það kemur víða fram lýsingarorðið ,,mikill`` --- ,,fyrir raforku og þjónustu. Helstu niðurstöður þessara athugana Þjóðhagsstofnunar, sem gerðar voru seint á liðnu ári, eru þessar.``
    Þetta er framsöguræða hæstv. iðnrh. fyrir málinu hér fyrir tveimur kvöldum.
    ,,Í áldæminu verður árlegur hagvöxtur næstu fimm ár að jafnaði um 2,5% sem er um 1% hærra hvert ár en í grunndæminu.``
    Í áldæminu verður árlegur hagvöxtur næstu fimm ár að jafnaði um 2,5% sem er um 1% hærra hvert ár en í grunndæminu. --- Þetta segir hæstv. ráðherra í framsögu sinni.
    Í skýrslu hæstv. ráðherra er þessa staðhæfingu líka að finna á bls. 24. Ég geri ráð fyrir að hv. alþm. hafi plaggið hér til hliðsjónar og geti flett upp á því. Þar lesum við í grg. á bls. 24 að helstu niðurstöður Þjóðhagsstofnunar séu:
    ,,Að árlegur hagvöxtur í grunndæminu verði, á

mælikvarða landsframleiðslu, einungis um 1,5% [þ.e. án álbræðslu], eða um 0,5% á mann tímabilið 1991 -- 1997. Í áldæminu verður árlegur hagvöxtur að meðaltali 2,5%, eða um 1,5% á mann.``
    Þetta er byggt á gögnum sem einnig fylgja þessari skýrslu, hæstv. forsrh. (Gripið fram í.) Þar lesum við, hæstv. forsrh., á bls. 66 varðandi sama atriði úr fylgiskjalinu, sem þetta er væntanlega byggt á, eftirfarandi:
    ,,Með Atlantal - álverinu er hagvöxtur --- á mælikvarða landsframleiðslu --- talinn verða um 2,2% á ári á tímabilinu 1991 -- 1997, samanborið við 1,6% án álvers.``
    Hvaða tölur eru þetta? Ekki 2,5% eins og við lesum í ræðu hæstv. ráðherra og í grg. í skýrslu hans, heldur 2,2% á ári. Samanborið við 1,6% án álvers, en í skýrslunni reiðir hæstv. ráðherra sömu tölu fram með öðrum hætti. Þar er ekki talað um 1,6% eins og í fylgigagninu heldur 1,5%. Hér er um að ræða, varðandi þessar meginhagstærðir sem hæstv. ráðherra er að reiða fram, ósambærilegar tölur, misvísandi tölur, tölur sem rekast hver á aðra. Hvers konar vísindi eru þetta, hæstv. iðnrh.? Hvernig stendur á því að hér ber ekki saman tölum í fylgiskjölum með skýrslunni, grg. og ræðu hæstv. ráðherra? Þar sem eru 2,2% í greinargerð Þjóðhagsstofnunar eru orðin 2,5% í munni ráðherrans og annar samanburður er einnig misvísandi. Hvernig stendur á því að hæstv. iðnrh. er ekki vandari að virðingu sinni þegar verið er að reiða fram tölur? Þó að þessar tölur segi ekki allan sannleikann, þá verðum við að fara fram á það að þar sé a.m.k. eitthvert samræmi, eitthvert system í galskapnum hjá hæstv. ráðherra en það rekist ekki hvað á annars horn.
    Getur það verið að þannig sé staðið að málum á ýmsum sviðum í sambandi við útreikninga á þessu máli? Hvernig halda menn að haldið sé á hagsmunum Íslands í samningaviðræðum undur forustu ráðuneytis sem ekki hefur fyrir því að gæta samræmis í framlagningu og útreikningum sem lagðir eru fyrir Alþingi Íslendinga?
    Væntanlega kemur hæstv. ráðherra hér og greinir okkur frá því hvernig að þessum málum er staðið. En ég hvet hv. alþm. til þess að fara með opnum augum yfir þetta plagg, sem hér er lagt fyrir, og málflutning hæstv. iðnrh. og hugsa sig um tvisvar áður en menn fara að stimpla þessa stefnu inn hér með atkvæðum okkar hér á Alþingi þegar þannig er staðið að verki eins og raun ber vitni.
    En hver er eftirlætishagstærð sem hæstv. iðnrh. ber hér fram, nýlega orðinn fyrrv. forstjóri Þjóðhagsstofnunar og hugsanlegur seðlabankastjóri? Hver er eftirlætishagstærð hæstv. ráðherra? Er það þjóðarframleiðsla? Eru það þjóðartekjur? Eru það nettóþjóðartekjur? Nei. Það er allt, allt önnur hagstærð sem gengur eins og rauður þráður hér í gegnum þessi plögg, og gerði það raunar í fyrravor. Það er landsframleiðsla. Hæstv. dómsmrh. er eflaust farinn að kunna þessa tölu, vöxtinn í landsframleiðslu sem þessi happadráttur á Keilisnesi á að skila okkur. Hún er núna upp á síðkastið fram borin 4%, 4% aukning landsframleiðslu, númer tvö hér í ræðu ráðherrans í fyrrakvöld:
    ,,Eftir að álverið er komið í eðlilegan rekstur mun það auka landsframleiðsluna varanlega um 4%.``
    Hvers konar tala er þessi landsframleiðsla sem hæstv. iðnrh. er að halda að þjóðinni? Ég held að það væri full ástæða til þess fyrir hæstv. ráðherra að skýra okkur frá því af því að hann er nú fræðimaður á þessu sviði þó að hann fari ekki alltaf nógu vel með kunnáttuna í þessum efnum.
    En ég skal vitna hér í stuttu máli til eins fyrrv. starfsmanns hæstv. ráðherra, starfsmanns á Þjóðhagsstofnun, sem hefur skrifað greinar og greinargerðir um þetta mál. Ein þeirra var birt sem fskj. með nál. mínu vegna frv. til laga um raforkuver sl. vor, en þar segir Jóhann Rúnar Björgvinsson þjóðhagfræðingur um hagvöxt ál - og orkuframkvæmda eftirfarandi, örstutt tilvitnun:
    ,,Hagvöxt má mæla á mismunandi vegu og er því áríðandi að velja réttan mælikvarða með tilliti til tilgangs mælingarinnar hverju sinni. Ef hagvöxtur á að gefa vísbendingu um bætt lífskjör eða getu til aukinnar fjárfestingar er rétt að leggja til grundvallar vöxt þjóðartekna, þ.e. raunverulega tekjuaukningu þjóðarinnar. Slík mæling getur t.d. verið vöxtur þjóðartekna í heild eða á mann. Dæmi um aðra mælikvarða er vöxtur í landsframleiðslu eða vöxtur í þjóðarframleiðslu en þeir mælikvarðar gefa ekki rétta mynd í ofannefndu samhengi þótt þeir séu oft notaðir.
    Landsframleiðslan mælir þá framleiðslu sem á sér stað í landinu á einu ári. Erlendir aðilar eiga hins vegar tilkall til hluta af þeirri framleiðslu sem greiðist í formi vaxta og arðgreiðslna. Ef sá hluti er dreginn frá landsframleiðslunni fæst þjóðarframleiðslan. Það er sá hluti framleiðslunnar sem fellur þjóðinni til. En til þess að ná þeirri framleiðslu hefur hluti af fjárfestingu þjóðarinnar notast eða étist upp.
    Þjóðartekjur eða nettóþjóðarframleiðsla taka því tillit til þeirrar eyðingar eða afskriftar og mæla því raunverulegar tekjur þjóðarinnar á hverju ári. Aukning þjóðartekna er því til lengri tíma litið grunnurinn að bættum lífskjörum.``
    Þetta segir, virðulegur forseti, þjóðhagfræðingur sem hefur ritað um þessi efni. Hans viðhorf verða, held ég, ekki hrakin að því er varðar þær skilgreiningar sem hér eru á ferðinni, en ég er að nefna þetta hér vegna þess að hæstv. iðnrh. er ekki vandari að virðingu sinni en svo að hann notar hér mælikvarða sem segir í rauninni ekki neitt um þann ávinning sem íslensku þjóðarbúi kynni að áskotnast af fyrirtæki, í þessu tilviki álbræðslu, sem hann er að leggja til að reist verði, en það skiptir ekki máli hvaða fyrirtæki það er, í eigu erlendra aðila eða reist hér á Íslandi fyrir lánsfé þar sem við þurfum að standa skil á vöxtum og afborgunum, en auk þess geta útlendingarnir flutt arðinn úr landi svo sem kunnugt er og fyrir því öllu séð í þeim drögum að samningum sem hæstv. iðnrh. er hér að fjalla um.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því með hvaða blekkingum, með hversu blekkjandi framsetningu þessi mál eru borin hér fram

á Alþingi af hálfu hæstv. iðnrh. Og við eigum að frábiðja okkur að taka við plöggum af þessu tagi, hvað þá að við eigum að láta ginnast til þess að fara að greiða þeim atkvæði okkar og koma þannig fótum undir kosningabaráttu þessa ráðherra í viðkomandi kjördæmi.
    En það er fleira heldur en hinn hagræni ávinningur sem hæstv. ráðherra er að veifa í þessu sambandi því að hann er í leiðinni að leysa umhverfisvandamál --- og hvar er nú hæstv. umhvrh.? Hæstv. umhvrh. ætti nú að koma í þingsal og horfast í augu hér við starfsbróður sinn í ríkisstjórninni, hæstv. iðnrh., því að þeir eiga sæti hér hvor nærri öðrum. Mér þætti vænt um ef hæstv. umhvrh. væri hér nærri vegna þess að hann hlýtur að vera á sama skipi og hæstv. iðnrh. í sambandi við umhverfismálin að því er snertir þessa álbræðslu.
    Hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni í fyrrakvöld, tengt umhverfismálum, að eitt meginatriðið með nýtingu orkulindanna til eflingar atvinnu væri, og það er töluliður 7 í ræðu hans af 8 töluliðum: ,,Að eiga þátt í að leysa orku - og umhverfisvanda jarðarinnar og efla um leið atvinnuvegi Íslendinga.``
    Hæstv. iðnrh. er kominn hér í alþjóðlega krossferð til að leysa umhverfisvanda jarðarbúa. Með hvaða hætti? Jú, hann rökstyður það í sinni ræðu í fyrrakvöld. En ég er ekki alveg viss um að það verði allt saman sú huggun fyrir íbúa á Reykjanesi sem til er ætlast eða þeir verði jafnkátir yfir þeirri alþjóðahyggju í sambandi við umhverfismál sem hæstv. iðnrh. ber svo mjög fyrir brjósti.
    Hæstv. ráðherra fór m.a. svofelldum orðum um þessar hugsjónir sínar um að leysa alþjóðlegan umhverfisvanda með því að auka og bæta við umhverfisvandamálin hér við Faxaflóa með svofelldum hætti:
    ,,Nýtt álver á Íslandi kemur þar á ofan líklega í stað álvers annars staðar, sem ætla má að fengi sína raforku annaðhvort með bruna kola eða olíu eða þá frá kjarnorkuverum. Aukin álbræðsla á Íslandi stuðlar þannig að betra umhverfi í heiminum því að við eigum þess kost, svo lánsöm erum við, að nota hreina orkulind, vatnsorkuna, til þess að sjá álverinu fyrir orku. . . . Álver á Íslandi er því drjúgt framlag til alþjóðlegrar baráttu gegn þessum skaðlegu áhrifum,`` segir ráðherrann, gróðurhúsaáhrifum og fleira sem hann tiltekur í sínu máli. --- Þykir mér nú, virðulegur forseti, leitt að sjá á bak hæstv. umhvrh. einmitt þegar við erum að ræða hér um umhverfisáhrifin og hugsjónir hæstv. iðnrh. í því sambandi. En það er alveg velkomið að ég geri smáhlé á ræðu minni ef hæstv. ráðherrar geta ekki verið hér viðstaddir umræðu um þetta efni tengt álbræðslunni. ( Forseti: Má ég benda hv. þm. á að umhvrh. stendur þarna við hliðarsal og heyrir hvert orð.) Virðulegur forseti. Ég vil að hæstv. ráðherrar séu hér til að fylgjast með umræðu mála en ekki á aukafundum hér í hliðarherbergjum, hvað þá hér utan salar, víðs fjarri eins og hæstv. iðnrh. sem gengur hér á dyr. En hann segir hér í máli sínu frekar um þetta efni:
    ,,Í skýrslu Brundtland - nefndarinnar svokölluðu, sem

kennd er við forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, og ber nafnið ,,Sameiginleg framtíð vor``, er einmitt lögð mikil áhersla á alþjóðlega samvinnu til þess að forðast þann vanda sem gróðurhúsaáhrifin hafa í för með sér fyrir allt mannkyn.
Ég tel að okkur beri því skylda til að færa okkur í nyt okkar hreinu orkulindir til þess að draga úr bruna jarðeldsneytis með þessum hætti. Álið hefur marga kosti aðra sem stuðla að því að ná markmiðum Brundtland - skýrslunnar. Ál er efni sem auðvelt er að endurvinna. Álið stuðlar að betri nýtingu orkuforða jarðarinnar, því sú orka sem vinnst úr okkar vatnsafli og þjappað er saman í álið skilar sér margfalt aftur þegar búið er að gera bílana, járnbrautarvagnana, flugvélarnar og önnur flutningatæki léttari og sparneytnari með því að nota ál í staðinn fyrir stál. Með því að nýta hreina orku fallvatnanna til að framleiða ál erum við því reyndar að leggja okkar skerf til umhverfisverndar séð í stærra samhengi.``
    Þetta er dálaglegur texti og það birtir yfir hæstv. iðnrh. þegar hann er lesinn, enda eru þetta hans eigin orð, hinar alþjóðlegu hugsjónir sem hann reiðir hér fram, hvernig hann ætlar að færa umhverfisvandann yfir á Faxaflóasvæðið til þess að draga úr vanda úti í heimi. Þetta minnir mjög á málflutninginn þegar sænskir flokksbræður hæstv. ráðherra voru að réttlæta vopnasöluna á sínum vegum til bardagasvæða heimsins eða landa sem voru að byggja sig upp með alls kyns vopnabúnaði, og sænskir kratar réttlættu það með því að það yrðu bara einhverjir aðrir til þess að selja þeim það ef Svíar seldu þeim ekki vopnin. ( Viðskrh.: Mér heyrðist og sýndist að ræðumaður væri bara . . . við að lesa þennan góða texta.) Já, það er ágætt að það er að lifna aðeins yfir hæstv. iðnrh. Mér finnst það vita á gott og bendir til þess að við getum átt hér skemmtilega nótt fram undan í skoðanaskiptum um þetta mjög svo margbrotna og mikilvæga mál að mati ráðherrans, og reyndar get ég undir það tekið að vissu marki að þýðingu hefur það.
    Þá er rétt vegna þessa kafla í ræðu hæstv. iðnrh. að víkja einmitt nánar að umhverfisþáttum þessa máls. Þar er ráðherrann ekki einn ábyrgur heldur er hæstv. umhvrh. þar í sérstöku forsvari, en hann hlýtur auðvitað að vinna þar mjög náið að gæslu íslenskra hagsmuna með hæstv. iðnrh. þó svo að hæstv. iðnrh. vilji tengja þetta talsvert mikið við alþjóðlegar lausnir á umhverfisvanda jarðarbúa og virðist vera þar jafnvel nokkru meira í mun heldur en sú ábót á mengandi efni sem fylgja mun álbræðslu ef reist verður hér, ég tala nú ekki um ef þannig verður að verki staðið eins og því miður virðist örla fyrir ef litið er á pappírana sem fyrir liggja í þessum efnum.
    Já, það eru umhverfismálin, hæstv. umhvrh. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. líka: Hvernig er háttað samstarfi þeirra og ráðuneyta þeirra í sambandi við þetta mál? Hvernig vinna þeir sameiginlega að lausn þess vanda, sem þeir hafa viðurkennt í orði að þurfi að gæta að, þess mikla umhverfisvanda sem fylgja mun þessari álbræðslu og bætast mun í andrúmsloft og umhverfi hér á Faxaflóa sem var til

sérstakrar umræðu, einmitt sá vandi sem þegar blasir við á þessu svæði vegna mengunar hér á höfuðborgarsvæðinu? Hvernig leggjast þeir saman á árar um þessi efni að tryggja það í þeim samningum sem standa yfir um þessi efni, að þarna verði fundin farsæl lausn, ef þeir í alvöru gera sér vonir um að þessi álbræðsla verði einhvern tímann að veruleika?
    Ég held að það sé býsna mörgum spurningum ósvarað en kannski koma hæstv. ráðherrar til með að leysa úr öllum vanda í þessum efnum þegar þeir koma hér í ræðustól og gera okkur ítarlega grein fyrir því hvernig fyrirhugað er að leysa mengunar - og umhverfisvandamálin tengd þessari álbræðslu ef til kemur.
    Ég ætla að taka hér til að byrja með, áður en ég fer inn í svona stærri drættina í þessu máli, eitt lítið dæmi sem lesa mátti um í blöðum fyrir röskum mánuði síðan. Ég er með hér fyrir framan mig úrklippu úr DV frá 8. febr. sl. Hvað er það sem þar má lesa? ,,Eitt lítið og í stað eða breytir merkingu. Vona að málin leysist, segir Júlíus Sólnes umhvrh.`` Og þar lesum við, virðulegur forseti:
    ,,Í þeim samningi sem snertir umhverfisþátt álversins á Keilisnesi hefur komið í ljós að mönnum hefur yfirsést varðandi ákveðið orðalag sem snertir skilyrði fyrir starfsleyfi álversins. Þetta kemur sér vel fyrir Atlantsálmenn,`` takið eftir: ,,Þetta kemur sér vel fyrir Atlantsálmenn, en getur komið sér illa fyrir Íslendinga.`` Þetta eru orð hæstv. umhvrh. Þetta tengist endurskoðunarákvæðum. Hvenær megi endurskoða starfsleyfi álversins. ,,Það er rétt að þegar við fórum að lesa samninginn betur,`` takið eftir orðalaginu úr munni hæstv. ráðherra, ,,þegar við fórum að lesa samninginn betur sáum við að eitt ,,og`` væri vont þar sem það stóð, en í staðinn ætti þar að standa ,,eða``. Þarna var um að ræða nokkur skilyrði fyrir starfsleyfi sem raðað var upp í röð. Þegar farið var að lesa þetta betur þótti manni óeðlilegt að tvö skilyrði þyrftu að vera samhliða uppfyllt. Okkur þótti eðlilegra að hvort skilyrði fyrir sig gæti kallað á endurskoðun starfsleyfis,`` sagði Júlíus Sólnes umhvrh. í samtali við DV. Og áfram er vitnað í hæstv. ráðherra:
    ,,Það er of mikið sagt að samningamenn Atlantsálhópsins hafi hafnað að breyta þessu, en það er rétt að þeir vildu halda þessu óbreyttu. Nú eru menn að tala um mjög breyttan texta á þessu öllu þannig að hugsunin er breytt frá því sem upphaflega var.`` Takið eftir rökfestunni og samhenginu. ,,Menn eru nú að tala um að taka þetta inn í aðalsamning. Ég er því að vona,`` segir hæstv. umhvrh. 8. febr. sl., ,,að þetta falli um sjálft sig og að við getum í þessu sambandi vísað í aðalsamning sem gerður verður,`` sagði Júlíus. Hann sagðist vona að þetta og - mál væri úr sögunni sem slíkt því að samningarnir væru að fara í annan farveg en unnið hefur verið í til þessa varðandi umhverfisþáttinn.
    ,,Ég ætla ekkert að leyna því,`` áfram tilvitnun í ráðherrann, ,,að þegar við ræddum við Atlantsálmenn í síðasta mánuði taldi ég þetta mál til að hafa áhyggjur af. Ég held að það sé nú úr sögunni vegna þess að

mér voru að berast fréttir af gerbreyttum texta [8. febr.] sem samningamenn eru nú að ræða um,`` sagði Júlíus Sólnes.
    Hér er lítið blaðaviðtal við ráðherra umhverfismála á Íslandi. Og hvað segir þetta viðtal okkur 8. febr. sl.? Að hæstv. umhvrh. veit bara ekki sitt rjúkandi ráð hvar þessi mál eru stödd samningslega séð. Hann veit bókstaflega ekki sitt rjúkandi ráð hvernig á að koma þessum málum fyrir. Það er allt að falla um sjálft sig. Sá gjörningur sem hæstv. ráðherra taldi sig hafa verið að vinna að, ekki bara vegna þess að það hafði víxlast og og eða, og verið rangt lesið í texta af íslenskum samningamönnum, heldur vegna þess að það er bara eitthvað allt annað sem snýr upp varðandi samningagerðina um umhverfisþættina, að nú ætti ekki að vera að tala um að gera sérstakt og sjálfstætt starfsleyfi, nú ætti að taka þetta inn í aðalsamning.
    Ég geri kröfu til þess, virðulegur forseti, að hér við þessa umræðu um málið geri hæstv. umhvrh. okkur rækilega og ítarlega grein fyrir stöðu umhverfismála að því er snertir þessa álbræðslu, þessa fyrirhuguðu álbræðslu á Keilisnesi, vegna þess að þar er væntanlega um að ræða þátt sem við höfum öll áhyggjur af hvernig á er haldið, hvernig til muni takast ef út í þessa ófæru verður farið að öðru leyti, þar hljótum við öll að geta sameinast um kröfu um að það verði skaplega og eðlilega haldið á málum að því er snertir umhverfishagsmuni. Og auðvitað á það við hvaða fyrirtæki sem í hlut á, en það vegur óvenjulega þungt í því risastóra iðnfyrirtæki sem hér er um að ræða og þeirri gífurlegu losun mengandi efna sem þarna er á ferðinni, jafnvel þótt brugðist verði við með öllum tiltækum ráðum, ég tala nú ekki um ef ekki eru gerðar ýtrustu kröfur varðandi lausn mála miðað við tæknilega möguleika og annað sem að þessum þætti lýtur.
    Ég treysti því en mun taka eftir því hvort hæstv. ráðherra gerir okkur grein fyrir þessum málum hér á eftir og ég geri einnig kröfu til þess að hæstv. iðnrh. fjalli rækilega um þennan þátt því að það skiptir auðvitað öllu máli þegar verið er semja um slíkt atriði að allir hlutaðeigandi ráðherrar taki á slíku máli og að ríkisstjórnin öll, með hæstv. forsrh. í fararbroddi, haldi vöku sinni varðandi slíka þætti og læri af því ef einstakir ráðherrar í ríkisstjórn landsins og þeirra starfsmenn eru ekki læsir á enska texta eða jafnvel íslenska og ruglast í samtengingum með svo afdrifaríkum hætti sem hæstv. umhvrh. greinir frá opinberlega í blaðaviðtali fyrir röskum mánuði.
    Það eru engin gamanmál sem hér eru á ferðinni. Það eru mikil alvörumál sem einmitt eru undirstrikuð á þessum degi þegar fjölmiðlar hér í Reykjavík hafa það sem eitt af aðalfréttum að mengun sé orðin hér til mikilla vandræða á höfuðborgarsvæðinu og eru það út af fyrir sig ekki ný tíðindi. En það er einmitt sú staðreynd sem við þurfum að hafa í huga þegar við erum að ræða um áhrif af vaxandi iðnrekstri á þessu svæði, sú viðbót, því það skiptir verulegu máli hver er staðan, hver er heildarstaðan, því meira sem bætist við, þeim mun verri er staðan, þeim mun minni viðbót getur hér komið af annarri starfsemi, öðrum rekstri, en

auðvitað þurfum við að gæta okkar varðandi alla starfsemi sem veldur mengun og kappkosta að úr henni verði dregið.
    Það eru ýmis efni öðrum fremur sem hafa þarf gát á í sambandi við rekstur af því tagi sem hér um ræðir. Ég ætla að koma hér að einum þætti til að byrja með sem er brennisteinsdíoxíð, brennisteinstvíildi, og mengun af völdum þess efnis. Ég spyr hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh.: Hver er staðan að þeirra mati miðað við samningaviðræðurnar að því er varðar útblástur brennisteinsdíoxíðs og möguleika eða réttara sagt kröfur til hreinsunar á því efni? Getur það verið að menn séu að tala þar um gildi allt að 20 kg á hvert framleitt tonn? Er það hugsanlegt að menn séu að tala um eitthvað því um líkt? Og hvað eru menn að ræða um í sambandi við kröfu um brennisteinsinnihald í rafskautum sem auðvitað er annar þáttur þessa máls? Hvaða gildi eru þar, sem eru þar hámarksgildi í sambandi við starfsleyfi eða aðalsamning, í hvaða búning svo sem samningar verða frágengnir að þessu leyti? Er hugsanlegt að það séu ekki gerðar ýtrustu kröfur um þessi efni varðandi Keilisnesálbræðsluna í drögum að starfsleyfi eða í drögum að aðalsamningi? Getur það verið að það eigi að taka upp einhverjar aðrar viðmiðanir heldur en hámarksgildi varðandi útblástur, varðandi samninga um þetta efni, þessa mengun sem þarna er á ferðinni?
    Annar mengunarvaldur alþekktur vegna álframleiðslu er útblástur á flúor. Hvaða gildi eru það varðandi útblástur á flúor sem nú er gert ráð fyrir? Hver er staða þess máls? Hvernig á að ganga frá því, hæstv. ráðherrar? Það hlýtur að verða upplýst hér við umræðuna síðar á þessum degi eða hinum næsta, eftir því hvar við verðum staddir þegar þar að kemur. Og hvernig er fyrirhugað að ganga frá tæknibúnaði í hugsanlegri álbræðslu að þessu leyti? Hvernig er hagað tæknibúnaði Pechiney - framleiðslu varðandi mengun af völdum flúors? Hæstv. umhvrh., er það hugsanlegt að sú tækni, sem notuð er af Pechiney og hugmyndin er að leggja til grundvallar þessarar hugsanlegu álbræðslu, valdi meiri flúormengun heldur en t.d. gerist miðað við þá tækni sem notuð er í nýjustu kerum og útbúnaði í álbræðslunni í Straumsvík? Er það hugsanlegt? Og ef það er rétt, með hvaða hætti ætla íslensk yfirvöld, yfirvöld umhverfismála að bregðast við ef svo er? Og hvernig er háttað endurskoðunarákvæðum að því er varðar umhverfismálin? Hvaða tryggingar ætla ráðherrarnir að setja inn að þessu leyti að því er snertir endurskoðun í ljósi kannski annarrar reynslu en menn hefðu vænst af rekstri slíkrar bræðslu, þá eru menn vonandi með endurskoðunarákvæði inni í ljósi þess að bregðast við nýrri tækni? Hvernig ætla hæstv. ráðherrar að bregðast þar við? Hvernig ætla þeir að ganga frá íslenskum hagsmunum að því leyti? Ég óska eftir því að fá um það skýr svör.
    Þriðji meginmengunarvaldurinn frá álbræðslunni er koldíoxíð. Hæstv. umhvrh. var ekki alls fyrir löngu að staðfesta sérstakan alþjóðlegan samning fyrir Íslands hönd varðandi mengun af koldíoxíði. Ég spyr hæstv.

