Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Haustið 1988 blöstu við gífurleg vandamál í atvinnulífi landsmanna. Spáð var stöðvun útflutningsgreina og miklu atvinnuleysi. Sú ríkisstjórn sem þá sat fór frá og ný var mynduð með þátttöku Alþb. Þar urðu tímamót.
    Hver hefði trúað því fyrir tveimur og hálfu ári að ríkisstjórninni tækist að snúa þessari óheillaþróun við á svo skömmum tíma og koma á þeim stöðugleika sem nú ríkir? En með samræmdum aðgerðum á sviði ríkisfjármála, peningamála og gengismála tókst að breyta efnahagsástandinu og skapa forsendur fyrir þá kjarasamninga sem voru gerðir fyrir rúmu ári síðan. Þessar aðgerðir voru margvíslegar og sumar ekki sársaukalausar fyrir fólkið í landinu. Aðhaldi var beitt í ríkisfjármálum, útgjöld skorin niður, skuldbreytingar voru gerðar í útflutningsgreinunum og vextir lækkaðir og fleira væri hægt að tína til. Árangurinn af þessu starfi blasir nú við og það mun koma í hlut þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð verður eftir kosningarnar í apríl að nýta þennan árangur til hagsbóta fyrir þjóðina.
    Alþb. á aðild að þessari ríkisstjórn sem nú situr. Alþb. á stóran þátt í þeim árangri sem náðst hefur og Alþb. hefur markað skýra stefnu um það hvað gera þurfi á næstu árum til að nýta og bæta þennan árangur. Á síðustu tveimur árum náðum við verðbólgunni niður. Á næstu tveimur árum nýtum við árangurinn og komum kaupmættinum upp. Við setjum auðvitað markið á aðra þjóðarsátt. Ekki á þjóðarsátt eins og þá sem gerð var fyrir ári heldur á sátt um lífskjarajöfnun. Það á að nota bætt skilyrði og auknar þjóðartekjur til að auka kaupmátt launa og jafna lífskjörin.
    Það hefur oft þurft að moka flórinn eftir slæmar ríkisstjórnir og ævinlega hefur launafólkið í landinu orðið að axla þyngstu byrðarnar og taka á sig verulega lækkun launa og hækkun skatta. Ævinlega hafa þessar aðgerðir átt að vera tímabundnar og því lofað að strax og rofaði til mundu launin hækka og lífskjörin batna. Efndirnar hafa hins vegar sjaldnast verið miklar. Oftast er það vegna þess að þegar rofar til er kjörtímabili lokið og eftir kosningar tekur ný ríkisstjórn við, ríkisstjórn sem hefur aðra stefnu og aðrar áherslur í forgangsröð verkefna. Það má ekki gerast nú. Nú er brýnna en oft áður að vernda þann árangur sem náðst hefur. Hvorki heimilin í landinu né atvinnufyrirtækin þola aðra kollsteypu. Það verður að finna leiðir til að bæta og jafna lífskjörin á þeim grunni sem lagður hefur verið. Árangurinn af starfi Alþb. í ríkisstjórn sýnir að það hefur fulla burði til að takast á við þetta viðfangsefni og leysa það til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu.
    Stefna okkar er skýr. Við vitum hvað við þurfum að gera til að bæta lífskjörin og jafna þau og við þorum að framkvæma. Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur um það hvernig tryggja skuli jöfnun lífskjara án þess að stefna öllu efnahagslífi landsins í voða. Okkar tillögur eru m.a. kjarajöfnun í gegnum húsnæðiskerfið. Það viljum við gera með því að efla félagslega húsnæðiskerfið, greiða húsaleigubætur til tekjulágra leigjenda, hærri vaxtabætur til þeirra sem afla sér húsnæðis í fyrsta sinn og koma í auknum mæli til móts við þarfir sveitarfélaganna fyrir húsnæði. Það verður að tryggja að staða þeirra sem vilja byggja eða kaupa húsnæði úti á landi verði síst verri en þeirra sem eignast húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
    Kjarajöfnun kemur líka í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga og því verður að tryggja að sveitarfélögin ein sér eða í samvinnu geti veitt sömu þjónustu hvar sem er á landinu. Í komandi kjarasamningum verður sá árangur sem náðst hefur að koma fram í hækkun lægstu launa, hækkun skattleysismarka og raunverulegu jafnrétti í lífeyrismálum.
    Skattar eru afar óvinsælt umræðuefni. Það er eins og enginn vilji taka á sig skattahækkun en allir vilji bæta þá þjónustu sem ríkið veitir og stundum er eins og menn setji ekki samasemmerki þarna á milli ef marka má þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið. Ef stöðugleiki helst í efnahagsmálum er hægt að halda heildarskattbyrðinni óbreyttri. Og innan þess ramma er hægt að hækka skattleysismörkin, hækka barnabætur og borga þeim tekjulægstu húsnæðisbætur. En þá verður líka að koma því til leiðar að hér verði sett á annað skattþrep þannig að til verði hátekjuskattur. Það þarf einnig að skattleggja fjármagnstekjur sem eru umfram ákveðið mark. Það er því ekki verið að tala um að skattleggja eðlilegt sparifé fólks.
    Góðir áheyrendur. Lausn á þeim erfiðu vandamálum sem við blöstu í efnahags - og atvinnulífi landsmanna haustið 1988 hlaut að hafa forgang í störfum ríkisstjórnar og hér á hv. Alþingi. Þrátt fyrir það er árangurinn á þessum seinni helmingi kjörtímabilsins ekki bundinn við efnahags - og atvinnumál. Mikilsverður árangur hefur náðst á mörgum sviðum eins og fram kemur hér í kvöld. Það eru fleiri verkefni fram undan en þau sem snúa beint að kaupi og kjörum. Hefðbundnir atvinnuvegir þarfnast endurskipulagningar. Nú er lögð mikil vinna í gerð nýs búvörusamnings og jafnhliða er nauðsynlegt að tryggja aukna atvinnu á landsbyggðinni til þess að mæta þeirri skerðingu sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfar niðurskurðar í hefðbundnum búgreinum.
    Sú stefna sem rekin hefur verið í sjávarútvegi hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var og því er nauðsynlegt að taka hana til rækilegrar endurskoðunar. Þar verður að miða að aukinni hagkvæmni í útgerð og tryggja jafnframt hagsmuni sjómanna og byggðanna, en það vill oft gleymast í umræðunni eins og berlega kom í ljós í umræðu um aðgerðir vegna aflabrests á loðnu.
    Stefna og aðgerðir í umhverfismálum eru í mótun. Umhverfismálin eru eitt stærsta verkefni framtíðarinnar, ekki síður hér á landi en erlendis. Umhverfissjónarmið þurfa að setja mark sitt á alla stefnumótun í efnahags - og atvinnumálum og á allt þjóðlífið. Það verður að fylgja eftir stofnun umhverfisráðuneytis og styrkja hlutverk þess í íslensku stjórnkerfi.
    Þannig er hægt að fara yfir sviðið. Árangur hefur

náðst en mörg verkefni eru óleyst enn þá. Við verðum ævinlega að hafa í huga að hlúa að okkar eigin atvinnuvegum og það er ekki alltaf vænlegasti kosturinn að setja fjármuni í eitthvað nýtt í stað þess að efla það sem fyrir er, vera sjálfum okkur nóg á sem flestum sviðum. Að þessu miðar stefna Alþb. Hún er ekki safn slagorða heldur sterk og heildstæð stefna sem gengur upp og við berum fram undir kjörorðinu: Okkar Ísland. --- Góða nótt.