Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 233 . mál.


Nd.

335. Frumvarp til laga



um tryggingagjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


Upphafsákvæði.


1. gr.


     Launagreiðendur skulu inna af hendi sérstakt gjald, tryggingagjald, af greiddum vinnulaunum, þóknunum, reiknuðu endurgjaldi og öðrum tegundum greiðslna og launa eftir því sem nánar segir í lögum þessum.
     Tryggingagjald skal innheimt samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, og lagt á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

Hundraðshluti tryggingagjalds.


2. gr.


     Tryggingagjald skal nema 4,25% af gjaldstofni, sbr. III. kafla.

Ráðstöfun tryggingagjalds.


3. gr.


    Tekjum af tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
     Atvinnuleysistryggingasjóður fái í sinn hlut sem nemi 0,15% af gjaldstofni skv. III. kafla.
     Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla. Þetta hlutfall skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðuneytið setur í samráði við stjórn stofnunarinnar fyrir eitt ár í senn.
     Tekjur af tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í 1. og 2. tölul. renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris - og slysatryggingar almannatrygginga.
     Um hlutdeild opinberra byggingarsjóða í tryggingagjaldi fer eftir ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo og ákvæðum lánsfjárlaga og fjárlaga hverju sinni.

II. KAFLI


Gjaldskyldir aðilar.


Almennt.


4. gr.


     Gjaldskyldur samkvæmt lögum þessum telst hver sá aðili sem innir af hendi eða reiknar greiðslur sem teljast laun skv. III. kafla.
     Gjaldskyldan tekur til allra launagreiðenda, svo sem einstaklinga, félaga, sjóða og stofnana, sveitarfélaga og stofnana þeirra, ríkissjóðs, ríkisstofnana, erlendra verktaka og annarra þeirra aðila sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir starf. Enn fremur til allra þeirra sem vinna við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi.
     Ef milligöngumaður annast launagreiðslur skal hann gegna skyldum gjaldskylds aðila varðandi skil og greiðslur samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um umboðsmann sem um ræðir í 2. mgr. 2. tölul. 71. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Aðilar undanþegnir gjaldskyldu.


5. gr.


     Eftirtaldir aðilar eru undanþegnir tryggingagjaldi:
     Forseti Íslands.
     Erlendir þjóðhöfðingjar.
     Sendiráð og sendiherrar erlendra ríkja, sendiræðismenn og erlendir starfsmenn við sendiráð.
     Þeir sem taldir eru í 2. og 3. tölul. eru þó ekki undanþegnir gjaldskyldu af launum sem þeir kunna að greiða vegna atvika sem mundu skapa þeim skattskyldu hér á landi til tekjuskatts og eignarskatts.

III. KAFLI


Gjaldstofn.


Almennt.


6. gr.


     Stofn til tryggingagjalds er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A - liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum.
     Gjaldstofn manns sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafn fjárhæð reiknaðs endurgjalds sem hann telur sér til tekna eða bar að telja sér til tekna skv. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sama á við um reiknað endurgjald maka hans og barna innan 16 ára aldurs á tekjuárinu.

Laun o.þ.h.


7. gr.


     Til gjaldstofns skv. 6. gr. teljast m.a.:
     Hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof.
     Verkfærapeningar, flutningspeningar, fæðispeningar o.þ.h. greiðslur.
     Ökutækjastyrkir og dagpeningar. Þó skal ekki telja til gjaldstofns greiðslur fyrir afnot bifreiðar launamanns eða greiðslur dagpeninga sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og reglugerðum og starfsreglum sem settar eru með stoð í þeim lögum.
     Gjafir og risnufé sem teljast kaupuppbót og eftirgjöf lána sem telja má að komi í launa stað.
     Laun eða þóknanir fyrir störf unnin erlendis, greidd af íslenskum aðilum til manna sem eru heimilisfastir hér á landi.

Hlunnindi.


8. gr.


     Til tryggingagjaldsskyldra hlunninda telst m.a. fæði, húsnæði, fatnaður, bifreiðaafnot o.þ.h. Hlunnindi þessi skal reikna til gjaldstofns á sama verði og þau eru metin til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Önnur hlunnindi skulu metin til peninga eftir gangverði á hverjum stað og tíma.

Undanþágur frá gjaldstofni.


9. gr.


     Undanþegnar tryggingagjaldi eru eftirtaldar greiðslur:
     Eftirlaun og lífeyrir sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, enda starfi lífeyrissjóðurinn eftir reglum sem fjármálaráðherra samþykkir og sjóðurinn sé háður eftirliti fjármálaráðuneytisins.
     Aðrar bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, þar með talið fæðingarorlof, svo og slysa - og sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga.
     Bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa.
     Atvinnuleysisbætur.
     Greiðslur úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar á launum.

IV. KAFLI


Staðgreiðsla tryggingagjalds.


Greiðslutímabil o.fl.


10. gr.


     Greiðslutímabil tryggingagjalds er almanaksmánuður nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Gjalddagi tryggingagjalds er 1. hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi gjaldandi eigi greitt á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, reiknast ekki.
     Gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur greiða tryggingagjald til innheimtumanns ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.
     Ríkisskattstjóri ákveður hvað skuli koma fram í skilagreinum og greiðsluskjölum og ákveður gerð þeirra. Um skilagreinar, svo og um yfirferð, áætlun og tilkynningar skattstjóra á staðgreiðsluári, gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.


Upplýsingar, eftirlit, viðurlög o.fl.


11. gr.


     Ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, skulu gilda um upplýsingar og eftirlit, viðurlög og málsmeðferð tryggingagjalds að því er varðar skil þess á staðgreiðsluári. Skulu ákvæði þeirra laga m.a. taka til dráttarvaxta, áætlunar gjaldstofns og innheimtu vanskilafjár, þar með talið lögtaksréttar, stöðvunar atvinnurekstrar, refsinga, opinberrar rannsóknar og fyrningar gjaldkröfu.

