Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég lofaði að vera hér fáeinar sekúndur vegna þess að ég ætlaði að fara með tvær dagsetningar. Ég vil þó bara bæta einni setningu við. Ef það eru öll rökin að ég sé eitthvað að fela vegna þess að ekki er enn þá komið fram fjáraukalagafrv. fyrir árið 1990, hvað var Sjálfstfl. þá að fela þegar hann lagði ekki fram fjáraukalagafrumvörp í sjö ár, fyrir sjö ár þegar hann stjórnaði fjmrn. um fjögurra ára tímabil? Auðvitað er ekki hægt að ræða málin á þessum grundvelli. Ég hef aldrei sagt að Sjálfstfl. væri eitthvað sérstaklega að fela þó að hann hafi ekki lagt fram fjáraukalagafrv. fyrir mörg, mörg ár og það var eitt af mínum fyrstu verkum að koma með allan bunkann hérna inn í þing. ( KrP: Hver bað þig um að gera það?) Það bað mig enginn um að gera það. Ég tók það upp hjá mér sjálfur. En hv. þm. sem nú greip fram í hefur hins vegar stutt mig dyggilega í þessari viðleitni minni.
    En ég ætlaði bara að fara hér með tvær dagsetningar vegna þess að talsmenn Sjálfstfl. og ýmsir aðrir hafa sagt hér í þessum umræðum að þetta hafi verið til mikillar fyrirmyndar í fyrra: Hvenær var fjáraukalagafrv. fyrir árið 1989 hið endanlega lagt fram í fyrra, 1990? Það var lagt fram 23. mars. Og það er sagt hér og nú að það hafi verið til mikillar fyrirmyndar í fyrra. En nú eru hér fluttar margar ræður til að gagnrýna mig 15. mars fyrir að vera ekki fyrir löngu kominn með fjáraukalagafrv. fyrir 1990. ( Gripið fram í: Og 1991 líka.) Ég kem að því. Fyrir árið 1990. Það sem mönnum fannst mjög fínt í fyrra, að það kom 23. mars, er allt í einu orðin voðaleg synd að vera ekki kominn með það nú 15. mars. Þetta auðvitað gengur ekki upp.
    Hin dagsetningin sem ég ætlaði að fara með: Hvenær var fyrra fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár, 1990, lagt fram á árinu 1990? Svarið er: 6. mars. Hvenær var það afgreitt af fjvn.? Tveimur mánuðum síðar, 5. maí. Það tók fjvn. nokkurn veginn jafnlangan tíma að afgreiða frv. eins og leið frá áramótum og þar til fjmrn. lagði það fram. Ég hef aldrei gagnrýnt fjvn. fyrir það. Ég hef aldrei flutt svona messur yfir þeim vinnubrögðum eins og menn flytja hér yfir því að ég sé ekki kominn með fjáraukalagafrv. fyrir árið 1991.
    Þessar dagsetningar afhjúpa í raun og veru allan þennan málflutning sem hér hefur farið fram. Í fyrra þótti mönnum fínt og til fyrirmyndar að koma með fjáraukalagafrv. fyrir árið 1989 23. mars. Nú er það ægileg synd sem kostar hér nokkurra klukkutíma umræðu að vera ekki 15. mars kominn með sambærilegt frv. fyrir árið 1990. Í fyrra þótti það mjög fínt að koma með fjáraukalagafrv. 6. mars og allt í góðu lagi að afgreiða það ekki fyrr en í maí. En settar á langar ræður að ekki sé enn þá búið að koma með fjáraukalagafrv. 15. mars og afgreiða það fyrir árið 1991.