Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 94 . mál.


Sþ.

97. Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um vaxtabætur og húsnæðisbætur.

Frá Kristínu Einarsdóttur.



     Hver er heildarfjárhæð vaxtabóta árið 1990?
     Hve stór hluti fjárhæðarinnar fór til fólks með tekjur að meðaltali á mánuði:
         
    
     undir 70 þús. kr.,
         
    
     70 100 þús. kr.,
         
    
     100 150 þús. kr.,
         
    
     150 200 þús. kr.,
         
    
     yfir 200 þús. kr.
         Hve margir 1) einhleypir, 2) einstæðir foreldrar og 3) hjón eru í hverjum hópi?
     Hver er heildarfjárhæð húsnæðisbóta fyrir árið 1989 og hve margir fengu þær?
     Hvað fá a) einhleypir, b) einstæðir foreldrar og c) hjón miklar vaxtabætur árið 1990 vegna hámarksláns hjá Húsnæðisstofnun ríkisins frá árinu 1984 með 3,5% vöxtum?
                   Miða skal við að einhleypir og einstæðir foreldrar eigi 2,5 millj. kr. skuldlausa eign og hjón 4,15 millj. kr. og hafi tekjur: a) 100 þús. kr. á mánuði, b) 150 þús. kr. á mánuði, c) 200 þús. kr. á mánuði, d) 250 þús. kr. á mánuði.
                   Hve háar vaxtabætur fengju þeir hinir sömu ef vextir á lánum þeirra hefðu verið 5%?

G r e i n a r g e r ð .


    Í gildi gengu 1. janúar 1990 lög um vaxtabætur sem komu í stað húsnæðisbóta. Vaxtabætur miðast við þá vexti sem viðkomandi þarf að greiða, tekjur og eignir. Mikilvægt er að meta vaxtabótakerfið, m.a. með því að kanna hvaða tekjuhópar fengu vaxtabætur á þessu ári.
    Allt frá því að lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var breytt árið 1986 hefur verið bent á að sá mikli vaxtamunur, sem er í kerfinu, geti leitt til gjaldþrots byggingarsjóðanna nema framlag ríkissjóðs vegi upp vaxtamuninn. Frá upphafi hefur framlag ríkissjóðs langt frá því dugað og er nú svo komið að við blasir hrun byggingarsjóðanna ef ekkert verður að gert. Auk framlags úr ríkissjóði hefur verið rætt um að hækka vexti af öllum lánum frá Húsnæðisstofnun ríkisins allt frá árinu 1984.
    Áætlað hefur verið að bæru öll lán, sem tekin hafa verið frá 1. júlí 1984, 5% vexti frá árinu 1991 væri hægt að koma í veg fyrir gjaldþrot Byggingarsjóðs ríkisins eða með því að framlag ríkissjóðs hækki verulega.
    Til að gera sér grein fyrir hvað vaxtahækkun muni hafa í för með sér fyrir lántakendur er óskað eftir að ákveðið dæmi verði reiknað. Ef einstaklingar eiga meira en 2,5 millj. kr. og hjón 4,15 millj. kr. skuldlausa eign skerðast vaxtabætur og eru það þau mörk sem lagt er til að notuð verði í 4. lið.

Skriflegt svar óskast.