Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins segja hér örfá orð til að lýsa stuðningi mínum við þá tillögu sem hér hefur verið mælt fyrir um kaup á björgunarþyrlu. Ég vil í raun lýsa undrun minni á því að þjóð sem byggir lífsviðurværi sitt á því sem hafið gefur og þarf að treysta því að hér í landinu sé fólk sem vill fara á sjó og sækja fiskinn, að þjóð sem á svo mikið undir hafinu skuli ekki hafa tekið ákvörðun fyrir löngu um að festa kaup á svo nauðsynlegu björgunartæki sem þyrla er. Eins og fram kom í máli hv. flm. má segja að þyrlur séu nokkurs konar sjúkrabifreiðar sjómannsins.
    Það vakti nokkra undrun mína rétt fyrir jólin að hæstv. dómsmrh. skyldi leggja fram frv. í hv. Ed. um að nú skyldi stofnað til happadrættis til þess að fjármagna kaup á slíkri þyrlu. Ég hef um það efasemdir að við eigum að láta happadrættisgleði Íslendinga ráða hvenær verður hægt að kaupa þyrlu. Hver eru raunveruleikatengsl þeirra manna sem telja að hægt sé að treysta á happadrætti og að markaðurinn fyrir happadrætti sé endalaus, og það á tímum þjóðarsáttar?
    Ég vildi með þessum örfáu orðum aðeins hvetja til þess að þessi tillaga verði tekin til rækilegrar skoðunar. Hún er endurflutt í a.m.k. þriðja sinn og ég tel mjög brýnt að við tökum um það okkar sjálfstæðu ákvörðun án tillits til happadrættistekna að keypt verði þetta sjálfsagða björgunartæki fyrir íslenska sjómenn. Það eru hagsmunir okkar allra.