Búminjasafn
Föstudaginn 15. mars 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nál. um frv. til laga um búminjasafn frá hv. menntmn. í fjarveru hv. formanns nefndarinnar.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. sem felur í sér að komið verði á fót búminjasafni er hafi aðsetur á Hvanneyri.
    Nefndin telur að með frv. þessu sé hreyft athyglisverðu máli og að nauðsynlegt sé að hlúð verði að þeim vísi að landbúnaðartækjasafni sem komið hefur verið á fót við Bændaskólann á Hvanneyri. Slíkt safn er mikilvægt fyrir Bændaskólann vegna kennslu og starfa nemenda og eins hefur það almennt gildi að varðveita búminjar frá liðinni tíð. Nefndin telur hins vegar að skoða þurfi nánar hvernig sérstök löggjöf um búminjasafn falli að heildarskipulagi safnamála. Í trausti þess að stjórnvöld taki mál þetta til gaumgæfilegrar athugunar leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Ragnhildur Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nál. rita nöfn sín Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson, Sólveig Pétursdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Ólafur Þ. Þórðarson.