Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 30 . mál.


Nd.

30. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 64/1985, um Byggðastofnun.

Flm.: Málmfríður Sigurðardóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Kristín Einarsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



1. gr.


         Við II. kafla laganna bætist ný grein, er verði 13. gr., og orðist þannig:
         Við Byggðastofnun starfar deild sem hefur það hlutverk að vinna að uppbyggingu atvinnu fyrir konur. Til starfsemi deildarinnar skulu renna a.m.k. 20% af árlegum framlögum ríkisins til Byggðastofnunar og skal þeim varið til reksturs deildarinnar, ráðgjafar, lána, styrkja og annarrar fyrirgreiðslu vegna atvinnustarfsemi kvenna.
         Nánari ákvæði um starfsemi deildarinnar setur ráðherra með reglugerð.

2. gr.


         Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991.

G r e i n a r g e r ð .


         Atvinnulíf landsmanna utan höfuðborgarsvæðisins er víðast hvar einhæft. Sums staðar stendur byggðarlagið og fellur með einni atvinnugrein eða jafnvel einu fyrirtæki. Þessi fábreytni í atvinnulífinu hefur orðið enn afdrifaríkari með breyttum þjóðfélagsháttum, ekki síst með aukinni þátttöku kvenna í störfum utan heimilis. Er löngu orðið tímabært að taka mið af þeirri staðreynd.
    Stjórnvöld á Norðurlöndum hafa áttað sig á því hversu nauðsynlegt það er að hlusta á hugmyndir kvenna og taka tillit til þeirra þegar rætt er um búsetuþróun. Þar eins og hér bitnar aukið atvinnuleysi og skortur á fjölbreytilegum störfum fyrst og fremst á konum á landsbyggðinni. Þær eiga oft ekki annarra kosta völ en að flytja til þéttbýlisstaða í leit að atvinnu. Hefur því víða verið lögð sérstök áhersla á uppbyggingu atvinnu með tilliti til hugmynda og aðstæðna kvenna.
    Árið 1986 var atvinnuþátttaka kvenna hér á landi 90,1%. Þátttaka giftra kvenna í atvinnu utan heimilis hafði aukist úr um 20% árið 1960 í 84% árið 1986. Nú fer atvinnuleysi hins vegar vaxandi og kemur harðar niður á konum en körlum. Skráð atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla, en þar að auki er vitað mál að dulið eða óskráð atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla, einkum í dreifbýli. Vert er að benda á að 40% lögbýla í landinu bera aðeins eitt ársverk eða minna. Allt ber því að sama brunni. Það vantar ný störf fyrir konur.
    Ætla mætti að einhverjir ráðamenn hafi komið auga á fyrrnefndar staðreyndir, sbr. eftirfarandi setningu í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnar: „Sérstakt átak verður gert til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni.“ Efndir á því fyrirheiti eru hins vegar engar enn.
    Í 3. gr. laga um Byggðastofnun segir:
    „Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.
    Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni m.a. að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðarröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði.“
    Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að sköpun starfa fyrir konur í dreifbýli sé einmitt til þess fallin að „koma í veg fyrir að óæskileg byggðarröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði“.
    Stofnun sérstakrar deildar við Byggðastofnun, sem eingöngu fjalli um málefni kvenna, er ein leiðin til að fást við þann vanda sem leiðir af núverandi fábreytni og skorti á störfum fyrir konur.
    Eðlilegt er að konur hafi frumkvæði í þessum efnum, en hvatning, ráðgjöf og bætt skilyrði eru nauðsynleg. Konur skortir sjálfstraust á þessum vettvangi. Þær hafa lítið sótt í atvinnuþróunarsjóði. Eignarleysi kvenna hindrar þær í að stofna til skulda.
    Fyrsta verkefni kvennadeildar Byggðastofnunar yrði að efla frumkvæði hjá konum, t.d. með fræðslufundum, hugmyndasamkeppni, almennri fræðslu, ráðgjöf og handleiðslu og námskeiðum fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki. Þannig má minnka það forskot sem karlar hafa í þessum efnum.
     Tryggja þarf skilning á sérstöðu kvenna. Þess vegna er nauðsynlegt að við deildina starfi konur sem hafa reynslu af kvennaráðgjöf og jafnréttismálum.
    Fræðsla fyrir konur þarf að miðast við reynslu þeirra og þá staðreynd að konum henta betur vinnu - og kennsluaðferðir sem byggjast á hópvinnu og óformlegum samskiptum og efla frumkvæði og áræði. Það er ekki nóg að breyta „hann“ í „hún“. Á óþekktu sviði eiga konur sérstaklega erfitt með að meta hvað þær geta og hvað ekki og hverjar eru þeirra veiku og sterku hliðar.
    Kvennadeild Byggðastofnunar er hreint byggðaverkefni. Þess vegna telja flutningsmenn mikilvægt að hún hafi aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins og benda á Akureyri sem kjörinn stað í því efni. Rökin fyrir því eru þau að þar hefur á undanförnum árum verið unnið að samnorræna verkefninu „Bryt“ eða „Brjótum múrana“ sem er þróunarverkefni á sviði jafnréttismála. Þá er á Akureyri útibú frá Byggðastofnun, annað af tveimur á landsbyggðinni. Á sama stað er svo aðsetur Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar sem unnið hefur markvisst að atvinnuþróun á Eyjafjarðarsvæðinu.
    Flutningsmenn leggja því til að sett verði ákvæði í reglugerð um að kvennadeildin starfi við útibú Byggðastofnunar á Akureyri. Enn fremur verði í reglugerð ákvæði um að við deildina starfi konur með reynslu af jafnréttisstarfi og kvennaráðgjöf sem hafi með höndum rekstur deildarinnar, meti umsóknir um aðstoð, veiti ráðgjöf og handleiðslu og annist námskeið fyrir konur. Einnig komi fram í reglugerð ákveðin stefna þar sem t.d. þær hugmyndir fái forgang sem stuðla að nýjungum í atvinnurekstri byggðarlagsins eða byggjast á hráefni eða annarri auðlind byggðarlagsins.
    Átak til eflingar atvinnu fyrir konur í dreifbýli getur vissulega fallið undir almenna starfsemi Byggðastofnunar. Reynslan hefur þó sýnt að hætt er við að önnur verkefni fái sjálfkrafa forgang. Þess vegna þarf að marka kvennadeild sérstakan sess með lögum, deild sem vegna sérstöðu sinnar ætti auðveldara með að tileinka sér og tryggja ný vinnubrögð sem eru aðgengileg konum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að við Byggðastofnun starfi sérstök deild sem hafi það hlutverk að vinna að uppbyggingu atvinnu fyrir konur og að hún fái til umráða a.m.k. 20% af árlegum framlögum ríkisins til Byggðastofnunar. Nánari ákvæði um starfsemi deildarinnar verði sett með reglugerð, sbr. greinargerð.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.