Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 57 . mál.


Sþ.

201. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990, sbr. lög nr. 72/1990.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.



    Fjáraukalagafrumvarp þetta fyrir árið 1990 var lagt fram á Alþingi 22. október sl. Nefndin hafði þó allnokkru áður hafið vinnu með drög að frumvarpinu sem hún hafði fengið í fjármálaráðuneyti. Var það gert til þess að flýta afgreiðslu þess eins og frekast var unnt. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarp til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár er afgreitt og eru vinnubrögð, sem mörkuð voru af nefndinni við fyrstu afgreiðslu á sl. vetri, farin að falla í fastar skorður.
    Í stuttu máli má lýsa vinnubrögðum þannig að nefndin kannaði hvern lið frumvarpsins til hlítar og fékk skýringar frá fjármálaráðuneyti og fagráðuneyti á óskum um greiðsluheimildir. Jafnframt gekk nefndin úr skugga um hvort greiðslur hefðu átt sér stað áður en fjárheimilda var leitað. Svo reyndist ekki vera og er það vissulega mikil framför frá því sem áður hafði tíðkast.
    Til viðbótar þessu kallaði nefndin eftir upplýsingum um hvernig ráðstöfunarfé ráðherra hefur verið varið, sbr. fjárlagaliði - 998. Hér er um nýtt viðfangsefni að ræða sem tekið var upp í fjárlögum í fyrsta sinn fyrir árið 1990 og er ætlað til þess að unnt sé að sinna ýmsum aðkallandi minni háttar viðfangsefnum sem ekki voru fyrirséð við afgreiðslu fjárlaga, en hljóta óhjákvæmilega alltaf að koma til á árinu. Með sama hætti var kallað eftir upplýsingum um hvernig ráðstöfunarfé ríkisstjórnar hefur verið varið (fjárlagaliður 09 - 989 - 110), að fjárhæð 100 milljónir kr. Þá óskaði nefndin einnig eftir því að fá nákvæmari sundurliðanir á einstökum útgjaldaliðum, svo sem auknum greiðsluheimildum heilsugæslustöðva og embætta bæjarfógeta og sýslumanna sem í frumvarpinu eru sýndar í einni óskiptri fjárhæð. Hvað þessa útgjaldaliði varðar leggur fjárveitinganefnd til að frumvarpinu verði breytt þannig að sundurliðanir á einstök viðfangsefni komi þar inn í stað heildarfjárhæðar til að ljóst sé hvaða greiðslur verði heimilaðar til hvers og eins þeirra og vegna hvers.
    Að lokinni þessari yfirferð kallaði nefndin fyrir sig forsvarsmenn ráðuneyta og margra ríkisstofnana. Var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina upplýsingum um greiðslustöðu ýmissa verkefna og óskum, ef einhverjar voru, um greiðsluheimildir umfram fjárlög og fjáraukalagafrumvarp. Einnig bárust nefndinni fjölmörg slík erindi frá einstaklingum, félögum og stofnunum. Samtals bárust 55 erindi og voru óskir um viðbótargreiðsluheimildir alls um 406 milljónir kr.
    Nefndin hafði nýjustu greiðslustöðu samkvæmt ríkisbókhaldi til hliðsjónar við umfjöllun um þessi erindi auk áætlunar fjárlaga. Þá kallaði nefndin eftir tillögum fagráðuneytanna sem ábyrgð bera á viðfangsefnum og áliti fjármálaráðuneytisins. Í flestum tilvikum féllst fjárveitinganefnd á tillögur ráðuneytanna og mat fjármálaráðuneytisins á greiðsluþörf, enda kallaði nefndin eftir og fékk yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu um það að yrði þörf fyrir meiri greiðslur úr ríkissjóði til þessara viðfangsefna og annarra en fjárlög og breytingartillögur fjárveitinganefndar gerðu ráð fyrir mundu greiðslur þeirra vegna úr ríkissjóði ekki eiga sér stað fyrr en viðbótargreiðsluheimilda hefði verið aflað í nýjum fjáraukalögum.
    Rétt er þó að geta þess að nefndin sjálf átti frumkvæði að nokkrum afgreiðslum en þær eru allar minni háttar. Samtals nema tillögur um viðbótargreiðsluheimildir við 2. umr. 157.705 þús. kr. umfram það sem fjáraukalagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Aðeins í einu tilviki er um lækkun á greiðsluheimild að ræða. Hún varðar þing Norðurlandaráðs sem haldið var á sl. vetri en kostnaður við það reyndist nokkru lægri en gert var ráð fyrir.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins .


201    Alþingi: Tekin eru inn eftirfarandi ný viðfangsefni: 1.04 Skrifstofu - og alþingiskostnaður 1.500 þús. kr. vegna kostnaðar við Evrópustefnunefnd. Viðfangsefnið 1.06 Útgáfa Alþingistíðinda 15.560 þús. kr. Um er að ræða aukinn útgáfukostnaðar við Alþingistíðindi vegna virðisaukaskatts. Viðfangsefnið 1.31 Þingmannanefndir Evrópuráðsins 1.600 þús. kr. Viðfangsefnið 1.32 Norðurlandaráð lækkar um 6.000 þús. kr. vegna minni kostnaðar við þing Norðurlandaráðs en áætlað var. Viðfangsefnið 1.33 Þingmannafundir Fríverslunarsamtaka Evrópu 700 þús. kr. er vegna ferðakostnaðar.

