Frelsi í útflutningsverslun
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft þörfu og afar mikilvægu máli sem er mjög í anda þeirra áforma sem sá sem hér stendur sem utanríkisviðskiptaráðherra hefur áður lýst. Oft er sagt að Íslendingar lifi á fiski. Það má orða á annan veg, nefnilega að Íslendingar lifi á utanríkisverslun. Það er leitun á þjóð sem er jafnháð utanríkisviðskiptum og við. Útflutningur okkar er tiltölulega fábreyttur en er samt hátt hlutfall af þjóðartekjum. Inn flytjum við flest þeirra gæða sem við byggjum lífskjör okkar á fyrir andvirði þessa útflutnings. Hlutfall utanríkisverslunar í þjóðartekjum Íslendinga er t.d. fjórum sinnum hærra en það er að meðaltali í Evrópubandalaginu. Íslendingar lifa þess vegna á utanríkisverslun. Þannig að við þurfum að móta okkur heildstæða stefnu, ekki aðeins varðandi fiskveiðistjórnun heldur líka varðandi fiskvinnslu, vöruþróun, markaðssetningu og útflutning. Og á því er mikill misbrestur.
    Tímabili einokunar í útflutningi er að ljúka og því lýkur í seinasta lagi að fullu og öllu þegar samningar okkar um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis verða að fullu komnir til framkvæmda vegna þess að þetta einokunarkerfi, sem heyrir til liðinni tíð, verður þá einfaldlega ekki heimilt. Oft hefur mikið á það skort að það væri skilningur á mikilvægi fríverslunar
í alþjóðaviðskiptum. Samt er það auðsannað mál að fríverslun, sérstaklega fyrir tilkomu milliríkjasamninga á vegum GATT, með iðnaðarvörur hefur átt stærstan þátt í efnahagslegum framförum, auknum hagvexti, bættum lífskjörum, lækkuðu verði og þar af leiðandi verið í anda hagsmuna neytenda meira en nokkurt annað mál.
    Ein meginskýringin á hruni efnahagskerfis kommúnismans var innilokun hans og útilokun frá þátttöku í heimsviðskiptum. Sá meginmunur sem er á viðskiptum annars vegar með iðnaðar - og þjónustuvörur, og leitt hefur til framfara, tækninýjunga og lækkunar á verði, og hins vegar á verslun með matvæli og þá einkum landbúnaðarvörur leiðir þetta í ljós. Einungis um 3% af allri landbúnaðarvöruframleiðslu heimsins er á markaði í milliríkjaviðskiptum, enda hefur ríkt þar stöðnun, enda hefur verðlag landbúnaðarafurða ekki lækkað í neinu samræmi við aðrar vörutegundir og þetta er eitt meginvandamálið sem verið er að reyna að fást við í GATT nú þegar verið er að reyna að brjóta niður tollmúra og greiða götu milliríkjaviðskipta með landbúnaðarvörur.
    Íslendingar hafa hér náttúrlega gífurlegra hagsmuna að gæta, meiri hagsmuna en flestar aðrar þjóðir. Hverjir erum við? Við erum matvælaframleiðendur. Okkar matvæli eru mestan part fiskur og fiskafurðir, sjávarafurðir. Stærsta hagsmunamál okkar er að fá tollfrjálsan aðgang með okkar matvæli á erlendum mörkuðum. Og það er meginviðfangsefni okkar um þessar mundir í stærstu milliríkjasamningum sem við höfum nokkurn tíma tekið þátt í.
    Á sama tíma eru enn ríkjandi þau fornaldarviðhorf að um leið og við krefjumst þess af öðrum að fá tollfrjálsan aðgang að þeirra mörkuðum fyrir okkar matvæli, þá hefur það verið ríkjandi hugsunarháttur hér á landi að við ættum að loka gjörsamlega dyrunum fyrir innflutningi á matvælum annarra hingað. Þar er lýst sjónarmiðum framleiðenda eingöngu. En þegar kemur að innflutningsversluninni að öðru leyti þykir eðlilegt að hún sé frjáls vegna þess að samkeppni leiðir til lækkaðs verðs og gætir hagsmuna neytenda, þannig að hér er allt fullt af þversögnum.
    En kjarni málsins er sá að í þeim fríverslunarsamningum, sem nú standa fyrir dyrum, mun þetta breytast og takist samkomulagið eitthvað í líkingu við það sem efni stóðu til innan GATT, þá mun það breytast einnig að því er varðar landbúnaðarafurðir þannig að við stöndum frammi fyrir mjög róttækum breytingum.