V. KAFLI


Álagning tryggingagjalds.


Árleg tryggingagjaldsframtöl, álagning, endurskoðun gjalds,


kærur, innheimta o.fl.


12. gr.


     Allir, sem skyldir eru til að greiða tryggingagjald samkvæmt lögum þessum, skulu, að staðgreiðsluári liðnu, senda skattstjóra árlega sérstakt launaframtal, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, innan þess frests sem settur er um skil launaskýrslna þeirra er greinir í 92. gr. laga nr. 75/1981.
     Á launaframtal skal launagreiðandi færa launagreiðslur næstliðins árs og aðrar upplýsingar og sundurliðanir sem ríkisskattstjóra þykir við þurfa til ákvörðunar tryggingagjalds og form eyðublaðsins segir til um.
     Við álagningu opinberra gjalda skal skattstjóri ákvarða tryggingagjald gjaldskylds aðila samkvæmt launaframtali hans að gerðum þeim breytingum og leiðréttingum sem gera þarf á því.
     Tryggingagjald skal birt í álagningarskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     Gjalddagi ógreidds tryggingagjalds, sem skattstjóri ákvarðar vegna hlunninda, og tryggingagjalds, sem undanþegið er staðgreiðslu, er 1. ágúst ár hvert og eindagi mánuði síðar.

Vangreitt tryggingagjald

.

13. gr.


     Skattstjórar skulu kanna skil þeirra sem greiða áttu tryggingagjald, m.a. með samanburði við laun í staðgreiðslu, launaframtöl, launamiða, skattframtöl, ársreikninga og önnur gögn sem fyrir hendi eru. Þeir skulu síðan leiðrétta það sem áfátt kann að reynast og ákvarða vangreitt tryggingagjald og senda tilkynningu þar um til gjaldanda og innheimtumanns.
     Komi í ljós að aðili, sem greitt hefur laun sem greiða skal tryggingagjald af, hafi vanrækt greiðslu gjaldsins að hluta eða öllu leyti, eða ofgreitt tryggingagjaldið eða ekki skilað launaframtali, skal skattstjóri ákvarða tryggingagjald fyrir hvert einstakt greiðslutímabil. Skal ákvarða gjaldanda dráttarvexti af vangreiddu tryggingagjaldi frá og með gjalddaga þess í samræmi við vaxtalög, nr. 25/1987. Á ofgreiðslu reiknast vextir í samræmi við ákvæði 2. mgr. 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.



Endurákvörðun tryggingagjalds, kærur o.fl.


14. gr.


     Séu skil gjaldanda í einstökum atriðum eða í heild ófullnægjandi, tortryggileg eða sýnilega gerð til málamynda skal við álagningu, sbr. 3. mgr. 12. gr., og við endurákvörðun beita ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir því sem við getur átt um slík tilvik. Ákvæði þeirra laga skulu og gilda, eftir því sem við á, um álagningu, rannsókn, kærur út af skattákvörðun, kærufresti, úrskurði, áfrýjun úrskurða og annað þar að lútandi. Sömu reglur skulu gilda, eftir því sem við á, ef gjaldandi, sem lagt skyldi á, hefur fallið af skrá eða honum ekki gert að greiða tryggingagjald af öllum gjaldstofninum.

Tryggingagjald ársmanna o.fl.


15. gr.


     Nú reiknar maður sér endurgjald eða greiðir laun til annarra, þannig að reiknaða endurgjaldið og launin nema samtals lægri fjárhæð en 30.000 kr. að meðaltali á mánuði, og er honum þá heimilt, í stað þess að skila mánaðarlega í samræmi við 10. gr., að senda skilagrein ásamt greiðslu á gjalddaga þess mánaðar þegar samanlagt reiknað endurgjald og greidd laun til annarra ná 360.000 kr. en eftir það á hverjum gjalddaga vegna þess árs.
     Ef reiknað endurgjald eða greidd vinnulaun til annarra ná eigi til samans 360.000 kr. á árinu er gjaldanda heimilt, í stað þess að skila mánaðarlega í samræmi við 10. gr., að senda skilagrein ásamt greiðslu einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember væri að ræða.
     Fjárhæðir í 1. og 2. mgr. eru grunnfjárhæðir og breytast í samræmi við verðbreytingarstuðul ríkisskattstjóra skv. 26. gr. laga nr. 75/1981, í fyrsta sinn fyrir árið 1992. Reiknast þær í heilum þúsundum króna þannig að lægri fjárhæð en þúsund krónum er sleppt.

Dráttarvaxtaútreikningur.


16. gr.


     Á tryggingagjald vegna launa og hlunninda, sem undanþegin eru staðgreiðslu, reiknast dráttarvextir eftir almennum reglum frá og með gjalddaga 1. ágúst ár hvert ef ekki er greitt fyrir eindaga.

VI. KAFLI


Ýmis ákvæði.


Frádráttarbærni tryggingagjalds.


17. gr.


     Tryggingagjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.

Setning reglugerðar.


18. gr.


     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.


Brottfall lagaákvæða o.fl.


19. gr.


     Ákvæði laga þessara koma í stað þeirra ákvæða laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, laga nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, og laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, er fela í sér ákvörðun gjaldstofns og gjaldtöku af launagreiðendum sem miðast við launagreiðslur eða launatímabil.

20. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda vegna launagreiðslna frá og með 1. janúar 1991. Frá sama tíma falla niður lög nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum. Ákvæði laga nr. 14/1965 skulu gilda um launaskatt vegna vinnulauna greiddra á árinu 1990 eða fyrr. Ákvæði almannatryggingalaga, laga um Atvinnuleysistryggingasjóð og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara, skulu gilda um álagningu og innheimtu lífeyris - og slysatryggingagjalds almannatrygginga, atvinnuleysistryggingagjalds og vinnueftirlitsgjalds vegna vinnulauna greiddra á árinu 1989 og fyrr.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    
Á árunum 1991 og 1992 og við álagningu opinberra gjalda á árunum 1992 og 1993 skal innheimta og leggja á tryggingagjald í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum, eftir því sem nánar er kveðið á um í 2. og 3. mgr.
     Í sérstökum gjaldflokki skulu vera atvinnugreinar sem flokkast undir fiskveiðar eða iðnað skv. 1., 2. eða 3. flokki í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands eða landbúnað, þar með talið skógrækt, jarðræktarframkvæmdir og byggingarframkvæmdir á bújörðum aðrar en þær sem tengjast fiskræktarstöðvum.
     Í almennum gjaldflokki skulu vera allar aðrar gjaldskyldar atvinnugreinar.
     Reki aðili fjölþættan atvinnurekstur eða starfsemi, sem ýmist fellur undir sérstakan gjaldflokk eða almennan gjaldflokk, skal hann aðgreina launagreiðslur í bókhaldi sínu þannig að séð verði hvað af þeim tilheyri hvorum þætti. Greiðslum fyrir yfirstjórn og öðrum slíkum greiðslum, sem ekki eru beint tengdar ákveðnum þáttum starfseminnar, skal skipt upp í gjaldflokka, þ.e. tryggingagjaldsskyld laun sem falla undir almennan flokk og sérstakan flokk, í sömu hlutföllum og eru á milli heildargreiðslu í hvorum gjaldflokki, áður en umræddar yfirstjórnargreiðslur eru meðtaldar, og reikna tryggingagjald af þeim í samræmi við það. Ef slík aðgreining er ekki fyrir hendi í bókhaldi eða ef hún er í verulegum atriðum röng eða ófullnægjandi að mati skattstjóra skal hann áætla skiptinguna.

II.


    Við innheimtu á árinu 1991 og álagningu 1992 skal tryggingagjald í almennum gjaldflokki, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, vera 6% af gjaldstofni og í sérstökum gjaldflokki, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis, skal gjaldið vera 2,5%.

III.


    Við innheimtu á árinu 1992 og álagningu 1993 skal tryggingagjald í almennum gjaldflokki, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, vera 4,75% af gjaldstofni og í sérstökum gjaldflokki, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis, skal gjaldið vera 3,25%.

IV.


    Iðgjöld af lögskráðum sjómönnum, sem lögð voru á og innheimt fyrir fram á árinu 1990 af lögskráningarstjórum, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 64/1981, skulu dragast frá greiðslum tryggingagjalds ársins 1991 hjá viðkomandi launagreiðendum eftir nánari reglum sem settar skulu af fjármálaráðherra.

V.


