Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Í brtt. frá hv. fjh.- og viðskn. er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun fái heimild til lántöku að upphæð 800 millj. kr. að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur spurt hvernig ég túlki þarna samþykki ríkisstjórnarinnar og alveg sérstaklega hvort muni verða leitað samþykkis viðkomandi þingflokka. Ég lít svo á að það sé út af fyrir sig hver einstakur flokkur sem ákveður hvernig hann fer með slíkt mál en ég tel afar eðlilegt að leitað sé samþykkis viðkomandi þingflokka þó ég geti ekki skuldbundið neinn flokk til slíks. Ég vil geta þess hér að ég tel t.d. sjálfsagt að hafa samráð við minn þingflokk áður en ég gef mitt samþykki í ríkisstjórn.