umhvrh.: Hvernig ætlar hann að tryggja að hann standi við ákvæði þess samnings ef reist verður álbræðsla á Keilisnesi, sem veldur mjög verulegri aukningu í koldíoxíðútblæstri, nema brugðist verði við með alveg sértækum aðgerðum? Ef ég man rétt, þá er okkur Íslendingum ætlað, að því er varðar koldíoxíðmengun, að gæta þess að ekki verði um aukningu að ræða hérlendis í útblæstri koldíoxíðs á þessum áratug, 1990 til aldamóta. Er það rétt, hæstv. umhvrh.? Er það rétt að þetta sé viðmiðunin í þeim samningi sem þú hefur nýlega staðfest fyrir Íslands hönd? Og hvernig ætlar þú að gæta þess að við þær kröfur verði staðið ef reist verður þessi álbræðsla? Ég held að aukningin af 210 þús. tonna álframleiðslu að því er koldíoxíð varðar sé 10 -- 20%, en hæstv. umhvrh. leiðréttir ef það er rangt.
    Mér er kunnugt um það að hæstv. umhvrh. hefur gert nokkuð víðreist í sambandi við athugun mála að því er snertir umhverfisáhrif álbræðslu. Það er vissulega góðra gjalda vert að hæstv. ráðherra kynni sér aðstæður erlendis að því er þetta varðar og ég bið hæstv. ráðherra um að upplýsa Alþingi um uppskeruna úr ferð sinni, sem hann fór
í nóvembermánuði sl. ásamt starfsmönnum úr eigin ráðuneyti og ásamt starfsmönnum frá hollustuyfirvöldum, til þess að meta áhrif mengunar frá áliðnaði og hvernig frá þessum málum er gengið. Og ég bið hæstv. ráðherra um að greina Alþingi Íslendinga frá því að hvaða niðurstöðum hann komst í þessari ferð og hvernig samanburðurinn stendur að því er varðar þessa fyrirhuguðu álbræðslu á Reykjanesi, hvað snertir umhverfisvandamálin.
    Ég mun fylgjast með því hér á eftir hvaða upplýsingar koma fram af hálfu hæstv. ráðherra að þessu leyti því að við eigum kröfu á því að fá vitneskju um þessi mál, fyllstu vitneskju með heiðarlegum hætti hér á Alþingi þegar við ræðum þessi þýðingarmiklu efni. Ég vil jafnframt inna hæstv. umhvrh. eftir því hvernig staðið verði að því, hvernig hann hyggst tryggja að við getum fylgt kröfum þess alþjóðlega sáttmála sem hann var að vitna til. Þar hlýtur hann að eiga dyggan stuðning hæstv. iðnrh. sem lítur til umhverfismálanna með svo alþjóðlegum hætti sem raun ber vitni og lesa mátti í hans ræðu. Hann er reiðubúinn að taka á sig miklar byrðar og auka mjög verulega mengun hér á Faxaflóasvæðinu til þess að aðrir fari nú ekki að brenna kolum úti í heimi í álframleiðslu og bæta þar við enn frekar umhverfisvanda jarðarbúa. ( Viðskrh.: Það varðar okkur alla.) Það varðar okkur alla, segir hæstv. iðnrh. og það tek ég sannarlega undir. En ég vil minna hæstv. iðnrh. á það að . . . ( Viðskrh.: Hvaða sérhyggja er þetta hjá ræðumanni?) Já, það er velkomið að ræða það, hæstv. iðnrh., hvaða sérhyggja þetta er. Ég hef nú þá skoðun, jafnhliða því sem við þurfum að hafa heiminn allan undir við athugun og mat á umhverfismálum, að þar skipti einna mestu að hver horfi á sinn garð, að hver horfi á sinn garð og þann vanda sem við er að fást, og að menn a.m.k. skoði hlutina ekki síður í samhengi heima fyrir heldur en gert er alþjóðlega. ( Viðskrh.: Allt er það rétt,

en hér er um líffræðilegt spursmál að ræða sem ræðumaður þekkir betur en ég.) Hér er um líffræðilegt spursmál að ræða, segir hæstv. iðnrh. Ég hlakka til að fá útlistanir hans í sambandi við það mál þegar hann kemur í ræðustól á eftir til að fjalla um þetta mál, að hann útskýri fyrir okkur einmitt sín viðhorf að þessu leyti og hvernig hann tengir þessar kröfur saman. Það er nauðsynlegt einmitt fyrir hæstv. ráðherra báða að bera saman bækurnar um þetta efni og þessi ræðustóll hér á Alþingi Íslendinga er vel til þess fallinn að svo sé gert.
    Þessi mál hafa vissulega verið mikið til umræðu á undanförnum missirum sem ráðagerðir hafa verið uppi um þessa álbræðslu. Þegar við fjölluðum í iðnn. neðri deildar Alþingis um frv. til laga um raforkuver sl. vor, þá kvöddum við til yfirvöld mengunarmála og inntum stjórnvöld, eins og t.d. Náttúruverndarráð, eftir áliti þeirra í þessu efni. Það liggja fyrir í þingskjölum upplýsingar frá þessum stofnunum einmitt að þessu leyti og ég held að það væri rétt að ég aðeins tæpti hér á kröfum um mengunarvarnir eins og þær birtust í bréfi frá Hollustuvernd ríkisins til iðnn. neðri deildar þann 3. maí sl. Þar sagði, með leyfi forseta:
    ,,Kröfur um mengunarmörk hafa ekki verið settar fram á vegum mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins í tengslum við umræðu um nýtt álver og hefur ekki borist erindi frá stjórnvöldum um að slíkar kröfur yrðu mótaðar.`` --- Þetta er 3. maí sl.
    ,,Þegar umræður voru í gangi um álver við Eyjafjörð árið 1984 lögðu mengunarvarnir Hollustuverndar ríkisins að ósk staðarvalsnefndar fram tillögur um hreinsibúnað og um hámarksmengun í útblásturslofti hugsanlegs álvers, sbr. fskj. I. Í þeim tillögum var gert ráð fyrir að mörk fyrir hámarksmagn flúoríðs væri 0,8 kg á tonn af áli, fyrir brennisteinsdíoxíð um 6 kg á tonn af áli og ryk 2,5 kg á tonn af áli. Þessar tölur miðast allar við ársmeðaltal. Miðað er við að afsogsloft frá kerum sé hreinsað í þurrhreinsibúnaði og síðan í vothreinsibúnaði.
    Rétt er að benda á,`` segir Hollustuvernd ríkisins, ,,að kröfur um mengunarvarnir vegna nýs álvers gera ráð fyrir að nýtt álver sé byggt samkvæmt fullkomnustu tækni og búið fullkonmum hreinsibúnaði.
    Í umræðum um staðsetningu nýs álvers hafa ýmsir staðir verið nefndir. Ljóst er að umrædd svæði eru ólík með tilliti til auðlindanýtingar. Er ástæða að leggja á það áherslu að nauðsynlegt er að fyrir liggi fullnægjandi mat og útreikningar á dreifingu mengunar miðað við hugsanlega staðsetningu. Jafnframt að fram fari nánari könnun á viðkomandi svæðum, sbr. bréf mengunarvarna til heilbrrn., dags. 16. jan. 1990.`` Einnig það fylgir með sem fylgiskjal í þessu nál.
    ,,Þetta er m.a. mikilvægt í sambandi við ákvörðun um vothreinsibúnað fyrir brennisteinsdíoxíð. Í því sambandi skal bent á eftirfarandi:
    að vothreinsibúnaður eykur einnig hreinsun flúoríðefnasambanda úr afsogslofti frá kerum,
    að brennisteinsdíoxíðmengun gæti haft skaðleg áhrif á umhverfið ef ekki kæmi til vothreinsun,
    að líkur eru á auknu brennisteinsinnihaldi í forskautum, en samkvæmt upplýsingum áliðnaðarins mun í náinni framtíð reynast erfitt að fá skaut með lágu brennisteinsinnihaldi,
    að annars staðar á Norðurlöndum er krafist vothreinsunar kergasa í álverksmiðjum,`` --- Ég bæti hér við spurningu til hæstv. umhvrh.: Er það kannski víðar en á Norðurlöndum að finna megi dæmi þess að krafist sé vothreinsunar í sambandi við brennisteinsdíoxíð?
    ,,að verði reist 200 þús. tonna álver án vothreinsunar mun losun brennisteinsdíoxíðs út í andrúmsloftið á Íslandi aukast verulega eða um 50%, þó aðeins sé miðað við 2% brennisteinsinnihald í skautum (undanskilin er brennisteinsmengun frá millilandaskipum),
    að Ísland gerðist árið 1982 aðili að alþjóðlegum samningi um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa. Ísland hefur vegna sérstöðu sinnar ekki getað skrifað undir samkomulag í framhaldi af samningnum um að draga úr brennisteinslosun út í andrúmsloftið um a.m.k. 30%, eins og margar Evrópuþjóðir hafa gert.`` --- Þetta var tilvitnun í erindi frá Hollustuvernd ríkisins.
    Og ekki horfir sú staða betur ef hér verður reist þetta álver. Ég spyr hæstv. umhvrh.: Hvernig ætlar hann að bregðast við? Hvernig standa málin varðandi vothreinsun á brennisteinsdíoxíði frá þessari álbræðslu? Það fáum við væntanlega upplýst hér.
    Hæstv. ráðherra, sem ræddi þessi mál hér fyrr á þingi, vék að því að það kæmu aðrar lausnir til greina. Hann hafði þar ráð á hverjum fingri ef ég man rétt, m.a. gipsframleiðslu sem hægt væri að koma upp við hliðina á hugsanlegri álbræðslu og ætti að verða liður í lausn þessa máls. Við hljótum að fá greinargerð hér í þessari umræðu frá hæstv. umhvrh. hvernig sú athugun hafi farið fram, til hvers hún hafi leitt, hvar þessi gipsframleiðsla sé stödd sem liður í lausn á mengunarvandamálum hugsanlegrar álbræðslu á Keilisnesi.
    Náttúruverndarráð tjáði sig einnig um þessi efni í bréfi til iðnn. neðri deildar Alþingis þann 3. maí sl. Það lagði áherslu á í bréfi sínu að í nýju álveri er kynni að verða reist hér á landi verði gerðar ýtrustu kröfur um mengunvarvarnir og ekki minni en gerðar eru í nágrannalöndunum. Náttúruverndarráð sagði orðrétt:
    ,,Að gefnu tilefni er lögð áhersla á vothreinsun brennisteinsdíoxíðs og byggist það á eftirfarandi:
    1. Ýmsar tegundir plantna hér á landi eru viðkvæmari fyrir mengun en í nágrannalöndum vegna erfiðra lífsskilyrða.
    2. Nýtt álver eykur verulega við heildarútstreymi brennisteinsdíoxíðs frá mannlegum umsvifum hér á landi, eða um 50 -- 100%, og það er í andstöðu við stefnu í norrænum og alþjóðlegum samningum um umhverfisvernd að einstakar þjóðir auki mengun svo stórlega eins og hér gæti orðið.
    3. Við hreinsun á brennisteinsdíoxíði næst einnig aukinn árangur í hreinsun á flúor.
    4. Mengunaráhrif eru mjög háð staðsetningu álvers en vernda þarf umhverfið sem best hvar sem það

verður byggt.
    5. Ýmsar upplýsingar benda til þess að búast megi við að magn brennisteins í forskautum fari vaxandi og geti það tvöfaldast á næstu árum vegna aukinnar notkunar á hráefni sem inniheldur meiri brennistein.``
    Ég bið hæstv. umhvrh. að greina okkur frá stöðu athugana einmitt með tilliti til þessara þátta sem fram koma í þessum erindum Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndarráðs.
    Þetta voru, virðulegur forseti, nokkur áhersluatriði sem tengjast umhverfismálum og byggingu þessa álvers. Ég vænti þess að það sé áhugamál allrar ríkisstjórnarinnar að standa á verði að þessu leyti, í rauninni óháð því hvort um er að ræða álbræðslu eða annan atvinnurekstur, svo mikla áherslu sem ríkisstjórnin hefur í orði lagt á umhverfismál og þýðingu þess að Ísland verði merkisberinn á sviði umhverfisverndar.
    Ég hef t.d. hér fyrir framan mig frásagnir af ferð þeirra hæstv. umhvrh. og forsrh. á alþjóðlega umhverfisráðstefnu sem haldin var í Bergen sl. vor. Þar leituðust þeir við að reisa merkið hátt. Þeir komu saman fram í sjónvarpsþætti eftir að hafa sótt þessa ráðstefnu og höfðu uppi stór orð um það að þarna hefði nú allt of lítið gerst í þessum efnum. Ísland þyrfti að vera í framvarðarsveit í sambandi við umhverfismál. Og ég veit ekki hversu margar hugmyndir hafa komið fram frá hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar að því er snertir einmitt þá hugmynd að Ísland verði til fyrirmyndar í sambandi við umhverfismálin og að við hagnýtum okkur hugsanlega sérstöðu að þessu leyti hér á landi, bæði í sambandi við ferðaþjónustu, í sambandi við að laða hingað fólk til að leita sér hollustu og endurnæringar og heilsubótar, og síðast en ekki síst til þess að tryggja framtíð Íslendinga í góðu umhverfi hér á landi. Allt eru þetta góð og gild viðhorf. En við biðjum um samkvæmni, við biðjum um samkvæmni í hlutunum. Hæstv. ráðherrar gangast undir próf í þessum efnum.
    Það þýðir ekki að segja annars vegar álver, án fullkomnustu mengunarvarna, og vera svo að flagga hugmyndum um það að íslenskt umhverfi verði þjóðinni til framdráttar og tryggi hér þokkalegt mannlíf í landinu, sjálfbæra þróun til lengri tíma litið. Þar þýðir ekkert að vísa á alþjóðleg mál, þar verðum við að skoða vandann sem á okkur sjálfum brennur, hæstv. iðnrh., þó okkur beri vissulega að vera vökumenn í alþjóðlegu samstarfi að því er snertir umhverfismálin.
    Ég er satt að segja dálítið uggandi þegar ég fer að lesa mér til í skýrslu hæstv. ráðherra um hugmyndir varðandi samninga um þessa álbræðslu að því er varðar umhverfisþættina. Þar gefur að líta, ef horft er til umhverfismálanna, ýmis efni sem mér líst ekki alveg nógu vel á þar sem fjallað er um starfsemi álbræðslunnar. Í 6. gr. aðalsamningsins, sem frásögn er um á bls. 14 -- 15 í skýrslu hæstv. ráðherra, er að finna væntanlega meginatriðið að því er snertir kröfur til umhverfisþátta í aðalsamningi. Ég geri ráð fyrir að hæstv. umhvrh. hafi lesið þetta rækilega yfir, sé þessu gjörkunnugur og geti spáð í eyðurnar og brugðist við því

sem þarna stendur eftir því sem hann telur þörf á og hér verður innt eftir. Þarna lesum við eftirfarandi, hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh., sem hefur stýrt penna varðandi þessa skýrslu eða ber a.m.k. ábyrgð á henni, þarna stendur, með leyfi forseta:
    ,,Í 6. gr. aðalsamningsins verður kveðið nánar á um skuldbindingar félagsins [þ.e. Atlantsálfélagsins] varðandi mengunarvarnir og umhverfismál.`` --- Og þar lesum við: ,,Ekki hefur náðst samkomulag um endanlegt orðalag en við undirritun minnisblaðs 4. okt. sl. náðist samkomulag um eftirfarandi atriði og verður efni 6. gr. m.a. byggt á þeim.``
    Ég vek athygli á þessu að ekki hefur náðst samkomulag um endanlegt orðalag. Hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh., hvaða atriði eru það sem standa þarna út af? Hvaða atriði eru það sem tekist er á um í þessum efnum? Við óskum upplýsinga um það hér á Alþingi. Hvað er það? Því að við viljum sannarlega slást í hóp hvers þess sem er að reyna að halda á íslenskum hagsmunum í þessu efni, jafnvel þó að viðkomandi sé að hafa í huga að draga hingað rekstur sem er meira en tvísýnn í þjóðhagslegu tilliti eins og þessi álbræðsla.
    Og áfram lesum við þarna þar sem vísað er til minnisblaðs frá 4. okt., það var áður en textarnir rugluðust og og/eða kollsteypan varð hjá hæstv. umhvrh. sem við fórum hér yfir áðan. Það kom til seinna svo kannski hefur eitthvað breyst við það. En hér stendur:
 ,,a. Um meðferð umsóknar um umhverfisstarfsleyfi fer samkvæmt íslenskum lögum og reglum.
    b. Leyfið verður gefið út samtímis og gildir jafnlengi og aðalsamningurinn, þ.m.t. með hugsanlegri framlengingu.``
    Þetta er b-liður, ,,verður gefið út samtímis og gildir jafnlengi og aðalsamningurinn``. Er hæstv. umhvrh. sammála þessari stefnu sem þarna er dregin og virðist vera tekið mið á samkvæmt orðum og lýsingu hér á aðalsamningi?
 ,,c. Leyfið verður einungis endurskoðað eða því breytt (á tímamörkum sem samkomulag næst um)`` --- takið eftir þessu orðalagi: ,,sem samkomulag næst um`` --- ,,ef . . . `` --- Og síðan kemur upptalning ,,ef . . . `` Og þar er fyrsti liður: ,,ef nýjar aðferðir, aðgerðir eða tæki til að stjórna útrennsli, útstreymi eða losun lofts, vökva eða fasts efnis, hafa, á grundvelli alþjóðlegra sáttmála, almennt verið skyldubundnar og komið til framkvæmda í álverum í OECD-ríkjunum sem hönnuð eru um svipað leyti og Atlantsálverið og með áþekkri tækni og Atlantsálverið,``
    Í öðru lagi: ``nýrra aðferða, aðgerða eða tækja er krafist samkvæmt íslenskum lögum,
    Og í þriðja lagi: ,,nýrra mengunarvarna verði þörf vegna staðbundinna skilyrða á Keilisnesi.``
 ,,d. Breytingar á álverinu [og á þessu vek ég sérstaka athygli], er leiða af breytingum á starfsleyfi, skulu gerðar í áföngum á eðlilegu tímabili og að teknu tilliti til fjárhagslegra aðstæðna við framkvæmd slíkra breytinga í OECD - ríkjunum. Álverið skal að öllu leyti hlóta meðferð samkvæmt íslenskum lögum,

reglum og stjórnsýsluvenjum ekki óhagstæðari en veitt er íslenskum fyrirtækjum við líkar aðstæður.``
    Ég vek athygli hv. þm. á orðalagi þessarar hugsanlegu væntanlegu 6. gr. í aðalsamningi. Og ég bið hæstv. umhvrh. að hjálpa okkur til að spá í samhengi þeirra ákvæða sem hér eru upp dregin. Hvernig verður aðstaða íslenskra stjórnvalda að því er þetta varðar þegar allt er samanlagt sem hér er upp talið, hæstv. umhvrh.? Hvað er það sem verður ráðandi? Hér höfum við að vísu einn lið þar sem vísað er til nýrra aðferða, aðgerða eða tækja sem krafist er samkvæmt íslenskum lögum. En svo virðist sem allt þetta sé í miklu hafti vegna annarra skilyrða sem fram eru tekin í þessari grein,
ekki síst í d-lið þar sem viðkomandi stjórnvald, í þessu tilviki íslensk stjórnvöld, eru sett inn í þetta alþjóðlega samhengi sem hæstv. iðnrh. horfir svo mikið til í sambandi við umhverfisþættina, að breytingar á álverinu sem leiða af breytingum á starfsleyfi, þær skuli gerðar í áföngum á eðlilegu tímabili. --- Hvað er eðlilegt tímabil, hæstv. umhvrh.? Það hljóta að vera hugmyndir þar að baki. Hvað er eðlilegt tímabil í þessu samhengi? Og að teknu tilliti til fjárhagslegra aðstæðna. Hvaða mælikvarðar eru það sem þarna eru fram dregnir? Hvernig á að meta þetta, hinar fjárhagslegu aðstæður við framkvæmd slíkra breytinga í OECD-ríkjunum? Er þarna einhver alþjóðlegur mælikvarði á fjárhagslegar aðstæður varðandi áliðnað í OECD-ríkjunum, hæstv. ráðherra?
    Ég bið hæstv. ráðherra um að spá í þessi spil með okkur, fræða okkur um þessi efni, því að hér eru hin þýðingarmestu mál á ferðinni varðandi slíkan rekstur. Einnig er þarna vísað til stjórnsýsluvenja ekki óhagstæðari en veitt eru íslenskum fyrirtækjum við líkar aðstæður. Hvaða fyrirtæki eru það við líkar aðstæður sem þarna er vitnað til?
    Satt að segja finnst mér, þegar litið er á orðalag þessarar greinar, að það minni óþyrmilega margt á þau ákvæði sem Íslendingar létu smeygja inn í samninginn um álbræðsluna í Straumsvík á sínum tíma. Mér sýnist sem við höfum ekki lært nógu mikið af mistökum þess samnings miðað við þau ákvæði sem hér eru á ferðinni. Þar var að vísu vitnað til alþjóðlegra venja, ég man ekki hvort það var í siðmenntuðum löndum, eitthvað í þá áttina, en engar tryggingar, ekkert haldbært sem hefur orðið til þess að sú álbræðsla sem stendur í Straumsvík stenst enn í dag ekki þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíks rekstrar seint á síðasta tug þessarar aldar.
    En hér stendur síðan, í framhaldinu:
    ,,Nú eru til umræðu milli aðila breytingartillögur við þessa grein``, hæstv. umhvrh., ,,þar sem m.a. er fjallað um hvernig bregðast skuli við ef áður óþekktir og sértækir umhverfisskaðar koma fram vegna reksturs álvers á Keilisnesi.``
    Hvar eru þessi mál stödd? Hvar eru umhverfismálin yfirleitt stödd í sambandi við álbræðslu á Keilisnesi?
    Mér sýnist af þeim heimildum sem ég hef handa á milli að þá séu þessi mál ansi mikið úti í vindinum, en við hljótum að fá um það upplýsingar frá hæstv. ráðherrum hér á eftir, hver raunveruleg staða þessara mála er og ég segi það í fullri alvöru við hæstv. ráðherra að ég mun fylgjast með því að þeir geri þessum efnum skil við fyrri umræðu um þessa tillögu, rækileg skil, og upplýsi okkur um raunverulega stöðu þessara mála og dragi þar ekkert undan þannig að almenningur á Íslandi og þingmenn hér á Alþingi Íslendinga viti um það áður en gengið er til kosninga, áður en hér upphefst óvissutímabil í íslenskum stjórnmálum, hver staðan er varðandi mengunarvarnir að því er snertir samninga um þessa álbræðslu.
    Það er ótrúlega margt, virðulegur forseti, sem veldur því að maður hefur áhyggjur af stöðu þessa máls og ég held að öllum verði það skiljanlegt sem hlýtt hafa á mál mitt og þær tilvitnanir sem ég hef haft uppi, m.a. í mál hæstv. umhvrh. að þessu leyti.
    Þá tel ég rétt, virðulegur forseti, að ég snúi mér að öðrum þætti sem lesa má um og minnt er á í þessari fjögurra lína till. til þál. sem hér liggur fyrir, en einnig er vikið að í talsvert lengra máli í skýrslu hæstv. iðnrh. og snertir hagrænan þátt þessara mála, en það er orkuverð. Síðasta málsgrein þessarar tillögu er: ,,Þegar samkomulag hefur tekist um orkuverð og mengunarvarnir skulu niðurstöður lagðar fyrir Alþingi.``
    Orkuverð. Ég vil biðja hæstv. iðnrh. um að greina Alþingi Íslendinga frá því nú við fyrri umræðu um þessa tillögu hvað hefur breyst í samningsdrögum um raforkuverð fyrir hugsanlega álbræðslu á Keilisnesi frá því að hann undirritaði yfirlýsingu við hátíðlega athöfn fyrir framan sjónvarpsvélar með fulltrúum Atlantsálssamsteypunnar 4. okt. sl. og sem mjög hefur verið rætt um síðan. Það mætti ætla, nú þegar hæstv. ráðherra vill fá uppáskrift Alþingis á áframhald samningaviðræðna, að ástæða sé til bjartsýni varðandi þennan þátt, raforkuverðsþáttinn. En við þurfum að fá upplýsingar um það hér, hæstv. ráðherra, áður en við förum að taka afstöðu til þess hvort við hér á Alþingi eigum að álykta um það að áfram skuli haldið þessum samningaviðræðum. Við getum ekki farið að taka afstöðu til þess atriðis nema við höfum fengið hér skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um raforkuverðssamninginn, sem manni skilst að sé svo gott sem í höfn. Sé það ekki, þá hlýtur hæstv. ráðherra að greina okkur frá því hvaða eyður eru þar uppi, hvaða atriði það eru sem valda áhyggjum í því efni.
    Svo vel vill til að við hér á hv. Alþingi búum að mönnum sem hafa tekið þátt í að semja um raforkuverðið og ýmsa þætti þess í framhaldi af undirskrift hæstv. ráðherra 4. okt. sl. Vísa ég þar sérstaklega til hv. 1. þm. Norðurl. v., sem ég óska eftir að verði hér viðstaddur fljótlega, virðulegur forseti, vegna þess að ég ætla að beina til hv. þm. nokkrum orðum, og vænti ég að hæstv. iðnrh. leggi hér áfram við hlustir í sambandi við raforkuverðsþáttinn.
    Ég ætla, virðulegur forseti, aðeins að víkja að stöðunni eins og hún blasti við að því er snertir þennan þátt mála á sl. hausti. Þá var staðan þannig varðandi