    Við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991, vegna rekstrar á árinu 1990, er þeim aðilum, sem ekki hafa fært til frádráttar álögð og greidd tryggingaiðgjöld á árinu 1990, heimilt að draga frá rekstrartekjum fjárhæð er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs.
     Þeim aðilum, sem hafa fært til frádráttar álögð og greidd tryggingaiðgjöld á árinu 1990, er einnig heimilt að draga frá rekstrartekjum fjárhæð er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs, að frádreginni þeirri fjárhæð sem þegar hefur verið færð til gjalda á árinu 1990.
     Frádráttur þessi skal ekki reiknast af reiknuðu endurgjaldi sem fært er til gjalda. Hvorki má mynda rekstrartap vegna frádráttar samkvæmt þessu sérstaka frádráttarákvæði né nota það til að fresta yfirfærslu rekstrartaps frá fyrri árum.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Með bréfi dagsettu 11. júní 1990 skipaði fjármálaráðherra sérstaka nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um skattlagningu fyrirtækja. Markmið þessarar endurskoðunar skyldi m.a. vera að jafna samkeppnisstöðu innlendra útflutnings - og samkeppnisgreina gagnvart erlendum keppinautum. Jafnframt skyldi stefnt að því að breikka skattstofninn með því að fækka undanþágum og skapa þannig forsendur fyrir lækkun skatthlutfalls. Loks var nefndinni falið að endurskoða lög um skattlagningu peningastofnana.
     Í skýrslu sinni dags. 16. nóvember 1990 gerir nefndin tillögu um tvenns konar breytingar á skattlagningu fyrirtækja:
     Í fyrsta lagi leggur nefndin til breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um þessa tillögu verður ekki fjallað hér.
     Í öðru lagi leggur nefndin til að í stað núverandi launaskatts, lífeyristryggingagjalds, slysatryggingagjalds, vinnueftirlitsgjalds og iðgjalds í Atvinnuleysistryggingasjóð komi eitt gjald, tryggingagjald. Hið nýja tryggingagjald verði 4,25% af öllum launum.
     Í tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir að samræming launagjalda verði gerð í þremur áföngum á næstu þremur árum. Þannig fengju undanþágugreinarnar tíma til þess að laga sig að hinu nýja tryggingagjaldi. Lagt er til að fyrsti áfangi komi til framkvæmda í ársbyrjun 1991. Þar verði miðað við tvö þrep, 2,5% í undanþágugreinunum og 5,5% í öðrum greinum. Árið 1992 verði hlutföllin 3,25% í undanþágugreinunum og 4,75% í öðrum greinum. Lokaskrefið í átt til samræmingar verði stigið í ársbyrjun 1993, en þá verði tryggingagjaldið í einu þrepi, 4,25% í öllum atvinnugreinum.
     Í þessu frumvarpi er miðað við að fara eftir tillögum nefndarinnar um samræmingu launatengdu gjaldanna í áföngum á næstu þremur árum. Þó er gert ráð fyrir að innheimta á árinu 1991 sérstakt 0,5% álag á hærra þrepið. Áætlað er að þetta álag skili um 475 m.kr. tekjum í ríkissjóð á næsta ári á verðlagi 1991.
     Áður en gerð er grein fyrir einstökum þáttum er rétt að vekja athygli á tveimur lykilatriðum í þessari kerfisbreytingu.
     Í fyrsta lagi má nefna, að auk þess að samræma launagjöldin fimm er gert ráð fyrir að innheimta þau í sérstakri staðgreiðslu. Til þessa hefur aðeins launaskattur verið innheimtur í staðgreiðslu, en hin gjöldin fjögur hafa verið innheimt eftir á. Þessi breyting kemur fram í lægra skatthlutfalli en ella.
    Í öðru lagi er skattstofninn færður nær þeirri skilgreiningu sem gildir um álagningu tekjuskatts einstaklinga. Þannig mynda þær hlunnindagreiðslur, sem í dag eru skattskyldar í staðgreiðslu tekjuskatts, einnig stofn til álagningar tryggingagjalds. Enda þótt þetta séu ekki háar fjárhæðir, er þetta talið nauðsynlegt til þess að tryggja örugga innheimtu. Þessi breikkun á skattstofni kemur einnig fram í lægra skatthlutfalli en ella.
    Bæði þessi atriði eiga því að tryggja öruggari innheimtu og bætt skattskil og koma þannig fram í lægra skatthlutfalli.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir meginrökum þess að samræma launatengdu gjöldin milli atvinnugreina og fjallað um fjárhagsleg áhrif þeirra breytinga sem í frumvarpinu felast.
    Launaskattur var tekinn upp árið 1965 og fór alfarið til þess að fjármagna lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Fyrstu árin sátu allar atvinnugreinar við sama borð nema landbúnaður sem hefur alltaf verið undanþeginn launaskatti. Árið 1973 voru fiskveiðar undanþegnar, en það var hluti af samkomulagi um fiskverð. Í ársbyrjun 1982 skilaði svokölluð starfsskilyrðanefnd skýrslu til forsætisráðherra, en nefndin átti að gera samanburð á starfsskilyrðum atvinnugreina með tilliti til samkeppnisstöðu í útflutningi og á heimamarkaði. Niðurstaða þessarar nefndar var sú að engin rök væru fyrir þeim undanþágum frá launaskatti sem þá voru í gildi, þ.e. til landbúnaðar og fiskveiða.
    Segja má að framhaldið hafi í sjálfu sér verið rökrétt afleiðing þessarar niðurstöðu, þar sem ákveðið var að draga úr mismunun milli atvinnugreina. Þar var hins vegar farin sú leið að undanþiggja fleiri greinar í stað þess að fella undanþágurnar niður. Árið 1982 var ákveðið að taka upp tvö þrep og voru fiskvinnsla og almennur iðnaður sett í lægra þrepið. Árið 1986 var síðan ákveðið að undanþiggja fiskvinnslu og iðnað alfarið. Það var liður í gerð kjarasamninga á því ári, sem beindist að því að styrkja samkeppnisstöðu þessara greina. Eftir stendur að nú eru það fyrst og fremst fyrirtæki í verslunar - og þjónustugreinum, byggingariðnaði og opinberri þjónustu sem greiða launaskatt.
    Vafalaust má færa rök fyrir tímabundinni mismunun í skattlagningu fyrirtækja, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, sem kalla á stuðningsaðgerðir af einhverju tagi. Hins vegar verður að telja hana óheppilega til lengdar, þar sem hún getur dregið úr aðhaldi og stuðlað að óhagkvæmni í rekstri. Jafnframt felst í slíkri mismunun að sumar atvinnugreinar eru í reynd að niðurgreiða starfsemi annarra greina. Það eru aðeins tvær leiðir færar til þess að ná fram samræmingu. Önnur er að fella skattinn alfarið niður. Hin leiðin er að fella niður allar undanþágur. Það er sú leið sem hér er lögð til.
    Í beinum tengslum við þetta er lögð til frekari breyting og samræming í álagningu launatengdra gjalda. Auk launaskatts eru nú lögð á fjögur mismunandi launatengd gjöld, sem fara um ríkissjóð. Þessi gjöld eru öll lögð á eftir á, þ.e. taka mið af launagreiðslum liðins árs. Skattstofninn er í flestum tilvikum svipaður. Launaskattur nemur 3,5% af greiddum launum líðandi árs. Lífeyristryggingaiðgjald nemur 2% af launum fyrra árs. Þó ríkir ákveðin mismunun á þessu sviði líka þar sem ekki er lagt gjald á reiknuð laun einstaklinga í atvinnurekstri. Slysatryggingagjald nemur 0,37% af launum fyrra árs. Vinnueftirlitsgjald nemur 0,1% af sama stofni og slysatryggingagjaldið. Atvinnuleysistryggingagjald er hins vegar reiknað sem föst krónutala á hverja vinnuviku launþega.
    Segja má að tvenns konar mismunun ríki á þessu sviði, annars vegar milli einstakra atvinnugreina, þar sem sumar greinar eru undanþegnar launaskatti, hins vegar milli mismunandi félagaforma, þar sem einstaklingsrekstur ber í mörgum tilvikum lægra hlutfall launatengdra gjalda en lögaðilar vegna undanþágu reiknuðu launanna. Í töflu 1 kemur fram álagning launatengdra gjalda árið 1990 eftir atvinnugreinum og rekstrarformum og hlutfall þeirra af áætluðum launagreiðslum sama ár.
    Í töflunni kemur fram að hjá félögum eru í reynd tvenns konar hlutföll í gangi, þ.e. um 2,5% af launagreiðslum í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði en 6% í öðrum atvinnugreinum. Í einstaklingsrekstri eru hlutföllin hins vegar þrenns konar. Lægst í landbúnaði, um 0,7% af heildarlaunagreiðslum, tæplega 2% í sjávarútvegi og iðnaði og um 4,5% í öðrum greinum.
    Auk þeirrar augljósu mismununar á þessu sviði sem ríkir á milli atvinnugreina er ljóst að þetta fyrirkomulag er óhentugt og þungt í vöfum, jafnt fyrir skattgreiðendur sem skattyfirvöld. Með því að fella launa - og tryggingaiðgjöldin saman í eitt gjald ásamt því að taka upp sérstaka staðgreiðsluinnheimtu má ná fram miklu hagræði fyrir alla aðila. Jafnframt má ætla að innheimtan batni með því að taka upp staðgreiðslu þessara gjalda.
    Við útreikning á skatthlutfallinu er þannig gengið út frá því, hvað fyrirtæki hefðu greitt miðað við núgildandi launagjöld að teknu tilliti til þess að nú er gert ráð fyrir að innheimta allt í staðgreiðslu. Þessi áhrif koma þannig fram í lægra skatthlutfalli en ella hefði orðið.
    Í þessu frumvarpi er vikið frá tillögu nefndarinnar þannig að á næsta ári verði innheimt sérstakt álag á skattstofninn sem nemur 0,5% í greinum sem nú bera launaskatt. Samkvæmt því verður lægra þrepið 2,5% og hærra þrepið 6% á árinu 1991.
    Þá er jafnframt gerð tillaga um að innheimta tryggingagjaldið mánaðarlega í tengslum við gildandi staðgreiðslukerfi tekjuskatta einstaklinga. Loks er lagt til að tryggingagjaldinu verði ráðstafað til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnueftirlits ríkisins í svipuðum hlutföllum og gilt hefur til þessa, en afgangurinn renni alfarið til fjármögnunar almannatryggingakerfisins, þ.e. tryggingagjaldið verði markaður tekjustofn líkt og er í mörgum löndum.
Tafla 1. Repró, 1 bls.