02 Menntamálaráðuneyti .


710    Fræðsluskrifstofur: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.30 Vesturlandsumdæmi, 2.000 þús. kr. vegna stofnbúnaðarkaupa hjá Fræðsluskrifstofu Vesturlands.
989    Ýmis íþróttamál: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 6.13 Íþróttasamband fatlaðra vegna endurhæfingar, 1.380 þús. kr. Um er að ræða styrk til Íþróttasambands fatlaðra þar sem sambandið hafði greitt sömu fjárhæð til Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík.

03 Utanríkisráðuneyti.


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður 7.000 þús. kr. Liðurinn fellur brott og flyst á fjárlagalið Fjárlaga - og hagsýslustofnunar, 1.82 Tölvumál.
    

04 Landbúnaðarráðuneyti.


201    Búnaðarfélag Íslands: Tekinn er inn nýr liður, 1.01 Yfirstjórn, 4.500 þús. kr. Fjárveitingin er vegna starfsloka búreikningastofu.
270    Landgræðslu - og landverndaráætlun: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 6.90 Fyrirhleðslur, 2.500 þús. kr. Fjárveitingin er til framkvæmda við Markarfljót.
288    Jarðræktar - og búfjárræktarlög, framlög: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.10 Ráðunautar, 12.000 þús. kr. Fjárveitingin er til aksturskostnaðar héraðsráðunauta, 6.000 þús. kr., og vegna þess að launahluta þeirra, 6.000 þús. kr., vantar.
289    Endurgreiðsla gjalda í landbúnaði: Viðfangsefni 1.20 Endurgreiðsla söluskatts í fiskeldi og loðdýrarækt hækkar um 12.000 þús. kr. og verður 65.000 þús. kr.

06 Dóms - og kirkjumálaráðuneyti.


209    Lögregluskóli ríkisins: Tekinn er inn nýr liður, 1.01 Rekstrarkostnaður, 3.000 þús. kr. Fjárveiting er vegna aukins kostnaðar við stundakennslu og kostnaðar við gerð námsefnis.
304    Ýmis kirkjuleg málefni: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.90 Ýmislegt, 300 þús. kr. Fjárveitingin er framlag til dómprófasts í Reykjavík.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.45 Krýsuvíkursamtökin. Fjárveitingin er framlag til Krýsuvíkursamtakanna vegna vist - og dvalarkostnaðar á árinu 1990.

08 Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneyti .


371    Ríkisspítalar: Sértekjur lækka um 40.000 þús. kr. Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.10 Legudeildir, svæfingar - og gjörgæsludeildir, 35.000 þús. kr. vegna kostnaðar við sjúklinga er þurfa dýra lyfjameðferð.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefnið 1.10 Uppgjör á hallarekstri sjúkrahúsa. Fjárveiting hækkar um 7.500 þús. kr. og verður 47.500 þús. kr. Sundurliðun er í sérstöku yfirliti í breytingartillögunum.

10 Samgönguráðuneyti .


101    Samgönguráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn. Fjárveiting hækkar um 700 þús. kr. og verður 5.700 þús. kr. Um er að ræða viðbótarkostnað vegna Óslóar - og Parísarráðstefnu.
333    Hafnamál: Við bætist nýr liður, 1.10. Hafnarannsóknir og mælingar, 6.300 þús. kr. Viðfangsefni 6.30 Hafnarmannvirki lækkar um 53.300 þús. kr. og verður 11.700 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður, 6.40 Sjóvarnargarðar, 27.500 þús. kr. Þar af eru 2.500 þús. kr. til framkvæmda við sjóvarnargarð á Stokkseyri. Tekinn er inn nýr liður, 6.70 Hafnabótasjóður, framlag, 22.000 þús. kr. Alls hækka tilfærslur vegna hafnamála um 2.500 þús. kr.
471    Flugmálastjórn: Sértekjur lækka um 3.000 þús. kr. og verða alls lækkaðar um 13.000 þús. kr.

11 Iðnaðarráðuneyti .


240    Iðnaðarrannsóknir: Viðfangsefnið 1.01 Iðnaðarrannsóknir. Fjárveiting hækkar um 3.500 þús. kr. vegna kostnaðar við staðarval fyrir álver og verður 13.500 þús. kr.
289    Jöfnunargjald: Viðfangsefnið 1.01 Jöfnunargjald í iðnaði hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 160.000 þús. kr. Fjárveitingin er til að unnt sé að endurgreiða söluskatt í iðnaði til loka nóvembermánaðar árið 1989.
301    Orkustofnun: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.01 Almennur rekstur, 1.500 þús. kr. Fjárveitingin er til greiðslu biðlauna Ísleifs Jónssonar hjá Orkustofnun.
371    Orkusjóður: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 6.22 Styrkur til jarðhitaleitar í Öxarfirði, 1.400 þús. kr. Á móti lækkar viðfangsefnið 6.15 Lán til jarðhitaleitar um sömu fjárhæð.

14 Umhverfisráðuneyti .


101    Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn. Fjárveiting hækkar um 500 þús. kr. vegna kostnaðar við undirbúning undir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Brasilíu.

15 Fjárlaga - og hagsýslustofnun.


182    Tölvumál: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 6.50 Stjórnarráð, tölvuvæðing, 7.000 þús. kr. Um er að ræða tilfærslu frá lið utanríkisráðuneytis, aðalskrifstofu, viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður.

    Frekari skýringar á einstökum breytingartillögum verða gefnar í framsögu eftir því sem þurfa þykir.
    Eins og vanalega vann fjárveitinganefnd, bæði meiri og minni hl., saman að umfjöllun allra erinda. Meiri hl. nefndarinnar ber ábyrgð á breytingartillögum og flytur þær en minni hl. mun skila séráliti.

Alþingi, 27. nóv. 1990.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.

Margrét Frímannsdóttir,


fundaskr.

Alexander Stefánsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.

Ásgeir Hannes Eiríksson.