Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 81 . mál.


Sþ.

83. Tillaga til þingsályktunar



um aukna þjónustu Ríkisútvarpsins á Vesturlandi.

Flm.: Skúli Alexandersson, Alexander Stefánsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Valdimar Indriðason, Eiður Guðnason, Ingi Björn Albertsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að Ríkisútvarpið ráði til starfa fréttamann til öflunar frétta fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps. Fréttamaðurinn starfi með fréttariturum útvarps og sjónvarps á Vesturlandi þegar því verður við komið. Kannað verði hvort koma megi á fót hljóðstofum á Akranesi eða í Borgarnesi og á Snæfellsnesi og taka á leigu eða kaupa húsnæði til starfseminnar og þá í því augnamiði að síðar verði starfrækt reglulegt svæðisútvarp á Vesturlandi á vegum Ríkisútvarpsins.

G r e i n a r g e r ð .


     Svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins er nú starfrækt á Vestfjörðum, Austfjörðum og Akureyri. Útvarp frá þessum stöðum fyllir út í aðaldagskrá Ríkisútvarpsins bæði með almennu útvarpsefni og fréttum eða fréttatengdum þáttum. Á því er enginn vafi að efnið frá svæðisútvarpsstöðvunum bætir mjög dagskrá útvarpsins, jafnframt því sem efni dagskrárinnar höfðar betur til fleiri hlustenda vítt um land með landshlutatengdu efni frá fréttariturum á svæðisstöðvunum.
     Það fer ekki hjá því að viðskiptavinum Ríkisútvarpsins, háttvirtum hlustendum í þeim landshlutum sem ekki hafa enn notið þessarar þjónustu né aðstöðu til að bæta dagskrána, finnist þeir nokkuð afskiptir.
     Á þessu þyrfti að verða breyting. Ekki er þar með sagt að sú breyting þyrfti að vera í því fólgin að koma upp fleiri svæðisútvarpsstöðvum. Svo stóran áfanga þyrfti ekki að taka í fyrstu.
     Fyrir Vesturland, sem hefur verið afskipt á þessu sviði, væri það nokkur áfangi ef Ríkisútvarpið réði til starfa fréttamann með búsetu og starfsaðsetur í landshlutanum sem annaðist öflun frétta og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps. Á Vesturlandi eru fréttaritarar útvarps og sjónvarps nokkuð víða. Þeir eru, eins og annað fólk, mismunandi áhugasamir og í breytilegri stöðu til að fylgjast með fréttum og afla þeirra. Fréttamaður útvarpsins á svæðinu gæti aðstoðað fréttaritara bæði útvarps og sjónvarps og því ekki aðeins bætt tengsl útvarpsins við Vesturland með beinni fréttamennsku heldur einnig styrkt þá starfsemi útvarpsins sem þegar er fyrir hendi.
     Íbúar á Vesturlandi telja sig eiga rétt á því að fá svipaða þjónustu frá hendi Ríkisútvarpsins og íbúar annarra landshluta. Nokkuð skortir á að dagskrá útvarpsins geti kallast dagskrá eða útvarp allra landsmanna meðan svipuð þjónusta í vinnslu frétta og dagskrárefnis sem víðast af landinu er ekki til staðar.
     Vonandi er gagnkvæmur áhugi á þessu málefni. Dagskrár útvarpsins hafa á undanförnum árum með auknu efni og aukinni þjónustu við landsbyggðina verið að styrkja þá von og jafnvel trú að Ríkisútvarpið sé og verði útvarp allra landsmanna. Fréttamenn í fullu starfi, eins og hér er lagt til, á fleiri stöðum á landinu en nú er mundu enn bæta þá ímynd og tiltrú.