    Rétt er að vekja athygli á því, að við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991, vegna rekstrar á árinu 1990, er gert ráð fyrir sérstökum frádrætti sem nemur 2,5% af gjaldfærðum, frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi ársins 1990. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir íþyngingu í tekjuskatti sem annars yrði vegna þess að við þessa breytingu falla tryggingagjöldin út úr rekstrarkostnaði ársins, þ.e. tekjuskattsstofninn yrði annars hærri. Þetta gildir aðeins í þetta eina ár, enda er hér aðeins um tímabundinn vanda að ræða sem tengist upptöku nýs skattkerfis. Reyndar kæmi einnig til greina að mæta þessu með tímabundinni lækkun á tekjuskattshlutfallinu.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir áætluðum heildaráhrifum af samræmingu launatengdu gjaldanna á afkomu einstakra atvinnugreina. Sýnd eru áhrif þess að taka upp eitt og sama tryggingagjaldið fyrir allar atvinnugreinar sem samkvæmt frumvarpinu kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1993. Jafnframt er gerð sérstök grein fyrir fjárhagslegum áhrifum af álagningu tryggingagjalds eftir atvinnugreinum á árinu 1991. Þá er vakin athygli á því, að fjárhæðir hafa ekki verið framreiknaðar til ársins 1991, heldur byggir allt talnalegt mat á raunverulegum eða áætluðum tölum fyrir árið 1990.

     Samræming launatengdra gjalda. Á árinu 1990 er áætluð heildarálagning launatengdra gjalda tæplega 7,5 milljarðar króna, sem skiptist þannig:


Tafla 2. Repró













    Heildarlaunagreiðslur árið 1990 eru áætlaðar 163 milljarðar króna. Þá eru undanskildar greiðslur tryggingabóta og lífeyrisgreiðslur. Miðað við þann iðgjaldagrunn þyrfti samræmt tryggingagjald að vera rúmlega 4 1 / 2 % til að skila ríkissjóði sömu tekjum og núverandi gjöld. Við það mundi afkoma ríkissjóðs batna um allt að hálfum milljarði króna, þar sem ríkissjóður greiðir nú 6% af launum í launatengd gjöld. Þar sem tillaga nefndarinnar miðast við að ríkissjóður verði jafnsettur fyrir og eftir breytingu lækkar meðalgjaldið um fjórðung úr prósentu, eða í 4,25% við endanlega samræmingu árið 1993.
    Í grófum dráttum eru áhrif þessarar tillögu um samræmingu launatengdra gjalda tvíþætt. Í fyrsta lagi hækka skattgreiðslur þeirra atvinnugreina sem nú eru undanþegnar launaskatti, þ.e. landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. Skattbyrði annarra greina léttist að sama skapi. Þetta kemur glöggt fram í töflunni hér á eftir. Þegar samræmingin er um garð gengin árið 1993 hefur gjaldhlutfall undanþágugreinanna hækkað um rúmlega 2% samkvæmt tillögu nefndarinnar, eða um 1.100 m.kr. Skattgreiðslur annarra atvinnugreina lækka samsvarandi að ríkisfyrirtækjum þó undanskildum, en útgjöld þeirra lækka til jafns við heildartekjurnar, eða um rúmar 500 m.kr.


Tafla 3. Repró
















    Í öðru lagi kemur endanleg samræming launatengdra gjalda harðar niður á einstaklingsrekstri en lögaðilum. Ástæðan er sú að lífeyristryggingagjaldið, sem nú er 2%, hefur hingað til ekki verið lagt á reiknuð laun sjálfstæðra atvinnurekenda. Þetta þýðir að í atvinnugreinum þar sem einyrkjar eru í miklum meiri hluta, t.d. landbúnaði, eykst kostnaður talsvert samhliða samræmingunni, sbr. meðfylgjandi töflu.



