Sektir vegna mengunarbrota á hafnarsvæðum
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka flm. fyrir það að bera þessa þáltill. fram hér. Ekki kannski út af efni þessarar sérstöku þáltill. heldur fyrir það að benda hv. þm. á að þeir eru meira og minna að semja lög, ganga frá lagasamþykktum ýmiss konar til þess að koma í veg fyrir þetta og þetta, en síðan er framkvæmdaþættinum sleppt. Honum er sleppt svo gjörsamlega að ráðherra sem fær í hendur lagasamþykkt, eins og hér er nefnd, 1986 sér ekki um að semja reglugerð um sektarákvæði eða hvernig eigi að framfylgja þessum ákveðnu lögum. Því miður er allt of mikið af slíku sem þessu. Og það er, ég veit ekki með hvaða orðum ég á að segja það, kannski dálítið sérstakt að það þurfi til þess varaþingmann að koma hér inn á hv. Alþingi til þess að benda þingmönnum og framkvæmdarvaldinu á stöðu eins og á sér stað í þessu máli, sem hér er verið að fjalla um.
    Því miður er þetta á margfalt fleiri sviðum. Við heyrðum í fréttum nú fyrir tveimur dögum síðan að það varð bruni hér uppi á Hellisheiði og þar hefðu brunavarnir verið á þann veg sem braut algerlega í bága við lög. En það kom bara í ljós að viðkomandi aðilar sem áttu að framfylgja þessum lögum gátu það ekki vegna þess að það lágu engin ákvæði fyrir um framkvæmdina, um að loka viðkomandi húsi eða gera einhverja sérstaka hluti til að koma í veg fyrir að þarna gæti átt sér stað slíkur bruni sem þar varð. Í þessu tilfelli átti sér þó kannski stað óhapp sem var tiltölulega lítið miðað við það ef þetta hús hefði t.d. verið fullskipað gestum. Á sama degi held ég að hafi komið frétt um eldsvoða úr stórum skóla í Reykjavík þar sem í ljós kom að ekki hefðu verið nein brunavarnaviðvörunartæki. Þannig að sama uppákoman varð raunverulega þar.
    Við samþykkjum lög hér á hv. Alþingi um að þetta skuli gert og hitt skuli gert. Við skulum koma í veg fyrir mengun, við skulum koma í veg fyrir eldsvoða og síðan er ekki fylgt eftir þeim sjálfsögðu hlutum sem í lögunum eru um að framkvæmdarvaldið fylgi því eftir að ganga frá jafnsjálfsögðum hlutum og hér er verið að leggja til að gert verði.
    Ég endurtek að ég þakka fyrir þennan tillöguflutning og ég vona að þó að engir ráðherrar séu hér, engir fulltrúar framkvæmdarvaldsins að þá verði þetta til þess að minna á að það er ekki nóg að Alþingi samþykki lög um mengunarvarnir, um brunavarnir, ef ekki er fylgt eftir bæði sektarákvæðum, eins og hér er bent á, og ákveðnum framkvæmdaratriðum um að þessum lögum sé framfylgt.
    Framsögumaður nefndi í sambandi við mengun hafna að ekki mundi vera fyrir hendi fullnægjandi ákvæði um olíuhreinsun hjá fiskiskipum. Því miður er þessu ábótavant. Því miður á það sér stað enn þá í íslenskum höfnum að fiskiskip getur verið að lensa sem kallað er, dæla út sjó, oft á tíðum er það olíumengað, oft á tíðum er það slagvatn, þ.e. mengað vatn. Á sama tíma er kannski verið að dæla inn sjó í skipið til þess að hreinsa lestar skipsins. Það er verið að

hreinsa geymslustaði sjávarfangs, fisksins, með því vatni sem verið er að dæla út úr skipinu á hinn veginn.
    Það má nefna ótalmörg dæmi eins og þessi. En ég vænti þess að þessi þáltill. fái góða afgreiðslu hér á hv. þingi og verði fyrst og fremst til að minna hæstv. ráðherra á það að taka til greina lagasamþykktir sem gerðar eru hér á hv. Alþingi, koma því í verk að setja reglugerðir og fylgjast með því að lagasamþykktunum sé hlýtt.