raforkuverðið, eftir því sem ég man, að gert var ráð fyrir því að grunnurinn sem fyrir lægi varðandi raforkuverð væri eitthvað nálægt 17 bandaríkjamillum sem lögð væru til grundvallar að gætu sloppið í sambandi við framleiðslukostnað. Þetta hefur hins vegar verið vefengt af mörgum sem um málið hafa fjallað og ég tel alveg nauðsynlegt að fram komi hér af hálfu hæstv. iðnrh. hver er raunveruleg staða þessa máls að því er snertir raforkuverðið nú þegar hann er að biðja um umboð frá Alþingi til áframhaldandi samningaviðræðna.
    Eins og menn muna snýst mál þetta, að því er snertir afhendingu raforkuverðs, um að selja Atlantal - álbræðslunni 3000 gwst. af raforku. Menn skynja það hvaða stærð hér er á ferðinni þegar haft er í huga að heildarrafmagnssala Landsvirkjunar á árinu 1989 var um 4000 gwst., þar af 2200 samtals til orkufreks iðnaðar. Hér er þannig um að ræða meira en tvöföldun á afhendingu orku til orkufreks iðnaðar frá því sem var á árinu 1989 og frá því sem er núna. Það er alveg nauðsynlegt að við fáum upplýsingar um það hér við umræðuna hvað hefur breyst frá því að undirrituð var yfirlýsing og raforkuverðssamningur átti að heita fullbúinn í október sl. og fram á þennan dag, eftir að sérstök nefnd á vegum Landsvirkjunnar --- og nú vænti ég að hv. 1. þm. Norðurl. v. komi hér í þingsal --- tók til starfa til þess að reyna að berja í brestina í sambandi við raforkuverðssamninginn.
    Ég vísa til þess í sambandi við raforkuverðið að framleiðslukostnaður Landsvirkjunar á hverja selda kwst. reyndist samkvæmt þeirra eigin upplýsingum hafa verið á bilinu 20 -- 25 mill á selda kwst. á árabilinu 1986 -- 1989 og þá er það meðaltal út úr öllu framleiðslukerfi Landsvirkjunar, einnig þær virkjanir sem eru að fullu afskrifaðar sem tekið er tillit til eða standa að baki þessari framleiðslu. Við erum hins vegar að tala hér um endurnýjunarframleiðslukostnað miðað við þær virkjanir sem þarf að reisa í framtíðinni vegna þessarar raforkusölu. Og þar geta menn ekki verið að taka mið af því kerfi sem fyrir er heldur þeim kostnaði sem við blasir og þeirri viðbót sem koma þarf eftir að búið er að virkja í þágu þessarar álbræðslu, ef af verður.
    Ég minni líka á það í þessu samhengi, virðulegur forseti, að söluverð Landsvirkjunar til almenningsveitna á árinu 1989 var á bilinu 35 -- 40 mill. Á sama tíma eru menn að tala um það að afhenda raforku til Atlantsálbræðslunnar, hátt í tvöföldun á raforkumagni frá því sem nú er, fyrir aðeins 17 mill sem grunnverð inn í það samhengi og er þar þó sannarlega ekkert fast í hendi að það raforkuverð skili sér í reynd til Landsvirkjunar.
    Ef við gerum ráð fyrir að eðlilegt sé að reikna með eitthvað lægra verði til stóriðju vegna þess að þar er um stórnotanda að ræða og oft er reynt að færa rök fyrir því að í slíkum viðskiptum eigi að taka tillit, gefa eins konar magnafslátt sem að hámarki, miðað við alþjóðlega venju, ætti ekki að vera meira en 1 / 3 , þ.e. að söluverðið til stóriðjunnar fari ekki yfir það að vera 2 / 3 miðað við verð til almenningsveitna. Ef við

miðum við það í slíkum viðskiptum og tökum tillit til núverandi söluverðs Landsvirkjunar til almenningsveitna, sem síðan er selt á miklu hærra verði í smásölu í landinu af rafveitunum, þá væri hér um að ræða raforkuverð upp á 25 mill en ekki 17 mill sem talað er um sem grunnverð í þessum væntanlegu viðskiptum.
    Við óskum eftir því hér við þessa umræðu að hæstv. iðnrh. rökstyðji það fyrir okkur, hafi ekki orðið grundvallarbreyting á, hvernig hann ætlar að réttlæta slík viðskipti sem þarna er um að ræða og er þar þó sannarlega ekkert fast í hendi eins og ég gat um áðan og það grunnverð, sem rætt var um í haust, getur allt eins orðið 15 mill eða þaðan af lægra, að ekki sé nú talað um þann afslátt sem þetta fyrirtæki á að njóta á fyrstu starfsárunum, fyrstu sjö eða tíu árin sem það er rekið, því að þar er verið að tala um miklu, miklu lægri tölur í raforkuverði heldur en hér er um að ræða, kannski aðeins um fjórðung til að byrja með miðað við söluverð til almenningsveitna frá Landsvirkjun, allt niður undir 10 mill í raforkuverð.
    Sá þáttur hins vegar í sambandi við orkuverðið, virðulegur forseti, tengist þeirri verðformúlu sem gert hefur verið ráð fyrir í þessum viðskiptum, þeirri tengingu raforkuverðsins við álverð sem um hefur verið rætt í þessu samhengi. Þar eru sannarlega miklir óvissuþættir og þegar Landsvirkjun talar um það að ná 16 eða 17 millum sem grunnverði á samningstímanum út úr þessum viðskiptum, þá er miðað við tiltekið álverð að meðaltali á samningstímanum. Og hvert er það álverð, hæstv. iðnrh.? Það er á bilinu 1850 -- 1900 Bandaríkjadalir á tonn. Það er viðmiðunin sem dregin er þegar verið er að spá í spilin fyrir Landsvirkjun, það raforkuverð sem hún þyrfti að fá til þess að sleppa á sléttu út úr þessum viðskiptum samkvæmt upplýsingum sem fram eru reiddar í tengslum við þetta mál.
    Það hefur hins vegar verið á það bent hvaða áhrif það hefði, hversu gífurlega þungt sveiflan í álverði hefur inn í útreikninga á raforkuverðinu og hversu afdrifaríkt það er ef menn ekki ganga frá málum með sæmilega traustum hætti og öðrum hætti en gert er í þessum viðskiptum.
    Þjóðin hrökk nokkuð við þegar einn af stjórnarmönnum Landsvirkjunar sem nú er orðinn formaður í Sjálfstfl. gekk fram á völlinn í byrjun nóvembermánaðar --- eða var það fyrr? --- í framhaldi af undirritun yfirlýsingar hæstv. iðnrh. sl. haust og greindi þjóðinni frá því að það væri ekkert út úr þessu dæmi að hafa nema tap, a.m.k. fyrstu 15 -- 20 árin eins og hann leit á málin. --- Virðulegur forseti, er að vænta að hv. 1. þm. Norðurl. v. komi hingað í þingsal? Ég hef óskað eftir nærveru hans vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram. Hann tengist þessu máli náið og nauðsynlegt að hann komi hér til umræðunnar. Getur virðulegur forseti greint frá því hvort hans er að vænta í þingsal? ( Forseti: Sá forseti sem nú situr í forsetastóli vissi ekki að hv. þm. hefði óskað eftir 1. þm. Norðurl. v., en forseti hefur nú gert ráðstafanir til þess að hann verði sóttur.) Ég þakka virðulegum forseta því að hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gerst meðreiðarsveinn m.a. núverandi formanns Sjálfstfl., Davíðs Oddssonar, sem stjórnarmanns Landsvirkjunar, báðir eru þeir stjórnarmenn, til þess að leitast við að berja í brestina á raforkusamningnum sem fyrir lá sl. haust og hæstv. iðnrh. sagði þjóðinni að væri þá nánast fullfrágenginn. En nú getum við væntanlega fengið fregnir af því hér í umræðum á Alþingi frá þeim sem eru á vettvangi og hafa verið að glíma við þessi efni, hvaða breytingar hafa þarna á orðið. Við höfum fengið upplýsingar um ákveðnar viðmiðanir. Hér er ekki um nein viðskiptaleyndarmál að ræða lengur, það er búið að fóðra þjóðina á upplýsingum um þessi efni og það hlýtur að vera hægt að greina frá því hér úr þessum ræðustóli hvaða breytingar hafa náðst fram til hagsbóta í sambandi við raforkuverðssamning. Við eigum kröfu á því, alþingismenn, þegar við ræðum þetta mál og þegar hæstv. iðnrh. óskar eftir uppáskrift.
    Hæstv. ráðherra, ég bið um það að fá þessar upplýsingar og ég vænti að hæstv. ráðherra fái í lið með sér hv. 1. þm. Norðurl. v. sem hefur verið hans verkamaður í þessum víngarði undanfarna mánuði, þó það hafi kannski verið dálítið grunnt á því góða milli stjórnar Landsvirkjunar og hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans að undanförnu.
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa orðið breytingar í grundvallaratriðum varðandi orkuverðssamninginn frá því sl. haust? Frá því sem fyrir lá áður en Davíð Oddsson gaf sína yfirlýsingu, sem ekki er ástæða til að hafa annað mat á, því það getur hvert barn reiknað. Það geta allir þeir reiknað út sem hafa farið yfir þetta mál að það er ekkert út úr þessu dæmi að hafa nema útgjöld, nema tap fyrir íslensk viðskipti fyrstu 15 -- 20 árin frá því að slík álbræðsla tæki til starfa og slík raforkusala hæfist.
    Það hefur verið talað um sérstaklega í þessu samhengi fyrir utan orkuverðsformúluna endurskoðunarákvæðin að því er þetta varðar. Hvernig eru þau mál stödd? Hver er staða varðandi endurskoðunarákvæði hugsanlegs eða væntanlegs raforkusamnings, hvernig sem við viljum orða það? Ég bið um upplýsingar einnig um þann þátt mála.
    Um raforkuverðið er fjallað nokkuð í skýrslu hæstv. ráðherra og það er ástæða til þess að líta í hana varðandi einstaka þætti þessa máls. Þar er að finna sérstaka greinargerð frá Landsvirkjun um rafmagnssölu til Atlantsáls. Við skulum aðeins líta á það sem þar má lesa út úr máli.
    Í því efni er bæði fjallað um raforkuverðsformúlur og það er líka fjallað um stöðu og horfur væntanlegra samningamála. Það er ástæða til þess að líta á hver er slík staða. Á bls. 21 í skýrslu hæstv. ráðherra er um þetta fjallað. Segir þar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Unnið hefur verið að samningsgerð um orkusölu milli Landsvirkjunar og Atlantsálsaðilanna frá því á miðju ári 1988. Eins og fram kemur í drögum að greinargerð Landsvirkjunar um orkusölusamning, dags. í febrúar 1991, liggur fyrir samkomulagsgrundvöllur

um öll tæknileg atriði samningsins. Sama gildir einnig um önnur samningsatriði ef undan eru skilin nokkur atriði er varða tryggingar, ábyrgðir og orkuverðsskilmála.``
    Hvaða atriði eru það, hæstv. iðnrh., sem hér er til vísað? ,,Samkvæmt drögum að greinargerðinni verður orkuverðið ákveðið hlutfall af álverði. Veittur verður afsláttur af verðinu fyrstu átta árin. Fyrstu árin tvö verða auk þess ákveðin efri og neðri mörk,`` stendur þar. ,,Ákvæði verða um kaupskyldu af hálfu Atlantsáls. Endanlegur orkusamningur mun innihalda grein um endurskoðunarrétt. Orkusamningurinn verður til 25 ára og skal Atlantsál hafa rétt til að framlengja samninginn tvisvar sinnum um 5 ár í hvort sinn.`` Síðan er vísað til fylgiskjals um þessi atriði frekar.
    Það segir áfram á bls. 22 í skýrslu hæstv. ráðherra um þetta efni: ,,Áætlað er að fjárfesting Landsvirkjunar á tímabilinu 1991 -- 1995, miðað við framangreindar framkvæmdir og framkvæmdir við Blönduvirkjun sem nú er ólokið, verði um 40 þús. millj. kr.``, þ.e. 40 milljarðar, ,,að meðtöldum 5,5% vöxtum á byggingartíma, miðað við verðlag í desember 1990.`` Síðan kemur fram það mat sem niðurstaða frá september 1990 um líkindafræðilega útreikninga á áhættu af þessum viðskiptum: ,,Niðurstaða þeirra var að 73% líkur væru á að arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar yrði meiri en 5%, en um 1% líkur á að arðsemi eiginfjár yrði neikvæð``, stendur þar. Síðan lesum við áfram í þessum texta:
    ,,Frá því að framangreind athugun fór fram hafa ýmsar ytri aðstæður breyst. Þar má nefna raungengislækkun Bandaríkjadals og breytingar á raunvöxtum, álverði o.fl. Það voru einmitt áhrif slíkra breytinga sem líkindafræðilegum útreikningum Þjóðhagsstofnunar var ætlað að meta. Í líkan Þjóðhagsstofnunar vantaði raunar eitt þýðingarmikið atriði, þ.e. að lýsa því sterka samhengi sem er milli álverðs í Bandaríkjadölum og raungengis Bandaríkjadals. Nú er, eins og fram kemur í fskj. nr. 3, verið að endurskoða arðsemi af fyrirhugaðri orkusölu Landsvirkjunar til Atlantsáls. Jafnframt má benda á að í vor verða opnuð tilboð í verksamninga um meginhluta þeirra virkjanaframkvæmda sem áformaðar eru vegna Atlantsáls.``
    Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hver er staða þessara athugana í dag því að hér segir að það hafi breyst ýmsar ytri aðstæður frá því að málið var metið sl. haust? Við erum hér að fjalla um einn grundvallarþátt í þessum væntanlega samningi sem hæstv. ráðherra er að reyna að undirbúa. Hvaða aðstæður eru það sem hafa breyst og hvert er mat þeirra sem um þessi mál fjalla nú á stöðu þessa máls þegar hæstv. ráðherra er að biðja um að fá umboð Alþingis til áframhaldandi samningaviðræðna um þessi efni?
    Ég vil nefna það í þessu samhengi að tengingin við álverðið í sambandi við raforkusamninginn er svo afdrifaríkur þáttur að við hljótum að leggja mat á líklega þróun þeirra mála þegar við erum að fjalla um raforkuviðskiptin. Það kemur nefnilega í ljós að meðaltalsverðið sem hæstv. iðnrh. er að draga fram og

leiða líkur að ásamt Landsvirkjun sem undirstöðu að þessum viðskiptum, sem eiga samkvæmt þeirra hugmyndum að sleppa a.m.k. á sléttu, þær viðmiðanir eru á veikum grunni reistar ef litið er til þróunar á álverði undanfarna áratugi. Við skulum þess vegna aðeins átta okkur á því hver hefur verið staðan, t.d. undanfarin tíu ár, að því er snertir þetta atriði. Þá kemur nefnilega í ljós að meðalverð á áli á verðlagi því sem hér um ræðir og sem viðmiðun hæstv. ráðherra og Landsvirkjunar byggir á er ekki 1850 -- 1900 Bandaríkjadalir heldur nálægt því að vera 1600 Bandaríkjadalir undanfarin tíu ár. Hvaða rök eru fyrir því að ætla að fara að byggja raforkusamning til 25 ára á allt annarri og hærri tölu en hefur skilað sér að meðaltali í álverði undanfarinn áratug, hæstv. iðnrh.? Eða hefur hæstv. ráðherra tekist að breyta þessari viðmiðun í grundvallaratriðum? Það væru tíðindi ef svo væri. Ég bið hæstv. ráðherra um upplýsingar þar að lútandi.
    Hvernig ætli staðan sé þessa stundina í álverði? Hvert ætli hafi verið álverð það sem af er þessu ári? Það er fljótlesið úr tímaritum um þessi efni eins og Metal Bulletin. Þar eru engir 1900 Bandaríkjadalir á ferðinni. Þar eru engir 1650 Bandaríkjadalir á ferðinni sem þó er reiknað með sem svartalágmarki. Þar er verðið á bilinu 1500 -- 1550 Bandaríkjadalir að undanförnu. Það eru leiddar líkur að því að á þessu ári muni þau viðskipti ekki breytast mikið. Skal ég út af fyrir sig ekkert fullyrða um það því að óstöðugleiki hefur vissulega verið undanfarnar vikur og verður það væntanlega áframhaldandi sem afleiðing af stórstyrjöld við Persaflóa sem engan veginn er séð fyrir afleiðingarnar af að því er varðar alþjóðlegt efnahagslíf og viðskipti.
    Hafa kannski engar aðstæður breyst varðandi orkuverðssamninginn? Hefur kannski ekki verið náð neinu fram varðandi þennan grunnþátt viðskipta í þeim viðræðum sem fram hafa farið á vegum Landsvirkjunar eftir að Davíð Oddsson, Páll Pétursson og fleiri voru settir til höfuðs stjórnarformanninum til þess að reyna að binda svolítið fastar hnúta í þessum efnum en gert hafði verið? Getur verið að engu hafi verið hróflað í þeim meginþætti mála og sá bjartsýnistónn sem þessir nefndu samningamenn á vegum Landsvirkjunar í undirnefnd, formaður Sjálfstfl. og 1. þm. Norðurl. v., hafa verið að gefa í skyn í blöðum séu meira af pólitískum toga vegna þess að þeir vilji láta líta svo út sem þeir hafi fengið einhverju áorkað og ætli sér í raun að gerast uppáskriftarmenn á þennan víxil hæstv. iðnrh. eða eftirmanns hans?
    Þetta verður væntanlega upplýst hér. Við eigum kröfu á því, því að það hafa komið fram um það upplýsingar að breyttar aðstæður valdi því að Landsvirkjun geti alls ekki búið við þennan samning að óbreyttu. Að líkindi séu á því að þessi viðskipti séu neikvæð en ekki jákvæð vegna breyttra aðstæðna og breytts mats. Hæstv. ráðherra getur varla vænst þess að Alþingi Íslendinga fari að veita honum sérstakt samningsumboð til að halda áfram samningaviðræðum ef líkurnar í þessum efnum eru ekki aðrar og bjartari en fyrir lá á sl. hausti. Það hlýtur að vera einhver

ástæða fyrir því að hæstv. ráðherra vill fá uppáskrift Alþingis. Hann getur ekki vænst þess að hún verði gefin nema hann veiti hér fyllstu upplýsingar, ef ekki á opnum fundi Alþingis þá á lokuðum fundi Alþingis, því að um svo stórt og þýðingarmikið mál er hér að ræða að alþingismenn allir eiga heimtingu á því að hafa þar fyllstu upplýsingar um stöðu mála. Það þýðir ekkert, hæstv. ráðherra, að skjóta sér þar á bak við viðskiptaleynd því að okkur alþingismönnum er fulltreystandi til þess að taka við trúnaðarupplýsingum ef það er talið nauðsynlegt í þessu efni. En við þurfum á upplýsingunum að halda áður en við förum að gerast ábekingar á áframhaldandi samningsumboði til hæstv. ráðherra um þessi efni.
    Liggur fyrir eitthvað nýtt mat, hæstv. ráðherra, á líklegri þróun á álverði næstu árin, m.a. í ljósi þeirra breyttu viðhorfa í alþjóðaviðskiptum, þeirrar stöðu sem ríkir í fjármálum Bandaríkjanna og er að verða æ ljósari, heldur en lá fyrir á síðasta ári? Ég vænti þess að við fáum einhver svör þar að lútandi í umræðunni á eftir.
    Ég vil líka vekja athygli á því vegna þess að ég benti á það snemma í ræðu minni að ein ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra vill láta líta svo út sem hann hafi hér á hendi samning um þetta fyrirtæki, hafi það á hendinni að það sé bara spurningin um fimm mánuði eða svo til eða frá, hvenær þetta fyrirtæki taki til starfa. Það er ekki alls staðar bjart yfir hjá þeim sem eru að reyna að gera samninga á alþjóðlegum markaði um álbræðslur þessa mánuðina. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi fylgst með því sem lesa má í alþjóðlegum tímaritum, þar á meðal Metal Bulletin, um þessi efni. Ég var að fara yfir eina slíka frásögn í dag og gæti vitnað til hennar síðar hér í umræðunni til upplýsingar einmitt um það að það hefur víða slegið í bakseglin í slíkum samningum. Það skyldi nú ekki vera að hæstv. ráðherra sé innra með sér í meiri óvissu en áður um lyktir þessa máls og hann sé kannski hér að veifa framan í alþjóð gyllivonum um samninga við Atlantal - hópinn um þessa álbræðslu. Ég vænti þess að hann skýri nánar frá því hér síðar við umræðuna.
    Annar er sá þáttur sem skiptir miklu þegar reynt er að leggja mat á þessi viðskipti og þjóðhagsleg áhrif, uppskeru eða tap í þeim samningum sem hæstv. ráðherra hefur verið að reyna að vinna að og ætlar að reyna að vinna áfram að fái hann til þess uppáskrift þingsins og það er raungengið. Hver er viðmiðunin í sambandi við raungengi í þessum viðskiptum? Jú, það eru 5,5%. Það er sá stuðull sem notaður er í þessum útreikningum og miðað við 5,5% raunávöxtun fjármagns þá rétt sleppur þetta hjá Landsvirkjun miðað við þær forsendur sem lágu fyrir sl. haust. En er það á traustari grunni reist heldur en líkurnar á álverðinu sem ég var að geta um áðan? Hvert hefur verið raungengi í alþjóðlegum viðskiptum á undangengnum árum? Hvert hefur verið meðalverð raunvaxta, t.d. hjá Landsvirkjun, undanfarin tíu ár, hæstv. ráðherra? Hefur það verið 5,5%? Ó, nei. Meðaltalið undanfarin tíu ár hefur verið 6,5%. Svo er okkur ætlað að skrifa hér

upp á samning til 25 ára, stærsta viðskiptasamning sem Íslendingar hafa gert nokkru sinni, og þar er viðmiðunin allt önnur heldur en raunveruleiki þess fyrirtækis sem á að sjá fyrir orkunni miðað við undanfarið tíu ára tímabil. Hver er staðan að undanförnu? Hvað hefur Seðlabankinn verið að segja okkur um þessi efni? Við vorum að ræða vaxtamál hér á Alþingi í gær á grundvelli skýrslu frá Seðlabankanum. Það mátti skilja á Seðlabankanum að raungengi hér á Íslandi væri ekkert svo mikið hærra heldur en á alþjóðlegum mörkuðum. ( Gripið fram í: Raunvextir.) Raunvextir væru ekki aðrir hjá Íslendingum í viðskiptum hérlendis heldur en á alþjóðlegum viðskiptum. Og ætli það liggi niður í 5,5%? Ætli þeir séu ekki einhvers staðar milli 7 og 8%? ( Viðskrh.: Má ég benda ræðumanni á að vextir af opinberum lánum, ríkislánum, eru til muna lægri í flestum löndum en hér.) Nú kemur hæstv. ráðherra hér væntanlega í ræðustól síðar á þessari nóttu eða einhvern tíma og ég bið hæstv. ráðherra einmitt að fara yfir þessa þætti rækilega hér til þess að veita okkur einhvern trúnað, opna eitthvað hug sinn í þessum efnum. Því að hæstv. ráðherra verður að hafa eitthvað fyrir því að fá samþykki hér á Alþingi Íslendinga til að halda áfram þessum samningaviðræðum. Og hann verður að reiða fram eitthvað traustari upplýsingar en liggja að baki því dæmi sem hann leggur hér fyrir í þessum pappírum að því er varðar grunnþætti málsins, undirstöðuþætti.
    Þetta mál er á slíkum sandi reist, hæstv. iðnrh., miðað við söguna, miðað við raunveruleika undanfarins áratugar, að þar er allt í botnlausu tapi ef það yrði reyndin áframhaldandi. Ég held að það sé því miður engin tilviljun að reiknimeistarar hæstv. iðnrh. hafa séð ástæðu til þess að seilast ekki bara tíu ár til baka, þegar þeir hafa verið að leiða líkur að því að það mætti miða við 5,5% raunvexti og það mætti miða við 1900 dollara á áltonn. Þeir leita til baka til 1960. Hvað segja nú viðskiptafróðir menn um það að ætla að fara að byggja stærsta viðskiptasamning Íslendinga á einhverju meðaltali sem sækir aftur til ársins 1960 í alþjóðlegum viðskiptum?
Ég held að hæstv. iðnrh., fyrir skemmstu einnig fyrrv. þjóðhagsstjóri, forstjóri Þjóðhagsstofnunar og væntanlegur seðlabankastjóri, viti það fullvel að slíkt er ekki frambærilegt, að ætla að fara að reisa slíkan viðskiptasamning með því að fara 30 ár til baka þegar aðstæður í iðnþróuðum hluta heimsins voru allar aðrar en nú ríkja og nú stefnir í. Það er von að það færi um Davíð Oddsson þegar hann sá framan í þetta dæmi, en það kann nú að vera að núv. formaður Sjálfstfl. hefði eftir á að hyggja viljað hafa þau orð ósögð, a.m.k. ef hann ætlar að hjálpa til að draga þennan samning í land sem hæstv. iðnrh. hefur fitjað upp á og ætlar að skila til arftaka síns á ráðherrastóli og mun leitast við að mynda um nýja ríkisstjórn að kosningum loknum.
    Það eru fleiri meginþættir í þessum viðskiptasamningi sem ástæða er til að við förum yfir hér á Alþingi áður en við tökum afstöðu til þessarar tillögu sem hæstv. iðnrh. óskar hér eftir uppáskrift á. Það eru

gengismálin. Það er gengið. Hér er allt byggt á dollar. Þegar hæstv. ráðherra var nokkurn veginn að ganga frá meginþáttum samninga og taldi sig hafa það orðið það mikið á hreinu að hann efndi til hátíðlegrar uppáskriftar sl. haust, þá var staðan varðandi Bandaríkjadal, að ekki sé nú litið lengra til baka, talsvert önnur en núna og Landsvirkjun miðar við gengið 60 kr. á Bandaríkjadal í sínum útreikningum, hæstv. ráðherra, stundum 62, en hvar liggur það núna? Er það ekki 54 eða 55, liggur eitthvað á því bili. Sem sagt, allt aðrar aðstæður. Er það trúin á endurreisn dollarans sem við eigum að byggja þessa samninga á og þessi viðskipti? Ég bið hæstv. iðnrh., nýorðinn fyrrv. þjóðhagsstjóra og væntanlegan seðlabankastjóra, að segja okkur frá því hvernig hann les í þróun á gengi dollarans á væntanlegum samningstíma, 25 árum, því að það hangir margt á þeirri spýtu. Það gæti m.a. verið að hæstv. ráðherra verði kominn úr stóli seðlabankastjórans áður en lýkur þessu samningstímabili þó að hann sé vel á sig kominn nú, frískur maður á góðum aldri.
    Ég er hér að vekja athygli, ekki aðeins hæstv. ráðherra á áhyggjum mínum varðandi þennan viðskiptasamning sem hann ætlar að gera og er að hvetja Landsvirkjun og stjórn Landsvirkjunar til að gera, ég er jafnframt að vekja athygli hv. alþm. á því þingmáli sem hér liggur fyrir, þar sem hæstv. iðnrh. er að biðja um uppáskrift til að halda áfram þessum samningaviðræðum og leiða þær væntanlega til lykta ef hann megnar. Þá hlýtur það að skipta öllu hver grunnurinn er. Hvar er hæstv. iðnrh. staddur með þetta mál? Hverju hefur hann fengið breytt frá því að flaggað var og blásið til undirritunar á að því er manni skildist nærri fullfrágengnum samningum 4. okt. sl.? Hver er staðan nú? Við lesum í pappírum ráðherrans sjálfs að ýmsar aðstæður hafi breyst frá því þá. Það stendur hérna einnig varðandi raforkuverðið á bls. 22. Hverjar eru horfurnar?
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra vilji standa öðruvísi að máli en víða má lesa út úr þessu gagni þar sem tölurnar rekast hver á annars horn og undirstöðuþættir eins og þjóðhagsstærðir vísa sitt á hvað eftir því upp á hvaða blaðsíðu maður flettir. Væri ekki skynsamlegt, hv. þm., að senda hæstv. iðnrh. upp í ráðuneyti með þessi plögg og biðja hann um að fara yfir málið og koma hingað seinna --- hvort sem hann verður þingmaður eða ráðherra eftir kosningar, við skulum ætla að hann bjargist inn á þing á Reykjanesi, hvað sem verður um þennan kosningabækling --- og greina okkur frá hvernig hann sér málin eftir að hafa farið yfir hinar breyttu ytri aðstæður og eftir að hafa samræmt tölulegar niðurstöður í þessum plöggum þar sem hvað hrópar á annars horn í undirstöðuþáttum frá fyrrv. þjóðhagsstjóra.
    Við lesum það á bls. 24 í skýrslu hæstv. ráðherra að Þjóðhagsstofnun ætli að endurskoða þjóðhagsleg áhrif Atlantsáls, en það nægir okkur ekki að það sé vísað eitthvað fram í tímann um það efni. Við getum ekki byggt mat okkar á samningsstöðu núna og hvort hæstv. ráðherra eigi að fá umboð upp á eitthvað sem