Tafla 4. Repró














    Árið 1993 verður launakostnaður í landbúnaði um 3 1 / 2 % hærri en fyrir breytinguna, en þar er einstaklingsrekstur allsráðandi, samanborið við tæplega 2% hækkun að jafnaði í iðngreinum þar sem einstaklingsrekstur á innan við 10% af heildarlaunagreiðslum. Hér er þó rétt að ítreka að þetta eru áætluð heildaráhrif af samræmingunni, þ.e. árið 1993, þegar allar atvinnugreinar munu greiða sama tryggingagjald, þ.e. 4,25%. Í reynd dreifast þessi áhrif því á þrjú næstu ár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skyldu þeirra sem greiða laun til að inna af hendi sérstakt gjald, tryggingagjald, af öllum tegundum vinnulauna, þóknana og öðrum tegundum greiðslna og launa. Greiðsluskylda tekur einnig til reiknaðs endurgjalds. Sérstaklega er tekið fram að tryggingagjaldið skuli innheimt samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og að það skuli að staðgreiðsluári liðnu lagt á með opinberum gjöldum, sbr. lög um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 2. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


     Í fyrstu málsgrein er tekið fram að tryggingagjald greiðist í ríkissjóð.
    Í annarri málsgrein eru rétthafar tryggingagjaldsins tilgreindir en þeir eru: Tryggingastofnun ríkisins, Atvinnuleysistryggingasjóður og Vinnueftirlit ríkisins. Eiga þessar stofnanir tilkall til hlutdeildar í innheimtu tryggingagjaldi til að standa straum af þeim verkefnum sem þeim eru falin samkvæmt lögum og reglugerðum.
    Það er rétt að taka sérstaklega fram, að í þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir breytingum á þeim fjárhæðum sem samkvæmt gildandi lögum renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs og vinnueftirlits. Þær breytingar á hlutföllum sem fram koma í þessari grein má rekja til áhrifa staðgreiðslu tryggingagjaldsins sem hafa verið reiknuð inn í skatthlutfallið til lækkunar.
    Gert er ráð fyrir að viðkomandi stofnanir fái í sinn hlut hluta af innheimtu tryggingagjaldi á staðgreiðsluárinu samkvæmt bráðabirgðauppgjöri. Gera verður ráð fyrir að endanlegt uppgjör eigi sér stað eftir álagningu opinberra gjalda árlega. Í reglugerð um hlutdeild viðkomandi stofnana í innheimtu gjaldi og álögðu ber að taka mið af því að ekki verði fyrir borð borinn réttur viðkomandi stofnana til tekna og jafnframt að ekki verði um tekjuaukningu að ræða miðað við þær forsendur sem um þessi atriði eiga samkvæmt gildandi lögum. Að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð sérstaklega verður að gera ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins, Þjóðhagsstofnun og fjármálaráðuneytið hlutist til um að fundinn verði réttur grundvöllur til útskiptingar atvinnuleysistryggingagjalds miðað við þær forsendur sem við það eiga samkvæmt gildandi lögum, t.d. varðandi vinnuvikufjölda félaga í stéttarfélögum og skiptingu viknanna á félagssvæði og sveitarfélög. Gert er ráð fyrir að jafnframt þeirri einföldun sem á sér stað við innheimtu launatengdra gjalda í einu lagi eigi sér stað veruleg einföldun á launagögnum þeim sem skila ber til skattyfirvalda. Einnig stendur til að einfalda úrvinnslu skattyfirvalda á launagögnum, þar með töldum launamiðum og launaframtölum. Verður að ætla að úrvinnsla á gjaldstofnum, t.d. að því er vinnuvikur, félagssvæði og sveitarfélagaskiptingu varðar, eigi sér stað að verulegu leyti utan skattkerfisins. Sú breyting, sem verður á gjaldtöku til Atvinnuleysistryggingasjóðsins, breytir á engan hátt núverandi skipan á rétti til atvinnuleysisbóta að því er varðar hverjir eigi rétt til bótanna, hve háar og miðað við hvaða tímabil.

Um 4. gr.


     Hér er fjallað um gjaldskyldu almennt. Er stuðst við þá uppsetningu og þá upptalningu sem er í núgildandi lögum um launaskatt. Gjaldskyldan er almenn og ekki um að ræða sérgreiningu gjaldskyldra aðila með þeim hætti er áður gilti í álagningu launatengdra gjalda, t.d. varðandi það atriði að sjálfstæðir atvinnurekendur greiddu ekki áður lífeyristryggingaiðgjald af eigin launum eða iðgjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs af þeim launum. Svipar gjaldskyldunni nær öllu leyti til núverandi gjaldskyldu í launaskatti.

Um 5. gr.


     Í þessari grein eru upp taldir þeir aðilar sem undanþegnir eru tryggingagjaldi. Er þetta í samræmi við þær reglur sem gilda almennt um skattskyldu viðkomandi aðila.

Um 6. gr.


     Með þessari grein er slegið föstu í fyrstu málsgrein að allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, séu gjaldskyldar og myndi stofn til tryggingagjalds.
    Í annarri málsgrein er sérstaklega tekið fram að fjárhæð reiknaðs endurgjalds, sem maður telur sér til tekna, eða ber að telja sér til tekna, samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, skuli vera sá stofn sem tryggingagjald miðast við. Er hér um frávik að ræða frá því sem gildir við tengsl milli staðgreiðslu opinberra gjalda við álagningu skatta á reiknað endurgjald. Frávik þetta er þó óverulegt.

Um 7. gr.