    Nýjustu tíðindi eru þau af samningum um evrópska efnahagssvæðið að líkindi benda til þess að samningum verði raunverulega lokið í apríl þótt vera kunni að undirskrift samninga dragist eitthvað lengur. En það er almennt bjartsýni ríkjandi um að það takist að ná því markmiði að lúka þessum samningum formlega á fyrri hluta þessa árs. Takist þessir samningar og ef við náum þeim árangri að ná tollfrjálsum aðgangi fyrir okkar sjávarafurðir, þá mun það breyta ýmsum grundvallarforsendum varðandi íslenskan sjávarútveg. Það sem okkur ríður mest á að fá tollfrjálsan aðgang fyrir er fersk flök, það er saltfiskur, það er síld og það eru ýmsar tegundir af flatfiski. Sérstaklega er þetta mikilvægt varðandi flök og saltfisk. Ef það tækist að því er varðar fersk flök, þá þýðir það að við gætum hafið nýtt tímabil aukinnar vöruþróunar hér heima. Flakavinnslan er fyrsta stig úrvinnslu á fiskafurðum. Það mundi þýða það að við gætum hætt að flytja út í jafnstórum stíl og við gerum, um 11% af okkar heildarútflutningi, óunninn ferskan fisk, sem að langmestu leyti er ekki neytendaframleiðsla heldur hráefni til frekari úrvinnslu keppinauta okkar í öðrum löndum. Þetta er auðvitað afar mikilvægt.
    Þetta er ekki reikningsdæmi upp á þá tvo milljarða í tollum sem við mundum spara okkur. Þetta ætti að þýða bætt skilyrði fyrir innlenda fiskvinnslu til þess að auka hér mjög vöruþróun, ná meira vinnsluvirði afurðanna hér heima og fyrir einstök fyrirtæki í fiskvinnslu að nýta sér tækifæri á margbreytilegum mörkuðum þar sem er hár kaupmáttur í Evrópu til nýs átaks í markaðsöflun. Og þegar við erum að tala um matvælaframleiðslu á neytendamarkað, ekki bara uppboðsmarkaði fyrir hráefni, þá erum við að tala um mjög fjölbreytilega markaði. Við erum að tala um möguleika á því að t.d. stofna til sameiginlegra fyrirtækja með erlendum aðilum um dreifingu og sölu þessara afurða. Það ætti að vera okkar höfuðkeppikefli að standa þannig að þessum málum að við stæðum undir því að íslenskar fiskafurðir væru hágæðavörur sem væru fyrst og fremst eftirsóttar á háum verðum á þessum mörkuðum, t.d. veitingahúsamörkuðum, hótelmörkuðum o.s.frv.
    Að því er þessa till. varðar, þá sagði ég: Hún er

mjög í anda þeirra áforma sem við höfum lýst. Því hefur verið yfirlýst af minni hálfu að þegar fyrir liggur að við náum samningum um evrópskt efnahagssvæði, þá verði afnumin sú einokun sem gildir varðandi útflutning á saltfiski. Sá tími kemur síðan að sama máli gegni um síld þannig að upp verði tekin meginreglan um frjálsan útflutning eins og innflutning. Menn mega ekki ætla að þar með verði innleitt eitthvert allsherjarstjórnleysi í þessum málum. Ég sagði: Gæði verða að vera meginkeppikeflið og að sjálfsögðu verða sett almenn skilyrði sem allir þeir sem þessi viðskipti stunda verða að fullnægja. Og þau lúta bæði að gæðum, eiginfjárstöðu fyrirtækja, bankatryggingum og öðru slíku því við höfum ekki efni á því að stofna til einhverrar ævintýramennsku á þessu sviði.
    Þetta varðar líka það fyrirbæri sem nú er uppi sem heitir aflamiðlun, skömmtunarkontór hagsmunaaðila. Það er líka tímaskekkja. Það er eingöngu á komið vegna þess að enn hefur ekki tekist samkomulag um það að setja um þetta efni almennar reglur. Ég hef margoft lýst þeim hugmyndum, og þær eiga verulegan stuðning meðal framleiðenda og útflytjenda og ýmissa stjórnmálaafla, að meðan við höfum núverandi kvótakerfi, sem líka er komið á tíma, þá eigi að færa heimildir til útflutnings inn í það kerfi til þess að upphefja þá mismunun sem nú ríkir. Það sem verst er núverandi sjávarbúskap okkar eða stefnu er þessi mismunun. Menn sitja ekki við sama borð. Fólki er mismunað í allra handa kerfum. Verðlagning sjávarafurða er mismunandi, ekki hvað síst eftir búsetu eða stöðum á landinu, aðstaða til heimildar til útflutnings er líka háð leyfum og þannig mætti lengi telja.
    Ég tek undir með flm. Hér er um að ræða tímaskekkju. Við stöndum nú á tímamótum. Það hefur verið rýmkað til að því er varðar freðfiskinn. Við höfum veitt heimildir að því er varðar t.d. útflutning á saltfiski til þess að gefa sölusamtökunum aðhald með mjög góðum árangri, t.d. að því er það varðar að SÍF hefur hraðað mjög greiðslum til framleiðenda vegna þessa aðhalds. Fram undan er að afnema þetta einkaleyfi og við þurfum ekki að óttast það að hin stóru sölusamtök hverfi fyrir það. Þau hafa haft forréttindi á markaðnum. Þau hafa byggt upp sterka stöðu og þau munu ekki hrynja. Þau munu áfram vera öflug fyrirtæki en tímabili einokunar á að lúka.