Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 212 . mál.


Sþ.

267. Tillaga til þingsályktunar



um matvælaaðstoð við Sovétríkin.

Flm.: Jón Sæmundur Sigurjónsson.



    Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að hún kanni með hvaða hætti Íslendingar geti lagt sitt af mörkum til að afstýra yfirvofandi hungursneyð í Sovétríkjunum.

Greinargerð.


    Þjóðir Sovétríkjanna eru nú loks að létta af sér oki kommúnismans. Það er ljóst að margra ára áætlunarbúskapur og miðstýrt hagkerfi að kommúnískum hætti hefur leitt til algjörs gjaldþrots. Gífurleg umbrot eiga sér stað í hinu sovéska þjóðfélagi, þar sem bæði þjóðir og einstaklingar eru að átta sig á að kommúnisminn er loksins að slaka á klónni. Frelsisalda sú, er nú fer um Sovétríkin og lönd Austur - Evrópu er að hluta til komin vegna hruns hagkerfisins, en einnig og þá ekki síst vegna þess hugrekkis sem forusta Sovétríkjanna hefur sýnt við að brjótast úr viðjum fortíðarinnar og leyfa frelsi á ýmsum sviðum þar sem áður var myrkviður einn.
    Það er varla við öðru að búast en að umskiptin frá einræði og þvingun til frelsis meðal einstaklinga og þjóða, þ.e. umskiptin frá miðstýrðu áætlunarkerfi til markaðsbúskapar, verði fyrst í stað vart til annars en að skapa glundroða og óvissu á flestum sviðum þegar venjubundin gildi og hefðbundnar viðskiptaaðferðir eiga ekki lengur við. Það er dæmigert að þrátt fyrir metuppskeru vantar mikið á að allt korn sé hirt af ökrunum, að uppskera og aðrar landbúnaðarafurðir komist rétta boðleið á markaði og að framboð á markaði nái því jafnvægi að geta sinnt eftirspurn. Afleiðingin er vöruþurrð, skortur og hungursneyð.
    Margar þjóðir hafa nú þegar boðið Sovétmönnum aðstoð sína. Matvælasendingar streyma nú þangað í stórum stíl þótt enn vanti mikið á. Þetta er ekki að ófyrirsynju. Það er mikils um vert að sú mikla þjóðfélagstilraun, sem nú er gerð í Sovétríkjunum, takist. Ef hún tekst er fyrst grundvöllur lagður að langþráðum friði og öryggi í heiminum. Stefna Gorbatsjovs forseta og stjórnar hans byggist á því að gefa þjóðum Sovétríkjanna sjálfsvirðingu sem byggist á frelsi, velsæld og samvinnu við vestræn ríki. Því miður er leiðin löng og örðug til þess að ná öllum þeim markmiðum.
    Framlag Íslands skiptir auðvitað ekki sköpum. En með því sýnum við vinarhug til þjóða sem við höfum haft mikil menningarleg og viðskiptaleg samskipti við í gegnum tíðina. Nú eru þessar þjóðir að berjast fyrir því sama sem við Íslendingar höfum viljað standa vörð um með veru okkar í NATO, en það er fullveldi landsins og sjálfstæði ásamt frelsi einstaklingsins til orðs og æðis.
    Framlag okkar Íslendinga gæti t.d. falist í matvælasendingu þar sem við Íslendingar eigum vissulega gnægð matar. Má þar nefna miklar birgðir lambakjöts, sem til eru í landinu, sem um langan tíma munu einungis valda geymslukostnaði og svo seinna meir stórfelldum útgjöldum vegna útflutningsuppbóta, þá væri aukakostnaður við slíkt framlag ekki verulegur. Því er lagt til að ríkisstjórnin kanni möguleikann á neyðaraðstoð við Sovétríkin á þeim grundvelli.