     Í þessari grein eru tilgreind nánar þau laun sem falla undir gjaldstofn skv. 6. gr.
    Samkvæmt því er fram kemur í 3. tölul. skulu ökutækjastyrkir teljast með í tryggingagjaldsstofni. Undantekning frá þessu eru ökutækjastyrkir sem greiddir eru samkvæmt sundurliðuðum gögnum. Þannig koma ekki inn í tryggingagjaldsstofn greiðslur launagreiðanda til launamanns fyrir afnot af bifreið launamanns þegar sannanlega er um að ræða endurgreiðslu á kostnaði við rekstur hennar sem til er kominn vegna aksturs tiltekinnar vegalengdar í þágu launagreiðanda, að svo miklu leyti sem slík greiðsla er undir þeim mörkum sem ríkisskattstjóri setur hverju sinni.
    Skilyrði þessarar undantekningar eru þau sömu og við á varðandi staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars að færð sé akstursdagbók eða akstursskýrsla þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi og kílómetragjald greitt launamanni. Ætlast er til að gögn þessi séu færð reglulega og þau eiga að vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess, hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá launamanni. Akstur launamanns á milli heimilis hans og venjulegs vinnustaðar fellur ekki undir skilgreiningu hér að framan.
    Ökutækjastyrkur telst hins vegar tryggingagjaldsskyldur ef launamaður sem ekur eigin bifreið í þágu launagreiðanda fær greiddan fyrir fram fastákveðinn ökutækjastyrk á hverju launatímabili.
    Dagpeningar koma ekki inn í tryggingagjaldsstofn ef greiðslur launagreiðanda á ferðakostnaði launamanns á vegum hans, þar með talin fargjöld, eru samkvæmt reikningi frá þriðja aðila.
    Enn fremur koma ekki inn í tryggingagjaldsstofn dagpeningar og hliðstæðar endurgreiðslur á ferða - og dvalarkostnaði vegna launagreiðanda, enda sé fjárhæðin innan þeirra marka sem leyfist til frádráttar samkvæmt reglum ríkisskattstjóra, sbr. 1. tölul. 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.
    Framangreindar reglur eiga að vera bundnar þeim skilyrðum að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga eða eftir atvikum reikningar frá þriðja aðila.
    Aðrar greiðslur launagreiðanda vegna ferðalaga launamanns en þeim er að framan greinir koma inn í tryggingagjaldsstofn.
    Önnur atriði greinarinnar þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


     Greinin fjallar um gjaldskyld hlunnindi og þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


     Samkvæmt þessari grein eru ýmsar tegundir greiðslna undanþegnar tryggingagjaldi og eru þær tæmandi taldar.
    Helsta undanþágan er tilgreind í 1. tölul. Er þar um að ræða eftirlaun og lífeyri sem greiddur er af Tryggingastofnun ríkisins og eftirlaun og lífeyri sem greiddur er úr þeim lífeyrissjóðum sem starfa eftir reglum sem fjármálaráðherra hefur samþykkt og háðir eru eftirliti fjármálaráðuneytisins. Eftirlaun og lífeyrir sem greiddur er beint frá launagreiðanda til launamanns án milligöngu lífeyrissjóðs, eða úr sjóðum sem ekki eru viðurkenndir, fellur því undir gjaldstofninn. Utan gjaldstofns falla öll þau eftirlaun og allur sá lífeyrir sem kemur frá hinum hefðbundnu lífeyrissjóðum. Í 2. 5. tölul. er síðan fjallað um ýmsar aðrar tegundir greiðslna sem eðlilegt þykir að undanþiggja gjaldskyldu.

Um 10. gr.


     Greinin kveður á um greiðslutímabil og gjalddaga tryggingagjalds. Hafi gjaldandi eigi greitt gjaldið á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Ekki er gert ráð fyrir sérstöku refsiálagi eins og greinir í ákvæðum laga um staðgreiðslu. Við hverja vangreidda fjárhæð bætast hins vegar dráttarvextir eftir þeim lögum sem við eiga.
    Í annarri málsgrein er kveðið á um að greiða skuli tryggingagjaldið til innheimtumanna ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra. Er þetta ákvæði með sama hætti og í núgildandi lögum um launaskatt.
    Í þriðju málsgrein er síðan kveðið nánar á um rétt ríkisskattstjóra til að ákveða skilagreinar og að um yfirferð, áætlun og tilkynningar skattstjóra á staðgreiðsluárinu skuli gilda lög um staðgreiðslu opinberra gjalda eftir því sem við getur átt.

Um 11. gr.


     Gert er ráð fyrir að um upplýsingar og eftirlit fari eftir ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Sama á við um þau viðurlög sem liggja að baki innheimtu vanskilafjár, þar með talinn lögtaksréttur og stöðvun atvinnurekstrar.


Um 12. gr.


     Að liðnu staðgreiðsluári er gert ráð fyrir að eigi sér stað endanleg álagning tryggingagjalds á þá gjaldstofna er undir það falla. Í greininni er kveðið á um þær aðferðir sem við skal hafa við slíka álagningu.

Um 13. gr.


    Í fyrstu málsgrein er fjallað um meðferð tryggingagjaldsskýrslna hjá skattyfirvöldum og samanburð skýrslnanna við önnur skattgögn. Þarfnast hún ekki frekari skýringa.
    Í annarri málsgrein er kveðið á um útreikning dráttarvaxta af vangreiddu tryggingagjaldi og inneignarvaxta af ofgreiddu. Er þessi háttur í samræmi við það sem almennt á við um skattgreiðslur.

Um 14. gr.


     Hér er kveðið á um að ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skuli eiga við um endurákvörðun tryggingagjalds, kærur og fleira.

Um 15. gr.


     Hér er greint frá rétti þeirra aðila er inna af hendi óverulegar launagreiðslur til að skila tryggingagjaldi einungis einu sinni á ári eða á því greiðslutímabili þegar samanlagður gjaldstofn nær ákveðnu lágmarki. Er hér um svipað fyrirkomulag að ræða og gildir í launaskatti í dag, svo og varðandi virðisaukaskattsskil smærri aðila.
    Gert er ráð fyrir að þær fjárhæðir, sem hér greinir, breytist einu sinni á ári í samræmi við verðbreytingarstuðul ríkisskattstjóra. Sá stuðull er reiknaður einu sinni á ári.

Um 16. gr.


