Stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég gerði grein fyrir mínum viðhorfum við 1. umr. þessa máls og er hlynntur því að Alþingi verði sameinað í eina málstofu. Ég vil hins vegar taka það fram að gefnu tilefni að mjög mikilvægt fylgiskjal með frv. þessu er drög að frv. til breytinga á þingskapalögum. Þar eru ýmis ákvæði sem eru umhugsunarverð og eitt sem ég get alls ekki fellt mig við. Þar er gert ráð fyrir því að forsrh. hafi möguleika til þess að gera tillögu um að takmarka ræðutíma þingmanna og annarra ráðherra en þess sem mælir fyrir stjfrv. við átta mínútur. Ég tel í rauninni að hér sé um algerlega fráleitt ákvæði að ræða þó að það sé ekki nema vegna þess að forsrh. getur auðvitað verið utanþingsmaður og það að fela forsrh. vald af þessu tagi er fullkomin fjarstæða að mínu mati. Ég skora á hv. þingmenn sem hér eru og ekki hafa veitt því athygli hvernig þetta ákvæði er að tjá sig um það með einhverjum hætti við 3. umr. málsins þannig að fyrir liggi vilji sem flestra þingmanna í þá veru að ákvæði það sem hér er um að ræða, og er í 36. gr. þingskapalagadraganna, verði fellt úr þegar þar að kemur. Ég mun beita mér fyrir því. Ég tel að hér sé um gersamlega fráleitan, óþingræðislegan og ólýðræðislegan hlut að ræða.
    Það breytir ekki því að ég tel það til bóta að Alþingi verði sameinað í eina málstofu. Fyrir því eru mörg rök sem ég hef rakið. Ein þeirra rakti ég hér í fyrradag þegar ég mælti fyrir frv. til grunnskólalaga og ég hirði ekki um að endurtaka hér. Ég segi já við 1. gr., hæstv. forseti.