Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða um refsiákvæðið kemur mér satt að segja nokkuð á óvart. Sú hugsun var í þeim breytingum sem hér hafa verið lagðar til að það væri verið að draga úr þessum refsingarákvæðum. Eins og fram kemur þá er nýtt orðalag þar sem stendur ,,allt að 25%``, en fram að þessu hefur það verið 25%, svo að skattstjórum er heimilt að meta það eftir aðstæðum og tilvikum hvort þeir eru með jafnvel 0 eða 5% eða 10%. ( Gripið fram í: Hafa þeir nokkurn tímann gert það?) Lögin hafa hingað til bara verið 25%. Þeir hafa því ekki haft heimild til þess að meta það.
    Ég er ekki að efna til ítarlegri umræðu um málið á þessu stigi, forseti. Ég vil taka það skýrt fram. Erindi mitt hér upp var að segja að það kom mér satt að segja dálítið á óvart því að tilgangur fjmrn. var að draga úr þessu ákvæði. Síðasta setningin sem bætt er við felur það í sér að menn taki tillit til staðgreiðslunnar sem búið er að greiða inn. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða þetta mál milli 2. og 3. umr. vegna þess að það var ekki tilgangur okkar að fara að herða málið heldur þvert á móti að gera á þessu breytingar. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til þess að ræða þetta við nefndarmenn milli 2. og 3. umr.