Afgreiðsla frv. um stjórnarskipunarlög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Það virðist hafa farið fram hjá forseta að hæstv. menntmrh. gerði það að tillögu sinni áðan að við 3. umr. mundu hv. þm. tjá sig um 36. gr. þingskapafrv. Ég vil taka undir þessi orð hæstv. menntmrh. að það er full ástæða til þess að hv. þm. geri sér grein fyrir því að ef þeir samþykkja þetta eins og það liggur fyrir í þessu plaggi, þá er verið að fremja hér mjög óvenjulegan verknað hvað þingræðishefðir áhrærir, þar sem hér er verið að afhenda forsrh. tillögu . . . ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þá hefur hv. þm. ekki lesið 36. gr. ( JE: Þetta eru drög að tillögu til þingskapalaga.) Akkúrat. Það sýnir þann vilja sem er á bak við þá breytingu sem felst í þessu frv. Er þá væntanlega gert ráð fyrir því að sá meiri hluti sem gæti myndast eftir næstu þingkosningar, sem stendur að þessu frv., mundi fara eftir því sem stendur hér í þessum drögum að þingsköpum, sem eru mjög óvenjuleg svo að ekki sé meira sagt, og óeðlilegt að fela þetta í vald forsrh. í stað þess að það ætti frekar að vera í valdi forseta Sþ. að koma með slíka tillögu. Ég er ekki lögfræðingur en hv. þm. Jóhann Einvarðsson mun vera það. ( Gripið fram í: Nei.) Nú, ég bið menn að afsaka, en ég hef litið þannig á að hann hafi sýnt þá hæfni hér á hinu háa Alþingi að ég gekk út frá því sem vísu að hann væri lögfræðingur. Ég skal taka í höndina á hv. þm. þegar ég kem úr ræðustól og staðfesta það. (Gripið fram í.) En hvað sem því líður skal ég túlka það fyrir hv. þm., hann hafi greinilega ekki skilið það. Ég sé það á svip ákveðinna þingmanna að þeir skilja hvað ég er að fjalla um. Ég óska nú eftir því, virðulegi forseti, að það verði umræða m.a. um þetta atriði þannig að hæstv. menntmrh., sem væntanlega verður hér á þingi fyrir Alþb. nk. haust, viti þá hvar hann stendur í þessu máli hvað varðar afstöðu þeirra sem eru að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem hér er. Og ég tek undir orð hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar að hér er um meiri háttar mál að ræða þess eðlis að það er ekki við hæfi að hið háa Alþingi skuli ætla að afgreiða þetta frv. með þeirri fljótaskrift sem hér er.
    Frsm. nefndar, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, átti greinilega í miklum vandræðum með að koma þessu máli frá sér í dag, sem fór ekki fram hjá hv. þm., þar sem hv. þm. Borgfl. og hæstv. ráðherrar sama flokks gátu ekki sinnt sínum skyldustörfum við afgreiðslu annarra mála vegna þess að þetta er það mikið ágreiningsmál, alla vega í þeirra röðum.