eigi að gera.
    Það mætti, virðulegur forseti, mjög margt fleira segja um undirstöðuþætti þessara viðskipta að því er snertir orkuverðssamninginn. En ég vil leyfa mér að víkja hér aðeins að öðrum þætti og bið hæstv. fjmrh. að leggja við hlustir. Hann hlýtur að vera hér nærri. ( Forseti: Óskar þingmaðurinn eftir að hann verði sóttur?) Ég hafði farið fram á það, bæði áður en þessi umræða hófst og í byrjun þessarar umræðu, að hæstv. ráðherrar væru hér viðstaddir umræðuna. Ég hef talað hér í trausti þess að þeir séu nálægt. ( Forseti: Ekki fór það fram hjá forseta. Það er óskað eftir nærveru hæstv. fjmrh. --- og gengur hann nú í salinn.)
    Við höfum verið að fjalla hér um orkuviðskiptin í þessum stærsta viðskiptasamningi sem fjallað hefur verið um á vegum íslenskra aðila. En það eru fleiri þættir, þar á meðal skattaþátturinn. Margt sem snertir það mál er vissulega til bóta að því er varðar grundvallarþætti máls, að því er snertir samningsgrunninn. Viðmiðun við íslenska löggjöf í staðinn fyrir erlend ákvæði. Það er kannski eitt það skásta sem hefur gerst í sambandi við þessi mál að það hefur verið tekið með öðrum hætti á því heldur en í sambandi við samninga um t.d. álbræðsluna í Straumsvík. Það er hins vegar vakin athygli á því, hæstv. fjmrh., að skattaleg uppskera af þessum viðskiptum, sem hér er verið að leiða líkur að, sé nú ekki alveg föst í hendi og þess sé ekki að vænta að skattar skili sér af þessum viðskiptum, a.m.k. ekki tekjuskattur, hátt í áratug. Það lesum við út úr þessum gögnum.
    Hér eru á reiki mismunandi tölur í sambandi við hugsanlega skatta. Það virðist alveg ljóst að uppskeran úr skattalegum viðskiptum við svona fyrirtæki er einnig háð þróun álverðs, er einnig tengd inn á þann mælikvarða sem er jafnmikilli óvissu háður að því er snertir raforkuviðskiptin, ég skal ekki segja hvernig það virkar inn í skattalegu viðskiptin í einstökum atriðum. En það er tekið fram í skýrslu hæstv. iðnrh. að heildarskattgreiðslur geti hlaupið á óvissum upphæðum. Það eru nefndir 15 -- 20 milljarðar kr. á þessum tíma, ég held að ég fari rétt með það, en hvaða 15 -- 20 milljarðar eru þetta? Eru þetta íslenskar krónur á núvirði eða er þetta upphleðsla á samningstímanum? Það skiptir auðvitað öllu máli ef leitast er við að spá í uppskeru af skattalegum þætti, jafnóviss og hann virðist vera að því er snertir niðurstöður vegna tengingar við álverð, rétt eins og í raforkuviðskiptunum. Þess vegna nefni ég það hér því að þótt margt sé frágengið með allt öðrum og betri hætti í sambandi við skattamálin en þekkst hefur úr hliðstæðum viðskiptum, þá er einnig þarna á ferðinni mikil óvissa að því er snertir niðurstöður. Rétt þarf að vera rétt í þessu máli að svo miklu leyti sem menn geta farið nærri niðurstöðu. Þess vegna spyr ég um raunvirði þeirrar uppskeru miðað við gefnar forsendur af skatttekjum álversins. Það verður væntanlega upplýst hér, hvort sem hæstv. iðnrh. eða fjmrh. tekur að sér að greina frá þeim þætti málsins.
    Virðulegur forseti. Ég ætla þá að snúa mér að þeim þætti sem varðar þriðju línu í till. til þál. um

samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi eins og tillagan heitir, þ.e. staðsetningu þessa fyrirtækis og hvaða áhrif það er líklegt að hafa á byggðaþróun í landinu, á framkvæmdir í landinu á næstu árum. Hér er raunar um að ræða einn af þeim fáu þáttum í þessu máli þar sem hæstv. iðnrh. er að biðja Alþingi um eitthvað nýtt, er að biðja Alþingi um uppáskrift á staðsetningu sem Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til. Hér er einn af þeim stóru þáttum máls fyrir utan efnahagslega þáttinn, þjóðhagslega þáttinn og umhverfisþáttinn, það eru áhrifin á byggðina í landinu. Ráðherra vísar á Vatnsleysustrandarhrepp og biður um fjárveitingu til þess að kaupa jörðina Flekkuvík upp á allt að 300 millj. kr. í frv. til lánsfjárlaga og er eitt af því sem fyrir liggur í þessu uppleggi sem við ræðum hér í kvöld.
    Margt má nú segja, virðulegur forseti, um þróun þessa máls og einstök atriði en í engum þætti málsins hefur verið staðið að með jafnmiklum blekkingum, slægð og ég leyfi mér að segja óheilindum gagnvart fólkinu í landinu og í sambandi við staðsetningu þessa hugsanlega fyrirtækis. Það tengist því sem ég ræddi hér snemma í mínu máli. Það tengist því hvernig hæstv. iðnrh. hefur verið á uppboði sem frambjóðandi fyrir Alþfl. nú í aðdraganda kosninga þangað til hann --- eða réttara sagt útlendingarnir lentu málinu á Keilisnesi. Þessi rúlletta hæstv. ráðherra er búin að kosta íslenskt þjóðfélag talsvert mikið í beinum fjárhæðum talið, að ekki sé nú talað um þau ósæmilegu málstök sem verið hafa á þessum þætti málsins frá upphafi.
    Nú er það vissulega svo að forverar hæstv. núv. iðnrh., sem hafa verið að baksa við það að koma fótum undir álbræðslu á Íslandi frá því 1983 og sú úrvalssveit sem setið hefur í iðnrn. síðan, ég veit ekki hvort menn muna eftir nöfnunum, Sverrir Hermannsson, Albert Guðmundsson, Þorsteinn Pálsson, Friðrik Sophusson, hafa allir rembst sem rjúpa við staur að koma fótum undir erlenda álbræðslu á Íslandi. Lengi vel bundu þeir trúss sitt við Alusuisse og staðsetninguna við Straumsvík þangað til að upphófst sú rúlletta sem hv. 1. þm. Reykv. byrjaði með undirskrift um hagkvæmnikönnun á vegum Atlantal - hópsins þann 4. júlí 1988. Þá fór málið að breytast. Að vísu var öðru hverju horft til Straumsvíkur, en eftir að Alusuisse gekk úr skaftinu var málið sett í þessa stóru rúllettu og málið sett á uppboðsmarkað fyrir hin einstöku byggðarlög í landinu. Þar var nú ekki haldið á málum eins og Sverrir Hermannsson, núv. bankastjóri í Landsbankanum, hafði það þegar hann var í sínum sjónhverfingum í sambandi við þessi mál. Hann var að mörgu leyti, hæstv. iðnrh. --- hvar er hann staddur núna? --- slyngari en núv. hæstv. iðnrh. því að Sverrir Hermannsson kostaði ekki eins miklu til. Hann eyddi ekki jafnmiklu í þessar sjónhverfingar. Hann lét við það sitja, t.d. gagnvart Eyfirðingum, að bjóða forstjóra Alcan í heimsókn til Akureyrar. Sá kom á einkaþotu og þáv. iðnrh. Sverrir Hermannsson tók hann út á golfvöll og bauð honum að borða á KEA og allir Eyfirðingar trúðu því að nú væri að koma álbræðsla í Eyjafirði með þetta stóra fyrirtæki, Alcan, sem

burðarás. Og í framhaldi af þessum golfleik þeirra aðalforstjóra Alcan og Sverris Hermannssonar frá Ögurvík var efnt til skoðunarferðar í sérflugvél fyrir nokkra Akureyringa og Eyfirðinga vestur til Kanada til að skoða álbræðslur Alcan og varð af því talsverð saga. En íslenska ríkið þurfti ekki að borga mikið í þetta púkk nema matinn ofan í forstjórann. Og á þessu lifðu Eyfirðingar í 1 -- 2 ár, þ.e. áhugamenn um álbræðslu í Eyjafirði.
    Hæstv. iðnrh. hefur hins vegar lagt miklu, miklu meira undir og kostað miklu meiru til í sambandi við rúllettuna og hann skilur heilu byggðarlögin í landinu og þá sem hafa látið glepjast af því að það væri verið að athuga það í alvöru að koma upp stórfyrirtæki utan höfuðborgarsvæðis, utan Suðvesturlands, eftir í sárum og ekki bara í sárum, heldur með háa reikninga miðað við þeirra efnahagslegu getu. Milljónir á milljónir ofan sem byggðarlög á Austurlandi og Norðurlandi hafa kostað til til þess að leggja sig fram um að fá stóra vinninginn sem hæstv. ráðherra var að hampa til þeirra.
    Hæstv. ráðherra. Ég nefndi það í haust og ætla að nefna það aftur hér. Ég tel t.d. að sá gjörningur, sem þú stóðst fyrir í apríl sl. þegar þú gerðist póstberi fyrir Atlantal - hópinn og framsendir bréf til tuga sveitarfélaga í landinu með gyllivonum um það að þau gætu orðið vinningshafi í þessu lotteríi, sé einhver ómerkilegasta og ódrengilegasta aðgerð sem íslensk stjórnvöld hafa staðið fyrir.
Þessi blekkingaleikur stóð ekki nema í nokkra mánuði því að þegar kom fram á haustið voru útlendingarnir komnir að þeirri niðurstöðu sem allir máttu vita sem sáu í gegnum blekkingavefinn að tekin yrði. Á Keilisnesi skyldi álbræðslan rísa. Hvernig hefur viðskilnaðurinn verið gagnvart byggðarlögunum sem dregin voru á asnaeyrunum hálft árið 1990, hæstv. ráðherra? Hver er viðskilnaðurinn í þeim efnum? Það er kannski ekki að ástæðulausu að það er ekki aðeins að hæstv. iðnrh. hafi ekki farið í framboð í Norðurl. e. heldur að þingmaður Alþfl. hafi tekið pokann sinn og hlaupið suður yfir heiðar til þess að freista þess að komast inn á þing. Það er einn tollurinn af þessu máli, af þessum vinnubrögðum, af þessari dæmalausu framkomu af hálfu íslensks stjórnvalds sem hæstv. ráðherra hefur staðið fyrir. En allt væri það nú bærilegt ef við mættum treysta því að þessir samningar, sem hæstv. ráðherra hefur verið að undirbúa, gengju ekki eftir, sem auðvitað eru góðar líkur á að ekki verði. En við getum ekki treyst því.
    Afleiðingarnar af því ef ákvörðun yrði tekin um það að reisa þetta fyrirtæki á Keilisnesi yrðu hrikalegar fyrir byggðaþróun í þessu landi. Mætti hafa uppi um það ýmsa spádóma en ég held í rauninni að allir hv. alþm., sem fara yfir þessi mál í alvöru, átti sig á því í hvert efni stefnir þar að lútandi.
    Nú er það vissulega svo að þetta fyrirtæki, ef reist hefði verið eystra eða nyrðra, hefði ekki orðið nein allsherjarbjörgun fyrir landsbyggðina á Íslandi. Það hefði vissulega haft svæðisbundna þýðingu. Þykir mér vænt um að hæstv. forsrh. gengur í salinn því að hann

er ráðherra byggðamála á Íslandi og ég er einmitt kominn að þeim þætti sem varðar áhrif hugsanlegrar álbræðslu á byggðaþróun í landinu. Hæstv. ráðherra hefur verið að leitast við að sinna þeim málum með nefndaskipun og hefur fengið nefndarálit en það verður nú ansi holt undir þeim málum þegar litið er til þeirra ákvarðana, þeirra hugmynda, sem hér liggja fyrir um samninga um álver á Keilisnesi eða í Vatnsleysustrandarhreppi og við ræðum hér í kvöld.
    Það eru ekki aðeins hinir beinu efnahagslegu þættir sem þar koma til heldur eru það hin óbeinu áhrif af þessum gjörningi sem munu hafa áhrif á hugarfar og trú fólksins víða um land á framtíðina. Það eru hinir huglægu þættir sem einnig vega þungt. En hin beinu efnahagslegu áhrif eru þó það sem við hljótum að horfa framan í og getum lagt á ákveðna mælistiku. Því það er ekki aðeins svo að hér eigi að fara að fjárfesta fyrir 60 milljarða kr. á Keilisnesi og efna til þeirrar veislu sem því tengist, heldur á jafnframt að gæta þess að þessi umsvif og þessi innspýting í íslenska hagkerfið á næstu fjórum árum eða svo verði ekki til þess að færa allt úr böndunum í íslensku efnahagslífi. Núverandi ríkisstjórn hreykir sér af því með réttu, það er eitt það skásta sem hún hefur gert, að ná jafnvægi í efnahagsmálum, að vísu dýru verði keypt og miklar fórnir sem liggja að baki sem almenningur í þessu landi hefur staðið að. En ríkisstjórnin hefur átt ansi góðan þátt í því. En hvert stefnir með þetta jafnvægi, hæstv. forsrh., ef alvara yrði úr þeim áformum sem hér eru rædd? Það blasir við hverjum manni að við erum þá ekki að tala um að halda hér verðbólgu á svipuðum slóðum og tekist hefur að ná henni niður núna eða halda verðþenslunni í landinu á svipuðum slóðum og í nágrannalöndum. Við erum að tala um það að kveikja í þessu húsi. Við erum að tala um að kveikja verðbólgubál í íslenskum þjóðarbúskap nema þeim mun rækilegar verði dregið niður í öðrum þáttum á meðan, í öllum þáttum efnahagsmála þar sem hægt er að virka á móti. Hverjir eru það sem geta haft beinustu áhrif í þá átt? Er það ekki íslenska ríkið? Eru það ekki opinberir aðilar sem hljóta að ganga á undan með því að skera niður framlög til opinberra mála og draga saman hvarvetna af opinberri hálfu þar sem kostur er til að vega á móti þensluáhrifunum af byggingu álbræðslunnar og virkjunarframkvæmdunum henni tengdum?
    Menn hafa ekkert legið á þessu. Núverandi aðalseðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar ræddi opinskátt um þetta á stjórnarfundi Landsvirkjunar í aprílmánuði 1989, held ég, þá þegar fyrir tveimur árum síðan og sagði: Auðvitað verða sveitarfélögin í landinu að leggjast á árar og draga niður í sínum umsvifum ef á að vera hægt að koma þessum framkvæmdum fyrir þannig að ekki verði verðsprenging í landinu og allt fari hér úr böndunum í efnahagslífinu. Íslensk stjórnvöld, ríkið, verður að gæta þess að draga saman í sínum umsvifum, og þar vísaði seðlabankastjóri sérstaklega á samgöngumálin, samgönguþáttinn, þann þátt sem skiptir kannski meira máli en margir aðrir þegar við erum að tala um að

bæta stöðu byggðanna víða um land, að koma samgöngumálunum í annað og skárra horf en þau eru núna.
    Hvernig ætlar ríkisstjórn, sem hefur talið sig vera málsvara landsbyggðar, vill reyna að rétta við atvinnuþróun í landinu, snúa fólksstreyminu við, að ganga til kosninga, hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh., með þetta sem aðalflagg í atvinnuþróun á Íslandi að fara að verja 100 milljörðum kr. á næstu fjórum árum í þetta eina fyrirtæki? Allir vita og allir sjá að til þess að mæta þessu verða sveitarfélögin hringinn í kringum landið og opinberir aðilar að draga niður í sínum umsvifum. Þetta er slíkur fáránleiki, sem hér er á ferðinni, í efnahagslegu tilliti og í samhengi við byggðamálin í landinu að það er fáheyrt að það skuli gerast af ríkisstjórn sem við myndun steig á stokk að reyna að snúa við öfugþróun í byggðamálum á Íslandi. Ég er smeykur um að ef þeir sem hafa stutt þessa ríkisstjórn gerast uppáskrifendur að þessu plaggi, sem hér er lagt fram af hæstv. iðnrh. í nafni ríkisstjórnar Íslands, verði það þungur róður sem þeir fá í kosningabaráttunni fram undan víða um landið með þetta á bakinu, með þetta sem flaggið í atvinnuþróun á Íslandi á næsta kjörtímabili, með þá sýn. Hér sé ég til frænda míns, hv. þm. Jóns Helgasonar, sem hefur verið í vinnu hjá hæstv. forsrh. að gera tillögur sem mættu verða til úrbóta í byggðaþróun á Íslandi. Allt gott um það verk og ágætar hugmyndir þar. En það rímar bara ekki við þá hugmynd sem hér er rædd og fram lögð að fara að verja megninu af ráðstöfunarfé og möguleikum til efnahagslegrar þróunar í landinu á næsta kjörtímabili í þetta fyrirtæki og Reykjanes. Ég bið hv. þm. Jón Helgason að koma mér til liðs hér til þess að reyna að koma vitinu fyrir ríkisstjórnarliðið og a.m.k. fyrir hæstv. iðnrh. og biðja hann um að taka frá ríkisstjórninni þennan kaleik sem hér er að henni réttur, að Alþingi Íslendinga.
    Við megum ekki ganga hér fram eins og ólæs börn sem ekki átta sig á samhengi hlutanna, kunna aðeins að stauta sig fram úr orði en skilja ekki samhengið í setningu. Við verðum að gera þá kröfu til okkar sjálfra að við viðurkennum augljóst samhengi í efnahagsstarfsemi og atvinnuþróun í landinu. Ef við meinum eitthvað með því að ætla að breyta straumnum í byggðamálum á Íslandi, í búsetuþróun á Íslandi, þá höfnum við algerlega þeirri þáltill. sem hér er fram lögð og drögum til baka, hafi ríkisstjórnin veitt hæstv. iðnrh. einhverja uppáskrift til þessara samninga, þá á hún að draga það hið skjótasta til baka og Alþingi Íslendinga a.m.k. að gæta þess að koma þar hvergi nærri. Hv. þm. Halldór Blöndal, fulltrúi Norðurl. e., ætti að leggjast í víking líka minnugur þess hvernig Eyfirðingar og hans kjördæmi var dregið á asnaeyrunum missirum saman í tengslum við þetta mál og skilið þar við fólk sem trúði á stóra vinninginn í álmálinu, skilið eftir í sárum. Það voru vissulega margir Eyfirðingar sem áttuðu sig á blekkingunni og vildu ekki af ýmsum ástæðum, m.a. vegna umhverfismála, taka við þessu fyrirtæki. ( HBl: Stefán Valgeirsson sá í gegnum þetta allan tímann.) Já, hv. þm.

Stefán Valgeirsson var læs á þetta samhengi. Það hefðu betur verið fleiri sem hefðu áttað sig á samhengi hlutanna, fleiri en aldursforseti á Alþingi Íslendinga.
    Ég fer fram á það, hæstv. forsrh., að ríkisstjórnin fjalli í samhengi um horfurnar í byggðaþróun á Íslandi á næsta kjörtímabili og þær hugmyndir sem hér liggja fyrir um byggingu álbræðslu á Keilisnesi og það í heildarsamhengi. Það nægir ekki að líta á afmörkuð svæði og þá sem telja sig fá einhvern stundarvinning vegna virkjanaframkvæmda í þágu þessarar álbræðslu, því að það er sýnd veiði en ekki gefin. Það er lítil uppskera til lengri tíma litið. Það vita menn á Norðurlandi vestra. Það þekkja Sunnlendingar sem byggðu á stopulum framkvæmdum við byggingu virkjana um skeið, en fengu síðan á sig bakslagið af fullum þunga. Þar er ekki um að ræða að byggja upp einhver störf fyrir framtíðina. Þar er miklu frekar að við blasi hættan á röskun. Að menn hlaupi til skjóttekinna uppgripa við slíkar framkvæmdir á heiðum uppi, hverfi frá búi og börnum og bregði á annað ráð varðandi búsetu eftir að framkvæmdum lýkur. Allt ætti þetta að blasa við okkur alþingismönnum. Við eigum ekki að þurfa að hugsa okkur lengi um að þessu leyti.
    Við göngum undir próf hér varðandi þetta þingmál og ég satt að segja er aldeilis hissa á Sjálfstfl. að hann skuli í aðdraganda kosninga ekki hafa vit á því að blanda sér í þetta mál sem hér er rætt og gerast eins konar ábekingur þess að þessi umræða fari hér fram nótt eftir nótt á Alþingi í umboði Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Á bak við þessa tillögu, virðulegur þm., liggur annað og meira en kemur fram í prentverkinu, í þessum fjórum línum. Það er alvarlegur veruleiki sem blasir þar við. Það er dýr kosningabæklingur fyrir Alþfl. sem okkur er ætlað að skrifa upp á. Því að á bak við hann liggur, ef útlendingunum hentar og landsstjórnin sér ekki að sér, útgjöld upp á 100 milljarða kr., fjárfesting upp á 100 milljarða kr. í landinu. Svoleiðis að við skulum ekki vera að gera lítið úr umfangi þessa máls.
    Það er fleira en uppáskrift á þessa tillögu sem hæstv. iðnrh. er að biðja Alþingi Íslendinga um. Hann er einnig að biðja þingið um að veita lánsheimild til þess að kaupa land á Keilisnesi upp á allt að 300 millj. kr. og reyna að láta líta svo út sem málið sé þannig fastara í hendi en það er gagnvart kjósendum í Reykjaneskjördæmi. En hann er jafnframt að biðja --- þarna sé ég hv. þm. Pál Pétursson sem ég hef óskað eftir að kæmi hér í þingsal, formann fjh. - og viðskn. Nd. Alþingis --- fjh. - og viðskn. og síðan þingdeildir um að veita viðbótarlánsfjárheimild vegna virkjunarframkvæmda á næstu mánuðum ársins --- upp á hvað? Upp á 800 millj. kr. Það er það sem mun mæta okkur hér á næstu dögum ef hv. þm. Páll Pétursson og aðrir í fjh. - og viðskn. þingsins gerast ábekingar á því og þá þarf Nd. þingsins til að byrja með og síðan Ed. þingsins að taka afstöðu til þess. Eigum við að fara að veita hundruð milljóna inn í þetta kosningadæmi Alþfl. og hæstv. iðnrh.? Fjárhæðir sem fullkomin óvissa er um að muni nokkurn tíma koma nokkrum

að gagni öðrum en hugsanlega hæstv. iðnrh. í atkvæðaveiðum í Reykjaneskjördæmi? Er það sæmilegt að fara þannig með almannafé?
    Menn eru að tala um fyrirvara, virðulegur forseti, að það eigi kannski að slá einhverja varnagla í samþykktum þingsins að þessu leyti. Um það er einmitt verið að takast á núna í bakherbergjum þingsins hvort og hvers konar varnagla eigi að slá í sambandi við þá ósk sem fram er borin í greinargerð með þáltill. og liggur fyrir sem beinar tillögur fyrir fjh. - og viðskn. Nd. þingsins.
    Hvað gerðist hér á síðasta ári að þessu leyti? Í aprílmánuði sl. var flutt frv. um breytingu á lögum um raforkuver. Það var eitt af þáttaskilum í þessu mikla máli, sem hæstv. iðnrh. kallar svo, sem þá lágu fyrir í framhaldi af yfirlýsingunni frá 13. mars 1990. Í dag er 13. mars 1991. Það er ársafmæli frá þeim stóra degi í lífi hæstv. iðnrh. Þá var hann ekki staddur sem frambjóðandi í Reykjaneskjördæmi. Þá var eftir að vita hvar öndvegissúlurnar bæri að landi. Tengt þessu frv. til laga um raforkuver var ákvæði sem veitti heimild til 300 millj. kr. fjárveitingar til undirbúnings virkjanaframkvæmda á árinu 1990. Meiri hluti á Alþingi Íslendinga hljóp til og veitti ríkisstjórninni þessa heimild. Menn höfðu hér uppi svardaga um það að þetta yrði nú ekki gert nema í ljósi framvindu samningaviðræðna og það væru líkur á því að samningar tækjust. --- Nú spyr ég hvar hæstv. iðnrh. haldi sig þessa stundina, virðulegur forseti, því ég er m.a. að ræða þetta mál við hann. Hvar er hæstv. iðnrh. staddur? ( Forseti: Forseti kann nú ekki við að spyrja hvers vegna hæstv. iðnrh. vék úr salnum en ég hygg að hann geti ekki verið langt undan. Eigum við ekki aðeins að sjá til hvort hann kemur ekki fljótlega?) Jú, jú, nógur er tíminn. Nóg er nóttin, virðulegur forseti.
Kannski birtist hæstv. iðnrh. hér fljótlega. Ég ætla að ræða við hæstv. ráðherra um það hvernig fyrirvararnir voru varðandi heimildina fyrir 300 millj. á síðasta ári og hvernig þeim var varið og hvernig farið var með þá heimild, þennan sterka varnagla sem sleginn var um að þessu skyldi aðeins varið miðað við horfur og þá víst vænlegar horfur í samningaviðræðum. Nú er verið að biðja um ekki tvöfalda heldur nærri þrefalda þá upphæð. Inn í þessa spilapeninga ráðherrans verða því komnar 1100 millj. kr., ef saman er lagt það sem verið er að biðja um hér sem heimildir til fjárausturs, inn í ófrágengið dæmi.
    Ég skal, virðulegur forseti, gera smáhlé á máli mínu meðan hæstv. ráðherra kemur í þingsal. ( Forseti: Forseti telur eðlilegt þar sem hv. þm. hefur nú talað í þrjá klukkutíma og eitt korter að hæstv. ráðherra fái leyfi til ganga niður og fá sér kaffisopa. Ég tel því fráleitt að fara að kalla ráðherra upp. Hann er hér í húsinu og hlýtur að koma rétt bráðum.) Ég met mjög mikils skilning virðulegs forseta á líkamlegum þörfum hæstv. iðnrh. Ég skil það vel að forseti hafi samúð með hæstv. ráðherra, en stundum hefur nú verið gripið til þess ráðs að menn hafa látið sér nægja vatnið við þessar aðstæður ef þyrstir eru eða jafnvel brugðið á það ráð að fá á könnuna hérna upp í