     Greinin fjallar um dráttarvexti á tryggingagjald vegna launa og hlunninda sem undanþegin eru staðgreiðslu. Gert er ráð fyrir að þeir reiknist frá og með gjalddaga 1. ágúst ár hvert ef ekki er greitt fyrir eindaga.

Um 17. gr.


     Greinin kveður á um að tryggingagjald teljist rekstrarkostnaður samkvæmt almennum reglum laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 18. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.


     Með þessari grein er sérstaklega tekið fram að ákvæði frumvarpsins komi í stað þeirra ákvæða almannatryggingalaga, laga um Atvinnuleysistryggingasjóð og laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er fela í sér ákvörðun gjaldstofns og gjaldtöku af launagreiðendum sem miðast við launafjárhæðir eða launatímabil. Ekki er ætlunin að flytja sérstök frumvörp til breytinga á einstökum greinum þessara laga. Er þessi leið farin í stað þess að telja upp með tæmandi hætti í lagatexta hverja einstaka grein sem breytingum tekur. Gera verður ráð fyrir að við endurskoðun umræddra laga verði þau lög aðlöguð lögum um tryggingagjald. Til að mynda mun standa fyrir dyrum heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar og verður að ætla að einfaldara og hagkvæmara sé að koma við breytingum við þá endurskoðun en með setningu sérstakra laga nú.

Um 20. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Samkvæmt þessu ákvæði er gert ráð fyrir að samræming launatengdra gjalda verði gerð í áföngum. Á árunum 1991 og 1992 verður innheimt tryggingagjald í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Er þetta gert til að veita vissan aðlögunartíma að hinu nýja kerfi. Í sérstaka gjaldflokknum eru atvinnugreinarnar, fiskveiðar, fiskvinnsla, landbúnaður og hluti iðnaðarins. Hér eru sömu atvinnugreinar og nú eru undanþegnar launaskatti samkvæmt ákvæðum gildandi laga um launaskatt.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Samkvæmt þessu ákvæði verður gjaldhlutfall tryggingagjalds á árinu 1991 í almenna gjaldflokknum 6% en í sérstaka gjaldflokknum 2,5%.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Samkvæmt þessu ákvæði verður gjaldhlutfall tryggingagjaldsins á árinu 1992 í almenna gjaldflokknum 4,75% en í sérstaka gjaldflokknum 3,25%.
    

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Þetta bráðabirgðaákvæði þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða V.


    Sú aðferð hefur á undanförnum árum verið viðhöfð af þeim aðilum er fást við reikningsskil og skattskil að færa upp eða reikna opinber gjöld er tilheyra rekstrarárinu til gjalda með gjöldum þess árs og jafnframt til skuldar. Er þetta í samræmi við almennar reglur samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. að draga gjöldin frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn gjaldanna myndast. Launatengd gjöld hafa þannig verið áætluð til gjalda og skuldar en á næsta framtali á eftir hafa þau verið leiðrétt, ef þurfa þykir, eftir því sem raunveruleg álagning segir til um.
    Önnur aðferð, sem ekki virðist hafa verið notuð í jafnríkum mæli og hin aðferðin, er að færa opinberu gjöldin til gjalda á því ári sem þau eru álögð. Munu einkum smærri rekstraraðilar hafa þann háttinn á.
    Álagning tryggingagjalda, þ.e. lífeyristryggingagjalda skv. 25. gr. almannatryggingalaga, slysatryggingagjalds skv. 20. gr. þeirra laga, vinnueftirlitsgjalds og atvinnuleysistryggingagjalds, verður engin á laun ársins 1990. Það ár verður í þessum skilningi „skattlaust ár“ á sama hátt og tekjuárið 1987 var á sínum tíma varðandi útsvar og tekjuskatt einstaklinga við upptöku staðgreiðslu á tekjuskatti og útsvari.
    Á það hefur verið bent af hagsmunasamtökum atvinnuveganna að ríkissjóður muni hagnast á þessari breytingu sem með þessu frumvarpi er lagt til að gerð verði vegna samræmingar á launatengdum gjöldum. Tekjuskattur rekstraraðila muni hækka þar sem launagreiðendur geti ekki gjaldfært áætluð tryggingagjöld, svo sem þeir hafa almennt getað gert,
sbr. fyrri aðferðina sem nefnd er hér að framan, einfaldlega af því að þessi
gjöld verða ekki lögð á 1991. Ákvæði þessu er ætlað að draga úr hinum ætlaða hagnaði ríkissjóðs.
    Til þess að koma til móts við þá rekstraraðila er viðhaft hafa fyrri aðferðina, þ.e. að færa áætluð tryggingagjöld til gjalda, hefur verið ákveðið að heimila sérstakan tryggingagjaldafrádrátt frá rekstrartekjum ársins 1990 er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs. Jafnframt hefur verið ákveðið að frádráttur þessi skuli ekki reiknast af gjaldfærðu reiknuðu endurgjaldi. Hvorki má mynda rekstrartap vegna þessa sérstaka frádráttar né nota hann til að fresta yfirfærslu rekstrartaps frá fyrri árum. Hér er um að ræða skattalega leiðréttingarfærslu og myndar þessi gjaldaliður því ekki stofn til aðstöðugjalds.
    Þeir rekstraraðilar sem viðhaft hafa síðari aðferðina og fært tryggingagjöld og önnur opinber gjöld eftir á, þ.e. það ár sem gjöldin eru álögð og eiga að vera greidd, hafa ekki heimild til að nota þennan sérstaka 2,5% tryggingagjaldafrádrátt. Þó þykir rétt að heimila þessum aðilum mismun á sérstaka tryggingagjaldafrádrættinum og raunverulegu álögðu tryggingagjöldunum í þeim tilfellum sem álögðu tryggingagjöldin 1990 hafa ekki náð 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum ársins 1990. Er hér veitt heimild til að gjaldfæra mismuninn.



     Töflur 5, 6 og 7. Repró, 3 bls.