Samvinnufélög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni við 1. umr. þessa máls er þetta frv. að vísu til verulegra bóta fyrir rekstur samvinnufélaga en þó ófullkomið. Sýnilega hafa menn ekki verið á eitt sáttir um það, sem kannski er eðlilegt, með hvaða hætti ný löggjöf um samvinnufélög yrði, en lögin sem samvinnufélögin búa við eru eins og mönnum er kunnugt um að aðalstofni til allar götur frá 1921. Árið 1937, ef ég man rétt, voru gerðar á þeim breytingar.
    Félagalöggjöf á Íslandi hefur gjarnan verið háttað þannig að samhliða hefur verið fjallað um hlutafélagalög og samvinnufélagalög. Slíkar lagabreytingar fylgdust oft að hér áður fyrrum og menn urðu þá sæmilega sáttir um mismunandi rekstrarform. Þetta fór allt úr skorðum þegar nýju hlutafélagalögin voru sett 1978, mjög merk löggjöf. Þá var látið á það reyna hvort menn væru ekki tilbúnir í það að setja samhliða eða strax í kjölfarið nýja löggjöf um samvinnufélögin. Var ég mikill hvatamaður þess að það yrði gert og tók raunar þátt í ýmiss konar umræðu um það mál, bæði innan þings og utan.
    En sú löggjöf sem nú verður vonandi sett, af því að hún er til bóta þrátt fyrir allt, því samvinnufélagalögin sem í gildi eru eru auðvitað einskis nýt og verri en það, þá er rétt að verða við tilmælum um breytingar sem hér hefur verið flutt tillaga um og við styðjum framgang málsins, sjálfstæðismenn í heild, það var ákveðið á þingflokksfundi. Þó að svigrúm til að skoða málið hefði nánast ekkert verið í hv. Ed. hafa menn haft frv. undir höndum það lengi að við gátum áttað okkur á því í meginatriðum.
    Ég fagna því að þessi löggjöf verður nú sett, en það er alveg ljóst að það þarf svo að gera á henni miklar endurbætur strax á þessu ári. Ég vona að menn sameinist um að gera það. Samvinnufélögin hafa verið í gífurlega miklum fjárhagslegum vanda sem byggist að verulegu leyti einmitt á þessari úreltu löggjöf og þar af leiðandi óeðlilegum rekstri og samvinnumenn sjálfir, sem svo eru kallaðir, ég tel mig nú geta verið samvinnumann alveg eins og hvern annan, hafa sjálfir séð að við svo búið mátti ekki lengur standa. Raunar eru áratugir síðan þessar breytingar átti að gera, en betra er seint en aldrei. Samvinnufélög í því formi sem lög voru um áður verða sjálfsagt aldrei aftur til. Þau verða í nýtískulegu formi og þessi löggjöf hjálpar til við endurskipulagningu sem alþjóð veit að hefur farið fram og vonandi bera þau þann ávöxt sem menn ætla. En það er ljóst eins og ég sagði áðan að skoðanir eru mjög skiptar meðal þeirra sem staðið hafa að og undirbúið þetta frv. og það þarf að jafna þann ágreining svo að vel geti farnast.
    En við sjálfstæðismenn styðjum framgang málsins.