þingsalinn. Það getur varla talist goðgá þó svo væri. En hæstv. ráðherra kann að að liggja í léttu rúmi hvað fram fer í umræðum um þetta mál. Hann hefur kannski gert upp hug sinn. Hann telur sig kannski ekki þurfa að ræða þetta mál hér við þingmenn eða leggja við hlustir við þessa umræðu. ( Forseti: Leyfist forseta meðan hæstv. iðnrh. er sóttur að spyrja hv. þm. hvort hann geri sér grein fyrir hvað langan tíma hann þurfi enn til að ljúka ræðu sinni?) Virðulegi forseti, um það vil ég ekki fullyrða neitt. Ef ég lít yfir málið, þá gæti verið að ég sé einhvers staðar að nálgast miðja ræðu ef ég reyni að þjappa saman máli mínu eftir föngum hér í framhaldinu. ( Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að hér eru á mælendaskrá sjö hv. þm. Forseti vildi nú mælast til með tilliti til þess að örfáir dagar eru eftir af þinghaldinu að tillit yrði tekið til þeirra hv. þm. einnig og hv. 2. þm. Austurl. reyndi nú að þjappa máli sínu aðeins saman ef svo mikið er eftir af ræðunni.) Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því en ég met það sannarlega mjög mikils að þátttaka er góð í þessum umræðum. Allmargir þingmenn hafa þegar talað og eru margir á mælendaskrá heyri ég, svo að það er alveg ljóst að við getum varið tíma okkar vel hér næstu dægrin í sambandi við umræðu um þetta mál sem ríkisstjórnin leggur nú svo mikið upp úr og ég tala nú ekki um hæstv. iðnrh. ( Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að það verður ekki þinghald hér næstu dægrin. Þess vegna held ég að það sé mál að þessari umræðu linni á þessari nóttu vegna þess að ég efast um að það gefist fleiri dagar til þess.)
    Virðulegur forseti. Það er sannarlega ekki á mínu valdi að ákvarða það hversu lengi þingið stendur og ég er út af fyrir sig ekki að blanda mér neitt í það. Það er málefni þess meiri hluta sem ræður ferðinni hér á Alþingi og hæstv. forsrh. hefur þau efni öðrum mönnum fremur í hendi sér og ég ætla ekki að blanda mér í það mál. En það hlýtur að vera mál ríkisstjórnarinnar hvernig hún leggur mál fyrir þingið. Menn geta ekki vænst þess að tillögur og afstaða fáist fram varðandi 100 milljarða kr. fjárfestingu í íslenskum þjóðarbúskap, meginmál varðandi atvinnu og efnahagsþróun í landinu á næsta kjörtímabili verði rætt hér á einhverjum smátíma eins og hver önnur þingsályktunartillaga. Þetta er eitthvert stærsta mál sem komið hefur fyrir þingið og afdrifaríkasta hver afstaða verður. Það væri mjög illa komið Alþingi Íslendinga ef það færi léttum höndum um slíkt alvöruefni sem við ræðum hér. Ég a.m.k. hef ekki samvisku til þess að fara hér frá þingi án þess að hafa komið áleiðis skilaboðum um mat mitt á þessu máli og fengið svör frá hæstv. iðnrh. varðandi ýmsa grundvallarþætti þessa máls.
    Nú er hæstv. ráðherra kominn í þingsal. Ég var þar staddur, virðulegur forseti . . . ( Forseti: Forseti vill fá leyfi til að fresta þessum fundi um 5 -- 10 mínútur og býður hv. 2. þm. Austurl. að gera hlé á ræðu sinni þann tíma, en síðan verður tekið til við fundarhald aftur.) Virðulegi forseti. Það er velkomið að taka það hlé þó ég hafi ekki ástæðu eða þörf að bregða mér úr

ræðustól. Ég mun áreiðanlega geta tekið upp þráðinn þar sem frá er horfið að 5 mínútum liðnum eða svo. ( Forseti: Forseti vonar að þetta hlé geti komið öllum að gagni.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Mér er það mikil ánægja að þessu hléi skuli lokið sem efnt var til hér til þess að spjalla saman um hvar við erum stödd í tíma. Nú vænti ég að fleiri hæstv. ráðherrar láti sjá sig en hæstv. umhvrh. Þó ég meti nærveru hans mjög mikils, þá vænti ég að hæstv. iðnrh. verði einnig viðstaddur áfram.
    Við vorum að ræða um þá beiðni hæstv. iðnrh. að fá heimild til fjárveitinga til kaupa á jarðnæði á Keilisnesi undir ráðgerða álbræðslu og fjárveitingu til áframhaldandi undirbúnings virkjana. Þessi upphæð sem hér er um að ræða er upp á 1100 millj. kr. samanlagt vegna ársins 1991 til viðbótar við þær 300 -- 400 millj. sem notaðar voru í undirbúning vegna virkjanaframkvæmda í þágu álbræðslu á árinu sem leið. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að hæstv. iðnrh. komi hér í salinn.) Mér þykir vænt um að heyra það, virðulegi forseti, og ég treysti því að hann birtist hér fljótlega. Við getum vel dokað við þangað til hæstv. ráðherra gengur í sal. --- Er hæstv. iðnrh. farinn úr þinghúsinu? ( Forseti: Hæstv. iðnrh. mun vera á fundi.) Er ekki rétt, hæstv. forseti, að fresta þessum fundi á meðan? Ég sé ekki ástæðu til þess að halda áfram umræðu hér ef sá ráðherra sem fer með málið er ekki viðstaddur í þingsal. ( Forseti: Ef hv. þm. telur að hann geti ekki haldið áfram ræðu sinni öðruvísi en hæstv. iðnrh. sé á fundinum, þá tel ég að hv. þm. verði bara að bíða andartak. Ég mun gera frekari ráðstafanir til þess að fá hæstv. ráðherra á fundinn.) Á ég að víkja úr ræðustól á meðan, virðulegur forseti? ( Forseti: Já, ef hv. þm. vill hafa það þannig. Ég vil benda hv. þm. á að hér er hæstv. umhvrh. Hvort það henti ekki að beina orðum eitthvað til hans á meðan eða hvort kannski hv. þm. hefur lokið þeim kafla.) Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ábendingar virðulegs forseta, en mér finnst það dálítið sérkennilegt ef hæstv. iðnrh. sér ekki ástæðu til að vera við umræðu sem fer hér fram um tillögu sem hann flytur. Ég var hér að fjalla í mínu máli um þátt sem snertir beinlínis hann en ekki hæstv. umhvrh. ( HBl: Það má nú vera að iðnrh. leggi ekki áherslu á að málið fái afgreiðslu.) Nei, síðan er það náttúrlega önnur saga. Kannski hefur hæstv. ráðherra snúist hugur að einhverju leyti á þeim stundum sem liðnar eru frá því að við tókum að bera saman bækur okkar hér um þetta efni. Ef virðulegur forseti kýs að ég beini máli mínu til hæstv. umhvrh., þá er það meira en velkomið því að ég hef nóg við hann að tala út af fyrir sig. En þá þarf ég aðeins að stokka upp mitt mál og skipunina á minni ræðu.
    Vegna þess að hæstv. umhvrh. hefur verið frambjóðandi og þingmaður fyrir Reykjaneskjördæmi þá er hann að sumu leyti ekki í ósvipaðri stöðu og hæstv. iðnrh. sem nú ætlar að leita eftir umboði sem þingmaður þar, en hæstv. umhvrh. er miklu grónari í kjördæminu. Hann veit væntanlega betur en hæstv. iðnrh. hvað til hans friðar heyrir þar í kjördæmi og hvað sé líklegt til ávinninga í komandi kosningum. Þess vegna bind ég nokkrar vonir við það að hæstv. iðnrh. muni leitast við að standa fast í ístaðinu varðandi umhverfismálin í tengslum við samninga um álbræðslu en leiti jafnframt að öðrum kostum til atvinnuþróunar á Reykjanesi, sem ég veit að hann hefur mikinn áhuga á, heldur en það að efna þar til stóriðjureksturs jafndýrkeyptur og hann yrði fyrir íslenskt þjóðarbú og einnig fyrir umhverfismálin og umhverfisímynd þess kjördæmis sem hann er fulltrúi fyrir.
    Ég heyrði það nýlega í fréttum, virðulegur forseti, að hæstv. umhvrh. er með hugann víða í sambandi við möguleika í atvinnulífi en einnig í umhverfismálum og kann að flétta þetta saman. Þannig eru nú komin hér fram á Alþingi tvö frumvörp, alveg nýkomin. Annað er um verndun villtra landspendýra og hitt um dýravernd. Þau efni snerta atvinnuþróun. Hæstv. ráðherra greindi þjóðinni frá því í sjónvarpsviðtali, ég held í gær eða í fyrradag, að hann teldi að það væri talsvert mikið í það að sækja að taka meðferð ekki aðeins villtra dýra öðrum tökum en verið hefur, heldur einnig þeirra sem tamin eru. Því nefni ég þetta að hæstv. iðnrh. var fjarri og ég tók því upp þráðinn hér að áeggjan forseta við hæstv. umhvrh.
    Ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. umhvrh. skuli vera orðinn einbeittur stuðningsmaður tófuvina í landinu og skuli ráðinn í því að reisa loksins merki refsins hérlendis svo sem verðugt er og hætta því að leggja lágfótu og melrakka í einelti, svo sem tíðkast hefur um aldir, nú þegar það er að heita má þarflaust á sumum svæðum á landinu með tilliti til sauðfjárræktar og ég held að hæstv. ráðherra ætti ekki aðeins að hugsa til Hornstranda í því sambandi, heldur jafnvel til eigin kjördæmis því að það gæti sannarlega orðið lyftistöng þar ekki síður en á Hornströndum. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með þessa stefnu sem hann hefur upp tekið og treysti honum til að standa dyggan vörð um hin villtu landspendýr á Íslandi, ekki eru þau nú of mörg.
    Þetta var í rauninni hliðarþáttur upp tekinn vegna fjarveru hæstv. iðnrh. úr þingsal. Hann er nú kominn hingað og þá get ég haldið áfram máli mínu þar sem ég var staddur í ræðu varðandi þær óskir hæstv. iðnrh. að fá fjárveitingaheimildir upp á meira en 1 milljarð kr. á þessu ári til undirbúnings þess máls sem hér um ræðir, þ.e. álbræðslu á Keilisnesi.
    Ég heyri að það eru uppi nokkuð deildar meiningar um það hvort veita eigi hæstv. ráðherra þessa heimild, ekki aðeins frá okkur, sem erum efins um að hæstv. ráðherra sé á réttri braut í sambandi við álbræðslu, heldur einnig frá þeim sem hafa stutt framlagningu þessarar tillögu hér í þinginu og eru þátttakendur í undirbúningi þessa máls, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. sem er formaður fjh. - og viðskn. Þar er ekki sammæli um að veita þær heimildir sem hæstv. ráðherra hefur beðið um. Það finnst mér mjög skiljanlegt og ég fagna því sérstaklega að menn eru að fara yfir þau efni og eru ekki reiðubúnir til þess að skrifa með skjótheitum upp á þessa beiðni fram

komna frá hæstv. iðnrh. að þessu leyti.
    Ég tel það afar sérkennilega stefnu sem tekin var upp í sambandi við samþykkt frv. til laga um raforkuver hér sl. vor þar sem hæstv. ráðherra fékk heimild til 300 millj. kr. fjárveitingar til undirbúnings virkjana með því fororði að því yrði ráðstafað í ljósi þess hvernig miðaði með samningaviðræður. Nú er það upplýst af hæstv. ráðherra að þannig hafi verið farið með þá heimild. Það er að finna í svari sem ráðherra veitti við fyrirspurn minni og er á þskj. 723, sem var fyrirspurn um undirbúning vegna álbræðslu. Þar kemur fram, svo að beint sé vitnað í þetta skriflega svar frá hæstv. ráðherra, í tölul. 2:
    ,,Landsvirkjun hefur á árinu 1990 varið alls 367 millj. kr. á verðlagi í desember 1990 til undirbúnings virkjana og stofnlína á grundvelli heimilda í lögum nr. 74/1990, sbr. eftirfarandi sundurliðun`` sem þar fylgir.
    Þetta er upphæð upp á 367 millj. kr. en heimildin sem veitt var lögum samkvæmt var upp á allt að 300 millj. kr. Svo stendur hér til frekari skýringar: ,,Framangreind heildarfjárhæð nemur um 330 millj. kr. á verðlagi hvers tíma og er það nokkru hærri fjárhæð en heimiluð var í bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 74/1990, um breytingu á lögum um raforkuver, en ráðuneytið vísaði að sjálfsögðu til þess ákvæðis er það veitti heimild fyrir framkvæmdum 17. júlí 1990.``
    Hér viðurkennir hæstv. ráðherra í þessu skjali að það hafi verið farið fram úr þeim heimildum sem veittar voru með samþykkt laganna um raforkuver og bráðabirgðaákvæði sem innihélt þetta. Ég inni hæstv. ráðherra eftir því hvernig hann réttlæti það að hafa ráðstafað þessu fjármagni einnig í ljósi þess varnaglaákvæðis sem slegið var þegar þetta mál var fram borið og samþykkt og ég má segja á því hnykkt, t.d. af þingflokki Alþb., að það yrði farið mjög gætilega í ráðstöfun þessa fjármagns. Þann 17. júlí hafði hæstv. ráðherra áreiðanlega ekki heimild frá meiri hluta þingflokks Alþb. umfram 100 millj. kr. ráðstöfun. Ég spyr hæstv. iðnrh. hvers vegna þessi lagaheimild hafi verið brotin, ef marka má tölur í því svari sem hann hefur veitt, hvað réttlæti það
og hvernig standi á því að þessu fjármagni hafi verið ráðstafað umfram heimild meira að segja í ljósi þess að ekkert gekk saman í samningamálum varðandi álbræðsluna á þessu ári og snerist þróun þar frá sjónarhóli íslenskra samningsaðila til verri vegar. Væntanlega veitir hæstv. ráðherra svör og skýringar við þessu.
    Hér er staddur við umræðuna hæstv. menntmrh. Ég vil beina því til hæstv. menntmrh., sem er þingbróðir minn og flokksbróðir og samstarfsmaður úr þingflokki Alþb., hvernig hann líti á þetta og hvernig hann meti það og geti réttlætt það hugsanlega að veitt verði uppáskrift á þær fjárveitingar sem nú er beðið um til viðbótar inn í sama samhengi upp á heilar 800 millj. kr. til frekari undirbúnings virkjana. Nú heyrum við að hæstv. ráðherra vill hafa nákvæmlega sama háttinn á, að þessi heimild verði bundin því einu að hægt verði að mjatla út þessum peningum í ljósi framvindu

mála varðandi samningaviðræður en ekki eins og sumir hafa um rætt að það beri að binda slíkt skilyrði um endanlegan fullgerðan raforkusamning og væntanlega staðfestan af Alþingi. Það væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. iðnrh. um það hvaða skilyrði hann vilji fá um þetta.
    Mér þætti vænt um að heyra viðhorf hæstv. menntmrh. hér síðar í umræðunni um þessi efni sem hér eru fyrir lögð. Einnig skildi ég það svo þegar hæstv. menntmrh. tók þátt í þingskapaumræðum í tengslum við þetta mál að hann ætlaði að segja ýmislegt að því er málið varðar við fyrri umræðu þessarar tillögu. Ég mundi fagna því mjög ef hæstv. ráðherra greindi okkur frá því því auðvitað skiptir það máli hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á þessu efni. Hvort þeir sem hafa staðið að því að leyfa framlagningu þessarar tillögu ætla að fylgja því eftir með atkvæði sínu hér á Alþingi að hún fái samþykki. Ég hef skilið það svo að hæstv. ráðherra hafi ekki fengið nein fyrirheit um það að þetta mál næði hér fram að ganga frá samstarfsaðilum í ríkisstjórn. Ég inni hæstv. iðnrh. eftir því hvort hann telji að hann hafi fengið loforð frá samstarfsaðilum sínum í ríkisstjórn og þingflokkum fyrir því að það verði staðið við afgreiðslu þessa máls hér á þinginu. Ég hef skilið það svo af mínum flokki að þeir sem jafnvel létu hafa sig í það að veita uppáskrift á framlagningu þessa máls, að því fylgdu engar skuldbindingar um að þetta mál ætti hér fram að ganga. Kapp ráðherrans hafi fyrst og fremst beinst að því að fá að sýna þessi þingmál hér í þinginu. Væri fróðlegt að fá að heyra viðhorf ráðherranna um þetta efni.
    Það má áreiðanlega segja að dýr væri Hafliði allur ef svo gerðist hver limur eins og hæstv. iðnrh. Ef það ætti að ganga yfir ríkisstjórnina í heild að menn fengju óútfylltar ávísanir til ráðstöfunar, eins og hæstv. iðnrh. biður hér um í sambandi við virkjanaframkvæmdir, í sambandi við virkjanamálin. Ég tel það algerlega fráleitt að taka upp þann hátt, sem hér er um beðið, að fara að veita stórar fjárfúlgur inn í framkvæmdir af þessu tagi þegar fullkomin óvissa ríkir um það hvort af samningum verður um þetta fyrirtæki eða ekki. Það er ekki aðeins að hér sé verið að nota almannafé með óréttmætum hætti, eins og hér er upp lagt, heldur er jafnhliða verið að veikja stórlega samningsstöðu Íslendinga í þessu máli einnig frá sjónarhóli þeirra sem keppa að þessum samningum. Því hvaða vit er í því að menn séu að binda sig á fjárskuldbindingum, eyða stórum upphæðum til undirbúnings mála til fjárfestinga með þeim hætti sem hér er að stefnt? Hvaða vit er í því, hæstv. iðnrh.? Til hvers leiðir það í samningsstöðu Íslands? Það væri ástæða til að biðja hæstv. ráðherra um mat á því. Mér þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. segði einnig hug sinn í því máli, hvernig honum líst á það að hæstv. iðnrh. fari að fá uppáskrift upp á slíkar óútfylltar ávísanir og telji sig þurfa að rembast þeim mun meir við staurinn til þess að ná saman þessum samningum til þess að sýna fram á að þessum peningum hafi til einhvers verið varið. Ég vil harðlega mótmæla slíkri ráðstöfun fjár og þarna er að stefnt og treysti því að fjh.- og viðskn. neðri deildar þingsins athugi sinn gang áður en hún fer að veita slíkar heimildir eða bera tillögur þar að lútandi fram við hv. neðri deild þingsins.
    Það er raunar eitt með öðru hvernig staðið hefur verið að undirbúningi og samningaviðræðum í sambandi við þessa álbræðslu. Þar tel ég að haldið hafi verið á málum einnig frá sjónarhóli þeirra sem keppa að samningi með þeim hætti sem ekki á að vinna. Með þeim hætti sem ekki á að vinna í slíku. Með því að vera að skuldbinda sig til þess að verja almannafé, jafnháum upphæðum og þarna um ræðir í þessu skyni, að ég nú ekki tali um það hvernig upp er lagt varðandi stóra þætti í þessum samningum. Og þá t.d. varðandi raforkuverðsþáttinn. Það er alveg ljóst að þar hefur frá upphafi, og það á ekki bara við um núverandi hæstv. iðnrh., það á við um forvera hans sem hafa verið að reyna að ná samningum með svipuðum hætti allt frá 1983, ekki aðeins verið teflt á tæpasta vað að því er snertir hugmyndir um raforkuverðssamninga, heldur gengið langt út yfir öll skynsamleg mörk að því leyti. Því miður hafa menn af hálfu þess stóra fyrirtækis, Landsvirkjunar, borið fram rangar upplýsingar um raunverulega stöðu fyrirtækisins og möguleika þess á að ná samningum á þeim nótum sem um hefur verið rætt. Það er satt að segja með miklum fádæmum að þetta öfluga fyrirtæki, sem ekki hefur sparað sérstaklega í mannahaldi, telur sig vel búið af sérfræðingum, skuli hafa leyft sér að leggja fram hugmyndir af þeim toga sem iðnrh. undanfarinna ára hafa síðan notað í pókerspili sínu við að reyna að draga hingað erlenda aðila til samninga um stóriðju. Ég tel að þarna séu víti til að varast svo sannarlega.
    Í þessu sambandi vil ég rifja það upp, virðulegur forseti, að allt fram til áranna 1980 -- 1982 var í rauninni farið með fjárhagsmál Landsvirkjunar og alveg sérstaklega framleiðslukostnað á raforku frá Landsvirkjun sem algert hernaðarleyndarmál, ríkisleyndarmál. Við þekkjum það vel sem stóðum í því á sínum tíma að knýja fram leiðréttingu á raforkusamningi við álbræðsluna í Straumsvík. Við þekkjum það vel hvernig reynt var af talsmönnum tengdum Landsvirkjun, ég tala nú ekki um pólitíska málsvara þessara samninga hér á Alþingi, að halda fram allt öðrum tölum en raunverulega lágu að baki í sambandi við stöðu fyrirtækisins. Það var reynt að halda því fram, þegar ég tók við málefnum iðnaðarmála árið 1978, að samningurinn sem við bjuggum þá við við álbræðsluna í Straumsvík upp á 6,5 mill fyrir kwst. væri hinn ágætasti samningur. Menn lögðu mikið undir í umræðum á Alþingi allar götur fram til 1982 af hálfu t.d. talsmanna Sjálfstfl., en einnig af hálfu talsmanna Alþfl., að verja þá samninga sem Landsvirkjun hafði verið bundin með álsamningunum árið 1966. Að reyna að sýna fram á að það væri vel viðunandi að búa við þetta raforkuverð og það væri algerlega tilefnislaust að vera að knýja á um breytingu á þessum samningum eins og gert var af hálfu Alþb. þegar það kom að málefnum iðnaðarmála árið 1978.

    Ég er að rifja þetta upp hér, virðulegur forseti, vegna þess að af reynslunni eigum við að læra. En hér er gengið fram með mjög svipuðum hætti af hálfu Landsvirkjunar og talsmanna iðnaðar mála í landinu þegar verið er að reikna sig niður fyrir svartalágmark í raforkuverði. Hverjir eru það sem eiga að greiða mismuninn? Hverjir greiddu hann á árum áður og hverjir eiga að greiða mismuninn sem þarna er að finna og sterkar líkur eru á að þurfi að greiða? Það er almenningur í þessu landi. Það er innlendi atvinnureksturinn á Íslandi. Það eru almennir raforkunotendur sem eiga að greiða mismuninn. ( HBl: Þetta heitir að prútta sjálfan sig niður.) Já, það má kalla það að prútta sjálfan sig niður. Og það er satt að segja, virðulegur þingmaður Halldór Blöndal, mikil reynsla að átta sig á því að af hálfu öflugs fyrirtækis, sem mætir menn veita forstöðu og eru í ábyrgð fyrir, skuli vera staðið þannig að málum að í stað þess að draga fram raunverulega stöðu og raunverulega þörf í viðskiptum af því tagi sem hér um ræðir í stóriðju skuli menn leggja sig í framkróka að bera fram rangar tölur sem eru neðan við rauða strikið í þessum efnum, eins og gert var í viðskiptum við álbræðsluna í Straumsvík og eins og gert hefur verið á undanförnum árum af hálfu þeirra iðnrh. og af forsvarsmönnum Landsvirkjunar á þeim tíma sem liðinn er frá 1983 meðan menn hafa verið að reyna að krækja saman um slíka samninga.
    Ég hef undir höndum mikið af upplýsingum sem bera vott um það hvernig menn hafa hagað seglum eftir vindi í þessum efnum. Hvernig menn hafa leyft sér að gera út á almenning í landinu og innlendan atvinnurekstur með því að bjóða hér til sölu raforku á undirverði, langt undir framleiðslukostnaði, langt undir því sem hægt er að sýna fram á með rökum að fái staðist til framtíðar og fái staðist þá kröfu, sem gerð er í 13. gr. laga um Landsvirkjun, að samningar um stóriðju leiði örugglega ekki til hækkunar á raforku til almennings. Sá ágalli er hins vegar á þeim ákvæðum sem þar um ræðir að það verður seint sannað fyrir fram að slíka samninga eigi ekki að gera. Það er það sem gerir þetta ákvæði í rauninni ónýtt. Menn geta haldið því fram og reitt fram líkindareikning um að þetta fái staðist en menn gera ekki hlutina upp eftir á þegar menn hafa ekki inni í samningunum ákvæði um leiðréttingu þar sem Landsvirkjun sem viðskiptaaðili geti fengið greiðslur eftir á, raunkostnað, raunverulegar breytingar.
    Það leiðir einmitt hugann að eðli þessara samninga. Til þess aðeins að nefna eitt dæmi um þetta til að sanna mál mitt, sem ég er að flytja hér, þá hef ég hér fyrir framan mig eitt lítið málsgagn frá því snemma á árinu 1990, sem tengist þessum verðathugunum og verðtilboðum. Þar er gert ráð fyrir að grunnverð fyrir orkuna þyrfti að vera 19 mill á kwst. Ekki 16 eða 17 mill eins og síðar varð, heldur 19 mill. Síðan bætist það við að þó menn séu að nefna einhverja viðmiðunartölu þá er þetta tengt breytilegum stærðum, eins og álverðinu, sem gerir það í rauninni að verkum að þessar tölur geta lent hvar sem er og

geta hreyfst á breiðu bili. Menn eru hér með þvílíka áhættu í þessum viðskiptum að það þarf ekki aðeins bjartsýna menn, ég vil segja að það þurfi hugarfar fjárhættuspilarans til þess að standa að slíkri samningsgerð.
    Ég er alveg undrandi á því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin skuli láta hafa sig í það að styðja hæstv. iðnrh. í því að leggja fram tillögu af þessum toga. Hæstv. forsrh., mér finnst það aldeilis með fádæmum. Án þess að af hálfu ríkisstjórnarinnar sem heildar, ekki bara af hálfu ráðherrans, sé lagt fram eitthvert vel unnið plagg af óháðum aðilum til þess að meta grunnþættina í þessu máli.
    Ég flutti tillögu á Alþingi ásamt fleiri þingmönnum Alþb. árið 1987 þegar ljóst var að kappið í þáv. ríkisstjórn var mikið að krækja saman um samninga um álíka stóra álbræðslu og hér um ræðir, þar sem var lagt til að fram færi þjóðhagslegt mat á því að efna til slíks iðnaðar á þeim forsendum sem menn þá voru að tala um. Í það yrðu ráðnir óháðir aðilar til þess að fara yfir þau efni og meta aðstæður. Það var skellt skollaeyrum við þessari tillögu. Það var ekki á þessa tillögu okkar hlustað. Það var haldið áfram eftir gömlu aðferðinni, að treysta seðlabankastjóranum og stjórnarformanni Landsvirkjunar fyrir samningsumboðinu og töskuberum sem hann hefur haft til aðstoðar um áratugi og ekki virðast kunna nema eina aðferð til þess að vinna að slíkum málum með útlendingum. Ég vil ekki segja að þeim gangi neitt illt til. En það á ekki að veðja margsinnis á slíka hesta sem sýnilega hafa margsamið af sér varðandi íslenska hagsmuni.
    Þetta eru ekki einhverjar fullyrðingar út í bláinn sem ég ber hér fram, hæstv. iðnrh. Það er tölulega sannað að þeir aðilar sem hafa leitt samningaviðræður einnig í þinni tíð vegna þessarar álbræðslu hafa margsamið af sér á fyrri tíð varðandi íslenska hagsmuni. Hvað gerðist ekki 1974 þegar taka átti upp samninginn um álbræðsluna í Straumsvík? Hæstv. umhvrh. hefur vonandi farið yfir þau efni því þau varða hann sem einn ráðherra í ríkisstjórn landsins. Hvernig var staðið að þeim málum? Jú, 1975 kom niðurstaða úr upptöku samninga sem fyrrv. ríkisstjórn hafði átt þátt í að knýja fram að yrðu upp teknir, Magnús Kjartansson sem iðnrh. Hann fór síðan frá og málið var til lykta leitt af næstu ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar. Þar fóru með samningsumboðið þeir sömu og vinna að þessum málum fyrir núv. hæstv. iðnrh. Þeir komu til Alþingis og sögðu: Við erum hérna með lagfæringu á þessum samningi, breytingu á samningnum til hækkunar, sem á að skila Landsvirkjun svo og svo miklu. Við þurfum að vísu að semja í leiðinni um breytingar á skattaformúlu. Um þá breytingu var samið á þeim tíma en því var haldið fram hér á Alþingi í sambandi við þá samningsgerð að þarna væri um að ræða verulegar breytingar til hagsbóta fyrir Íslendinga. Þannig voru þessir samningar knúðir fram hér á Alþingi 1975. Þegar síðan farið var yfir þessi mál sex árum seinna, 1981, hvað kom út úr því máli? Hafði þessi breyting á samningunum skilað einhverjum hagnaði fyrir Íslendinga? Nei,

