Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Á milli 2. og 3. umr. hittist fjh. - og viðskn. til þess að ræða þetta frv., en eins og lýst var yfir hér við 2. umr. samþykkti stjórnarandstaðan að sú umræða færi fram, 2. umr., gegn því að nefndin yrði kölluð saman aftur til skrafs og ráðagerða varðandi orðalag þeirrar brtt. sem mundi verða flutt. Síðan hefur verið reynt að finna orðalag sem fullnægði þörfum allra en upp hefur komið að mikill ágreiningur er á milli aðila um það hvernig eigi að haga þessum málum. Þarna er um mjög mikla fjármuni að ræða og varðar miklu hver meðhöndli þessa peninga, hvort það eigi að vera Byggðastofnun alfarið eða hvort Byggðastofnun á að leita samráðs við Ríkisábyrgðasjóð og forsrn. við afgreiðslu mála.
    Ég hef verið þeirrar skoðunar að þar sem hér er um að ræða verulega fjármuni sem eru með ríkisábyrgð, þá sé ekki ráðlegt að fela annarri stofnun heldur en Ríkisábyrgðasjóði að fjalla um þessi mál. En gert var ráð fyrir því í upphaflegu frumvarpsdrögunum að sérstök deild eða Byggðastofnun gæti tekið ýmsar ákvarðanir og skuldbundið með þeim hætti Ríkisábyrgðasjóð.
    Sú brtt. sem hér er flutt gerir ráð fyrir því að áður en ákvarðanir um niðurfellingu eða breytingu á skilmálum lána nái fram að ganga þurfi samþykki bæði forsrh. og fjmrh. Er þetta mjög ásættanlegt. En brtt. sem ég mæli fyrir er eiginlega nýtt frv., tvær greinar, en fyrri greinin orðist svo:
    ,,Stofna skal hinn 1. apríl 1991 hlutafjárdeild við Byggðastofnun og tekur deildin á stofndegi við öllum eignum og skuldbindingum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag. Deildinni má fela að annast eftirlit með hlutafélögum sem Byggðastofnun á aðild að.``
    Svo hin síðari grein:
    ,,Stofna skal hinn 1. janúar 1991 atvinnutryggingardeild við Byggðastofnun. Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag og tekur á stofndegi við eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Hlutverk deildarinnar er að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar en henni er óheimilt að veita ný lán. Deildinni er heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda eignir sínar, þar með talið að skuldbreyta, breyta skilmálum lána atvinnutryggingardeildar, breyta þeim í víkjandi lán eða fella þau niður, enda liggi fyrir samþykki forsrh. og fjmrh.`` --- Þetta er einmitt kjarni þessa máls. --- ,,Að jafnaði skulu slíkar breytingar á skilmálum vera liður í aðgerðum sem miða að fjárhagslegri endurskipulagningu, meiri háttar skipulagsbreytingum, samruna fyrirtækja og öðru því sem til hagræðingar horfir.``
    Það er kannski rétt að taka það einnig fram hér að þarna er verið að koma Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina undir Byggðastofnun með þessu frv. og Hlutafjársjóði, en til þessara tveggja sjóða var stofnað á árinu 1988 til þess að endurreisa atvinnulífið. Þá má einnig taka það fram að eignir eða lán þessara

sjóða voru upp undir að mig minnir 9 milljarðar að því er varðar Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og upp undir 2 eða 3 milljarðar varðandi Hlutafjársjóð þannig að þarna er um verulega peninga að ræða. Þá má kannski einnig minnast á það að það hefur líka komið í ljós að þau fyrirtæki, sem fengu fyrirgreiðslu hjá þessum tveimur sjóðum, hafa verið að borga sín lán eða réttara sagt komið að gjalddaga á vöxtum af þessum lánum og því miður verð ég að viðurkenna það hér að samkvæmt þeim upplýsingum sem voru lagðar fyrir nefndina virðast vera töluvert mikil vanskil á þeim lánum þó svo ekki sé byrjað að borga afborganir heldur einungis vexti. Og eftir því sem mér sýndist á þeim plöggum sem lögð voru fram sem trúnaðarmál má segja að yfir 50% af þeim lánum sem sjóðurinn veitti sé í vanskilum og það er mjög hátt hlutfall þegar ekki er einu sinni komið að því að borga afborganir. --- [Fundarhlé.]