ó nei. Það hafði gerst að Landsvirkjun hafði fengið svolítið út úr dæminu. Landsvirkjun hafði fengið nokkur hundruð milljóna í plús. En það hafði bara verið tekið til baka í breytingum á sköttunum, á breyttri skattaformúlu.
    Það var eftir þeirri gömlu aðferð, sem hefur löngum þótt nokkuð gild í samningum og harðir samningamenn miða við, kallað á enskunni give and take eða að gefa og taka í senn. Jafna á merinni ef svo má segja. Það var það sem gerðist í þessum efnum. Og af því ég sé starfsmenn núv. hæstv. iðnrh. hér, sem einnig fóru yfir þessi efni í minni tíð, hér í hliðarsölum, þá veit ég að þeir þekkja þessi mál frá þeim tíma þegar farið var yfir baksvið samninganna við álbræðsluna í Straumsvík sem leiddi til þess að í fyrsta sinn í sögu Landsvirkjunar fékkst fyrirtækið til þess raunverulega að viðurkenna hver væri samkeppnisgrunnur þeirra í viðskiptum af þessu tagi.
Hvað fyrirtækið gæti leyft sér í sambandi við raforkuverð í samningum um stóriðju. Þá féll nú spilaborgin heldur betur. Þá féllu nú rökin þeirra sem höfðu rembst við að verja raforkusamninga upp á 6,5 mill sem Íslendingar voru bundnir samkvæmt þessum samningi til áratuga. Upp úr dæminu kom að það þyrfti a.m.k. um þrefalda þá upphæð ef endurnýja ætti slíka samninga. Á árinu 1982 gerðist sá sögulegi atburður að Landsvirkjun gefur út skýrslu um verð til orkufreks iðnaðar, skýrslu sem upphaflega var samin á ensku, kannski þýdd síðar á íslensku, ég las hana á ensku á sínum tíma. Verðið sem þá kom upp á borðið og stóð sem meginniðurstaða fyrirtækisins var að á þeim tíma, 1982, þyrfti Landsvirkjun að fá 18 -- 22 mill út úr slíkum viðskiptum.
    Síðan er liðinn langur tími. Síðan eru liðin 8 -- 9 ár og ætli séu nú líkur á því að þessi grunnur hafi breyst til batnaðar að það séu eitthvað lægri upphæðir sem þarna er um að ræða? Á þeim tíma sem orðið hefur sú alþjóðlega verðbólga sem gengið hefur yfir gagnvart dollar á þeim tíma sem liðinn er. Ég held ekki, enda er það mála sannast að ætli menn að gera einhver viðskipti í sambandi við raforkusölu sem eigi að tryggja Íslendinga, tryggja hagsmuni þessa raforkufyrirtækis, þá eru menn ekki með tölur sem liggja undir 25 millum. Þá eru menn með tölur sem liggja eitthvað ofar. Ég tala nú ekki um það ef menn ætla að sýna einhverja sanngirni í samskiptum við viðskiptavinina innan lands, við atvinnureksturinn innan lands, við hina almennu kaupendur raforku sem greiða hátt í 40 mill fyrir kwst., þ.e almenningsveiturnar og smásalan auðvitað margfaldar þá upphæð.
    Það er því alveg ljóst þegar litið er til þessara þátta að menn hafa haldið hér hraklega á hagsmunamálum Landsvirkjunar að því er þetta snertir og eru með þessum samningi að fara út í samningalegt fen með því að ætla að tengja raforkuverðið þeirri áhættu sem fylgir tengingu við álverð ofan á aðra óvissuþætti, eins og fjármagnskostnað og gengi. Ég held að menn ættu að skoða sinn gang áður en lengra er farið í þessu efni, áður en menn ganga lengra með svona samningsupplegg varðandi raforkuviðskiptin.

    Það voru lengi rök í þessum málum af hálfu talsmanna slíkra samninga að við hefðum þó allt á hreinu í sambandi við raforkuverðsviðskiptin. Við ættum hins vegar ekki að fjárfesta í áliðnaði eða orkufrekum iðnaði vegna þess að Íslendingar hefðu ekki bolmagn til þess að fara út í slíka fjárfestingu sjálfir, að leggja í þá miklu áhættu sem tengist sjálfum iðnrekstrinum. Þetta eru rök sem lengi voru fram borin og það mátti kannski segja að það væri einhver sannleiksvottur í þeim. Menn hefðu þó sitt svona sæmilega á hreinu viðskiptalega séð ef þeir hefðu fasta viðmiðun varðandi raforkuverðið. Þeir tækju þá a.m.k. ekki áhættuna niður á við í mjög ríkum mæli.
    En nú er brugðið á annað ráð. Áfram eigum við að standa utan við iðnaðinn þar sem þó hagnaðarvonin er og möguleikar væru að fá innsýn inn í þann rekstur. Þar má ekki leggja krónu í það púkk. Ég tala nú ekki um það að Íslendingar ráði þar ferðinni, eins og var stefna í mínum flokki hér á árum áður, nei og nei. Nú eiga Íslendingar að binda þessi viðskipti með orkuna, sem er einn meginþáttur í okkar viðskiptalegu samskiptum í slíkum rekstri, við sömu sveiflu, við sömu áhættu og tengist verðþróun á afurðinni, á álinu. Hvaða rök eru fyrir þessu? Ég bið hæstv. iðnrh. að greina okkur frá því hér síðar á þessum degi þegar að honum kemur í umræðunni einhvern tíma í morgunsárið kannski, að hann greini okkur frá því hvaða rök hann sér fyrir því að breyta þannig til í viðskiptum og fara að binda samskiptin við sveifluna í álverðinu. Ég tel það hið mesta óráð og eitt af því sem hefur farið til verri vegar frá því sem áður var í þessum samskiptum.
    Ég tel, virðulegur forseti, að Íslendingar ættu í rauninni að taka sér hlé frá viðræðum af þessum toga og viðleitni til að ná þar samningum og leggja í það verulega vinnu með heiðarlegum hætti að átta sig á eðli þessara viðskipta, gera úttekt á liðnum tíma að þessu leyti, verða læsir á alþjóðlega þætti í slíkum samskiptum. Því að það er alveg ljóst að við höfum miðað við reynslu enga burði til viðunandi þátttöku í slíkum samningum. Það sýnir okkur sú samningsgerð sem hér blasir við í þessu uppleggi frá hæstv. iðnrh. Ég hvet því eindregið til þess að menn taki málin nýjum tökum, leitist við að bregða allt öðru ljósi á þessi mál og afla sér þekkingar í þessum efnum. Jafnframt því verði athugað með hvaða hætti við getum nýtt okkar orkulindir í fjölbreyttum atvinnurekstri þar sem við getum sjálfir ráðið ferðinni, eins og við þurfum að gera í öðru atvinnulífi, í staðinn fyrir að binda trúss okkar við alþjóðlega hringa sem mestu ráða í viðskiptum í álheiminum eða hafa gert það fram undir þetta.
    Einn þáttur, sem borinn er fram í þessum viðskiptum og á að vera mjög hvetjandi og reka mjög á eftir að ganga frá þessum samningum, er það að svo mikið sé af ónotaðri orku í framleiðslukerfi Landsvirkjunar. Þar sé að finna verulegt magn af orku sem við megum til með að koma í lóg því að annars sé mikill vandi á höndum. Þessi röksemd er borin fram ekki aðeins af hæstv. iðnrh. heldur einnig af mönnum sem hafa ekki verið taldir sérstakir talsmenn stóriðjusamninga af þeim toga sem hér um ræðir á árum áður, en eru nú orðnir samferðamenn hæstv. iðnrh. í samningagerð og einnig að því er snertir framlag þessa máls. Þar hef ég m.a. í huga hv. 1. þm. Norðurl. v., formann þingflokks Framsfl., sem sagði það í þessum ræðustól, ég held að það hafi verið í gær, að eitt af því sem ræki á eftir um þessa samningsgerð væri væntanleg raforka frá Blönduvirkjun. Virkjun sem að hans mati hafi verið ráðist í vegna samninga um stóriðju. Þar fer nú sá hv. þm. með alrangt mál að því er snertir Blönduvirkjun vegna þess að sú virkjun var undirbúin á sínum tíma sem virkjun sem átti að þjóna almennum markaði á Íslandi og var talin einmitt af þeim sem söfnuðu rökum fyrir byggingu hennar, m.a. sérfræðingum sem þar áttu hlut að máli, vel til þess fallin að þjóna vexti hins almenna raforkumarkaðar í landinu. Þó að vissulega hafi orðið breyting á raforkunotkun og vexti raforkunotkunar á undanförnum árum, þá breytir það ekki því að það er ekkert viðskiptalegt vit í því að ætla að selja raforkuna frá Blönduvirkjun á gjafverði. Það verður að sjálfsögðu til þess að menn þurfa þeim mun fyrr að kosta til virkjunar fyrir íslenskan markað, fyrir þann vöxt sem við höfum, þrátt fyrir hægari vöxt og hægari þróun í okkar raforkukerfi. Það er með öllu fráleitt að ætla að fara að reikna raforkuna frá Blönduvirkjun nánast á núlli inn í það dæmi sem hér um ræðir og sætir vissulega furðu að talsmenn Landsvirkjunar skuli fóðra hæstv. iðnrh. á rökum í þá veru.
    Einn verulegur ljóður á ráði Landsvirkjunar á undanförnum árum hefur verið það hversu glannafengið fyrirtækið hefur verið í sambandi við fjárfestingar en jafnhliða ósveigjanlegt í sambandi við markaðsfærslu. Menn hafa setið uppi með umframframleiðslugetu, umframorku í framleiðslukerfi Landsvirkjunar um langt árabil. En á sama tíma hefur fyrirtækið verið afar íhaldssamt í markaðsfærslu og ekki náð því að koma þeirri orku í eitthvert verð sem hefur verið umfram. Það ber að taka mið af slíku einnig þegar við erum að meta möguleikana á nýtingu Blönduvirkjunar í öðru samhengi heldur en til stóriðju eins og nú er gert.
    Í þessu sambandi vil ég nefna viðhorfin til þess fyrirtækis sem undirbúið var í kringum 1980 og lögfest var hér á Alþingi 1981, þ.e. bygging kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Um það fyrirtæki voru sett lög og það fyrirtæki var stofnað sem hlutafélag sumarið 1982. Menn reiknuðu með því þegar áætlanir voru gerðar um byggingu þeirrar verksmiðju, sem vera skyldi íslenskt fyrirtæki með meiri hluta hlutafjár frá íslenska ríkinu, að það gæti komist í gagnið þegar á árinu 1985. Og það var reiknað með því að fyrirtækið gæti greitt nálægt 17,5 millum á þáverandi verði fyrir kwst. af raforku og áætlanir miðuðu við það. Raforka varð til afnota í raforkukerfinu á þessum árum þegar Hrauneyjafossvirkjun kom í gagnið 1981. Frá þeim tíma hefur verið umframframleiðsla í raforkukerfi Landsvirkjunar.
    Það er alveg ljóst, litið til baka, að hefðu menn

gengið til verks og reist þessa tiltölulega litlu og viðráðanlegu verksmiðju austur á landi á árunum 1983 -- 1984 og gangsett hana 1985, þá hefði þetta fyrirtæki að öllum líkindum bjargast efnahagslega séð, þrátt fyrir þá niðursveiflu í verði á kísilmálmi sem verið hefur lengst af undanfarin ár. Ég tala nú ekki um ef Landsvirkjun hefði sýnt sveigjanleika í verðlagningu. Í öllu falli hefði þá fengist nokkurt fjármagn fyrir raforkuviðskiptin við þetta fyrirtæki sem innlent fyrirtæki en það var ekki brugðið á þetta ráð.
    Það sem gerðist 1983 við stjórnarskiptin þá að því er þetta fyrirtæki varðar var að það varð að snúa við blaðinu. Það voru nýir herrar sem tóku við í Stjórnarráðinu íslenska þá um vorið. Þeir höfðu þá trú að Íslendingar mættu ekki eiga neinn hlut sjálfir að orkufrekum iðnaði í landinu. Það yrði að leita á náðir útlendinga. Það var algert bannorð að Íslendingar fjárfestu í slíku fyrirtæki þó að fjármagnskostnaðurinn við byggingu þess næmi ekki nema sem svaraði 2,5 -- 3 milljörðum ísl. kr. á þáverandi verði. Þetta lék á bilinu 65 -- 100 millj. Bandaríkjadala, mismunandi eftir því hvaða forsendur voru lagðar og hvernig gjaldmiðill sveiflaðist á árunum sem þessi mál voru til skoðunar, í samvinnu við erlenda aðila seinni árin, allt til ársins 1986 þegar hugmyndin um þetta fyrirtæki var jarðsungin af þáv. ríkisstjórn og þáv. iðnrh., nú hv. 1. þm. Reykv. Friðriki Sophussyni, sem lagði niður hlutafélagið eftir að iðnrh. Sjálfstfl. höfðu reynt að koma því í hendur erlendra aðila, fá erlenda aðila til að byggja það, síðast fyrirtækið Rio Tinto Zink, sem lengi var staðið í samningaviðræðum við en hvarf frá þessu máli.
    Það vill nefnilega gleymast þegar menn eru að horfa á nýtingu orkulindanna að við höfum enga tryggingu fyrir því, þó að við fáum hér erlend stórfyrirtæki, erlenda auðhringa, til viðræðu um hugsanlegar álbræðslur eða annan orkufrekan iðnað hérlendis, að það búi í rauninni einhver alvara þar að baki, að viljayfirlýsingar um það að ganga til samninga, gera hagkvæmniathuganir og jafnvel ganga lengra hafi einhverja raunverulega innstæðu hjá þessum fyrirtækjum. Þau geta verið þátttakendur í slíkum athugunum víða um heim. Þau eru að þreifa fyrir sér á mörgum stöðum samtímis í fjarlægum heimshornum til þess að kortleggja sína möguleika. Þannig eru vinnubrögð þessara stóru hringa sem eru alþjóðlegir. Það er ekkert skrýtið og það ætti hæstv. iðnrh. að taka með í reikninginn þegar hann og þeir sem með honum starfa eru að meta líkurnar á því að náð verði samningum, jafnvel á þeim hörmulegu kjörum sem eru boðin hér af Íslands hálfu. Því það getur gerst einn góðan veðurdag að Alumax, Grängers, Hogoovens og þeir aðrir aðilar sem reynt er að tala við um slík fyrirtæki snúi baki við slíkum áformum eftir að bitið hefur verið á öngul þeirra annars staðar og þeir meta stöðuna þannig.
    Hæstv. iðnrh. gerir að vísu mikið úr því að hann hafi lengi haft mjög mikla trú á að þetta gengi allt saman eftir. En ég leyfi mér að benda á það að það hafa nú orðið miklar breytingar á þessu samningsuppleggi frá því að hæstv. núv. iðnrh. kom að þeim málum. Þegar hann tók við Atlantal - verkefninu af Friðriki Sophussyni, nú hv. 1. þm. Reykv., þá voru aðrir aðilar þátttakendur sem sneru baki við þessum áformum að athuguðu máli og þó að þarna hafi komið nýir aðilar að, eins og Alumax, þá er það að sjálfsögðu engin trygging fyrir því að þarna sé raunverulegur áhugi. Þetta veit hæstv. iðnrh. Menn vita það að í rauninni mun ekki reyna á slíkt, jafnvel þótt undirrituð sé viljayfirlýsing um samninga, því að það er háð samþykktum í æðstu stjórnum þessara fyrirtækja hvort slík samningsáform verða raunverulega að lokum staðfest.
    Það er því ansi lítið á bak við yfirlýsingar af þeim toga eins og þeirri sem hæstv. iðnrh. pressaði út úr samningsaðilunum sínum, mótspilurum sínum í Atlantal - hópnum, þann 13. febr. sl. og lesa má um í skýrslu hans þar sem vikið er að framvindu mála. Þar fékk hæstv. ráðherra með miklum eftirgangsmunum fram svofellda yfirlýsingu frá samstarfsaðilunum:
    ,,Framvinda mála undanfarnar vikur hefur þó ekki dregið úr áhuga samningsaðila á verkefninu, hvorki af hálfu Íslendinga né Atlantsálshópsins. Hins vegar gera samningsaðilar sér ljóst að lengri tíma er þörf, líklega 6 -- 10 mánaða, til að ljúka fjármögnun verkefnisins. Áformað er að ljúka samningagerð innan næstu þriggja mánaða.``
    Menn taka eftir því hvernig hér er haldið á máli. Það blasir við að hér er af hálfu ráðherrans, sem þröngvaði þessum sömu aðilum til hátíðlegrar uppáskriftar hér uppi á Íslandi 4. okt. sl., í rauninni ekkert meira sem þarna liggur að baki, heldur þvert á móti er óvissan sem við blasir mun meiri. Það stendur líka í þessari sömu yfirlýsingu:
    ,,Útvegun fjármagns til álverkefnisins mun taka lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir vegna ástandsins á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og þeirrar sérstöku óvissu sem ríkir um þróun kostnaðar, verðlags og gengismála.``
    Já, þróun kostnaðar, hæstv. iðnrh. Hvernig standa málin varðandi þróun kostnaðar í þessu verkefni? Í fjölmiðlum hafa komið fram upplýsingar um það, fregnir um það, að horfurnar varðandi þróun stofnkostnaðar í þessu fyrirtæki, byggingu álbræðslunnar og virkjunum, sé mun óhagstæðari heldur en af var látið fyrir nokkrum mánuðum. Að þarna hafi orðið veruleg breyting á til hækkunar varðandi kostnað við byggingu virkjana t.d. Það er auðvitað eitt af þeim efnum sem valda Landsvirkjun núna verulegum áhyggjum þegar menn eru þar að horfa á sitt dæmi, því að þó að Landsvirkjun hafi teflt á tæpt vað á árum áður og talið sig hafa efni á því, þá eru menn kannski smám saman að átta sig á því hjá því fyrirtæki að þegar verið er að veðja á þann hest sem hér um ræðir, á einn hest með svo gífurlega mikil viðskipti, þá er kannski betra aðeins að horfa fram fyrir sig í þeim samningum og flýta sér ekki um of. Ég heyrði nefndar tölur um allt að 20% hækkun á stofnkostnaði. Nú kann að vera að það séu ekki beinlínis sambærilegar tölur sem þar um ræðir. Þar sé um að ræða gengisbreytingar

sem geti gengið til baka eða vegist upp með öðrum hætti. Ég vil ekki leggja neitt endanlegt mat á það, en ég tók eftir því að þessum upplýsingum tengdust verulegar áhyggjur sem komu fram, m.a. hjá talsmönnum Landsvirkjunar í sambandi við þetta mál. Þannig blasir það við æ betur hvers konar áhættuviðskipti það eru sem hér er raunverulega verið að stefna í og hversu miklu það varðar að menn flýti sér hægt í þeim samskiptum og fari þar yfir málin frá öllum hliðum og leitist við að meta stöðuna.
    Ég hef hér handa á milli, virðulegur forseti, fréttaviðtal frá 14. febr. sl. sem Ríkissjónvarpið átti við forstjóra Landsvirkjunar sem var þá að svara fyrirspurnum. Ég vil leyfa mér að vitna til þess vegna þess að það er hollt að heyra þann breytta tón sem kominn er í þá kappsfullu menn sem ráða húsum í höfuðstöðvum Landsvirkjunar við Háaleitisbraut. Með leyfi forseta er þetta viðtal, sem ekki er langt, svofellt:
    ,,Forstjóri Landsvirkjunar er ekki bjartsýnn á að nýtt álver taki til starfa hér á landi haustið 1994 eins og upphaflega var gert ráð fyrir,`` segir fréttamaður, Ingimar Ingimarsson. Halldór Jónatansson, forstjóri Landvirkjunar, svarar: ,,Ég lít svo á að það sé staðreynd að Landsvirkjun geti ekki hafið fullar framkvæmdir við þær virkjanir sem fyrirhugað var að hefja framkvæmdir við núna í vor og sumar. Það hefur hingað til verið gert ráð fyrir því að við færum af stað í sumar með stækkun Búrfellsvirkjunar og framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun með það fyrir augum að ljúka þessum framkvæmdum haustið 1994 þannig að raforkusala gæti þá hafist til Atlantsáls. Það er margt sem bendir til þess að orkusölusamningurinn verði aldrei undirritaður fyrr en fjármögnun er tryggð, sem þýðir það að við munum aldrei hafa endanlegan orkusölusamning í höndunum fyrr en að því búnu, fyrr en fjármögnunin hefur verið tryggð. Þá fyrst hafi maður samninginn undirritaðan geti byggt á honum eins og þörf er á varðandi endanlegar framkvæmdir og ráðagerðir um tímasetningar og orkusölu.``
    Ég veit ekki hversu vandlega hæstv. iðnrh. hefur farið yfir þessar ábendingar forstjóra Landsvirkjunar, en það er fleira sagt í þessu viðtali. ,,Þetta er skoðun forstjóra Landsvirkjunar eftir fund samningamanna fyrirtækisins og Atlantsáls í síðustu viku og fund iðnrh. með yfirmönnum álfyrirtækja í Bandaríkjunum í gær [þetta er 14. febr. sl.]. Ráðherra var hins vegar mun bjartsýnni í viðtali í 11 - fréttum í gærkvöld.`` Og hvað sagði hæstv. ráðherra kvöldið áður:
    Jón Sigurðsson iðnrh.: ,,Það er gert ráð fyrir því að ljúka samningagerðinni innan næstu þriggja mánaða en sú samningagerð, þótt fullgerð væri, yrði að vera með fyrirvara um fjármögnun framkvæmdanna af hálfu Atlantsálsaðilanna og það er sameiginlegt mat okkar að það mundi taka hálft ár eða rúmlega það að ljúka því verki þannig að ég geri ráð fyrir því að endanlega og formlega yrði gengið frá samningum næsta haust.``
    Þetta segir hæstv. ráðherra. ,,Í sameiginlegri fréttatilkynningu eftir fundinn í gær segir að líklega þurfi 6 -- 10 mánuði til að ljúka fjármögnun verkefnisins.`` Það er einmitt sá tími sem forstjóri Landsvirkjunar er

að vísa til, að ljúka fjármögnun verkefnisins. Tíu mánuðir frá febrúarmánuði. Hvar er það? Það eru lok ársins. Að fyrr komi ekki til þess. Að það bendi margt til þess að orkusölusamningurinn verði aldrei undirritaður fyrr en fjármögnunin er tryggð eftir 10 mánuði eða svo. Hvað er hæstv. iðnrh. að biðja hér um uppáskrift á 800 millj. kr. fjárveitingu inn í raforkuframkvæmdir þegar það er mat þeirra glaðbeittu virkjunarmanna hjá Landsvirkjun að þessi orkusölusamningur verði aldrei fullgerður fyrr en búið sé að ganga frá fjármögnun verkefnisins?
    Ég held að menn ættu að átta sig á þessu samhengi, átta sig á því að það er ekki nokkur einasta ástæða til þess, jafnvel ekki frá sjónarhóli þeirra sem vilja vinna að þessari samningsgerð, að fara að skrifa upp á þennan óútfyllta víxil upp á 800 millj. kr. til ráðstöfunar fyrir hæstv. iðnrh. Það er bara ekki nokkurt vit í slíku. Það er engin þörf á því, ekki heldur frá sjónarhóli Landsvirkjunar og ætti ekki að vera frá sjónarhóli hæstv. ráðherra sem fer slíku offari í þessu máli að það er nú runnið upp fyrir þjóðinni að þar fer ekki gætinn maður. Þar fer ekki hygginn maður fyrir skipi. Þar ræður ekki hygginn maður stjórn skútu heldur er þar verið að sigla pólitískan sjó með því að þykjast vera kominn með málin langtum lengra en nokkur einasta innstæða er fyrir.
    Ég held að við ættum að líta aðeins á þau efni frekar, virðulegur forseti, einmitt í sambandi við þessa samningsgerð að því er snertir virkjanirnar og að því er snertir þessa samninga Landsvirkjunar. Því að í skýrslu hæstv. ráðherra er að finna greinargerð frá sjálfri Landsvirkjun um rafmagnssölu til Atlantsáls. Þar er þeirra mat og þeirra orð og við skulum aðeins bera það saman við hugmyndir hæstv. ráðherra um það að ganga frá samningum eftir þrjá mánuði eða svo. Ég spyr hæstv. iðnrh.: Er það hugmynd hans, ef hægt væri að krækja slíkum samningum saman til einhverra málamynda að þremur mánuðum liðnum þótt ófrágengnir séu, að fara þá að verja meira fjármagni í undirbúning virkjana en komið er? Er það hugmynd hans? Er það hugmynd hans að biðja fjh. - og viðskn. þingins og Alþingi um heimildir til þess að fara að ráðstafa slíku fjármagni, án þess að búið sé að fullganga frá slíkum samningum? Við eigum heimtingu á svörum við því hér og ráðherra getur ekki vikist undan að veita þau svör.
    Í yfirliti Landsvirkjunar um stöðu mála segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þá á samkomulag um endurskoðunarákvæði rafmagnsverðs stutt í land og ætti að vera unnt að sjá fyrir endann á því áður en mjög langt um líður.``
    Það er nú ekki bjartsýnni tónn þó heldur varðandi þetta atriði sem er þó það atriði sem samningamenn Landsvirkjunar með Davíð Oddsson og Pál Pétursson í fararbroddi hafa þóst vera að vinna að og geta þokað áleiðis. Mig grunar raunar að það sé fyrst og fremst það atriði sem þeir hafa verið að baksa við og sem var ófrágengið í október sl. en hæstv. ráðherra á eftir að segja okkur tíðindi af stöðu þessara samningamála hér seinna í umræðunni þannig að ég skal

ekki vera með getsakir um það atriði sérstaklega, best að hæstv. ráðherra standi þar fyrir máli. En Landsvirkjun segir þar enn fremur:
    ,,Loks er ljóst að ýmsar breytingar hafa orðið að undanförnu að því er snertir verðlag, gengi og fleira sem hefur áhrif á arðsemi rafmagnssamningsins.`` Þetta er ekki frá í haust þegar rafmagnssamningurinn átti að heita fullbúinn. Þetta er greinargerð frá Landsvirkjun sem lögð er fram sem fylgiskjal með skýrslu hæstv. ráðherra, með greinargerð hæstv. ráðherra. Þessi greinargerð Landsvirkjunar er tímasett af þeim sjálfum í mars 1991. Þarna stendur, hæstv. iðnrh., að ljóst er að ýmsar breytingar hafa orðið að undanförnu að því er snertir verðlag, gengi og fleira sem hefur áhrif á arðsemi rafmagnssamninganna. Hvernig áhrif, hæstv. ráðherra? Ég óska eftir upplýsingum um það.
    Landsvirkjun hefur því tekið arðsemisútreikninga sína til endurskoðunar og getur stjórnin ekki tekið afstöðu til arðsemissamningsins í heild fyrr en þeirri endurskoðun er lokið. Þetta stendur hér í fylgiskjali með þessari skýrslu sem fylgir till. til þál. þar sem beðið er um uppáskrift Alþingis að ráðherrann fái að halda áfram samningaviðræðum. Væri nú ekki ráðlegt fyrir Alþingi að segja við hæstv. iðnrh.: Það er ljóst að Landsvirkjun telur sig þurfa að skoða málið frá grunni, endurskoða málið frá grunni. Það eru engar ástæður til þess fyrir Alþingi að fara að veita hæstv. ráðherra einhverja sérstaka heimild til samningaviðræðna nú. Við skulum taka á þessu máli að kosningum loknum. Við skulum taka á þessu máli í maímánuði þegar Alþingi ætti að koma saman með eðlilegum hætti til þess að fjalla um mikilsverð mál, sem ekki verða frágengin á þessu þingi, m.a. að því er varðar sameiningu þingdeilda, breytingu á starfsháttum Alþingis í eina málstofu, þennan flókna samning og stöðu mála varðandi Evrópusamningana svokölluðu og ekki síst í sambandi við þetta mál og þá eftir að fyrir liggja upplýsingar um þær breytingar sem koma út úr skoðun Landsvirkjunar og fleiri aðila á samningsforsendunum sjálfum þar sem stjórn Landsvirkjunar lýsir því hér yfir að hún geti ekki tekið afstöðu til arðsemissamningsins í heild fyrr en þeirri endurskoðun er lokið.
    Ég er satt að segja afar undrandi á því, virðulegur forseti, að fjölmiðlar skuli ekki hafa áttað sig á þeim tíðindum sem eru á ferðinni í þessari yfirlýsingu Landsvirkjunar, í greinargerð Landsvirkjunar. Að þeirra mati er í rauninni komin allt önnur staða í þetta mál. En það er eftir öðru í sambandi við athugun á þessu máli að menn ganga í þá gildru, sem er auðvitað mjög þóknanlegt áhættuspilurum eins og hæstv. iðnrh., að trúa þeim blekkingum, sem hæstv. ráðherra er að klifa á og lætur að liggja hér á prenti í þessum plöggum, að þessir samningar séu svo gott sem í höfn. Það sé bara spurning um einhverja örfáa mánuði þangað til þeir verða frágengnir og í raun er enginn varnagli sleginn við því að þeir muni ganga fram. Þess vegna er beðið hér um hundruð milljóna, á annan milljarð króna, inn í þetta pókerspil og látnar lönd og leið aðvaranir meira að segja þessa aðila sem á að

reiða fram undirstöðu þessa máls af Íslands hálfu, þ.e. sjálfa raforkuna.
    Ég fagna því að þó skuli vera komið þetta hljóð í strokk Landsvirkjunar því að það er dálítið nýtt hljóð. Það er annað hljóð en komið hefur fram opinberlega úr því húsi um árabil þar sem fram hafa komið upplýsingar, sem hafa að mínu mati verið afar ógætilegar, að því er snertir möguleika fyrirtækisins á raforkusölu til stórnotenda. Ég held að það sem veldur þessum breyttu viðhorfum hjá Landsvirkjun sé m.a. það að fyrirtækið er smám saman að átta sig á að það fær ekki risið undir þeirri áhættu sem því er ætlað að bera með þessum samningi. Þess vegna komu upp hugmyndirnar, virðulegur forseti, um að stofna sérstakt fyrirtæki í kringum raforkuframleiðsluna. Og það er öðru hvoru að koma upp að nýju að það væri nú ráð að reyna að losa Landsvirkjun sjálfa undan þessari gífurlegu áhættu með því að stofna til sérstaks raforkufyrirtækis í kringum samninga af þessum toga. Það sem hins vegar hefur auðvitað hrakið menn frá því er ekki aðeins það að Landsvirkjun sem fyrirtæki vill ógjarnan sleppa þessum spóni úr aski --- þeir eru metnaðarfullir í því ríki og vilja gjarnan færa út mörk þess, heldur einnig hitt að þá yrði einhver aðili að koma til, íslenska ríkið eða annar slíkur, til þess að taka ábyrgð á slíku fyrirtæki þótt sjálfstætt væri að forminu til. Það eru ekki miklar líkur á því að fótum væri komið undir það nema þá með því að borga verulega fyrir þá áhættu sem bönkum eða öðrum lánastofnunum væri ætlað að taka og losa þá með þeim hætti íslenska ríkið eða slíka aðila undan áhættunni.
    Í þessu samhengi er einmitt fróðlegt, virðulegur forseti, að átta sig á því hvaða tökum hinn aðilinn, Atlantsálsfyrirtækin, tekur málið. Með hvaða hætti þeir búa um hnútana sín megin. Þar er nú ekki verið að tefla alveg á tæpasta vað hvað áhættu snertir. Þar er þvert á móti verið að reyna að tryggja að það séu aðrir en móðurfyrirtæki Gränges, Hoogovens og Alumax sem beri raunverulega áhættu af þessari álbræðslu hér uppi á Íslandi. Þess vegna er hugmyndin að stofnuð verði sérstök fjármögnunarfyrirtæki á vegum þessara stóru fyrirtækja til þess að vera þátttakendur í þessu samlagi, Atlantal - álbræðslunni. Þar er staðið að málum með allt öðrum hætti en Landsvirkjunarmegin. Þar er bankastofnunum ætlað að bera áhættu og þess vegna er þetta fjármögnunardæmi óleyst.
Vegna þess að fyrirtækin ætla ekki aðeins að fá lánsfé, þann hluta sem ætlað er að afla með lánsfé í byggingu þessarar bræðslu, þ.e. inn í þessa 60 milljarða sem er metinn stofnkostnaður hennar eða þar um bil, heldur líka að hætta ekki einu sinni til hlutafénu sem þarna á að koma við sögu, a.m.k. ekki þeim lánum sem taka á. Það er vandinn í sambandi við tímann. Þessir sex til tíu mánuðir sem það gæti tekið að krækja saman þessu fjármögnunardæmi samkvæmt þeim bjartsýnisforsendum sem hæstv. ráðherra leggur hér fyrir. Ég held að við ættum að hafa þennan þátt vel í huga í sambandi við mat á þessum samningum og samningslíkum þegar við áttum okkur á því hversu

varfærnir þessir aðilar eru sín megin í sambandi við fjármögnun, í sambandi við fjárhagsþáttinn sín megin.
    Í greinargerð Landsvirkjunar segir til viðbótar um þennan þátt í inngangi að sú verkáætlun sem Landsvirkjun hefur unnið eftir undanfarið vegna virkjana í þágu nýs álvers geri ráð fyrir að unnt sé að gera verksamninga í lok maí nk. Nú bendir hins vegar allt til þess að þessum tímamörkum verði ekki náð þar sem Landsvirkjun treystir sér ekki til að fara í framkvæmdir fyrr en fyrirvaralaus rafmagnssamningur við Atlantsál hf. liggur fyrir. Þessar upplýsingar hér, þetta mat Landsvirkjunar ætti að segja Alþingi og þeim sem eru að skoða þessa beiðni hæstv. ráðherra um 800 millj. í frekari virkjunarframkvæmdum á þessu ári, hversu gjörsamlega þarflaust það er að vera að veita einhverja slíka heimild. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra kemur hér í ræðustól og fléttar væntanlega inn í sitt mál einmitt upplýsingar um það til rökstuðnings þessu máli. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, hæstv. iðnrh. vill taka upp samtöl hér við ræðumann. Vill hæstv. forseti að við breytum formi og tökum hér upp tveggja manna tal í þingsal?
    Landsvirkjun slær fleiri varnagla og telur að það þyrfti vissulega að leggja þarna til fjármagn ef ætti að fara í frekari undirbúning. Það er niðurstaðan á horfunum að það er allt annað mat uppi nú en var fyrir nokkrum mánuðum að þessu leyti. Þó að það kunni að vera að hæstv. ráðherra hafi tekist að kreista út úr stjórn Landsvirkjunar eða starfsliði óskir um þessa spilapeninga upp á 800 millj. kr. svipað og hann hefur fengið samstarfsaðilana í Atlantsálsverkefninu til þess að skrifa upp á sameiginlegar yfirlýsingar til þess að undirbyggja eigin bjartsýni á möguleika samninga og hafa einhverju til að flagga, þá tala yfirlýsingar Landsvirkjunar í þessari greinargerð sínu máli.
    Þeir segja líka einmitt um rafmagnssamninginn í þessari greinargerð að þó að segja megi að fyrir liggi samkomulag aðila um umgjörð og uppbyggingu samningsins og efni í stórum dráttum sé niðurstaðan ófengin varðandi nokkur afmörkuð atriði, þar á meðal nokkur mikilvæg samningsatriði. Það segir þarna t.d. að gert sé ráð fyrir að rafmagnssamningurinn tiltaki nokkra verkáfanga hvors samningsaðila á byggingartíma og fyrir hvaða tíma hverjum og einum þeirra skuli lokið sem og ákvæði um úrræði hvors um sig vegna hugsanlegra vanefnda hins. Atlantal - fyrirtækin munu takast á hendur ábyrgð á greiðslu skaðabóta til Landsvirkjunar ef ekki verður lokið við að reisa álbræðsluna. Samningum er ólokið um tilhögun framangreinds í einstökum atriðum sem og um bótarétt Atlantsáls hf. ef Landsvirkjun hefur ekki samningsbundið rafmagn tiltækt til afhendingar á umsömdum tíma og um fyrirkomulag ábyrgðar á þeim bótagreiðslum.
    Það er einnig um það fjallað í greinargerð Landsvirkjunar varðandi afhendingu á orku til álbræðslunnar sem gert hefur verið ráð fyrir að hefjist á tímabilinu 1. des. 1994 til 1. apríl 1995. Um það segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Á næstu fjórum til átta mánuðum þar á eftir á tiltækt rafmagn að aukast í 100% samningsbundins rafmagns. Að þeim tíma liðnum koma til framkvæmda ákvæði samningsins um tryggð lágmarkskaup, en í þeim felst að Atlantsáli hf. ber að greiða fyrir nánar tilgreint lágmarksmagn af rafmagni, hvort sem fyrirtækið notar það eða ekki. Ber Atlantsáli hf. að greiða fyrir a.m.k. 1620 gwst. á ári hverju og a.m.k. 24.300 gwst., eða að meðaltali 81% samningsbundins rafmagns, á hverju samfelldu tíu ára tímabili.`` --- Þessi tala, 24.000, kann að vera samtala úr orkusölu á löngu tímabili, tíu ára tímabili. En síðan segir: ,,Ekki er enn útkljáð hvernig hagað verður tryggingum fyrir þessum greiðslum. Ekki eru heldur útræddar óskir Atlantal - fyrirtækjanna þess efnis að umfangi þessarar skuldbindingar verði settar skorður fyrstu árin, þ.e. í því tilviki að lánveitendur stofnlána yfirtaki hlutabréf í Atlantsáli hf.``
    Síðan greinir Landsvirkjun frá þeirri orkuverðsformúlu sem gert er ráð fyrir. Ég fæ ekki séð að þar liggi fyrir nein grundvallarbreyting frá þeim formúlum sem kynntar voru á árinu 1990. Ég spyr: Hverju hafa þeir hv. þm. Páll Pétursson og Davíð Oddsson fengið áorkað sem samningamenn Landsvirkjunar undanfarna mánuði að þessu leyti? Hafa þeir náð fram einhverjum breytingum í raun? Hv. þm. Páll Pétursson hefur ekki séð ástæðu til að fylgjast með þessari umræðu þannig að kostur sé á að krefja hann sagna en hæstv. iðnrh. hlýtur auðvitað að búa yfir upplýsingum þar að lútandi og ég treysti því að hann komi með upplýsingar um raunverulega stöðu varðandi sjálfan raforkusamninginn og þær breytingar sem þar kynnu að hafa orðið frá því sl. haust.
    En Landsvirkjun segir um þetta efni: ,,Fyrir liggur mat á þessu orkuverði sem lagt var fyrir stjórn Landsvirkjunar í september sl. Matið, sem útreiknað var á verðlagi og gengi í desember 1989, byggði á forsendum um vexti, álverð, virkjunarkostnað o.fl. sem þá þóttu eðlilegar. Miðað við líklegustu forsendur sýndu þessir útreikningar viðunandi orkuverð fyrir Landsvirkjun.
    Síðan ofangreint mat var framkvæmt hafa ýmsar aðstæður í heiminum breyst sem hafa gert það að verkum að nauðsynlegt er að meta að nýju þýðingu ofangreindrar orkuverðsformúlu fyrir afkomu Landsvirkjunar. Eru nú ýmsar athuganir í gangi þar sem ítarlega verður fjallað um samhengi milli gengis hinna ýmsu mynta, vaxta og álverðs í sömu myntum.``
    Ég vek alveg sérstaka athygli hæstv. iðnrh. á þessum upplýsingum í greinargerð Landsvirkjunar og ég verð að segja að það eru nokkur tíðindi að hæstv. ráðherra hafði ekki fyrir því þegar hann mælti fyrir tillögu sinni og skýrslu hér sl. mánudagskvöld að greina þingheimi í nokkru frá þessum varnöglum sem slegnir eru af Landsvirkjun varðandi þetta mál. Það er hins vegar í góðu samræmi við aðra gyllingu hæstv. ráðherra á samningsstöðunni í þessu máli nánast hvert sem litið er.
    Landsvirkjun ítrekar það aftur og aftur að það séu komnar upp gjörbreyttar aðstæður í þessum samningum sem þurfi að fara yfir áður en hægt sé að meta

raunverulega stöðu þessara mála fyrir Landsvirkjun. Meginþátt viðskiptanna í þessu dæmi.
    Og það er sagt fleira hér af hálfu Landsvirkjunar: ,,Þá er beðið eftir því að tilboð verði opnuð í vor um verksamninga í meginhluta þeirra virkjanaframkvæmda sem nauðsynlegar verða vegna Atlantsáls og gefa munu öruggari forsendur um virkjanakostnaðinn en áður voru fyrir hendi. Eins og síðar er rakið er einnig unnið að samkomulagi um samningsákvæði varðandi endurskoðunarskilmála sem hafa verulega þýðingu fyrir mat á hagkvæmni orkusölusamningsins í heild. Af öllu þessu leiðir að ekki liggur fyrir á þessu stigi endanlegt mat Landsvirkjunar á orkuverðsskilmálunum.``
    Hvers vegna greinir hæstv. iðnrh. ekki þingheimi frá þessum fyrirvörum Landsvirkjunar? Af hverju er hæstv. ráðherra að láta þetta liggja í þagnargildi í fylgiskjölum með skýrslu sinni? Hvers konar framlag er það hér á Alþingi Íslendinga þegar verið er að biðja um umboð þingsins til áframhaldandi samningaviðræðna að draga ekki fram í dagsljósið þá miklu óvissu sem tengist þessu samningsuppleggi öllu, nánast varðandi alla þætti máls?
    Það er líka greint frá því af hálfu Landsvirkjunar í sambandi við árlega tryggingu lágmarkskaupa, sem gera á upp á mánaðargrundvelli, að enn beri nokkuð á milli aðila um það við hvað skuli miðað í þessu sambandi. Það beri enn nokkuð á milli um það og hæstv. ráðherra er að telja mönnum trú um að það verði gengið frá þessum samningum og þessum málum á allra næstu mánuðum.
    Hvernig mun ganga með hv. 1. þm. Norðurl. v.? Hvað heldur hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson um möguleika hv. samningamanns Landsvirkjunar, Páls Péturssonar, á því að krækja saman og skera úr um þau fjölmörgu óvissuatriði sem stjórn Landsvirkjunar greinir hér frá í þessari greinargerð sinni? Ætlast stjórn Landsvirkjunar til þess og ætlast hæstv. iðnrh. til þess að hv. þm. Páll Pétursson nánast leggi upp laupana í kosningabaráttu og keppist við að eyða þeim fjölmörgu óvissuþáttum í sambandi við raforkuverðssamninginn sem hér eru tíundaðir, þannig að fyrir liggi endanlegur frágenginn samningur að þremur mánuðum liðnum, þ.e. í maímánuði? Það er mikil bjartsýni.
    Hvernig ætli verði með aðstæður nýkjörins formanns Sjálfstfl. til að sinna þessum verkum á búgarði Jóhannesar Nordals í sambandi við samningaviðræðurnar? Ætli formaður Sjálfstfl. hafi ekki í einhver fleiri horn að líta en þau að þinga úti á Hiltonhótelum álfunnar eða Vesturheims með þeim Atlantsálsmönnum um þessa óvissuþætti? Nema það verði settir nýir menn til verka. Það er auðvitað hugsanlegt, ekki skal ég fullyrða það. En ekki verður það nú kannski til að treysta þá samningsgjörð sem hæstv. ráðherra er að reyna að byggja hér upp.
    Það er raunar einn þáttur þessa máls, virðulegur forseti, sem mikil ástæða er til að vekja athygli á, það er hvernig staðið hefur verið að samningsgjörðinni. Það vantar ekki nefndirnar sem hæstv. ráðherra hefur haldið úti í sambandi við þessa samninga. Það er

ekki aðeins samninganefndin sem þar hefur verið á ferðinni allar götur frá 1988 og lunginn af henni reyndar verið að verki fyrir fyrrv. iðnrh. á vegum Sjálfstfl. um árabil. Það voru því menn sem áttu að vera orðnir nokkuð ferðavanir. Þar fyrir utan er tjaldað til mörgum nefndum á þessu tímabili hjá hæstv. ráðherra. Ein þeirra var sérstök sérfræðinganefnd sem átti að gera athugun á þjóðhagslegum áhrifum orkufrekrar stóriðju og var skipuð 14. nóv. 1988. Formaður þeirrar nefndar er ekki víðs fjarri, Jón Ingimarsson verkfræðingur sem veitti þeirri nefnd forstöðu. Ekkert er nú getið um það hvort sú nefnd hefur lokið störfum og um uppskeru hennar hefur ekki farið svo sem sérstaklega hátt þó að vissulega hafi komið þar fram greinargerðir. Í þriðja lagi hefur hæstv. ráðherra haft fjölmenna nefnd sérfróðra aðila, sem sagðir eru vera, sér til ráðuneytis um umhverfisáhrif stóriðju. Það er fjölmennur hópur valinkunnra manna.
    Umhvrh. hefur verið með annan hóp, sérstaka nefnd undir forustu Eggerts Steinsen verkfræðings, til að vinna að undirbúningi starfsleyfis fyrir verksmiðjuna. Þar fyrir utan eru síðan starfsmenn sem unnið hafa að skattamálum og síðan þessir hópar sem verið hafa að verki á vegum Landsvirkjunar, starfsmenn Landsvirkjunar og stjórnarformaður, sem fóru með þessi mál þangað til stjórnin kippti í spottann í nóvember sl. og vaknaði upp við vondan draum. Sá að það var verið að fara með þessi mál í verulegt óefni og setti á laggirnar sérstaka nefnd til verka í byrjun október 1990. Það er sú nefnd sem m.a. er skipuð títtnefndum heiðursmönnum Davíð Oddssyni borgarstjóra og Páli Péturssyni alþingismanni ásamt fleirum fyrir hönd Landsvirkjunar.
    Samskipti hæstv. iðnrh. við Landsvirkjun allt þetta tímabil er svo kafli út af fyrir sig. Það kemur nefnilega í ljós að hæstv. ráðherra hefur ekki búið skýrar um hnútana varðandi þennan grundvallarþátt málsins en svo að sjálfur formaður samninganefndarinnar, stjórnarformaður Landsvirkjunar, hafði ekki í raun umboð stjórnarinnar til þess að fara með samningamálin, til þess að semja um nokkurn skapaðan hlut í sambandi við raforkuverð. Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem ekki minni maður en formaður þingflokks Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. v., er tekinn frá störfum sem á hann leggjast, þungum byrðum, trúnaðarstörfum á vegum Framsfl., formennsku í þingflokki og fjölmörg trúnaðarstörf önnur á vegum þingsins og tekur á sig það aukastarf, þá aukagetu, að setja sig inn í allt samningsverkið og gerast fylgdarmaður Davíðs Oddssonar vítt um heim til þess að reyna að berja í brestina í sambandi við orkusamninginn. Það verður fróðlegt þegar hv. þm. Páll Pétursson leysir frá skjóðunni og segir þjóðinni frá því hver afrek hann hafi unnið í hjáverkum við það að stoppa í mestu götin í sambandi við þennan raforkusamning. Ég efast ekkert um að hann hafi gert þingflokki Framsfl. allrækilega grein fyrir afrekum sínum í þessum efnum, sem ég vona að séu stór og gild. En það á allt eftir að koma fram og hæstv. ráðherra ætlar að greina okkur hér frá meginatriðunum í því máli.

    Þar fyrir utan hafa síðan verið hópar erlendra sérfræðinga til þess að skoða þessi mál. Það sem ég held að hefði þurft að taka öðruvísi á og betur er að gæta að samtengingu í verkum í þessu samningaspili öllu saman. Það er held ég alveg ljóst að þar hafa menn ekki hugað að tengslum milli þessara hópa allra saman sem hver um sig hefur verið að baksa í einstökum þáttum mála. Útkoman er sú að við erum með, þrátt fyrir gildar yfirlýsingar hæstv. ráðherra,
sundurlausa samningagerð sem enginn virðist í rauninni hafa heildaryfirsýn yfir nema hæstv. ráðherra geti leitt okkur í annan sannleik hér á eftir í sínu máli þegar hann fer að gera grein fyrir þeim atriðum sem hér hefur verið óskað fyllri upplýsinga um.
    Það kemur einnig fram af hálfu Landsvirkjunar að í síðasta hluta draga að samningi sé að finna ýmis almenn ákvæði, þar á meðal ákvæði um takmörkun gagnkvæmrar bótaábyrgðar, sem ekki liggur þó enn fyrir endanleg niðurstaða um, um óviðráðanleg atvik, eða Force Majeure, og áhrif þeirra, um samningstíma sem gert er ráð fyrir að verði 25 ár frá afhendingardegi rafmagns o.fl. o.fl. Hér er enn einn þáttur ófrágenginna atriða. Hvernig fer þetta með þau mörgu verk sem formanni þingflokks Framsfl. er ætlað að vinna á þessum vordögum? Það gæti farið svo að það verði erfitt að tryggja viðgang fjárstofnsins á Höllustöðum ef á að stoppa í öll þessi göt. Ég veit ekki hvort hefur tekist að tryggja málin í stofninum í kringum áramótin. Það kemur nú í ljós en það gæti farið að vandast um sauðburðinn miðað við þessar horfur í samningsgerðinni að því er Landsvirkjun greinir frá, þrátt fyrir mikla vinnu sem samningamenn á vegum stjórnar Landsvirkjunar telja sig hafa unnið á undanförnum mánuðum eftir að þeir gripu fram fyrir hendurnar á stjórnarformanni Landsvirkjunar sem hafði verið að vinna að þessum málum að því er virtist umboðslaus frá stjórninni og aðeins með umboð frá hæstv. ráðherra.
    Þessi uppákoma, svo að ég leyfi mér nú að nota heldur ljótt orð, varðandi undirbúning að raforkuverðssamningi segir kannski meira en mörg orð um það hvernig háttað hefur verið undirstöðuþáttum í þessu stóra og mikla og alvarlega máli sem við erum hér að ræða. Að það skuli geta gerst að þeir sem eiga að verða ábyrgir fyrir samningi í rauninni vakna upp við vondan draum eftir að hæstv. iðnrh. er búinn að skuldbinda sjálfan sig og ríkisstjórn Íslands langleiðina með hátíðlegri undirskrift 4. okt. sl. undir að því er hann þá fullyrti nánast frágenginn raforkuverðssamning og flesta aðra þætti og dró hér upp að landi allt lið Atlantsáls, alla toppana, tók í höndina á þeim og lét mynda sig með þeim. Eftir þennan gjörning, þegar komið er langt fram yfir veturnætur, komið fram í nóvembermánuð, þá er þjóðin upplýst um það að stjórn Landsvirkjunar hefur bara ekki fylgst með málinu og vaknar upp við vondan draum, að hæstv. ráðherra er búinn að skuldbinda fyrirtækið í þessum meginþætti máls og stjórninni er ætlað að stimpla verkið.
    Þetta eru náttúrlega einhver hroðalegustu mistök

sem orðið hafa hér á landi í málum af þessum toga, að þetta skuli geta gerst, enda hefur hæstv. ráðherra átt í talsverðum erfiðleikum með að skýra það hvernig í lifandis ósköpunum geti komið til þess að slík staða komi upp eins og þarna liggur fyrir. Hættan í þessu máli, alvaran í þessu máli er að sjálfsögðu sú að hæstv. ráðherra hafi með undirskrift sinni 4. okt. sl. í rauninni bundið Landsvirkjun sem samningsaðila á slíkan klafa að það verði ekki bætt. Því að það þarf auðvitað enginn að segja okkur að það verði létt verk að fá forráðamenn hinna erlendu fyrirtækja, sem voru knúðir til þess að þrábeiðni hæstv. ráðherra að koma til Íslands til þess að standa að þessari frægu undirskrift 4. okt. sl., muni flýta sér að því að endurskoða þann gjörning sem ráðherrann knúði þá til að setja nafn sitt undir ásamt honum þennan haustdag í Reykjavík.
    Það hafa margir afdrifaríkir þættir gerst í þessu máli og ég held að Alþingi Íslendinga ætti að fara einnig yfir þessa stöðu, þessi hroðalegu afglöp sem þarna hafa átt sér stað hjá ábyrgðarmönnum þessa máls, áður en menn fari að álykta um það sérstaklega með þingsályktun frá Alþingi Íslendinga að halda skuli áfram samningaviðræðum um byggingu og rekstur álvers o.s.frv., eins og lesa má á þessum blöðum.
    Ég held að Alþingi gerði fátt þarfara en að ræða þessa stöðu alla næstu daga og næstu vikur, sem menn hugsanlega hafa til ráðstöfunar áður en gengið verður til alþingiskosninga, til þess að eitthvert samhengi sé í skoðun þessara mála. Og það gerist ekki, sem vel gæti gerst nú í framhaldinu, að í hita kosningabaráttu verði með alkunnum eftirrekstri hæstv. iðnrh. knúið á um það að ganga frá samningum sem hann í rauninni getur ekki orðið ábyrgðarmaður fyrir nema hann fái endurnýjað umboð og fái aftur sæti iðnrh. í næstu ríkisstjórn, sem vel kann að vera að hæstv. ráðherra keppi að, en það verða þá aðrir samverkamenn. Ég efast um að það verði auðvelt verk fyrir þá og aðra ábyrgðarmenn bæði á Alþingi og í ríkisstjórn á vordögum þegar menn verða að skoða spilin að kosningum loknum og flokkarnir verða að bera sig saman, að einmitt þennan tíma eigi að nota til þess að reyna að innsigla þessa samninga sem ekki hefur verið betur staðið að hvað undirbúning snertir en raun ber vitni.
    Ég vara mjög eindregið, virðulegur forseti, við því að þannig verði haldið á málum og ég tel að Alþingi eigi að gera allt frekar núna á þessum tíma en hrapa að því að gjalda jáyrði við þessari till. til þál. um samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi eins og þetta efni allt saman lítur út.
    Það segir í greinargerð Landsvirkjunar frekar um þessi efni að samkomulag liggi fyrir varðandi deilumál en þó séu fáein atriði óleyst um þann þátt mála. Ég vek sérstaka athygli á þessu vegna þess að við þekkjum það af biturri reynslu að það skiptir miklu máli hvernig um slíka hnúta er búið að því er snertir samninga af þessum toga, en einnig þar eru nokkur atriði enn óleyst.
    Þá segir hér í greinargerð Landsvirkjunar undir lokin: ,,Loks skal nefnt að vinna og viðræður samninganefnda aðila hafa að undanförnu mjög beinst að því að ná samkomulagi um efni endurskoðunargreinar. Bar þar lengi vel mikið á milli, en nú lítur út fyrir að samkomulag kunni að nást um að fram fari endurskoðun á orkuverði með vissu millibili.`` Fastar er nú ekki að orði kveðið um það efni en að: ,,nú lítur út fyrir að samkomulag kunni að nást um að fram fari endurskoðun á orkuverði með vissu millibili og verði þá gerður samanburður á orkuverði til Atlantsáls hf. og á meðalorkuverði til álvera í heiminum og leiðrétting gerð á orkuverði til Atlantsáls hf. ef frávikin eru umfram tiltekin mörk, þó að teknu tilliti til þess hvort álbræðslan hefur hreyfst meira en nemur tilteknum prósentustigum á rekstrarkostnaðarkúrfu álvera í heiminum.`` Þetta er nú stofnanamál heldur betur og ég hvet hv. starfsmann iðnrh. sem situr hér í hliðarsal til þess að endurskoða málfarið á þessari setningu því að hún er ekki yfirlesin af þeim sem annt er um íslenskt mál. ,,Gert er ráð fyrir að sérstök sérfræðinganefnd úrskurði um þessi efni ef aðilar ná ekki samkomulagi.`` Meiri bjartsýni ríkir nú ekki um þennan þátt en að það geti þurft alveg sérstaka sérfræðinganefnd til að úrskurða um þessi efni ef aðilar ná ekki samkomulagi.
    Svona er nú þetta upplegg séð með augum Landsvirkjunar sjálfrar. Ég er ekkert hissa á því þótt hæstv. iðnrh. sé svolítið órótt undir þessari tölu þar sem dregið er fram hvernig þessi mál standa að mati Landsvirkjunar. Ef það er borið saman við þær staðhæfingar sem fram hafa komið og birtast hér, bæði í ræðum hæstv. ráðherra og greinargerðum, þá fer því svo víðs fjarri að nokkurt samræmi sé í fullyrðingunum um það hvar málin séu komin af hálfu hæstv. ráðherra annars vegar og hins vegar þeirri stöðu sem dregin er upp af einum meginsamningsaðila þar sem er Landsvirkjun. Ég held að við ættum að fara yfir þetta hér, ekki aðeins með umræðu á Alþingi heldur væri ástæða til þess að setja þetta mál í sérstaka skoðun í nefnd hið allra fyrsta. Ég mundi ekki telja eftir mér að það yrði tekin smásnerra á þessu máli, t.d. í iðnn. Nd. þar sem ég á sæti, til þess að við áttum okkur betur á þessu máli núna á næstu dögum, einmitt þessum raforkuverðsþætti, og fáum nánari upplýsingar varðandi þessa mörgu varnagla og ófrágengnu enda sem eru dregnir fram af hálfu Landsvirkjunar í þessum textum.
    Einn þáttur þessa máls í skýrslu hæstv. ráðherra er í sambandi við lýsingu á aðalsamningi sem liggur fyrir í drögum. Það kemur margt fróðlegt fram í þeim samningi sem ástæða væri til að ræða hér sérstaklega og inna hæstv. ráðherra eftir ýmsum þáttum þess máls og mun ég nú víkja að nokkrum atriðum sem snúa að þeim þætti í skýrslu hæstv. ráðherra.
    Það er dregið fram í lýsingu á aðalsamningi að varðandi 5. mgr. 7. gr. hans sé ekki samkomulag. Það er sérstaklega tekið fram á bls. 15 í skýrslu ráðherrans. Enn einn þátturinn sem ekki ríkir samkomulag um. ,, . . . af Íslands hálfu hefur verið lagt til að ríkisstjórninni skuli tilkynnt með sex mánaða fyrirvara ef

hluthafarnir ákveða að nýta ekki framleiðslugetu bræðslunnar að fullu í 12 mánuði á samningstímanum, hvorki á eigin vegum né fyrir þriðja aðila, þannig að 10% eða meira af framleiðslugetu félagsins til að framleiða ál úr súráli verði vannýtt. Í slíkum tilfellum skuli ríkisstjórninni heimilt að láta framleiða ál úr súráli á eigin vegum.`` Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að ríkið geti orðið bræðsluaðili, en um það ríkir ekkert samkomulag. Um það er ekkert frágengið og sýnist það þó út af fyrir sig vera allgildur þáttur máls. Hvort það yrði hæstv. iðnrh. sem yrði forstjóri yfir þeirri bræðslu stendur nú ekki hér í þessu. Kannski yrði stofnað eitthvert sérfélag um þann rekstur, en þetta er eitt af þessum ófrágengnu atriðum í sambandi við þennan samning.
    Þá er að því vikið að í 9. gr. samningsins sé ,,kveðið á um að álfélögin skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt um í 10. -- 17. gr. aðalsamningsins.
    Í 10. gr. er kveðið á um tekjuskattsgreiðslur eignarhaldsfélaganna.`` Um það er fjallað síðan nánar í þessum texta í lýsingu á þessum aðalsamningi og vikið að því að í 1. mgr. 10. gr. sé ,,kveðið á um að með tilliti til þess að bræðslan verður starfrækt á samlagsgrundvelli skuli lagður tekjuskattur á reiknaða fjárhagsniðurstöðu (,,reiknaðan ágóða``) hvers eignarhaldsfélags fyrir hvert fjárhagsár.
    Að því er lýtur að 2. tölul. 66. gr. laga nr. 75/1981, með áorðnum breytingum, skal reiknaður ágóði fundinn á grundvelli heildarvirðis þess áls sem framleitt er af bræðslunni fyrir hvert eignarhaldsfélag á viðkomandi fjárhagsári og skal þá tekið tillit til álags og/eða afsláttar, sem stafar af gæðum eða formi, og til tekna annarra en beinna greiðslna, sem eignarhaldsfélagið innir af hendi sem endurgjald, að frádregnum kostnaði og öðrum frádráttarliðum sem nánar er kveðið á um.`` Það er ekki ljóst hvort þetta atriði er frágengið, en ekki er það mjög auðskilið hvernig frá þessum þætti málsins á að ganga í aðalsamningi.
    Í aðalsamningnum er nánar vikið að einstökum þáttum er varða skattlagningu, stjórnunarkostnað, frádráttarbært tap frá fyrri fjárhagsárum, og fleira og birtar jöfnur um það hvernig slíkt eigi að reikna. Ég skal ekki leggja mat á stöðu þessa þáttar samninganna, en ég vil víkja að því að vísað er til þess síðar í þessari lýsingu að ,,þrátt fyrir 72. gr. laga nr. 75/1981, með áorðnum breytingum, og án tillits til breytinga, er síðar kunna að verða varðandi frádrátt og undanþágur frá tekjuskatti og almenna tekjuskattsprósentu, skulu eignarhaldsfélögin greiða tekjuskatt sem nemur 30% af reiknuðum ágóða eins og hann er skilgreindur hér að ofan.`` Hér er vikið að einum meginþætti í sambandi við skattlagningu fyrirtækisins og ég hef miklar efasemdir um það að þessi prósenta sem þarna er gert ráð fyrir, 30% reglan, sé sú niðurstaða sem eðlileg er í þessu sambandi þó ég skuli ekki leggja á það endanlegan dóm, enda hafa ekki verið reiddar fram miklar greinargerðir í sambandi við þennan þátt málsins sérstaklega.
    Að því er jafnframt vikið að ,,í 12. gr. aðalsamningsins er kveðið á um að í stað fasteignagjalda og sérstaks skatts á verslunar - og skrifstofuhúsnæði, sem og annarra skatta sem kæmu í stað þeirra gjalda, skuli félagið greiða fasteignaskatt sem nemi 0,75% af umsömdu virði bygginga. Umsamið virði bygginga er 160 millj. Bandaríkjadala. Þá er kveðið á um afslátt af fasteignaskatti fyrstu fjögur starfsár álversins.`` Ég set spurningarmerki við það að hér sé fundin sú eina rétta niðurstaða að því er snertir fasteignaskatt af hálfu þessa fyrirtækis og það mat sem fram kemur hér á virði bygginga, en alveg sérstaklega sýnist mér að sá samningur, sem þarna er í uppsiglingu, um afslátt af fasteignaskatti fyrstu fjögur starfsár álversins sé eitt af þessum undanslætti sem einkennir þessa samninga varðandi fyrstu ár starfrækslu fyrirhugaðrar álbræðslu. Það er ekki aðeins að eigi að slá þar stórlega af raforkuverði. Það er einnig í sambandi við greiðslur af fasteignasköttum. Sú stefna kemur því víða við sem Íslendingar, þeir sem þarna eru að semja, hafa á sig tekið í afsláttarátt í ákvæðum þessa samnings.
    Þá er vikið að því, virðulegur forseti, í 17. gr. væntanlegs aðalsamnings að þar sé að finna endurskoðunarákvæði þess efnis að aðilarnir geti óskað eftir endurskoðun á skattakerfi Atlantsáls ef verulegar breytingar verða á íslenskum skattalögum eða nýir skattar lagðir á. Meginviðmiðun við endurskoðunina er að heildarskattbyrði fyrirtækjanna haldist í jafnvægi á samningstímanum. Í 17. gr. er enn fremur ákvæði þess efnis að Atlantsálsaðilarnir geti hvenær sem er óskað eftir því að sérákvæði aðalsamningsins um skattlagningu falli niður og félögin verði eftir það skattlögð alfarið eftir íslenskum lögum. Hér kemur það fram að það séu Atlantsálsaðilarnir sem geti óskað eftir slíkri breytingu, að sérákvæði um skattlagningu falli niður, en það er ekki tilgreint að íslensk stjórnvöld geti með sama hætti gert kröfu til þess að þessi ákvæði falli niður. Hér virðist um einhliða ákvæði að ræða sem er Atlantsálsaðilanna megin og ég átta mig ekki á því að það geti talist eðlilegt að sú krafa geti ekki einnig verið í höndum íslenskra stjórnvalda og þetta ákvæði verði endurskoðað og það séu íslensk lög sem alfarið gildi að þessu leyti.
    Í 20. gr. aðalsamnings er greint frá því að fjallað sé um tryggingar og ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir að ríkisstjórnin muni gera allt sem nauðsynlegt er til að tryggja að hluthafarnir og Atlantsálsfyrirtækin njóti allra þeirra réttinda og hlunninda sem veitt eru samkvæmt þessum samningi og fylgisamningum og að ekkert verði gert sem takmarki eða á annan hátt hafi óhagstæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og forsendur aðila varðandi rekstur álversins.
    Hér er djúpt tekið í árinni. Hér er heitið vilyrðum til þessa fyrirtækis, sem eru bestu kjör að því er virðist. Ber það að sama brunni, eins og víðar í þessum samningi, að það virðist býsna vel útbært það sem horfir til hagsbóta fyrir þennan gagnaðila og finnast

þess allmörg dæmi hér í þessari lýsingu á aðalsamningi.
    Vikið er að því t.d., virðulegur forseti, í 23. gr. 4. mgr., þar sem segir að þrátt fyrir framangreind ákvæði skuli báðum aðilum, að teknu tilliti til 5. mgr. 13. gr., heimilt að vísa hverju því deilumáli sem fjallar um túlkun eða framkvæmd þessa samnings til gerðardóms að undangenginni skriflegri tilkynningu hins aðilans. Þarna er vikið að gerðardómsákvæði sem stofna eigi til. Ég skal út af fyrir sig ekki leggja neitt endanlegt mat á það hvort þarna sé rétt að staðið að halda þessu opnu, að vísa málum til gerðardóms með þessum hætti en ég tel að það sé atriði sem þurfi að gaumgæfa mjög verulega.
    Þessi drög að samningi samkvæmt lýsingu hæstv. ráðherra í skýrslu hans á honum ber með sér að ákvæði eru um gildistökudag og gildistíma þar sem gert er ráð fyrir að hann gildi í 25 ár með rétti til framlengingar um tvö fimm ára tímabil. Þannig er í rauninni verið að samningsbinda Íslendinga með þessum samningi í 35 ár samtals, ekkert minna. En það er einmitt einn þátturinn sem ber að horfa á þegar verið er að meta stöðuna, t.d. varðandi raforkuverð og fleiri þætti, að þessi samningur er ekki eingöngu gerður til 25 ára með föstum ákvæðum heldur er þarna um að ræða rétt til framlengingar um tíu ár í viðbót, tvívegis fimm ára framlengingu. Þessi langi gildistími samningsins er auðvitað þáttur sem veldur verulegri áhættu varðandi þá hagsmuni sem verið er að binda með þessum samningi og þess vegna skiptir sannarlega miklu að vel sé gengið frá öllum þeim ákvæðum sem lúta að endurskoðun. Þar ættum við að vera reynslunni ríkari. Þar liggur í rauninni ekkert enn fyrir hvernig um þá þætti er búið en vissulega væri rík ástæða til þess, virðulegur forseti, að fá upplýsingar um einmitt þennan þátt mála, stöðuna að því er snertir endurskoðunarákvæði samkvæmt samningnum. Það sama gildir ekki aðeins varðandi raforkuverð og slíka þætti. Það gildir um skattamálin en það gildir einnig og ekki síður um umhverfismálin, eins og ég hef áður gert að umtalsefni í mínu máli, virðulegur forseti.
    Ég ætla, virðulegur forseti, að fara að stytta mál mitt um þetta efni, því ég hef áhuga á því að við fáum hér hæstv. ráðherra inn í þátttöku í þessu til þess að upplýsa okkur um þau fjölmörgu atriði sem óljós eru og innt hefur verið eftir hér. Ég áskil mér þá rétt til þess að ræða málið frekar síðar við þessa fyrri umræðu málsins því að nógur er dagurinn sem fer nú að nálgast. Það er komið að óttu og margir enn á mælendaskrá og því er ástæða til þess að við reynum að fá tilbreytni hér í umræðuna eftir að ég hef farið yfir nokkra stóra þætti í þessu mikla og vandasama máli sem hæstv. iðnrh. ber fram á síðustu starfsdögum Alþingis og biður um staðfestingu þingsins og framhaldsumboð til samningsgerðar.
    Á því var vakin athygli, virðulegur forseti, nálægt upphafi míns máls að það virtist næsta tilefnislítið af hálfu hæstv. ráðherra að fara að biðja um sérstaka uppáskrift á samningnum. Það er hins vegar þegar betur er að gáð mjög skiljanlegt að hæstv. ráðherra

vilji draga fleiri aðila til verka í sambandi við þetta og alveg sérstaklega til ábyrgðar á þessum gjörningi. Hæstv. ráðherra er vafalaust farið að líða dálítið illa yfir að sitja uppi með þennan samning á eigin herðum fyrst og fremst og er að reyna að fá Alþingi Íslendinga til þess að vera uppáskrifandi að málinu. Þar liggja auðvitað einnig að baki þær ástæður sem blasa við í þessu máli, þ.e. að ráðherrann ætlar með þessum gjörningi að reyna að fá þann svip á málið að það sé allt lengra komið og öðruvísi á vegi statt en raun ber vitni. Að það sé í rauninni nálægt því að vera komið í höfn eins og er fullyrt trekk í trekk í þessum málsgögnum. Það er kannski það ósvífnasta í sambandi við þau málsskjöl sem liggja fyrir í þessu máli hvernig þar er látið að liggja, hvernig þar er tekið til orða í sambandi við stöðu þessa máls, svo gífurlegri óvissu sem það er háð á fjölmörgum sviðum.
    Þetta hefur þó verið einkenni þessarar málafylgju allan tímann. Hún er vörðuð af slíkum staðhæfingum og tilbúnum sýningum af hálfu hæstv. ráðherra til þess að reyna að gefa til kynna að þessi samningalota, þessi samningaþróun, sé með allt öðrum hætti og betur á vegi stödd en reynist vera þegar betur er að gáð. Það er ekki skynsamlegt að halda þannig á málinu að mínu mati að gefa ætíð meira í skyn en innstæða er fyrir og ég held að fátt sé síður til þess fallið að styrkja stöðu Íslendinga í samningum af þessu tagi en það að standa þannig að verki.
    Ég hef, virðulegur forseti, í máli mínu farið yfir meginþætti málsins og vakið athygli einmitt á þessum fjölmörgu óvissuþáttum, að ekki sé talað um óvissuþætti sem málið snertir. Það gildir um raforkusamninginn í fjölmörgum greinum. Það gildir um umhverfismálin í fjölmörgum greinum, að því er best verður séð, en um þau efni á hæstv. umhvrh., sem ég sé nú ekki hér hið næsta, eftir að upplýsa okkur rækilega síðar við umræðuna, svo gífurlega margir óvissuþættir sem tengdir eru einmitt meðferð umhverfismálanna. Og hjálpar það lítið að rýna í þá texta sem hæstv. ráðherra hefur fram lagt um þau efni.
    Ég hef jafnframt vakið athygli á því hvaða áhrif þessi samningsgerð öll geti haft fyrir þróun byggðamála í þessu landi, að ekki sé talað um áhrifin á efnahagslífið og efnahagsþróun næstu ára ef svo færi að endar yrðu hnýttir og reynt yrði að koma þessu máli á koppinn af næstu ríkisstjórn. Það er sannarlega mikið áhyggjuefni í hvaða stöðu þetta mál er nú í aðdraganda kosninga og það er ekki mjög vænlegt, miðað við íslenska hagsmuni, að ætla sér að hnýta enda í þessu máli, jafnlausir og þeir eru nú, í tengslum við þá ókyrrð sem fram undan er í íslenskum stjórnmálum og ríkisstjórnarskiptum, sem trúlega verða í framhaldi af kosningum, þó ekki verði út af fyrir sig um það fullyrt í einstökum atriðum. Þar er að sjálfsögðu best að sjá hvaða niðurstaða verður í því uppgjöri sem fram undan er í íslenskum stjórnmálum.
    Ég tel hins vegar að okkur alþingismönnum beri skylda til þess, ekki bara hér við þessa umræðu, heldur í aðdraganda kosninga, að gera þjóðinni sem rækilegasta grein fyrir því hver er staða þessa máls,

hversu mikið er í húfi í sambandi við uppgjör þessa máls og framhald og hversu óvarlega horfir í því efni og hversu lítil ástæða er til þess að ýta undir þá flokka í sambandi við kjörfylgi sem halda ekki betur á íslenskum málstað en raun ber vitni í undirbúningi þessara samninga. Það er hörmulegt til þess að vita hvernig hæstv. iðnrh. hefur staðið að þessu máli, ekki bara í einni grein heldur í mörgum greinum. Það er mikil raun upp á það að horfa að ríkisstjórn sem að mörgu leyti hefur leitast við að renna styrkari stoðum undir atvinnulíf í landinu og tók þar við vondu búi haustið 1988 skuli hafa lent út í þá ófæru sem hæstv. iðnrh. hefur dregið ekki aðeins sitt ráðuneyti og allan þann fjölda sem með honum hefur starfað að þessum málum heldur einnig fengið ríkisstjórnina til þess að dragast inn á framlengingu á viðræðum um þetta mál þó það hafi tekið verulegum og stórum breytingum frá því að mynduð var stjórn þeirra flokka sem mynda uppistöðuna í núv. ríkisstjórn 1988.
    Íslendingar þurfa á því að halda að hér verði breyting til bóta í sambandi við atvinnuþróun í landinu og alveg sérstaklega þarf landsbyggðin á Íslandi á því að halda að þar verði breyting á og það takist að koma þar upp vaxtarsprotum í atvinnulífi sem geti orðið til þess að renna styrkari stoðum undir byggðirnar um allt land. Það verður hins vegar, hæstv. iðnrh., ekki gert með byggingu álvers á Keilisnesi og byggingu nokkurra stórvirkjana sem eiga að sjá því fyrir raforku. Það er ekki leiðin til þess að renna stoðum undir æskilega atvinnuþróun og byggðaþróun á Íslandi. Það er eitt stóra alvörumálið sem þessu tengist og það sem við, fulltrúar landsbyggðarinnar á Íslandi, hljótum að hafa ekki minnstar áhyggjur af í tengslum við þetta mál.
    Ég legg á það áherslu að þegar við ræðum þetta mál áfram á næstu dögum og eftir að atvmn. hefur farið yfir málið og alla þá fjölmörgu óvissuþætti sem því tengjast vandi menn sig við mótun afstöðu til þeirra tillagna sem liggja fyrir af hálfu hæstv. iðnrh. Það á ekki aðeins við um þessa þáltill. sem ráðherrann leggur fyrir þingið. Það á ekki síður við um þær fjárbeiðnir sem liggja fyrir fjh.- og viðskn. af hálfu hæstv. ráðherra og eiga eftir að koma fyrir deildir þingsins í formi lagafrv. Það gefst sérstakt tilefni til þess, þegar kemur að umræðu um lánsfjárlagafrv., að fara yfir þau efni sérstaklega og er auðvitað rík nauðsyn á því að það verði rætt alveg sérstaklega í því samhengi, því að þar stefnir í mikið óefni ef hugmyndin er sú að fara að taka undir þær ótímabæru tillögur sem hæstv. ráðherra hefur gert til fjh.- og viðskn. þar að lútandi.
    Ég vænti þess, eins og fram hefur komið, að staða þessa máls verði metin á nýjan leik frá grunni, m.a. af þeim flokki sem ég hef skipað mér í, Alþb. Alþb. á merka sögu í sambandi við orkunýtingu á Íslandi og stefnumótun þar að lútandi. Það var fyrst íslenskra stjórnmálaflokka til þess að móta samstæða orkustefnu fyrir hálfum öðrum áratug síðan þar sem farið var yfir sviðið allt og þessi mál athuguð út frá íslenskum heildarhagsmunum og möguleikum Íslendinga til að halda á þessum málum eins og öðrum atvinnurekstri í þessu landi. Ávextir af því starfi eru margháttaðir og komu m.a. fram í því átaki, sem gert var í kringum 1980, að renna stoðum undir nýtingu innlendra orkulinda í sambandi við upphitun í þessu landi, nýtingu jarðvarma og nýtingu raforku. Alþb. hefur fram til þessa borið gæfu til þess að fara ekki út á þá stefnu, sem innleidd var á viðreisnaráratugnum milli 1960 og 1970, þegar gerðir voru samningar um byggingu álbræðslu í Straumsvík.
    Það er hins vegar það upplegg sem gengur aftur í þessum tillögum sem nú liggja fyrir. Því miður er það svo, virðulegur forseti, að svo er að sjá sem þeir flokkar sem stóðu að þeim samningum hafi afskaplega lítinn áhuga á því að læra af reynslunni, endurmeta þættina sem lesa má út úr reynslu þess tíma sem liðinn er frá þeirri samningsgjörð.
    Þessi stefna hefur ekki aðeins orðið dýrkeypt í krónum og aurum í viðskiptum við þá aðila sem samið hefur verið við, heldur ekki síður í þeirri miklu vanrækslu sem einkennt hefur störf þeirra sem hafa beitt sér fyrir þessari orkusölustefnu, útsölustefnu á raforku, sem tengist þessum samningum og hafa orðið til þess að menn hafa ekki gefið gaum að þeim mörgu þróunarkostum sem blasað hafa þó við í sambandi við iðnþróun í landinu og sem þörf hefði verið á að taka allt öðrum tökum en hér er um að ræða.
    Það er efni sem ástæða er til að ræða frekar en ég ætla, virðulegur forseti, vegna þess að nú nálgast óttu ekki að orðlengja þetta mál, þó mjög margt sé hér órætt af minni hálfu. Tilefni og tækifæri eru mörg í sambandi við þetta mál áframhaldandi og ég geri ráð fyrir því að taka aftur til máls síðar við þessa umræðu á þessum degi og taka þá á þeim þáttum, bæði sem ástæða kann að vera til að ræða frekar í ljósi þess sem fram kemur hjá hæstv. ráðherrum en einnig til þess að ræða fleiri þætti sem ekki hefur verið unnt að koma inn í mál mitt hér fram að þessu og mun víkja að því þegar þar að kemur eftir aðstæðum.
    Ég skora að lokum á hv. þm. að vísa þeirri tillögu, sem hæstv. ráðherra leggur hér fyrir, frá, þ.e. að tryggja það að hún verði ekki afgreidd hér á þessu þingi. Það væri ekki gott skref að ætla að veita sérstakt umboð til samninga sem ekki hefur verið betur staðið að en raun ber vitni í sambandi við þessa samningsgerð. Og þeim tímum væri vel varið sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að menn gættu sín í þeim efnum og tækju réttar ákvarðanir þar að lútandi. Við höfum margt að ræða hér á Alþingi, mörg stórmál. Það er þýðingarmikið að komast að réttri niðurstöðu í þessu og við þurfum ekki að sjá eftir þeim tíma sem varið er ef það verður til þess að við tökum réttar ákvarðanir þar að lútandi.